03.12.1968
Neðri deild: 22. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2447)

83. mál, greiðslufrestur á skuldum vegna heimila

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Við höfum um þessar mundir miklar áhyggjur af afkomu og framtíð margra hérlendra fyrirtækja, og ekki að ástæðulausu. Hæstv. ríkisstj. er önnum kafin við að leita uppi bjargráð, sem að gagni mega koma, þing verkalýðssamtakanna samþ. fjölþættar till. um aðgerðir í atvinnumálum, og einstakir þm. leggja fram frv. og till. um gjaldfrest hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi og um almenn skuldaskil. Hins vegar finnst mér fara öllu minna fyrir umhyggju fyrir því fyrirtæki, sem þó er algengast í þjóðfélaginu, fyrirtækinu heimili. Það er eins með heimilið og önnur fyrirtæki, að þar verða tekjur og gjöld að standast á. Hvert heimili hefur sín fjárlög, þar sem endarnir verða að ná saman, ef fyrirtækið á ekki að verða gjaldþrota. Svo er að sjá, að stjórnarherrarnir ímyndi sér einatt, að unnt sé að leggja endalausar byrðar á heimilin, menn geti engu að síður látið enda ná saman með því að spara. En slíkum sparnaði eru nú þrengri takmörk sett en nokkru sinni fyrr. Á flestum heimilum hvíla mjög verulegar fjárhagslegar skuldbindingar, sem fjölskyldan hefur engin tök á að takmarka, enda þótt erfiðir tímar séu. Menn geta sparað við sig mat og klæði og aðra daglega neyzlu, en menn geta ekki sparað að greiða fjárhagslegar skuldbindingar, sem þeir hafa tekið á sig og gengið er eftir á réttum gjalddögum. Þar munar að sjálfsögðu mest um húsnæðiskostnaðinn.

Hér á Íslandi tíðkast sá háttur, að fjölskyldur kaupa yfirleitt íbúðir sínar, og a. m. k. annar stjórnarflokkurinn hefur talið þá tilhögun æskilega og eftirbreytnisverða, með henni sé verið að gera sem flesta landsmenn að fjárhagslega sjálfstæðum einstaklingum, eins og það er orðað. Lánum er hins vegar þannig háttað, að ætlazt er til þess, að menn spari andvirði heillar íbúðar af kaupi sínu á svo sem tveimur áratugum. Eins og íbúðarverð er nú, er sem sé til þess ætlazt, að menn bindi í fasteign svo sem eina milljón á 20 árum eða tvær millj., ef vextir eru reiknaðir af upphæðinni, svo sem 100 þús. kr. á ári til jafnaðar. Til þess að geta risið undir slíku verkefni þurfa menn að hafa góðar tekjur, árvissar og öruggar. Ef menn hafa tekið á sig slíkar skuldbindingar, eiga þeir þess engan kost að takmarka afborganir og vexti með eins konar sparnaði, þó að erfiðir tímar séu. Þetta ættu þeir stjórnmálamenn að skilja öðrum betur, sem segjast vilja gera alla Íslendinga að fjárhagslega sjálfstæðum einstaklingum. Forsendan er sú, að menn hafi nægilega hátt kaup til þess að geta lagt til hliðar andvirði einnar íbúðar á svo sem 20 árum.

Aðferð launamanna við að eignast íbúð hefur verið sú að leggja á sig þrotlaust erfiði, vinna helzt tvöfaldan vinnutíma allan ársins hring, láta alla vinnufæra menn í fjölskyldunni hjálpast að, frá börnum til gamalmenna. Margir hafa í rauninni verið ánauðugir þrælar íbúða sinna allmörg ár ævinnar. Á undanförnum árum hafa menn átt þess kost að leggja á sig slíkt erfiði, og í trausti þess, að það ástand mundi haldast, hafa menn tekið á sig mjög þungar fjárhagslegar skuldbindingar. Menn hafa keypt íbúðir mestmegnis fyrir lánsfé, og menn hafa keypt innanstokksmuni og heimilistæki með afborgunarkjörum. Ekki þarf að lýsa því, hver vandi steðjar að slíkum fjölskyldum nú, þegar efnahagsástæður launamanna breytast jafnharkalega og raun er á orðin. Atvinna hefur dregizt mjög stórlega saman, aukavinna er orðin sáralítil, yfirborganir eru að miklu leyti úr sögunni, unglingum og öldruðu fólki er vísað af vinnumarkaði, húsmæður eiga æ erfiðara með að finna störf við sitt hæfi. Það er algengt, að launatekjur fjölskyldu hafi af þessum sökum minnkað um 1/4 eða 1/3, að ógleymdum þeim hundruðum manna, sem nú eru skráðir á atvinnuleysingjaskrá, bæði hér í höfuðborginni og víða úti um land. Það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn að segja slíkum fjölskyldum, að nú verði þær að spara, en hvað stoða slík ráð, þegar menn eru krafðir um vexti og afborganir af skuldum sínum?

