13.03.1969
Neðri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

166. mál, menntaskólar

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að vita það, hvernig mál þetta ber að til umr. hér í d. Það hefur tvisvar verið tekið út af dagskrá, og maður fær þær upplýsingar, að þetta hafi verið gert vegna þess, að hæstv. forseti d. var erlendis og vildi taka þátt í umr. Og það virðist jafnframt koma í ljós, að hæstv. forseti hafi pantað orðið í skeyti, því að þegar maður kemur hér á fundinn, er hann fyrstur á mælendaskrá. Ég bað um orðið strax og umr. hófst og taldi, að þar með væri tryggt, að ég yrði fyrsti ræðumaður á eftir hæstv. ráðherra, en þarna eru þeir þá komnir, hæstv. forseti d. fyrstur, síðan tveir stjórnarsinnar í viðbót, síðan einn framsóknarmaður, — og loks ég. Þessa meðferð vil ég sem sagt vita, og ég lít svo á, að menn geti ekki beðið um orðið og tryggt sér það í umr., fyrr en umr. eru hafnar, og það sé af og frá, að menn geti pantað orðið í símskeyti erlendis frá.

Stöku sinnum, einstaka sinnum gerast markverð tíðindi í menningarmálum hér á hinu háa Alþingi. Og mikið eru þær nú gleðilegar, slíkar stundir, svona meðan þær vara. Ég minnist þess til að mynda, hvað mér þótti sem birti yfir hér í salnum á síðasta þingi, þegar hæstv. ráðh. lagði fram svonefnt æskulýðsmálafrv. Þá var svo sannarlega ástæða til þess að standa upp og fagna, hrópa húrra. Eftir áratuga agg og nagg um þann slæma aðbúnað, sem æskulýður okkar á við að búa, eftir þrotlaust japl og jaml og fuður um þau vandamál, sem þar hafa siglt í kjölfarið, var nú loksins upprunnin stund raunhæfra aðgerða, stund stórhuga framkvæmda. Æskulýðsmálafrv. var þrungið fögrum fyrirheitum, fögrum og glæsilegum fyrirheitum, enda höfðu unnið að því hvorki fleiri né færri en 10 menn hver öðrum menntaðri, gáfaðri og reyndari á þessu sviði. Og þeir höfðu haft til þess heil þrjú ár. Og hæstv. menntmrh. talaði fyrir frv. hér af sinni alkunnu málsnilld.

En æ, því miður, þegar til átti að taka, reyndist hér aðeins vera um að ræða skrautsýningu, býsna hrífandi skrautsýningu að vísu, en því miður helzt til stutta og snubbótta. Hæstv. menntmrh. hafði ekki fyrr dregið tjaldið frá heldur en flokksbróðir hans, hv. formaður menntmn. þessarar d., dró það fyrir aftur. Hann sá til þess, að æskulýðsmálafrv. lognaðist út af í n., og svæfingin var rökstudd með því, að það mundi hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Eða m. ö. o., sá, sem fer með auraráðin hér í þessu fátæka leikhúsi, sem Alþingi Íslendinga virðist því miður æðioft vera, hann hafði bersýnilega aldrei ætlazt til þess, að þetta yrði annað en skrautsýning — eða eigum við kannske heldur að segja ofurlítið sjónhverfingaatriði með hatti og kanínu, leyft með því skilyrði, að á eftir yrði hvoru tveggja skilað aftur, hattinum og kanínunni.

Nú hefur hæstv. menntmrh. lagt fram frv., sem líka má teljast til meiri háttar tíðinda. Það er væntanleg alveg á næstunni, skilst manni, skýrsla frá hæstv. ráðh., gagnger skýrsla um skólamál, svo að ekki virðist ástæða til að hefja hér umr. um þau almennt. En allt um það gæti verið í tilefni af því frv., sem hér liggur fyrir, frv. til l. um menntaskóla, ástæða til þess að standa upp og fagna. Svo mikið er víst, að þetta frv. er, ekki síður en æskulýðsmálafrv., þrungið fögrum og glæsilegum fyrirheitum, og hefur enda unnið að því álíka stór hópur og vann að æskulýðsmálafrv. sællar minningar, en hafði auk þess til þess helmingi lengri tíma, ekki bara 3 ár, heldur heil 6. Fyrirheit eru hins vegar ekkert annað en fyrirhelt. Það, sem skiptir máli, er, hversu þau rætast, hversu reynist með framkvæmd þeirra.

Ég sagði í sambandi við æskulýðsmálafrv. í fyrra, og ég segi það enn, að hæstv. menntmrh. er áreiðanlega allur af vilja gerður að rækja embætti sitt af reisn og með glæsibrag. Og sízt mundi ég vilja frýja honum vits né þekkingar né dugnaðar til slíks. Gallinn er hins vegar sá, að í hvert sinn sem hæstv. ráðh. hyggst láta eitthvað verulega gott af sér leiða, eitthvað verulega stórt og mikið, þá er honum settur stóllinn fyrir dyrnar, og sá stóll er hinn þungi stóll þeirrar menningarsnauðu og kaldlyndu peningahyggju, sem mestu ræður um stefnu þeirrar ríkisstj., sem hæstv. ráðh. tekur þátt í. Þessi hæstv. ráðh. hefur valið sér það hörmulega hlutskipti að streitast við að þjóna menntagyðjunni á því heimili, þar sem Mammon fer með húsbóndavaldið, en á slíku heimili er óhjákvæmilegt, að menntagyðjan og hennar dyggur þjónn verði hornreka.

Reyndar virðist full ástæða til þess að spyrja, hvort þetta frv., sem að forminu til er flutt sem stjórnarfrv., er það í raun og veru. Morgunblaðið, málgagn hæstv. forsrh., sjálft aðalmálgagn stóra bróðurins í stjórnarsamvinnunni, fjallar um þetta mál í ritstjórnargrein s. l. sunnudag og tekur hæstv. menntmrh. heldur en ekki til bæna í þessu sambandi og þá n., sem samið hefur frv., og finnur því allt til foráttu, lætur í ljós enga hrifningu yfir því, nema síður sé. Og svo í fyrradag ber svo við, að Alþýðublaðið svarar í ritstjórnargrein áðurnefndum aths. Morgunblaðsins með orðbragði, sem blaðið notar yfirleitt ekki nema í sérstökum tilfellum, sérstökum neyðartilfellum, um hina verstu menn í röðum okkar stjórnarandstæðinga. Alþýðublaðið segir, að Morgunblaðið hafi með þessu gerzt vettvangur „fyrir ábyrgðarlausustu og vanhugsuðustu sjónarmið, sem sett eru fram í skólamálum.“ Og blaðið gengur svo langt að segja, að „málgagn hæstv. forsrh. hafi“ í máli þessu „sett upp heimskulegan hundshaus.“ Málgagn hæstv. menntmrh. segir, að málgagn hæstv. forsrh. sé með hundshaus. Ég hygg, að fleiri en ég hafi beðið þess með eftirvæntingu að sjá, hvaða haus ritstjóri Morgunblaðsins segði, að væri á ritstjóra Alþýðublaðsins, af þessu tilefni. Og viti menn, Morgunblaðið svarar í gær í lengsta leiðara, sem þar hefur birzt áratugum saman, gott ef nokkurn tíma hefur birzt þar lengri leiðari, og þar virðist ritstj. harma það mest að geta ekki teflt fram í þessu máli sjálfum Jóni Vídalín til þess að tala yfir hausamótunum á ritstjóra Alþýðublaðsins. Morgunblaðið segir, „að málgagn menntmrh. hafi í þessu máli rokið upp og hleypt fram reiði sinni af þvílíkum fítonskrafti og viðkvæmni, að venjulegt fólk er furðu lostið,“ og til frekari áréttingar og lýsingar á ritstjóra Alþýðublaðsins vitnar blaðið í þetta, sem meistari Jón segir um reiðina: „Reiðin lætur mann nísta tönnum, fljúga með höndunum, æða með fótunum.“

Og í morgun svarar auðvitað Alþýðublaðið í sömu mynt, og í fyrramálið svarar Morgunblaðið væntanlega líka í sömu mynt. Ja, er nokkur furða, þó að maður spyrji, hvort ekki ríki í stjórnarherbúðunum í máli þessu ofsi og stríð í staðinn fyrir samkomulag og eindrægni? Og svo ofan á allt þetta bætast þær upplýsingar hv. 2. þm. Vestf. hér áðan, að mál þetta hafi alls ekki verið rætt í þingflokki Sjálfstfl., áður en það er lagt hér fram, — að ógleymdum viðbæti frá hv. 4. þm. Vestf., næsta hótunarkenndum.

Þó að ég fagni þessu frv. út af fyrir sig, þessu frv. til umbóta í málefnum menntaskólanna, sem hér liggur fyrir, þá er sá fögnuður því miður af framangreindum ástæðum allmiklum kvíða blandinn. Ég kvíði því, að þetta eigi aðeins að vera enn ein skrautsýningin og síðan ekkert meir, tjaldið fyrir. Flokksbróðir hæstv. menntmrh., formaður menntmn. þessarar d. var í fyrra látinn leggja æskulýðsmálafrv. út af í n. með þeim rökstuðningi, að framkvæmd þess mundi hafa í för með sér of mikil útgjöld fyrir ríkissjóðinn. Hversu miklu meiri ástæða mun þá ekki talin til þess, að hann beiti svæfingartækni sinni við þetta frv., sem hlyti, ef til framkvæmdanna kæmi, að hafa í för með sér margfalt meiri útgjöld en æskulýðsmálafrv., þó að hæstv. ráðh. reyndi raunar að gylla horfurnar hér áðan með þessari dálítið skrýtnu setningu, sem ég skrifaði orðrétt upp eftir honum, hún er svo hljóðandi:

„Ekki virðist fyrir fram óhjákvæmilegt, að frv. þetta hafi í för með sér mikinn kostnaðarauka.“ Ja, er hægt að orða þetta af öllu þaulhugsaðri varfærni og fyrirhyggju? Hæstv. menntmrh. sagði raunar í sjónvarpsviðtali um daginn og gaf það fyllilega í skyn í ræðu sinni hér áðan, að tilgangurinn með því að leggja þetta frv. hér fram nú væri alls ekki sá að fá það samþ. á þessu þingi, næsta þingi e. t. v., en alls ekki þessu. Tilgangurinn virðist sem sagt, eftir orðum hæstv. ráðh. að dæma, aðeins sá að skaffa okkur þm. uppbyggilegt lesefni, eitthvað til að auðga andann við, meðan við bíðum þess, að hæstv. ríkisstj. láti lokið þessu helzt til áhrifalitla og leiðinlega þinghaldi okkar hér í vetur. Það verður sem sé ekki vart við sérlega mikinn sóknarhug hjá hæstv. ráðh., þegar hann fylgir þessu frv. úr hlaði. Og í því sambandi ætla ég að leyfa mér að segja við hæstv. ráðh. fáein orð í fullri hreinskilni.

Hæstv, ráðh. leggur þetta frv. fram nú í því augnamiði, sem verður æ algengara, að nota Alþingi Íslendinga sem leikhús. Það, sem fyrir honum vakir fyrst og fremst, er að setja upp skrautsýningu, reyna að lægja þær óánægjuraddir, sem að undanförnu hafa orðið æ háværari vegna ástandsins í málefnum menntaskólanna og raunar skólakerfinu almennt. Hann er með þessu að leitast við að kaupa sér frið. Hann vonast til þess að geta beitt þessu frv. fyrir sig sem hlífiskildi við þeirri gagnrýni, sem hann hefur kallað á sig með embættisrekstri, sem orðið hefur æ því aðfinnsluverðari sem hann, þessi annars svo menningarlega sinnaði maður, hefur lengur tekið þátt í núv. ríkisstj. og beygt sig undir siðalögmál þess vafasama félagsskapar, — og fyrir hann mjög svo óholla félagsskapar.

Hæstv. ráðh. telur, sem fyrr segir, engar horfur á því, að frv. verði samþ. á þessu þingi, annað mál með næsta þing, segir hann, annað mál með það. En hvað sem hann segir um þetta, þá er ég sannfærður um, að hann hefur mjög takmarkaða, ef þá nokkra trú á því, að frv. þetta nái að óbreyttum aðstæðum fram að ganga á næsta þingi eða því þar næsta, — að óbreyttum aðstæðum, segi ég. Til þess þekkir hæstv. ráðh. áreiðanlega allt of vel sitt heimafólk. Eða m. ö. o., ef hæstv. ráðh. gerir í einlægni ráð fyrir því, að þetta frv. hans, þetta að mörgu leyti mjög svo merka frv. hans, nái samþykki á næstu þingum, þá hlýtur hann um leið að gera ráð fyrir stjórnarskiptum, gerbreyttri stefnu í skólamálum sem og öðrum þáttum þjóðmálanna. „Það hefur áður verið skipt um ráðh.,“ sagði hv. 4. þm. Vestf. hér áðan og varð ógnandi á svipinn, þessi annars ljúfi maður. Og hamingjunni sé lof, hann lýsti líka yfir þeirri skoðun sinni, að hann teldi ekki alveg víst, að þjóðin yrði að búa við núv. hæstv. ríkisstj. til eilífðarnóns. Hæstv. ráðh. veit eins vel og við allir, að umbætur eins og þær, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., kostnaðarsamar umbætur, eru vitavonlausar, meðan núv. ríkisstj. situr að völdum.

Þetta er sorgleg staðreynd og sorglegust að sjálfsögðu fyrir hæstv. menntmrh. En stjórnarskipti verða að sjálfsögðu fyrr eða síðar. Nýir herrar taka við og nýir og betri siðir. Og hversu svo sem þá kann að skipast um ráðherraembætti, þá vil ég að lokum óska þess í einlægni, af því að ég met hæstv. menntmrh. þrátt fyrir allt mikils, — þá vil ég leyfa mér að óska þess af einlægni, að hann eigi einhvern tíma síðar á lífsleiðinni eftir að gegna þessu embætti við þær aðstæður, að hann þurfi ekki að láta sér nægja að sjá drauma sína birtast á pappír og hvergi nema á pappír. Hann á betra hlutskipti skilið heldur en það, að hans stærstu mál og hans veigamestu frv. verði ekki til annars en auka svolítið á annríkið hjá prenturunum í Gutenberg.