13.03.1969
Neðri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2473)

166. mál, menntaskólar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu, að það er ákveðin tortryggni hjá okkur Vestfirðingum, og sennilega má ég einnig segja hið sama í sambandi við Austfirðinga, varðandi þá breytingu, sem gerð er frá gildandi lögum í þessu frv. Þó að ég ætli á engan hátt að draga í efa góðan hug og vilja núv. hæstv. menntmrh., vil ég þó bæta einu við, sem er alltaf hugsanlegur möguleiki, sem hæstv. menntmrh. kom ekki inn á, og það er, að það hefur stundum verið breytt um menntmrh. í okkar landi eins og aðra ráðh. Og þó að ríkisstj., sem nú situr, hafi verið lífseig og á margan hátt dugleg, þá auðvitað verður hún ekki endalaust, og það er auðvitað oft og tíðum skipt um menn í embættum ráðh. eins og annarra, jafnvel þótt sömu flokkar fari með þau mál. Menn verða oft þreyttir, þegar þeir eru búnir að vera lengi í ákveðnum embættum, og ekkert síður ráðherraembættum en öðrum, og vilja þá gjarnan breyta til. Ég er ekki að segja þetta til lasts hæstv. núv. menntmrh., því að það dregur það enginn í efa, að hann er mikill áhugamaður um menntun og listir, en hins vegar er það ekki óeðlilegt, að það séu uppi misjafnar skoðanir í þessum málum, sem taka í raun og veru til allra landsmanna og allir landsmenn láta sig miklu varða. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh., sem ég skal hreinlega játa, að ég legg fyllsta trúnað á, það sem hann segir um sinn hug til þessa máls, þá get ég ekki fallizt á að greiða atkvæði með 1. gr. þessa frv., eins og hún liggur hér fyrir. Og ég get ekki séð, að þótt það verði byggður menntaskóli úti á landi, nýr menntaskóli, þá sé ofverk Alþingis að fjalla um það mál. Ég verð að segja það, að ég er miklu þreyttari sem þm. á því að hlusta og rétta hér upp höndina með frv., sem eru flutt 10 og 12 og 15 á hverju þingi um sölu eyðijarða, smálandsspildna, heldur en þó að væri flutt frv. um stofnun menntaskóla úti um land. Það mun ekki koma fyrir á hverju ári, sem ekki er von.

Hæstv. ráðh. vísaði til skólakostnaðarl. og las upp 2. gr. þeirra, sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

Menntmrn. ákveður skiptingu alls landsins í fræðsluhéruð og skólahverfi og hvar stofna skuli heimangönguskóla og hvar heimavistarskóla, að fengnum till. fræðslumálastjóra, hlutaðeigandi skólanefnda (fræðsluráða) og sveitarstjórna og iðnfræðsluráðs að því er iðnskóla varðar.“

Og hann sagði, að eina breytingin væri sú, að í stað menntmrn. væri það menntmrh. Sú breyting skiptir engu máli fyrir mig. En þegar hæstv. ráðh. vitnaði í skólakostnaðarl., þá vil ég minna á 1. gr. l., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Lög þessi taka til eftirtalinna skóla: barnaskóla, unglingaskóla, miðskóla, gagnfræðaskóla, iðnfræðsluskóla og húsmæðraskóla, sem kostaðir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Menntmrn. fer með yfirstjórn þeirra mála, sem lög þessi fjalla um.“

Skólakostnaðarlögin ná ekki til ríkisskólanna, til algerra ríkisskóla, hvorki menntaskóla, háskóla, tækniskóla né ýmissa annarra sérskóla, sem eingöngu eru reknir af ríkinu.

Mér finnst fyllsta ástæða til þess að breyta alls ekki því, sem komið er inn í lög um menntaskóla með þeirri breytingu, sem gerð var á l. 6. maí 1965. Menntaskólar skulu vera 6, 2 í Reykjavík, 1 á Akureyri, 1 á Laugarvatni, 1 á Ísafirði og 1 á Austurlandi, og heimilt er að stofna fleiri menntaskóla í Reykjavík eða nágrenni. Það finnst mér eðlilegt, þar sem menntaskólarnir eru fleiri en einn, ef ekki þykir skynsamlegt að stækka endalaust sama skólann, að þá sé heimild til þess að byggja skóla til viðbótar. En hitt má gjarnan vera eftir sem áður í höndum Alþingis, hvort og hvar eigi að stofna menntaskóla annars staðar á landinu.

