13.03.1969
Neðri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

166. mál, menntaskólar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð um þetta annars stóra mál. Ég get tekið undir það, sem hv. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, sagði um meginstefnu þessa frv. hér áðan, og endurtek ekki neitt af því. En ég kvaddi mér hljóðs til þess að leggja áherzlu á nauðsyn þess að breyta 1. gr. frv. í þá stefnu, sem hér hefur verið minnzt rækilega á af þm. af Vestur- og Austurlandi, sem sé setja það greinilega inn í ný lög um menntaskóla, að lagaskylda sé til þess að koma upp þeim skólastofnunum, sem nú eru ákveðnar með lögum.

Enn fremur vil ég lýsa því yfir, að ég fyrir mitt leyti mun styðja það, að kvennaskólinn fái heimild til þess að útskrifa stúdenta. Það þarf að fjölga þeim skólum, sem rétt hafa til þess, og ég hygg þessa stofnun vera mjög vel færa um að útskrifa stúdenta, þegar búið væri að koma þar á þeim breytingum, sem nauðsynlegar teldust.

Ég vil gera mér vonir um, að það fáist samkomulag um að breyta 1. gr. frv., eins og hér hefur verið rætt um, eftir undirtektir hæstv. ráðh., og fagna ég því.