12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2456)

83. mál, greiðslufrestur á skuldum vegna heimila

Frsm. 2. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er langt síðan þetta frv. var flutt. Það var nokkuð lengi hjá hv. fjhn., en hefur nú verið á dagskrá nokkra daga án þess að vera tekið til meðferðar. Í 1. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Greiðslufrestur framlengist um helming á fjárskuldbindingum, sem launamenn, námsmenn og aðrir, sem svipað stendur á fyrir, hafa stofnað til fyrir 11. nóv. 1968 hjá opinberri stofnun eða fyrirtækjum og einkaaðilum, sem hafa kaupsýslu, verzlunarrekstur, iðnrekstur eða hliðstæða starfsemi með höndum, enda sé til skuldbindingarinnar stofnað vegna kaupa á íbúð, sem skuldari býr sjálfur í, heimilistækjum eða húsbúnaði, sem hann notar.“

Þetta er efni 1. gr. Hvernig skyldi standa á því, að mál af þessu tagi og í þessu formi er flutt hér á hv. Alþ. árið 1968? Hvernig skyldi standa á því? Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að þetta frv. er ekki flutt að tilefnislausu, og ég efast um, að nokkur maður treysti sér til þess t alvöru að halda því fram, að svo sé. En þannig er málum komið undir „viðreisn“ eftir margra ára góðæri, en að vísu tveggja ára erfiðleikatímabil, og samfellt ráðleysi í stjórnarathöfnum, — það er svona komið eftir þetta tímabil, að menn sjá ástæðu til að leggja svona mál fyrir Alþingi, og það er einfaldlega af því, að það er ótrúlega mikill fjöldi fólks, sem er kominn í þrot með að standa við skuldbindingar sínar ýmiss konar og þá m. a. vegna heimila sinna, húsnæðis og húsbúnaðar og annarra lífsnauðsynja. Og margir eiga raunar fullt í fangi með að hafa til hnífs og skeiðar í bókstaflegri merkingu og því miður bæði þeir, sem búa við atvinnuleysi, og eins þeir, sem þurfa að framfleyta fjölskyldu, e. t. v. stórri fjölskyldu, af lægstu daglaunum einum saman. Þetta er ömurleg saga, en hún verður ekki rakin hér við umr. þessa máls, ekki af mér a. m. k. Það er ekki að vænta neinna varanlegra úrbóta á þessu ástandi, nema breytt verði um stefnu í efnahagsmálum, og til þess þarf augljóslega nýja forustu.

2. minni hl. fjhn. lítur svo á, að það sé ekki unnt af almennum og raunar augljósum ástæðum að ákveða svo víðtæka greiðslufresti sem frv. nú gerir ráð fyrir. Brtt. 2. minni hl. lúta að því að þrengja nokkuð þann ramma, sem í frv. felst, þrengja hann þannig, að ákvæði þess nái eingöngu til lána vegna íbúða og eingöngu til veðlána, enda séu greiðsluerfiðleikar af völdum atvinnuleysis. Brtt. okkar lúta að þessu. Mér er ljóst, að þetta getur í tilvikum verið ófullnægjandi. En við lítum svo á, að lengra sé raunar ekki unnt að ganga í þessu formi. En í þessu sambandi vil ég aðeins minna á frv., sem Kristján Thorlacius, — hann sat hér á þingi sem varaþm., — hann og fleiri þm. hafa flutt hér snemma á þingi um sérstakar aðgerðir vegna erfiðleika húsbyggjenda.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en 2. minni hl. fjhn. leggur sem sagt til, að þetta frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem fram eru settar á þskj. 522.