27.03.1969
Efri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2426)

114. mál, Atvinnumálastofnun

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. fjhn., 3. þm. Vestf., taldi í sinni ræðu, að ég hefði varið miklum hluta framsöguræðu minnar s. l. þriðjudag til þess að glíma við drauga og vandamál, sem aðeins heyrðu fortíðinni til, þegar ég ræddi um innflutningshöftin og framkvæmd þeirra. Þetta voru að vísu ekki nákvæmlega hans orð, en ég hygg, að hugsunin sé ekki mistúlkuð. Ég mundi nú mjög fagna því, ef það væri rétt, að hv. framsóknarmenn væru orðnir svo fráhverfir haftafyrirkomulaginu, að tilefnislaust sé að ræða það í sambandi við frv., sem hér liggur fyrir. En bæði sjálft frv., grg. fyrir því og margt, sem komið hefur fram í ræðum þeim, sem hér hafa verið fluttar, mælir því miður að mínu áliti gegn því, að svo sé. Í frv. er þó beinlínis gert ráð fyrir því, að heimiluð séu bein innflutningsbönn, að vísu tímabundið, en það eru innflutningshöft, og breytir það engu, þó að kallað sé hinu fína nafni stjórn gjaldeyrismála. Vakir e. t. v. fyrir hv. flm. að tryggja með því eitthvað betri framkvæmd haftanna en var hér áður fyrr, en í framkvæmdinni hygg ég, að þetta fyrirkomulag hlyti óhjákvæmilega að hníga í sama farveg og þá var, og skal í örfáum orðum færa rök fyrir þeirri skoðun minni.

Ég viðurkenndi í framsöguræðu minni, að inn á við hefði þetta fyrirkomulag innflutningshaftanna, sem lagt er til í frv., vissa kosti miðað við gamla leyfaúthlutunarfyrirkomulagið. En gagnvart viðskiptalöndum okkar hygg ég, að þetta yrði þó enn óvinsælla í framkvæmd, þar sem því yrði þó frekar unað, að innflutningurinn yrði takmarkaður, en ef hann yrði bannaður með öllu. Til lengdar gæti ekki heldur orðið neinn gjaldeyrissparnaður af slíku fyrirkomulagi, heldur aðeins meiri sveiflur í innflutningnum frá einum tíma til annars, þannig að á þeim tímum, sem innflutningur hinna bönnuðu vara væri leyfður, mundu verzlanir birgja sig upp fyrir banntímann, og væri þá auðvitað gengið út frá því, að við það verði staðið, að innflutningshömlurnar séu aðeins tímabundnar. Það má og telja víst, að ef þetta yrði gert, mundu bæði innflytjendur og notendur þess varnings, sem banna ætti, koma knékrjúpandi til stjórnvalda og segja sem svo: Við skiljum vel, að innflutning þurfi að takmarka sökum gjaldeyrisskorts, en að leggja á algjört innflutningsbann, það er ekki hægt. — En yrði komið á móts við þær óskir, væri auðvitað gamla haftakerfið komið á að nýju.

Raunar átti hv. 3. þm. Norðurl. v. líka erfitt með að vera sjálfum sér fyllilega samkvæmur, þegar hann nefndi það sem rök fyrir slíkum innflutningsbönnum, að með þeim væri hægt að veita innlendum iðnaði vernd. Það held ég að sé rétt eftir haft. Ef raunverulega aðeins er um tímabundnar ráðstafanir að ræða, þá rís ekki upp iðnaður í skjóli þeirra, þannig að mér finnst það ljóst, að hann hefur einmitt varanleg innflutningsbönn í huga eða annað en það, sem frv., eins og þær gr. þess, sem um þetta fjalla, eru orðaðar, gerir ráð fyrir. Nei, ég held, að þetta fyrirkomulag, fyrir utan það, að það kæmi varla að neinu gagni, yrði varla framkvæmanlegt, þannig að ef út á þessa braut yrði farið, þá hlyti það að lenda í hinu gamla fyrirkomulagi. Og ég efast satt að segja um, að hv. flm. hefðu sett þessar till. um stjórn gjaldeyrismála á pappír, ef þeir hefðu hugsað út í það, hve örðugt hlýtur að verða að framkvæma þær, og að því leyti sem það yrði hægt, leysir þetta engan vanda. Nei, í þessum efnum er spurningin um frelsi eða höft. Það, sem þar er á milli, er óraunhæft.

Ég skal þá aftur aðeins víkja að réttarreglunum og orðaskiptum okkar nafnanna s. l. þriðjudag um þau atriði. E. t. v. er nú hér um of akademískar spurningar að ræða til þess, að það sé hinn rétti vettvangur að ræða þær hér, en þó er um atriði að ræða, sem snertir mjög grundvöll þess, sem um er deilt. Nú mæli ég mig engan veginn við nafna minn hvað snertir lögfræðilega þekkingu. En svo mikið veit ég þó, að mér er það auðvitað fyllilega ljóst, að störf dómara eru engan veginn það einföld að þeir geti flett upp í lagasafni eða lögfræðiriti, þegar þeir standa gagnvart því að dæma mál. Af slíku geta þeir haft vissa hliðsjón, en auðvitað hlýtur niðurstaðan alltaf að verulegu leyti að vera háð mati, og það er einmitt sambærilegt við framkvæmd hafta og leyfisveitinga, að í báðum tilvikum er um matsatriði að ræða, annars væri þetta ekki sambærilegt. En meginmunurinn er sá, að þar sem réttarreglurnar eru, þá er fylgi við þær flestum heilbrigðum hugsandi mönnum sameiginlegt, allir eru í meginatriðum sammála um gildi þeirra og réttmæti. En þessu sameiginlega mati er ekki til að dreifa, þegar tekin er ákvörðun um það, á hverju skuli leyfa innflutning og hverjum. Það er það, sem þarna gerir höfuðmuninn. Bannmaðurinn hefur t. d. allt annað mat á því, hvort leyfa skuli innflutning áfengra drykkja, heldur en sá, sem vill njóta þeirra veiga. Hinn ómúsíkalski hefur allt annað mat á gildi hljóðfæra heldur en sá, sem söngelskur er. Þar er um grundvallarskoðanamun að ræða. Og þannig má nefna óteljandi dæmi, og þess vegna er það á fullkomnum misskilningi byggt, og mig grunar, að það liggi í rauninni til grundvallar þeim hugsunarhætti, sem sumt í þessu frv. og það, sem ég er mest andvígur, byggist á. Þessi atriði virðast flm. ekki fullkomlega ljós, og það byggi ég m. a. á því, þegar þeir halda því fram, að þær ádeilur, sem ég og aðrir hafa borið fram á framkvæmd haftakerfisins, séu í rauninni persónulegar árásir á þá menn, sem hafa haft þessa framkvæmd með höndum. Ef þetta væri hliðstætt við störf dómaranna, þannig að þeir hefðu brotið algildar reglur, sem að sjálfsögðu bæri að fara eftir, þá væri þetta rétt. Nei, aðalatriðið er, að þessar algildu reglur eru ekki til og þessir menn hafa ekki haft annað að fara eftir en sitt einstaklingsmat og svo auðvitað tillit til þeirra aðila, sem þeir hafa verið fulltrúar fyrir og togað í þá. En þetta einstaklingsmat hlýtur alltaf að koma meira eða minna í bága við mat annarra í þessum efnum, og það er það, sem skapað hefur óánægjuna og gerir þetta kerfi svo gallað sem raun er á.

Í þessu sambandi, án þess að fara nánar út í það, vil ég stinga því að hv. 3. þm. Norðurl. v., sem er fræðimaður í þessari grein, og öðrum þeim lögmönnum, sem hér eru staddir, hvort þeir hafi nokkurn tíma hugsað út í það, hvort það sé hrein tilviljun, hversu frábrugðið réttarfarið í Austur-Evrópulöndunum er því, sem hér gerist. Þar er dómsvaldið ekki annað en angi af framkvæmdavaldinu. Þar starfa hinir svonefndu alþýðudómstólar, þar sem ekki er gerð krafa til þess, að menn séu löglærðir eða þá kannske aðeins einn af þeim dómurum, sem þar starfa, en þeim mun meiri krafa gerð til þess, að dómararnir séu trúir stjórnvöldunum og fylgi sömu stefnu og þau. Er það hrein tilviljun, að þetta fyrirkomulag er tekið upp einmitt í þeim löndum, þar sem stjórn efnahagsmála er jafnvíðtæk og þar? Þá er hinum venjulegu dómstólum, sem fylgja almennum réttarreglum, ekki lengur treyst, því að aðalatriðið er, að framkvæmd sé sú stefna, sem ríkisstj. fylgir hverju sinni. Er þetta alger tilviljun? Það finnst mér spurning sem vert sé að velta fyrir sér, ekki sízt fyrir þá, sem meiri þekkingu hafa á rétti og tilgangi hans heldur en ég.

Annars skal ég ekki dvelja við fortíðina í þessum efnum, og það er alveg rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að auðvitað var framkvæmd haftakerfisins á því 30 ára tímabili, sem það var við lýði í einhverri mynd, meira eða minna ströng. Allir flokkar tóku þátt í framkvæmd þessa kerfis og bera því jafna ábyrgð, þannig að það að klína ábyrgðinni sérstaklega á Framsfl. og halda því fram, að hann hafi þar misnotað aðstöðu sína meira en aðrir, er ekki undan mínum rifjum runnið, hvað sem aðrir kunna að hafa sagt í því efni. Og hvað sem því líður, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að stjórnarflokkar hefðu lengst af haft meiri hluta í þessum n., um það veit ég ekki, en hitt tel ég alveg víst, að það hafi verið alger undantekning, ef það hefur nokkurn tíma verið svo, að framsóknarmenn hafi haft þar hreinan meiri hluta. Nei, en það, sem gerir muninn í þessum efnum, er, að núv. stjórnarflokkar, þó að þeir hafi tekið þátt í því að fylgja óheppilegri stefnu, — og verður þó auðvitað alltaf að dæma stefnuna með tilliti til þeirra aðstæðna, sem eru á hverjum tíma, — hafa lært af reynslunni og fylgt kröfum tímans. Þeir hafa tekið upp sömu stefnu, sem í rauninni er enginn ágreiningur um í nágrannalöndum okkar og öðrum þeim löndum, sem búa við svipaða þjóðfélagshætti og við. Þetta skýrir það, sem m. a. kom fram í sjónvarpsviðtali við forsætisráðherra Norðurlandanna, sem ýmsir hv. þdm. hafa e. t. v. hlustað á nýlega, að skýrt kom fram sú skoðun þeirra, að í rauninni mundi það litlu breyta um grundvallarstefnuna í efnahagsmálum, hvaða flokkar, hvort sem þeir kölluðu sig hægri eða vinstri eða eitthvað þar á milli, færu með völd hverju sinni. En Framsfl. hefur í þessu efni dagað uppi. Hann kemur ekki auga á nein úrræði önnur en þau, sem beitt var á kreppu- og vandræðaárunum milli 1930 og 1940 og á árunum fyrst eftir heimsstyrjöldina síðari. Það er þetta, sem að mínu áliti gerir gæfumuninn.

Hv. 11. þm. Reykv. taldi, að í þessu frv. fælist svo mikil stefnubreyting, að óeðlilegt væri að vísa því til ríkisstj., menn yrðu að taka afstöðu annaðhvort með því eða móti. Ef hann og aðrir hv. flm. líta svo á, að endurreisn innflutningshaftanna, hvort sem það er nú í þeirri mynd, sem þarna er lagt til, eða annarri, sé aðalatriðið og kjarni þessa frv., þá mundi afstaða mín hafa orðið sú, ef slíkt hefði komið skýrt fram, að ég hefði ekki lagt til, að því yrði vísað til ríkisstj., heldur yrði það beinlínis fellt. En ég leit hins vegar þannig á, að þetta frv. bæri að meta með tilliti til þess, sem í því væri nýtilegast, en ekki þess lakasta, og á því byggðist mín afstaða.

