12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

83. mál, greiðslufrestur á skuldum vegna heimila

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hygg, að í meginatriðum sé rétt frá skýrt af hv. flm. þessa frv. um þau viðskipti, sem ég hef átt við fulltrúa þeirra íbúa í Breiðholtshverfi, sem fengu íbúðir úr hinum svokölluðu Breiðholtshúsum á vegum verkalýðssamtakanna. Þeir hafa komið a. m. k. tvisvar að máli við mig til þess að kanna, með hvaða hætti mætti lina þá útborgunarskyldu, sem þeir höfðu undirritað að gegna, en telja sig, eins og hv. frsm. sagði, eiga erfitt um vik að standa við þær skuldbindingar, sökum þess m. a., hve vinna hefur dregizt saman á hinum almenna vinnumarkaði, og eftirvinnumöguleikar, sem þeir höfðu reiknað með, væru ekki lengur fyrir hendi, a. m. k. ekki um sinn. Það er einnig rétt, að ég hef sagt við þetta fólk, að það mundu athugaðir allir möguleikar, sem færir þættu til þess að lina þessar útborganir. Málið er hins vegar margslungið. Í þessum íbúðum er fé, sem ekki er í eigu byggingarsjóðs ríkisins, heldur með ýmsum öðrum hætti fengið, og því nauðsynlegt að ná samkomulagi við þá aðila, til þess að um linun geti verið að ræða á afborgunum og vöxtum af þeim lánum, sem á íbúðum þessum hvíla. Þá er það einnig rétt, að ég hef skýrt frá því, sem ekkert launungarmál er, að ríkisstj. hefur um nokkurt skeið verið ljóst, að þarna er stórfelldur vandi á höndum, og það er vilji hennar, að eins langt verði gengið til móts við þetta fólk og kostur er og í framhaldi af þessum viðræðum, bæði eftir að hafa fengið afrit af bréfi til húsnæðismálastjórnar, sem úthlutunarnefndin sendi mér, ásamt þeim 2 eða 3 fundum, sem verið hafa með fulltrúum þessa fólks, þá hafa þeir fengið þá yfirlýsingu í hendur frá minni hendi, að málið mundi kannað til þess ýtrasta um að ganga til móts við þeirra óskir. En nú nýlega, — ég hygg fyrir 2–3 dögum, eða nú fyrir síðustu helgi, — barst mér bréf með endanlegum till. þeirra sjálfra, íbúanna í Breiðholtshverfi, um, hvað þeir teldu að þyrfti að gera, til þess að þeim yrði kleift að standa við sínar skuldbindingar, sem þeir undirstrikuðu mjög að væri alls ekki nein tilraun frá þeirra hendi til þess að losna við skuldbindingar, heldur um að ræða linun á því útborgunarkerfi, sem í skuldabréfum þeirra segir. Þessi athugun stendur enn yfir, — það er í rauninni það eina, sem ég get um málið sagt, — stendur nú yfir, og ég vil fullyrða það nú og hér, eins og ég hef gert við þetta fólk að málið er í mjög velviljaðri athugun, og verður áreiðanlega gert það, sem fært þykir að ganga til móts við þeirra óskir.

En málið er alls ekki svo einfalt, að það sé á valdi ríkisstj. að fyrirskipa lengri lánstíma og lægri vexti á öllu þessu fé. Eins og ég áðan sagði, er þar inni í fé, sem er frá öðrum aðilum, sem hafa lánað það með ákveðnum skilyrðum, sem færð voru inn í skuldabréf þessa fólks. Ég vil jafnframt fullyrða, að það er fullur vilji ríkisstj., að ekki þurfi að koma til brottflutnings á þessu fólki úr þeim íbúðum, sem það hefur komizt inn í, og þeir möguleikar, sem fyrir hendi eru, verða nýttir og kannaðir til hins ýtrasta að ganga til móts við þeirra óskir. Um endanlega niðurstöðu get ég ekki sagt, en ég veit það frá þeim aðilum, sem að útborgun lánanna standa, að það verður ekki gengið að þessu fólki, á meðan athugun þessi stendur yfir. Hverjar endanlegar niðurstöður af þessari athugun verða, væri bæði rangt og óviturlega gert að fullyrða nokkuð um á þessari stundu. En ég ítreka það, að málið er í velviljaðri athugun og það verður gengið svo langt til móts við þessar óskir sem fært þykir og stætt er á með hliðsjón af yfirráðum ríkisins á því fé, sem þarna er í útláni.