21.04.1969
Efri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

38. mál, aðstoð til vatnsveitna

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. frsm. minni hl.

Í þessu frv. segir, að Alþ. ákveði framlag samkv. l. þessum til einstakra vatnsveitna á fjárl. hverju sinni, og er þá við það átt, að þar séu auðvitað framlög til hinna einstöku vatnsveitna sundurliðuð. Ég vil taka það fram, að í þeirri upptalningu, sem í okkar nál. er gerð á þeim atriðum, sem sérstaklega þurfa athugunar við, þá er þetta atriði að sjálfsögðu ekki talið upp, vegna þess að við teljum, að hvenær sem til greina kemur að breyta þessum l., séu alþm. við því búnir að meta þetta alveg upp á sitt eindæmi án nokkurrar könnunar. Hitt skal ég kannast við, að persónulega legg ég ekki mikið upp úr því, hvort sá háttur er hafður á, að þetta sé ein tala, þar sem öll framlög til einstakra vatnsveitna eru lögð saman, og það er ein tala, sem birtist í fjárl., en fjvn. hefur aftur í sínum fórum listann yfir sundurliðanir, eða hvort þessi sundurliðun er beinlínis tekin upp í fjárlögin.

Ég skal viðurkenna það, að ég tel, að þær brtt., sem minni hl. flytur, séu til bóta og vissulega líti frv. betur út, ef þær eru teknar til greina. En þær nægja ekki að mínum dómi til að veita þessu frv. liðsinni, og sérstaklega held ég, að okkur greini á um það í meiri hl. og minni hl., kannske, hver reynslan er af þessum l., þegar hún er athuguð. Ég verð að játa það, að mér finnst nokkuð undarlegt, að í öllum tilfellum, þegar styrkur er veittur á annað borð, skuli allir fá 50%. Rn. virðist ekki hafa treyst sér til að fara þar út í mismunandi mat, og ég hygg, að það stafi af því, að í l. eru ekki neinar sérstakar reglur um, hvernig á að meta fjárhæð styrksins, og þess vegna treystir rn. sér ekki til þess að gera annað en hafa hann alltaf jafnháan í öllum tilfellum, þegar hann á annað borð er veittur. Þetta tel ég ekki eðlilega framkvæmd, og einmitt virðist mér, að þarna skorti á það, að einhverjar grundvallarreglur séu settar í l. um, hvernig eigi að meta styrkfjárhæðina. Aftur á móti að öðru leyti hefur rn. metið stöðu sveitarfélaganna ærið misjafnt að því er varðar útborgunartímann, sem getur verið allt frá 2 árum upp í 10 ár, sem sveitarfélög fá þennan vatnsveitustyrk greiddan. Það finnst mér aftur á móti ærið óeðlilegt og fyndist rétt, að það væri eins og flestar aðrar framkvæmdir, það væri einhver fastákveðinn tími, 4 ár, 5 ár eða 6 ár eða hvað fyndist hæfilegt, sem allir fengju sinn styrk greiddan á föstum og fyrir fram ákveðnum tíma, sem væri þá væntanlega lögfestur, a. m. k. væri þetta ekki algerlega frjálst mat. Þess vegna er eiginlega það, sem greinir á milli meiri hl. og minni hl., að við í meiri hl. teljum, að þarna séu ýmis atriði, sem þurfi að athuga mun betur og það sé ekki fyrr en niðurstaða liggi fyrir, sem hægt sé að taka afstöðu til þess, hvort eigi að breyta þessum l. og á hvern hátt eigi að breyta þeim. En minni hl. telur, að æskilegt sé að koma þeim breytingum á, sem hann leggur til, og treystir þá á það, að ráðh. meti þetta allt saman réttilega og sanngjarnlega. En ég held, að það sé ekki alls kostar æskilegt, ekki vegna þess, að ég álíti, að neinn ráðh., sem með þau mál fari, vilji út af fyrir sig neitt misbeita sínu valdi, heldur tel ég, að það sé miklu betra fyrir viðkomandi ráðh. og rn. að hafa einhverjar skýrar grundvallarreglur til að fara eftir, það sé æskilegra fyrir sjálf sveitarfélögin, sem eiga eftir að ráðast í vatnsveituframkvæmdir, að löggjafinn veiti þeim eitthvað nánari vitneskju um þessi mál, hvaða fyrirgreiðslu og styrks þau megi vænta, og þess vegna undirstrika ég nauðsyn þess, að ýmsir þættir þessa máls verði athugaðir mun betur, áður en ráðizt verður í breytingar.