Þá kem ég að öðru aðalatriði frv., nefnilega því, sem lagt er til um fjárfestingarmálin og nýja skipan þeirra að nokkru leyti. Ég verð að segja, að það kom mér dálítið spánskt fyrir sjónir, þegar bæði hv. 3. þm. Vestf. og einhver annar minntust á það, að hæstv. ráðh. hefðu veitt leyfi fyrir síldarverksmiðjum á Austfjörðum, sem vafi væri á að mundu gefa af sér mikinn arð. Nú skal ég síður en svo ganga í ábyrgð fyrir það, hvort sú fjárfesting, sem þarna er um að ræða, muni verða arðvænleg eða ekki. Það getur auðvitað brugðizt til beggja vona. Nei, en það, sem kom mér spánskt fyrir sjónir, var það, að bent var á þetta sem dæmi þess, hvað frelsið hefði reynzt illa, og jafnframt tók þá a. m. k. einn þeirra ræðumanna, sem nefndu þetta dæmi, fram, að samkvæmt gildandi l. um síldarverksmiðjur ríkisins þyrfti leyfi ríkisstj. til þess, að þær yrðu reistar, m. ö. o. ríkisstj. gegnir þarna sama hlutverki og fjárhagsráð áður, hún veitir fjárfestingarleyfi fyrir þeim mannvirkjum, sem þarna er um að ræða. Það kemur mér þannig spánskt fyrir sjónir, að þetta séu höft og fullkomin höft, en ekki frelsi. Nú situr það sízt á mér að andmæla því, þá sjaldan að hv. stjórnarandstæðingar fara að hæla hæstv. ráðh. En varla get ég tekið undir það, að hæstv. ráðh. séu þau ofurmenni, að framkvæmd hinna fullkomnustu hafta í höndum þeirra verði algert frelsi. Þar með er ég ekki að segja, að ég telji þetta lagaákvæði óeðlilegt. Bæði er það, að ríkisstj. og ríkisvaldið hefur mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við síldariðnaðinn, og í öðru lagi er þarna um mannvirki að ræða, sem eru svo kostnaðarsöm, að frelsi í þessum efnum gæti aldrei orðið nema á pappírnum, þannig að deila um frelsið í sambandi við þetta finnst mér yfirleitt út í hött.

Hvað sem öðru líður, stend ég eftir sem áður við það, sem ég hef sagt jákvætt um þessar till. í frv., en hins vegar er mér nú ljóst eftir þessar umr., að sú jákvæða afstaða byggist á töluvert öðrum hugsunarhætti en þeim, sem flm. virðast hafa. Það væri gagnger stefnubreyting, eins og ég áðan sagði, ef ætti að taka upp innflutningshöft að nýju, hvort sem það er nú kallað stjórn gjaldeyrismála eða einhverju öðru nafni. Hins vegar kemur mér það nú þannig fyrir sjónir, að þó að gengið yrði í einni eða annarri mynd til móts við þær till., sem hér eru gerðar um stjórn fjárfestingar, að þar mundi í rauninni ekki um róttæka stefnubreytingu að ræða. En hvað er stefnubreyting og hvað ekki, er ófrjótt að eyða miklum tíma í að deila um, og þá er hætta á, að orðhengilsháttur megi sín meira en málefnin, og sé hægt að fá víðtækt samstarf um hlutina og sé það að öðru leyti æskilegt, þá má auðvitað ekki hengja sig í það, hvað einn eða annar meinar um, að í þessu felist stefnubreyting eða ekki. Slíkt finnst mér algert aukaatriði.