Mér finnst rétt að minnast aðeins á það, að barátta Vestfirðinga og í raun og veru Austfirðinga líka fyrir stofnun menntaskóla í sínum landsfjórðungum stóð frá árinu 1946, að fyrst var flutt frv. um breytingar á l. um menntaskóla af Hannibal Valdimarssyni og Páli Zóphóníassyni. Frv. um menntaskóla á Vestfjörðum hefur verið flutt á Alþingi 8 sinnum og síðast árið 1964. Það hefur verið flutt á árunum 1946, 1947, 1948, 1959, 1960, 1962, 1963 og 1964, og þá var lagt fram stjfrv. um breyt. á l. um menntaskóla, sem ég las áðan upp úr, sem ákvarðaði það, að menntaskóli skyldi vera á Ísafirði og einn á Austurlandi. Þar með höfðu Vestfirðingar og Austfirðingar unnið mikinn sigur, að löggjafinn skyldi viðurkenna það og staðfesta það að byggja þar menntaskóla fyrir þessa landshluta. Ég tel, að því miður hafi komið fram allt of margar raddir hér í þéttbýli og þá ekki sízt meðal menntamanna um andstöðu gegn skólum úti á landsbyggðinni eða í þessum tveimur landsfjórðungum, og þessar raddir hafa ekki þagnað enn, því að þær hafa heyrzt nú að undanförnu í sambandi við þá fundi, sem menntaskólaæskan hefur haldið, og kröfugöngur og ræðuhöld á Arnarhólstúninu og á fundi, að ég held á Hótel Sögu, sem mér var boðið að sitja, en gat ekki verið þar, vegna þess að þingfundur var það kvöld. Þetta gerir það auðvitað að verkum, að við, sem berjumst fyrir að koma þessum skólum upp, erum ekki eins sannfærðir um, að aðrir standi með okkur í þessu baráttumáli okkar. Við skulum gera mönnum það alveg ljóst, bæði utan þings og innan, að fólkið, sem byggir Vestfirði, og fólkið, sem byggir Austfirði, mun ekki sætta sig við það um alla framtíð, að það sé lítið á þessa staði sem verstöðvar. Við eigum sama réttinn til þess, að okkar unga fólk geti notið þessarar menntunar, og aðrir landshlutar, og við erum staðráðnir í því að fylgja þeim rétti eftir. Mér finnst leitt til þess að vita, að unga fólkið hér í Reykjavík eða talsmenn þess skuli hafa farið inn á þessar brautir og verið með þann meting, að það sé fjarstæðukennt að tala um byggingu menntaskóla á Ísafirði, á meðan ekki sé búið að uppfylla skilyrði og kröfur um fleiri eða stærri menntaskóla í Reykjavík.

Mér finnst öðruvísi skjóta við, þegar rætt er við tvo menntaskólanema frá Vestfjörðum, sem eru í menntaskólanum á Akureyri, en blaðið Íslendingur-Ísafold átti nýlega viðtal við tvo nemendur og með leyfi forseta segir blaðið:

„Nú var því haldið fram á fundi menntaskólanema í Reykjavík af einum nemanda í MR, að tómt mál væri að tala um menntaskóla fyrir vestan og austan, á meðan húsnæðisskortur væri í skólunum, sem fyrir eru, og nær væri að styrkja nemendur á þessum stöðum til að sækja gömlu skólana. Hvað viljið þið segja um þetta?“

Þá svarar pilturinn: „Þetta finnst mér harla undarleg speki. Mér finnst, að það liggi nokkuð í augum uppi, að ef halda á áfram að hrúga öllum í gömlu skólana, verður eilífur húsnæðisskortur þar. Þess vegna þarf að létta þörfinni af þeim, einmitt þess vegna.“ Og unga stúlkan segir: „Og þegar hitt bætist svo við, sem er aðalatriðið, að skapa nauðsynlega menntunarmöguleika úti á landi, þá er þetta auðvitað hrein fjarstæða, að byggja eigi upp gömlu skólana endalaust. Við horfum ekki í það, sem gert er til að efla gömlu skólana. Þeir hafa mikla þörf fyrir það, því að ekki veitir af, að aðstaða sé sem bezt á hverjum stað. En með því að létta af þeim verður auðveldara að bæta aðstöðu þeirra en annars væri.“

Þetta finnst mér ólíkt sanngjarnari dómur og sanngjarnara viðhorf en frá þeim mönnum úr hópi menntaskólanema í Reykjavík, sem létu til sín heyra. Ég vona, að meiri hl. og yfirgnæfandi meiri hl. menntaskólanema hér í Reykjavík og á þeim stöðum, sem menntaskólar eru, taki ekki undir orð þessara manna, sem héldu þessar ræður, því að það er ekki til þess að efla samhug og skilning á milli landsbyggðarinnar og þéttbýlisins hér í Stór-Reykjavík.

