04.11.1968
Efri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

38. mál, aðstoð til vatnsveitna

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef flutt hér frv. á þskj. 38 um breyt. á l. um aðstoð til vatnsveitna.

Frv. efnislega. samhljóða þessu var flutt á þinginu í fyrra, þá af Jónasi Magnússyni, sem átti hér setu um skeið í minni fjarveru.

Frv. felur í sér tvær breytingar á efni þeirra laga, sem um þetta efni gilda nú. Önnur er varðandi það, að í gildandi lögum er gefið í skyn og heimilað, að ríkissjóður veiti allt að helmingsstyrk til vatnsveitna þeirra, sem samþykktar hafa verið af ráðuneytinu og undirbúnar hafa verið, eins og í lögunum segir. Þetta er hins vegar mjög laust við að vera raunhæft. Margir og líklega flestir, sem út í slíkar vatnsveitur leggja, gera sér vonir um, að þetta sé að einhverju — og flestir að öllu — uppfyllt af ríkisins hálfu, þannig að ríkið greiði helminginn af kostnaði við vatnsveitugerðir til þeirra héraða, sem þannig eru í sveit settar, að ráðuneytið hefur samþykkt, að nauðsyn beri til, að þangað verði lögð vatnsveita. En í rauninni er þetta ekki þannig, vegna þess að það fé, sem til þessa er veitt árlega á fjárlögum, er miklum mun minna en þarfirnar þannig mundu kalla á. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að aðstoð ríkisins sé ákveðin helmingur af kostnaði þeim, sem í lögunum segir, að ríkið megi greiða. Það er hins vegar í engu hróflað við þeim skilyrðum, sem í lögunum eru sett fyrir því, að styrkur ríkisins komi til greina. Ráðuneytið verður að fylgjast með öllum undirbúningi og samþykkja mannvirkjagerðina, áður en til þess getur komið, að viðkomandi sveitarfélag eða sveitarfélög geti sótt um ríkisstyrk.

Hin efnisbreytingin, sem frv. felur í sér, er sú, að í staðinn fyrir það, sem nú gildir, að ráðherra ákveði, hver fjárupphæðin eigi að vera, innan þess ramma, sem fjárlög marka, er gert ráð fyrir því, að Alþingi ákveði það við setningu fjárlaga, hvern styrk hver ein vatnsveita getur vænzt að fá úr ríkissjóði.

Sú tilhögun, sem hér hefur verið á höfð, að veita eina heildarupphæð og láta svo ráðherra um að skipta henni, er þess eðlis, að Alþingi hefur í hliðstæðum tilfellum yfirleitt talið sér skylt að gera ráðstafanir til að hafa hönd í bagga um skiptinguna. Þannig er þetta um hafnarframkvæmdir, þannig er þetta um skólamannvirki, svo að eitthvað sé nefnt. Það væri því líka eðlilegt, um leið og þessu væri komið á svipaðan rekspöl og aðstoð ríkisins til hafnarframkvæmda og skólamála, að það væri einnig ákveðið, á hvað löngum tíma ríkið ætlaði að inna þann hluta kostnaðarins af höndum, sem á ríkið fellur. Í gildandi lögum um greiðslu skólakostnaðar er þessi tími 3 ár, en þetta hefur verið mjög á reiki um það, hvað ríkið hefur verið lengi að greiða sinn hluta af kostnaði við hafnarmannvirki.

Það er ástæða til þess, að Alþingi hugsi sitt ráð og líti á það, hvort ekki sé ástæða til þess að breyta hér um frá gildandi lögum. Það er býsna erfitt að láta standa í lögum ákvæði, sem gefa aðilum vonir um, að þeir geti fengið helmings fyrirgreiðslu fjárhagslega úr ríkissjóði, en láta svo vanta upp á jafnóramikið og í framkvæmd er. Ég nefni t. d. vatnsveituna til Vestmannaeyja, sem nú er í byggingu. Hún kemur ábyggilega til með að kosta, miðað við núverandi verðlag, 150–160 millj. kr. Aðstoð sú, sem ríkið veitir á yfirstandandi ári, er 2.7 millj., og í áætlun Efnahagsstofnunarinnar um ríkisframlag á næsta ári, árinu 1969, eru einnig 2.7 millj. Það sjá auðvitað allir, hversu langt þetta dregur framkvæmdaaðila. Hér er þó um að ræða verk, sem ríkisstj., hvaða ráðuneyti sem það heyrir undir, hefur fylgzt með undirbúningi að, hefur veitt samþykki til og hefur talið styrkhæft og verðugt styrks í þessum mæli, sem hér um ræðir. Það er þess vegna alveg gefið mál, að hér er ekki hægt að fara neitt nálægt því að uppfylla þær vonir, sem lögin gefa, nema með því að hækka verulega framlög í þessu skyni.