Hv. flm. virðast halda því fram, og það kemur fram bæði í grg. og sumum þeirra ræðna, sem hér hafa verið fluttar, að stjórn fjárfestingarmála hafi verið í ágætu lagi fram að valdatíma núv. ríkisstj., en þá hafi verið innleitt frelsi í þessum efnum, sem öllu hafi komið í upplausn. Nú kemur þarna auðvitað til spurningin um það, hvað sé frelsi. Ef það er frelsi, að leyfisveitingar séu í höndum ríkisstj., þá má segja margt um þessa hluti, en á þeim grundvelli finnst mér óeðlilegt að ræða málið. En hvernig var það nú með fjárfestingarmálin á árabilinu frá 1950–60? Þá var um að ræða heildarstjórn á fjárfestingu í þeirri merkingu, að fjárfesting var allan tímann háð leyfum. En jafnhliða því, að fjárfesting hér á landi nam hærra hlutfalli þjóðartekna en í nokkru öðru landi Vestur-Evrópu, var hagvöxtur hér álíka og í þeim löndum sem höfðu hann minnstan. Auðvitað hefur verið hér fleira um að kenna en stjórninni á fjárfestingunni, en það ber þess þó vitni, að fullkomlega hefur hún varla getað náð tilgangi sínum. Á árabilinu frá 1960–1965 var hins vegar mikill hagvöxtur og rangt að halda því fram, að það hafi einvörðungu verið vegna utanaðkomandi áhrifa, svo sem mikils afla og hagstæðs verðlags. Því tel ég, að einmitt sú stefnubreyting, sem varð 1960, hafi átt þar verulegan þátt í, og færi fyrir því þau rök, að ef gamla uppbótakerfið frá 1958 hefði áfram verið í gildi, þá var þetta uppbótakerfi einmitt mjög óhagstætt síldveiðunum. Síldveiðarnar við Norður- og Austurland bjuggu við til mikilla muna óhagstæðara gengi en flest önnur útflutningsframleiðsla. Miðað við þær aðstæður hefði verið miklu minni áhugi á því að gera út á síld og nýta síldina, og það er nú einu sinni þannig með síldina, að hún hleypur ekki sjálf á land. Þetta ber að hafa í huga.

En hvað sem þessu líður, þá dettur mér ekki í hug, að hinn aukni hagvöxtur á árunum frá 1960–65 sé því að þakka, að fjárfestingarmálin hafi verið tekin öðrum og sterkari tökum en áður var. Raunin er sú að mínu áliti, að í þeim efnum hefur ekki orðið svo ákaflega mikil breyting á þessum tíma, enda minnist ég ekki annars en þess, að þegar fjárfestingareftirlitið endanlega var lagt niður 1961, eða hvenær það nú var, þá hafi það gengið ákaflega hljóðalítið í gegnum Alþ., — og hvers vegna? Ætli það hafi ekki verið vegna þess, að flestir hafi gert sér ljóst, að það breytti ekki svo miklu frá því, sem áður var, því að tilfellið er, hvort sem það er starfandi stofnun. sem heitir fjárhagsráð, fjárfestingareftirlit eða þess háttar, þá er allri fjárfestingu stjórnað á þann hátt, að í hana er ekki hægt að ráðast, fjárfestingu, sem einhverja þýðingu hefur, nema til komi fyrirgreiðsla einhverra opinberra aðila. Og ég býst við, að e. t. v. hafi ein af ástæðunum til þess, að starfsemi fjárhagsráðs bar ekki þann árangur, sem æskilegt hefði verið, m. a. verið sú, að samstarfið á milli fjárhagsráðs og fjárfestingarsjóða og annarra lánastofnana, sem áttu að sjá um fjárhagshlið þeirra mála, sem þarna var um að ræða, hafi ekki verið svo náið sem æskilegt hefði verið. En þetta gæti hv. 11, þm. Reykv., sem því miður er ekki viðstaddur nú, betur upplýst en ég. Þessu hygg ég, að sé ábótavant, þannig að það þurfi að vera nánara samstarf á milli hinna ýmsu opinberu aðila, sem fjárfestingarmálin varða, ríkisins, bæjar- og sveitarfélaga, fjárfestingarsjóða og annarra lánastofnana. Og ég hef litið svo á, að eitt af því, sem fyrir hv. flm. vakir, sé einmitt að koma þessum málum í betra horf en nú er og þess vegna séu þeirra till. athyglisverðar, án þess að ég skrifi undir þær í einstökum atriðum. Það er samstarf þessara aðila, sem ég legg mest upp úr. En vissulega tel ég það einnig af því góða, að haft sé samráð við hagsmunasamtökin, bæði atvinnurekenda og launþega, í einni eða annarri mynd, þó að ég hafi áður í sjálfu sér talið mig því andvígan, að stofnun, sem skipuð er á þann hátt, sem hér er lagt til, fái svo óskorað vald sem frv. gerir ráð fyrir.

