12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2455)

83. mál, greiðslufrestur á skuldum vegna heimila

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og hér hefur þegar fram komið, varð fjhn. ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. n. vill vísa málinu til ríkisstj. til frekari athugunar, en ég legg hins vegar til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.

Aðalefni frv. er um það, að veita skuli launamönnum, námsmönnum og öðrum, sem svipað stendur á fyrir, nokkurn gjaldfrest á fjárskuldbindingum, sem þeir hafa stofnað til fyrir 11. nóv. 1968 við verzlanir og aðra kaupsýsluaðila, svo og vegna kaupa á eigin íbúð. Það er auðvitað enginn vafi á því, að þeir eru býsna margir, sem hafa þegar komizt í mikinn vanda með að standa við þær fjárskuldbindingar, sem þeir hafa tekizt á hendur að undanförnu vegna atvinnuleysis, sem þeir hafa orðið fyrir, eða vegna verulega minnkaðra atvinnutekna. En eins og kunnugt er, var sá háttur orðinn býsna útbreiddur hér á landi, að ýmiss konar varningur var seldur með afborgunarskilmálum, auk þess sem margir höfðu ráðizt í það að kaupa sér íbúðir eða byggja sér íbúðarhús, og þannig höfðu þeir skuldbundið sig til þess að standa undir býsna miklum fjárgreiðslum.

Það hefur nokkuð verið rætt um það hér á Alþ., að nauðsynlegt væri að hlaupa undir bagga með rekstrarfyrirtækjum og veita þeim nokkurn gjaldfrest á umsömdum fjárskuldbindingum, og það hefur verið gert í ýmsum tilfellum, eða hið opinbera hefur hlaupið undir bagga og útvegað fjárframlög, til þess að hægt væri að standa við gerða samninga. Ég lít þannig á og við Alþb.-menn, að það sé ekki minni ástæða til þess, eins og málum er nú komið hjá okkur, að sinna þessum vandamálum, þótt í smærri stíl séu, hjá fjöldamörgum einstaklingum, sem þetta frv. fjallar um, og veita þeim með lögum nokkurn gjaldfrest á fjárskuldbindingum, þar sem svona stendur á. Þetta er auðvitað sérstaklega þýðingarmikið hvað viðkemur íbúðarhúsnæði og mundi þar skipta mestu máli, en þó teljum við, að þetta þyrfti að vera víðtækara en svo, að það næði aðeins til íbúðarhúsnæðis, og kæmi vel til mála að lengja, eins og lagt er til í frv., hinn umsamda greiðslufrest, þegar viðkomandi hefur orðið fyrir atvinnuleysi eða tekjur hans hafa minnkað mjög verulega frá því, sem áður var.

Ég tók eftir því, að frsm. meiri hl. viðurkenndi, að hér væri um mikið vandamál að ræða í ýmsum tilvikum og það þurfi því að huga að því, hvernig megi ráða fram úr þessum vanda, og hann telur eðlilegast að skjóta þeim vanda til hæstv. ríkisstj. og biðja hana um að skoða málið vinsamlega. En mér sýnist hitt miklu eðlilegra, að slá því föstu með lagasetningu á Alþ., hvað Alþingi hefur um þetta að segja og hvað rétt þykir að gera í þessum efnum.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, aðeins í leiðinni víkja að áliti 2. minni hl. fjhn., sem hér verður auðvitað gerð grein fyrir á eftir. Ég tel, að það væri um verulega bót að ræða, þótt aðeins sá hluti málsins fengist fram, sem þar kemur fram, en teldi þó miklu æskilegra að fá frv. samþ. í því formi, sem það var hér lagt fyrir, og því legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt.