13.03.1969
Neðri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2472)

166. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég tel rétt, að ég svari strax í nokkrum orðum þeim fsp., sem hv. þm. beindi til mín. Ég hafði satt að segja vænzt þess, að skýringar mínar á 1. gr. þessa frv. nægðu til þess að eyða allri tortryggni varðandi það, að í þessu frv. fælist minnsta tilraun til þess að breyta þeirri stefnu, sem Alþingi hefur markað í þeim efnum, hvar stofna skuli og starfrækja menntaskóla. Ég vil taka það skýrt fram og leggja á það ríka áherzlu, að ég veit, að það vakti ekki fyrir neinum nm. í þeirri n., sem samdi menntaskólafrv., hvað þá fyrir n. í heild, að gera á þessu breytingu. Engum þeirra datt í hug, að orðalag 1. gr. gæti orðið skilið þannig, að ekki væri jafnskylt og áður að stofna og starfrækja menntaskóla á Ísafirði og Austurlandi og það er í dag. Öllum nm. var það að sjálfsögðu fullkomlega ljóst, að það er auðvitað á valdi Alþ. að ákveða eftir sem áður, að menntaskóla skuli stofna og starfrækja á Ísafirði og Austurlandi. Því fer því víðs fjarri, að fyrir nokkrum hafi vakað með því orðalagi, sem er á 1. gr., að slá striki yfir þá stefnu, sem mörkuð hefur verið af hinu háa Alþingi. En ég heyrði það á ræðu hv. þm., sem ég að sjálfsögðu tel mér skylt að taka fyllsta tillit til, að tortryggni hans í þessum efnum virðist ekki hafa verið fulleytt með orðum mínum áðan. Ég leyfi mér að vona, að það eigi að einhverju leyti rót sína að rekja til þess, að hann hafi samið ræðu sína, áður en hann heyrði ummæli mín, en engu að síður, hann viðhafði sín ummæli, og ég tel mér skylt að taka sérstakt tillit til þeirra.

Hann spurði: Ef engin breyting átti í gr. að felast, hvers vegna mátti þá gr. ekki vera óbreytt, eins og hún er í gildandi lögum, hvers vegna mátti þá ekki áfram nefna, hvar menntaskólar skuli starfa? Ég skal gefa skýringu á þessu. Hún er sú, að það hefur reynzt og er of þunglamalegt að þurfa lagabreytingu í hvert sinn sem nýr menntaskóli er stofnaður. Þetta ákvæði í menntaskólalögum, að taka menntaskólastaðinn fram í lagasetningunni sjálfri, er frá þeim tíma, að aðeins einn menntaskóli var í Reykjavík. M. ö. o.: það mun fyrst hafa komið inn í lög skömmu eftir aldamótin, þegar fyrst voru sett lög um hinn almenna menntaskóla í Reykjavík, sem leysti lærða skólann af hólmi. Þá voru menn ekki svo framsýnir, að mönnum dytti í hug, að það gæti komið fyrir nema á áratuga fresti, að stofnaður yrði menntaskóli. Nú er gersamlega breytt viðhorf í þessum efnum. Að baki þessari meira en hálfrar aldar gömlu lagasetningu liggur sami hugsunarhátturinn og t. d. háskólalög byggja á, að ekki skuli hægt að stofna prófessorsembætti nema með sérstakri lagasetningu. Fjárveiting dugir þar ekki, heldur þarf sérstök lagasetning að koma til, og hefur reynslan sýnt, að það er allt of þungt í vöfum, eftir að fjölgun prófessora er orðin jafnalgeng og nú á sér stað. Raunar má segja, að alveg sérstök ástæða liggi einmitt nú fyrir því, að talið hefur verið rétt, að sama regla gilti í þessu efni um menntaskóla, sem eru orðnir jafnmargir og raun ber vitni um, eins og um alla aðra skóla í landinu. Það er raunverulega ákvörðunarvald Alþingis, hvar skóli skuli stofnaður og starfræktur, en að forminu til í höndum menntmrh. og menntmrn. að framkvæma vilja Alþingis í þessu efni, að hagnýta það fé, sem Alþingi veitir til starfsins. En það er sérstök ástæða til þess einmitt núna að breyta um stefnu í þessu efni, vegna þess að húsnæðismál menntaskólanna í heild eru til sérstakrar athugunar nú og verða í vor og sumar. Og það er vel hugsanlegt, að úrræði í þeim málum verði þau, að stofnaður verði nýr menntaskóli í Reykjavík. Ein af þeim hugmyndum, sem undanfarnar vikur og mánuði hafa verið til umr. í sambandi við húsnæðismál menntaskólanna, sem eru mikið vandamál, og sú, sem ég persónulega hallast helzt að og teldi æskilegast, að hægt yrði að framkvæma, væri að stofna þriðja menntaskólann í Reykjavík. Ef óbreytt lög eru í gildi, þarf brbl. til þess að koma þriðja menntaskólanum í Reykjavík á fót. Að vísu má segja, að ráðh. séu ekki sérlega feimnir við það að gefa út brbl., en æskilegt er þó að geta komizt hjá því í jafneinföldu tilviki og hér er um að ræða. Og hvorki mér né nokkrum manni í menntaskólanefnd datt í hug, að það gæti verið hætta fólgin í því að hafa þetta vald sameiginlega hjá Alþ. og ráðh. til stofnunar skóla á menntaskólastiginu frekar en á öðrum skólastigum.