Annars er hér ákaflega mikill vandi á höndum hvað alla áætlunargerð snertir, og af því að hv. 3. þm. Norðurl. v. spurði nú sérstaklega um skoðanir mínar á þeim atriðum, þá vil ég í fyrsta lagi segja það, að eftir því sem mér er bezt kunnugt, er gengi áætlana til langs tíma heldur lækkandi. Slík áætlunargerð var mjög í tízku fyrir u. þ. b. 10 árum, ekki eingöngu austan járntjaldsins, þar sem þjóðarbúskapurinn er í svo ríkum mæli byggður á áætlunum, heldur líka vestan járntjalds. En bæði vestan og austan járntjalds hefur þróunin gengið í þá átt að leggja miklu minna upp úr þessum áætlunum til langs tíma, en vanda þeim mun meira til skemmri tíma áætlana, og ástæðan er sú, að talið er, að það hljóti alltaf að verða meira og minna út í hött að gera áætlanir 20 ár fram í tímann eða svo vegna þeirrar miklu óvissu, sem alltaf hljóti að verða um framtíðina. Ég er í sjálfu sér ekki heldur hrifinn af þeirri hugmynd að koma upp nýrri stofnun í þessum efnum, alveg hliðstæðri Efnahagsstofnuninni. Ég held, að það sé lítið unnið við það að dreifa kröftunum á þann hátt. Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði að vísu, og það mun vera alveg rétt hjá honum, að Efnahagsstofnunin kvartaði undan því, að sig vantaði starfskrafta. Þetta mun stafa bæði af því, að í einstökum tilvikum er erfitt að fá menn, sem hæfir séu til þess að leysa viss sérverkefni, sem stofnuninni kunna að vera falin, og þess eru oft dæmi, eins og kunnugt er, að erlendir menn hafa þá verið fengnir til slíks. Í öðru lagi er hér sjálfsagt um að kenna ónógum fjárveitingum. En úr hvorugu þessara atriða mundi verða bætt með því að koma þarna á fót nýrri stofnun.

Nei, það sem er aðalþröskuldurinn í vegi fyrir áætlanagerð hér á landi og m. a. því, að framkvæmdaáætlanirnar, sem vísir hefur myndazt til og stundum hafa verið lagðar fyrir hið háa Alþ., hafa e. t. v. varla náð þeim tilgangi og verið í samræmi við þær vonir, sem við slíkt voru tengdar, er sú staðreynd, að það, sem torveldar mjög alla áætlunargerð hér á landi, er ekki eingöngu óvissan um afkomu atvinnuvega okkar, heldur hve erfitt er að safna hér upplýsingum, og það stendur aftur í sambandi við það, hvað smáatvinnurekstur er hér ríkjandi. Ef við tökum land eins og Bandaríkin, er mjög verulegur hluti þjóðarframleiðslunnar þar framleiddur í stórfyrirtækjum, sem hafa mjög nákvæmar tölulegar upplýsingar. Þetta vandamál er allt miklu minna í sniðum þar en hér. Hér hefur yfirleitt verið mjög erfitt að safna þeim upplýsingum, sem öll slík áætlanagerð byggist á, og það er aðalvandamálið.

