25.11.1968
Efri deild: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2440)

70. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Það hefur fallið í minn hlut að fylgja þessu frv. úr hlaði með örfáum orðum, þar sem hv. 1. flm. er nú horfinn af þingi, a. m. k. um sinn, og getur því ekki mælt fyrir þessu sameiginlega frv. okkar.

Frv. fylgir ýtarleg grg., svo að óþarft er að hafa um málið mörg orð. Hitt er á allra vitorði, að innheimtuaðferðir Ríkisútvarpsins hafa verið heldur óvinsælar meðal almennings. Það hefur rekizt á réttarvitund manna, þegar heimt eru af sömu aðilum tvöföld og í sumum tilfellum raunar, ef fyrirmælum reglugerðar væri beitt, margföld gjöld, þótt slakað hafi nú verið á klónni af hálfu þeirrar ágætu stofnunar og stundum látið undan almenningsálitinu í því efni, en hótanir þær, sem verið hafa frammi hvað eftir annað um húsrannsóknir og segja má njósnir um fjölda útvarpstækja, hafa fallið mönnum mjög fyrir brjóst og öllum notendum líkað þær illa. Þetta hefur orðið til þess, að það hefur verið mjög uppi meðal almennings, að athuga bæri, hvort ekki væri skynsamlegra og hentara að hafa útvarpsgjaldið sem eins konar nefskatt, sem lagður væri jafnt á alla fullvaxna einstaklinga þjóðarinnar, sem ekki ættu að njóta sérstakrar undanþágu af sérstökum ástæðum. Öll þessi atriði eru nánar tekin fyrir í 1. gr. frv. og skýrð í athugasemdunum.

Ég hygg, að það sé óþarfi á þessu stigi að fara mörgum orðum um frv. Ég hef orðið þess vísari eftir að frv. var samið og grg. raunar líka, að þetta mál mun hafa verið til athugunar hjá opinberri n. fyrir fáum árum og að í skrifborði einhvers stjórnarráðs eða skjalaskáp mun liggja grg. þeirrar n., og tel ég því víst, að sú hv. n., sem fær málið til athugunar, muni leita sér fróðleiks og reyna að hafa gagn af því starfi, sem þá var unnið. En ég vil ekki leyna því, að samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, var niðurstaða þessarar umræddu nefndar heldur neikvæð gagnvart þeim till., sem hér eru fram bornar. En ég hygg það vart orka tvímælis, að hin aukna útvarpsnotkun, hinn aukni fjöldi notenda og sérstaklega hinn sívaxandi fjöldi tækja, sem eru oft á sama heimilinu, eftir að hin smáu transtistora- eða smáratæki komu til sögunnar, hafi gert núverandi innheimtuaðferð úrelta.

Ég mun ekki eyða um þetta fleiri orðum að sinni, en mælist til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og n. Þar sem hér er eingöngu um innheimtumál að ræða, — það er ekki hugsunin að auka tekjur útvarpsins eða svipta útvarpið tekjum eða breyta á neinn hátt stjórnháttum þess, — þá hygg ég, að skynsamlegast væri, að þetta frv. færi til hv. fjhn.