Það hlýtur að vera á vitorði allra hv. alþm., að yfir hundruðum fjölskyldna vofi sú hætta, að þær missi íbúðir sínar, íbúðir, sem oft hefur verið komið upp með því einu að leggja á sig ofurmannlegt erfiði. Ég skal nefna eitt dæmi um horfurnar á þessu sviði: Framkvæmdirnar í Breiðholti hefur oft borið á góma hér á þingi að undanförnu, og sumir hafa talið, að íbúum þar væri veitt óvenjugóð fyrirgreiðsla, sem orðið hefði á kostnað annarra. Það er rétt, að lánskjör manna, sem keypt hafa íbúð í Breiðholti, eru miklu hagstæðari en almennt tíðkast, enda áttu framkvæmdirnar þar að vera sérstaklega í þágu láglaunafólks úr verkalýðssamtökunum, manna, sem ekki áttu þess kost af fjárhagsástæðum eða vegna stórrar fjölskyldu að eignast íbúðir á hinum almenna markaði. En þótt þarna sé um að ræða beztu kjör, sem nú tíðkast, eru skuldbindingarnar slíkar, að í maí næsta ár eiga íbúarnir í Breiðholti að greiða frá 100 þús. til 140 þús. kr. af föstum lánum, sem hvíla á íbúðunum, fyrir utan skyndilán, sem margir hafa tekið til að komast þarna inn. Þetta eru háar upphæðir, þegar þess er gætt, að árskaup verkamanns skv. 2. taxta Dagsbrúnar er um 120 þús. kr. á ári fyrir fullan dagvinnutíma. Það mun vera algengt, að tekjur þess fólks, sem býr í Breiðholti, hafi dregizt saman um svo sem fjórðung á þessu ári frá árinu í fyrra, og í þessum hópi eru einnig menn, sem nú eru skráðir á atvinnuleysingjaskrá. Af þessum ástæðum sækja miklar áhyggjur að þessu fólki, og kunnugur maður hefur sagt mér, að ef ekki verði að gert, muni tvær fjölskyldur af hverjum þremur missa íbúðir sínar.

Ég nefndi hér Breiðholt, vegna þess að þar eru kjörin bezt og skuldbindingarnar léttbærari en almennt gerist, svo að ég verði ekki sakaður um neinar ýkjur. Ástandið þarna sannar á ótvíræðan hátt, að hér er um að ræða mjög stórfellt og aðkallandi þjóðfélagsvandamál, sem stjórnarvöldin verða að gefa gaum. Stjórnarvöldin telja sig um þessar mundir vera að framkvæma fjármunatilfærslu frá almenningi til atvinnuveganna. En það getur ekki bjargað neinum atvinnuvegum, að hundruð manna missi íbúðir sínar og eignir. Slíkt ástand hjálpar aðeins þeirri tegund fjáraflamanna, sem ævinlega bíður færis að hagnýta sér neyð annarra. Því er það skylda Alþ. og ríkisstjórnar að gera ráðstafanir, sem duga, til þess að koma í veg fyrir, að á þessu sviði gerist alvarlegt þjóðfélagslegt áfall. Og í þessu sambandi tel ég, eins og ég sagði áðan, að alveg sérstakar skyldur hvíli á Sjálfstæðisfl., sem hefur beitt sér gegn félagslegri stefnu í húsnæðismálum, en lagt á það mikla áherzlu að knýja menn til að eignast íbúðir sinar. Það er siðferðileg skylda þess flokks að gera nú ráðstafanir, sem duga, til að koma í veg fyrir, að hundruð manna missi þessar íbúðir.