Að vísu vildi ég aðeins víkja að því, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði um útlitið í gjaldeyrismálum. Hann virtist óttast, að á þessu ári og kannske áður en langt um líður flæddi svo upp á sker í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, að ríkisstj. yrði neydd til þess að grípa til innflutningshafta á ný. Ég get ekki stillt mig um að benda á það, að hér stingur mjög í stúf við leiðara, sem birtist í Tímanum nú á dögunum, þar sem nánast var komizt að þeirri niðurstöðu, að hér væri að skapast meira góðæri en nokkurn tíma hefði verið áður. Að vísu virðist nú, sem betur fer, nokkuð rofa til á sumum sviðum efnahagsmálanna. En þetta fannst mér nú of djúpt í árinni tekið. Það er í töluverðri mótsetningu við það, þegar hv. þm. virðist óttast það, að gjaldeyrisstaðan kunni að þróast þannig á næstunni, að til slíkra neyðarúrræða þyrfti að grípa. En þrátt fyrir allt held ég, að það sé ekki erfiðasta áhyggjuefnið, eins og aðstæður eru nú. Í þessu sambandi má á það benda, að gjaldeyrisstaða bankanna hefur síðan 1. nóv. og fram til 1. marz, eða á þessum 4 mánuðum, batnað um 800 millj. kr., reiknað á núverandi gengi, og það þrátt fyrir sjómannaverkfall og óvenjulitla framleiðslu í nóvember og desember, og ber þess að gæta, að svo að mér sé kunnugt er ekki um að ræða, að neinar nýjar lántökur séu reiknaðar í þessum 800 millj. Nei, það eru margir, sem e. t. v. eðlilega draga rangar ályktanir af verzlunarjöfnuðinum, sem hefur verið óhagstæður í janúar og febrúar, það er alveg rétt, sá halli nemur hundruðum millj. En upp úr þeim tölum er tiltölulega lítið leggjandi, í fyrsta lagi af því, að verzlunar- eða vöruskiptajöfnuðurinn er aðeins yfirlit yfir innflutning og útflutning, þar sem um er að ræða aðeins hluta af gjaldeyrisviðskiptunum. Í öðru lagi var þarna um að ræða stórar fjárhæðir vegna innflutnings til Búrfells og Straumsvíkur, nokkuð, sem fært er sem innflutningur, en þarna er um innflutning að ræða, sem algerlega er staðið undir gjaldeyrislega séð af erlendum aðilum. Í þriðja lagi má nefna í sambandi við þessar tölur um vöruskiptajöfnuðinn, að þeirri reglu er fylgt bæði hér á landi og annars staðar, að innflutningur er reiknaður á cif.-verði, en útflutningur á fob.-verði, en af því leiðir, að hallinn á vöruskiptajöfnuðinum verður þannig verulega ofmetinn. Að síðustu, þó að það sé ekki neitt atriði, get ég ekki varizt því, af því að hv. 3. þm. Norðurl. v. nefndi hér og fór lofsamlegum orðum um hagfræðingaálitið, sem samið var haustið 1946, þó að ég væri einn af höfundum þess álits, að þá tek ég ekki undir lof hans hvað það snertir. Ég álít, að þar hafi verið um eitthvert lélegasta álit um efnahagsmál þjóðarinnar að ræða, sem birzt hefur hér á prenti og undirritaður hefur verið af mönnum með þeim lærdómi, sem af okkur hefði í sjálfu sér mátt krefjast. En þess ber þó að gæta, að þó að þær till., sem við gerðum, væru engan veginn góðar og að mörgu leyti fráleitar, þá er skoðun mín sú, að við bárum ekki alla sök á því, þar eð við störfuðum á vegum hinnar svokölluðu 12 manna n., sem þá starfaði að því að mynda þjóðstjórn, sem að vísu tókst ekki. En það veganesti eða erindisbréf, sem við fengum frá 12 manna n., var það, og hún hafði öll orðið sammála um, að það skyldi sitja í fyrirrúmi fyrir öllu öðru að koma í gegn á sem skemmstum tíma hinum miklu fjárfestingarfyrirætlunum í sambandi við nýsköpunina. Og þó að þessar till. okkar væru vissulega ekki góðar og meingallaðar þá hef ég ekki enn þá komið auga á, hvernig hægt var að fylgja þessum fyrirmælum 12 manna n. nema með því að taka upp mjög víðtækt haftakerfi, eins og lagt var til af okkur, þannig að nokkur hluti sakarinnar, — þó að við hefðum getað gert betur en við gerðum, það er mér fyllilega ljóst, — hvílir á herðum hinnar ágætu 12 manna nefndar.