Ég hef lýst yfir skilningi mínum á 1. gr. frv., þannig, að ráðh. sé að sjálfsögðu skylt að stofna menntaskóla á þeim stað, sem fjárveitingavald hefur ákveðið, að menntaskóli skuli stofnaður og starfræktur. Ef engin aths. kemur fram við slíka yfirlýsingu ráðh., lít ég á það, — það munu allir löglærðir menn gera, — sem lögskýringu, sem bindandi sé fyrir framtíðina, og mörg slík dæmi hefur áður verið um að ræða. Ef því engin aths. kæmi fram frá öðrum flokkum um þennan skilning, mundi hann vera talinn gildandi. Með þessu móti er það misskilningur, að of mikið vald væri lagt á hendur ráðh. Enginn hefur fundið að því eða talið, að of mikið vald væri í höndum ráðh., að því er varðar alla aðra skóla á landinu en háskóla og menntaskóla. Það mætti alveg eins segja: Hvílíkt ógnarvald hefur ráðh., að geta ráðið því, hvort barnaskóli er stofnaður á Langanesi eða gagnfræðaskóli í Reykjavík! Ég hef aldrei litið þannig á og enginn minna fyrirrennara, að ráðh. hefði slíkt raunverulegt vald í sínum höndum, heldur yrði hér auðvitað að vera um að ræða eðlilega samvinnu fjárveitingavaldsins og framkvæmdavaldsins í ráðuneytum.

Ef svo reynist, — og það var satt að segja höfuðástæðan til þess, að ég taldi rétt að láta þessar aths. koma fram strax til þess að svara öðrum þm., sem líkt kynnu að hugsa og hv. þm., — ef svo reyndist, að mikilsvirtir þm. telja ástæðu til þess að tortryggja enn það orðalag, sem hér er um að ræða, gæti ég fyrir mitt leyti vel hugsað mér að taka algerlega fyrir þá tortryggni með því að breyta 1. gr. þannig, að menntaskólar skuli starfa á þeim stöðum, sem Alþ. hefur þegar tekið ákvörðun um, að þeir skuli starfa, en um stofnun nýrra menntaskóla skuli gilda sömu reglur og gilda um almenna skóla í landinu. Ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því, að gr. yrði breytt í það horf, og geri það til þess að reyna að fullvissa hv. þm. um það, að fyrir menntaskólanefnd og mér hefur ekki vakað nein breyting á fyrri ákvörðunum Alþingis í þessum efnum.

Að síðustu spurði hv. þm. um afstöðu mína til málaleitunar Ísfirðinga um stofnun menntaskóla á Ísafirði. Hv. þm. er án efa kunnugt um það, að í meira en 10 ár hefur verið starfræktur 1. bekkur menntaskóla við gagnfræðaskólann á Ísafirði, og þennan vísi að menntaskóla óska Vestfirðingar nú mjög eindregið að gera að fullgildum menntaskóla. Ég hef átt fund með þm. Vestf. um þetta mál og sagt þeim, að ég muni að sjálfsögðu framkvæma vilja Alþ. í því efni að stofna og starfrækja menntaskóla á Ísafirði, þegar nægilegt fé er til þess veitt. Í gildandi fjárl. er engin fjárveiting til skólastjóra við menntaskóla á Ísafirði, svo að eins og nú stendur væri mér ekki heimilt að skipa skólastjóra þar. Ég tel, að þetta mál eigi að koma til athugunar við samningu næstu fjárl., og verði þar tekin upp fjárveiting til skipunar skólastjóra á Ísafirði sem upphaf að stofnun menntaskóla þar, þá mun ég að sjálfsögðu framkvæma þann vilja Alþingis. En á það benti ég þm. Vestf. á þeim fundi, sem við höfum átt um málið, að nútímamenntaskólar eru öðruvísi en menntaskólar voru fyrir einum, hvað þá tveim áratugum. Nútímamenntaskólar eru miklu flóknari og dýrari stofnanir en var fyrir 10, hvað þá fyrir 20 árum, sérstaklega ef reka á þá í því formi, sem menntaskólarnir nú eru yfirleitt reknir. Gerðar eru kröfur til sérgreina á fjöldamörgum sviðum, og gerðar eru miklar kröfur til kennara á mörgum sviðum. Þetta tel ég, að nauðsynlegt sé fyrir áhugamenn um menntaskóla á Ísafirði að kynna sér og athuga mjög vandlega. Einmitt þess vegna varpaði ég fram þeirri hugmynd á fundi með þm. Vestf., hvort ekki væri athugandi, ef af menntaskóla á Ísafirði verður, að helga hann sérstöku verkefni, þ. e. hafa þar eina deild, t. d. deild í þjóðfélagsmálum. Þess vegna nefndi ég þá hugmynd í framsöguræðu minni án þess að tengja hana menntaskólahugmyndinni á Ísafirði. En í þessu frv. er tvímælalaus heimild til þess að starfrækja aðra tegund af menntaskólum en þá, sem frv. gerir ráð fyrir, að skuli vera hin almenna regla um menntaskólana. Slíkur menntaskóli, sem yrði ein deild á einhverju tilteknu sviði, er að sjálfsögðu miklu viðráðanlegri stofnun og gæti verið miklu minni stofnun en þeir menntaskólar, sem gert er ráð fyrir, að verði aðalmenntaskólar landsins og þessu frv. er einmitt ætlað að setja almennar starfsreglur fyrir.

Herra forseti. Með þessum ummælum mínum vona ég nú, að mér hafi tekizt að eyða allri tortryggni um það, að hér hafi nokkur fiskur legið undir steini, að hér hafi verið um að ræða nokkra tilraun til að strika yfir eða eyðileggja fyrri ákvarðanir Alþingis um þetta efni. Ég fyrir mitt leyti fyrir hönd ríkisstj. er reiðubúinn til samstarfs við þá n., sem frv. fær til meðferðar, að eyða öllum hugsanlegum misskilningi í þessa átt.