Í fyrrahaust leyfði ég mér ásamt hv. 4. þm. Sunnl., Birni Fr. Björnssyni, að flytja till. um það, að fyrst ekki var betur séð fyrir þessum fjárhluta á fjárlögum, skyldi reynt að fara aðrar leiðir í því, veita ríkisstj. heimild til þess að láta nokkurn hluta af ákveðnum tekjum ríkisfyrirtækis í Vestmannaeyjum renna til greiðslu á þessum kostnaði. Ekki verður sagt, að það mál hafi fengið sérlega góðar undirtektir, og hlýddi ég sjálfur á það, að einn hv. þm. í Nd. taldi þetta vera mjög fráleita eða vitlausa till., eins og hann vildi orða það. Og í annan stað hef ég heyrt það haft eftir hæstv. fjmrh., að eitthvað svipað finnist honum um þetta mál. Nú skiptir það að vísu ekki öllu máli, hvernig menn meta vitleysu eða vit í hlutum. En ef þetta væri nú rétt að því er varðar hæstv. ráðh., vildi ég aðeins taka það fram, að það hallast kannske ekki svo mjög á um tillögugerðir okkar beggja hvors í annars augum. Ég sé ekki betur en tillögugerð um aðstoð við vatnsveitur í fjárlögum, svo að við förum ekki lengra en í það merka plagg, séu ekki ýkja-nálægt því að vera raunhæf. Þess vegna vildi ég gjarnan koma hv. semjendum fjárlagafrv. til aðstoðar með því að reyna að bjarga þeim fjarstæðum, sem mér fundust þar liggja fyrir, eftir öðrum leiðum, en menn meta það náttúrlega hver eftir því, sem þeim finnst ástæða til.

Ég hef ekki endurflutt þá till., enda stendur nú öðruvísi á. Þá voru fyrirliggjandi tekjur af ákveðinni ríkisstofnun í Vestmannaeyjum, sem hvergi voru á fjárlögum, enda var stofnunin nýsett á fót, og hefði verið hægt að komast með fyrirgreiðslu fram hjá öllum vandkvæðum fjárlaga í þeim efnum. En sem sagt, hæstv. ríkisstj. kaus heldur að sinna málinu ekki og láta þetta framleiðsluhérað vera bjargarlítið í þessu efni, en leyfir sér hins vegar að veita fé í hundruðum milljóna til fyrirtækja, flestra í einkaeign, undir því kjörorði eða eftir þeirri reglu, að framleiðslan verði þó að ganga. En einmitt hluti af þessu mannvirki sem ég er hér að tala um, er undirstaða undir því, að unnt sé að reka hraðfrystihúsin, sem mig minnir að hafi fengið 320 millj. kr. aðstoð, — þm. lásu það í blöðunum, rétt eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt í fyrra, — en vatnsveitan hefur mér vitanlega ekkert fengið umfram þær 2.7 millj., sem henni voru ætlaðar á fjárlögum. Það er sýnilegt, að stjórnarvöld landsins sýna þessu máli slíkt tómlæti, að þau geta vel hugsað sér, að það byggðarlag, sem hér um ræðir og lagt hefur ríkisbúinu til ærinn hluta af sínum tekjum með sinni stóru framleiðslu, láti á sjá, að það kikni undir sínum fjárhagsskuldbindingum, sem m. a. eru til komnar vegna þess, að í lögunum stóð, að ríkissjóður gæti aðstoðað við vatnsveitugerðir allt að helmingi.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að svo stöddu. Ég hef skýrt efnishliðar þess, og ég hef einnig drepið nokkuð á þær framkvæmdir, sem eru undirrót þess, að það er hér flutt, og kalla á nauðsyn þess, að það verði samþykkt, eða einhver veruleg fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera, frá ríkinu, komi hér til umfram það, sem gert er ráð fyrir hjá Efnahagsstofnuninni og stjórnarvöldum yfirleitt.