Hæstv. menntmrh. sagði, að þegar Alþ. hefði veitt nægilegt fé til menntaskóla á Vestfjörðum og Austfjörðum, væri hægt að hefja framkvæmdir. Nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hvenær telur hann, að Alþingi hafi veitt nægilegt fé? Verður Alþ. að hans dómi að veita nægilegt fé til allra bygginga, sem eiga að rísa í sambandi við stofnun slíkra skóla, þannig, að hægt sé að byrja á því? Ég vil segja, að það er hægt að byggja þessa skóla eða menntaskólann á Ísafirði í áföngum. Við höfum möguleika fyrir kennslurými í nokkur ár í gamla barnaskólanum þegar á næsta vetri. En það, sem við þurfum að gera, er fyrst og fremst að byggja bústað fyrir skólameistara og byggja heimavist. Þetta má einnig taka í áföngum. fyrsta skrefið í þessu að mínum dómi er að gera kostnaðaráætlanir og ákveða röð þeirra framkvæmda, sem þarf að fara í, en ekki að hugsa um það, að allt fjármagnið skuli áður vera veitt af Alþ. til allra framkvæmda og skólabygginga. Við erum ekki svo ósanngjarnir gagnvart þjóðfélaginu, að við förum fram á það, að allt þetta fjármagn sé veitt á tiltölulega skömmum tíma. Við skiljum vel aðstöðuna, sem ríkisstj. og Alþ. er í hverju sinni að koma fjárl. saman. Við skiljum það, að það er takmarkað, sem Alþingi getur leyft sér að leggja til hinna ýmsu greina í þjóðfélaginu og þá til menntamála eins og annars. En þegar við sjáum, að búið er að veita nokkurt fjármagn, teljum við rétt að láta það ekki liggja í handraðanum, heldur nota það til framkvæmda. Við lifum á tímum verðbreytinga, og því er það ekki hyggilegt að bíða of lengi. Við teljum, að þegar veitt er slíkt fjármagn nú í 4 ár, og búið er þegar að veita 7 millj. og 350 þús. kr. til menntaskóla Vestfirðinga á Ísafirði, þá sé kominn tími til að raða framkvæmdum niður og ákveða framkvæmdastigið.

Hv. 2. þm. Vestf. vitnaði hér í bréf, sem menntmrh. hafði verið ritað, og menntmrh. hefur svarað því. Ég segi út af því svari, að ég tel, að þar sem fámenni er mikið, kemur menntaskóli með sérnámi ekki eins vel að gagni fyrir slík byggðarlög. En hins vegar hygg ég, að það sé engin ástæða til að draga í efa, að þessi skóli yrði fullsetinn. Það var dregið í efa á sínum tíma, að menntaskólinn á Akureyri yrði annað en skóli fyrir örfáa nemendur, en reynslan hefur nú sýnt annað, og ég hygg, að það muni vera hátt á 6. hundrað nemendur í menntaskólanum á Akureyri. Og án þess að ég hafi fengið tölur um það nákvæmlega, þá býst ég við, að um 60 nemendur frá Vestfjörðum stundi þar nám. Þeir hafa verið frá 44–60 s. l. 10–12 ár.

Ég skal svo ekki fjölyrða miklu lengur um þetta mál. En ég vil taka undir það, að þetta frv., sem hæstv. menntmrh. hefur lagt fram, felur í sér margar og miklar breytingar og spor í rétta átt. Ég vil taka undir það og mun vera því meðmæltur, að Kvennaskólinn í Reykjavík fái rétt til þess að brautskrá stúdenta, og mun styðja þá till., sem fram kemur í sambandi við meðferð málsins hér á Alþ. En áður en ég hverf hér úr ræðustólnum, vil ég vona, að hæstv. menntmrh. taki okkar málefnum af skilningi og geri sér það ljóst, sem ég veit, að hann gerir, að við þm. Vestf. allir, hvar sem við erum í flokki, erum staðráðnir í því að fylgja því máli mjög fast eftir og þeim till., sem hafa verið sendar, og ég vænti þess að mega njóta góðs samstarfs við hæstv. menntmrh. í sambandi við framkvæmd þeirra tillagna.