Frv. því, sem hér er til umr., er ætlað að auðvelda mönnum að halda íbúðum sínum á erfiðum tímum. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að greiðslufrestur vegna lána til heimila tvöfaldist, þ. e. a. s. að lánstíminn verði tvöfalt lengri en upphaflega var ákveðið og að afborganir fari fram hægar en gert var ráð fyrir upphaflega. Svo að enn sé tekið dæmi af Breiðholti, þar sem lánin eru hagkvæmust, eru þau núna til 33 ára. Ef þetta frv. yrði að l., mundi lánstíminn framlengjast í 66 ár. Og ástæða er til þess að leggja áherzlu á það, að þar er ekki um neinn óeðlilegan lánstíma að ræða. Annars staðar á Norðurlöndum, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, tíðkast það mjög, að lán til íbúðarhúsnæðis séu til allt að 80 ára, svo að slík lenging á íbúðarlánum væri ekki óeðlileg ráðstöfun heldur á venjulegum tímum, og nú er hún algerlega óhjákvæmileg, eins og ég hef áður rakið.

Í þessari gr. er einnig gert ráð fyrir því, að hliðstæður greiðslufrestur verði veittur vegna afborgana lána, sem tekin eru vegna kaupa á innanstokksmunum og heimilistækjum. Slík viðskipti hafa verið mjög algeng á síðustu árum. Kaupsýslumenn hafa boðið fram slíkar vörur með afborgunarkjörum, og margir hafa orðið til þess að gera slíka samninga í trausti þess, að þeir héldu tekjum sínum óskertum. Það yrði þó nokkur léttir fyrir marga, ef afborgunarkjör á þessum nauðsynjavörum framlengjast einnig um helming.

Í 2. gr. frv. eru sérstök ákvæði um þá launamenn, sem skráðir hafa verið atvinnulausir. Þar er gert ráð fyrir því, að ef menn eru skráðir atvinnulausir, falli fjárskuldbindingar þeirra ekki í gjalddaga og geri það ekki fyrr en 6 mánuðir eru liðnir, síðan menn hafa verið skráðir af atvinnuleysingjaskrá. Ég tel, að í nútímaþjóðfélagi verði að líta svo á, að rétturinn til atvinnu eigi að vera réttur allra þjóðfélagsþegna, og ef þjóðfélagi er þannig stjórnað, að menn eiga ekki kost á því að fá vinnu og afla sér tekna á þann hátt, eigi þjóðfélagið ekki að ganga að slíkum mönnum, svo að þeir missi íbúðir sínar og eignir ofan á annað.

Í 3. gr. er svo gert ráð fyrir því, að ráðh. sá, sem fer með félagsmál, geti sett nánari reglugerð um framkvæmd á l. þessum í samræmi við anda þeirra. Upp geta komið ýmisleg álitamál í sambandi við slíka löggjöf og nauðsynlegt að gefa ráðh. vald til þess að skera úr um slíkt álitamál með reglugerð.

Ég vil leggja áherzlu á það, að enda þótt þessu frv. sé ætlað að auðvelda mönnum að halda íbúðum sínum og innanstokksmunum á erfiðum tímum, óttast ég mjög, að samþykkt þess muni á engan hátt leysa að fullu þann vanda, sem nú blasir við. Ef svo heldur áfram sem nú horfir, að atvinna dregst enn saman, ef mörg hundruð manna verða skráð atvinnulaus mánuðum saman, ef stjórnarvöldunum takast þau áform að afnema verðtryggingu launa og skerða kaupmátt launa um 15–20%, eins og nú er talað um, óttast ég mjög, að slíkur greiðslufrestur eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. nægi engan veginn til þess að tryggja lágtekjufólki, að það haldi íbúðum sínum. Ef slíkt ástand skapast, tel ég, að óhjákvæmilegt muni verða að bæta við öðru kerfi um skuldaskil fyrir lágtekjufólk, og það væri t. d. hægt að hugsa sér, að verkalýðsfélögin kæmu upp sérstakri starfsemi til þess að fylgjast með aðstöðu félagsmanna sinna á þessu sviði og aðstoða þá við að leysa vandamál sín, svo að menn þurfi ekki að missa íbúðir sínar og innanstokksmuni.

Ég hef veitt því athygli, að margir fylgjast með örlögum þessa frv. Margir hafa orðið til þess að spyrja mig, hvort líkur væru á því, að þetta frv. yrði samþykkt. Ég vil vænta þess, að því verði tekið af fullri vinsemd af alþm., og vil minnast á það í því sambandi, að á alþýðusambandsþinginu, sem lauk í síðustu viku, var samþ. einróma till. um ráðstafanir, sem ganga einmitt í þá átt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég vil að lokum leggja til, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til hv. fjhn.