17.03.1969
Neðri deild: 65. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2482)

166. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal fyrst svara fsp. hv. síðasta ræðumanns um það, hvort ég teldi æskilegt, að þetta mál yrði afgr, þegar á þessu þingi, ef unnt reynist, og um leið vil ég leiðrétta þann misskilning, sem kom fram í ræðu hans, að ég hafi sagt í framsöguræðu minni, að ég ráðgerði, að málið yrði ekki afgr. fyrr en á næsta þingi. Þetta er misskilningur eða um misheyrn að ræða. Setning sú, sem ég lét falla og hann hefur misheyrt eða misskilið, var í þeim kafla ræðu minnar, sem fjallaði um fyrirhugaðar tilraunir á fræðsluskyldustiginu um það að gera nemendum kleift að ljúka landsprófi 15 ára í stað 16 ára, en þær tilraunir hafa verið undirbúnar og verða framkvæmdar á næsta skólaári. Í þessu sambandi sagði ég þetta, með leyfi hæstv. forseta:

Menntmrn. mun gera ráðstafanir til þess, að á næsta vetri verði á fræðsluskyldustiginu hafin tilraun til breytingar á skipulagi fræðsluskyldunnar„ sem geri nemendum kleift að ljúka landsprófi 15 ára í stað 16 ára nú. Mun þetta verða gert í trausti þess, að þetta frv. verði að lögum í síðasta lagi á næsta þingi. Hefði ákvæðið um 16 ára lágmarksaldur til inngöngu í menntaskóla þá verið afnumið og miðskólanemendur þar með getað átt þess kost að ljúka landsprófi 15 ára.“

Þetta er í eina skiptið, sem ég í ræðu minni vék að því, hvenær þetta frv. kynni að geta orðið að l., og það er augljóst mál, að það er ekki sama að segja, að ég reikni með því, að frv. verði í síðasta lagi orðið að lögum á næsta þingi, og hitt, að óska eftir því eða gera ráð fyrir því, að frv. geti ekki orðið að l. á þessu þingi. Mér væri að sjálfsögðu mikil þökk í því, ef hið háa Alþ. treystir sér til þess að vinna svo ötullega að afgreiðslu jafnmikilvægs máls og hér er um að ræða, að það tækist að afgr. málið á þessu þingi. Hvort það tekst eða ekki, fer að sjálfsögðu eftir því, hvenær þinghaldi lýkur. Um það get ég ekki sagt á þessu stigi, hvað líklegt sé, að þingið muni starfa lengi úr þessu, og þess vegna hef ég ekki þorað að láta í ljós neinar óskir eða vonir í þessu sambandi, aðra en þá ósk og þá von, sem er sjálfsögð og á ekki að þurfa að undirstrika sérstaklega, að ég óska að sjálfsögðu eftir því, að þingið leggi fram þá vinnu og þann áhuga til meðferðar á þessu máli, sem það frekast treystir sér til. Ef þinghald verður meira en nokkrar vikur úr þessu, ætti það að takast. Hins vegar ef svo fer, að þinghald á ekki eftir að standa nema örfáar vikur úr þessu, sem ég auðvitað ákveð ekki, þá er ég svo raunsær að gera mér grein fyrir því, því miður, að það mundi varla takast að afgr. jafnviðamikið frv. og hér er um að ræða. Þess vegna hafði ég þessa setningu í framsöguræðu minni. Hún táknar ekki vantraust á hið háa Alþ. til þess að leggja fram nægilega vinnu, enn síður táknar hún, að ég óski þess ekki, að frv. geti orðið sem fyrst að lögum, þess óska ég og beini þeim tilmælum til hv. menntmn., að hún taki þann tíma, sem hún frekast treystir sér til, til þess að hraða framgangi þessa máls, sem mér þykir vænt um að heyra að síðasti ræðumaður hefur sömu skoðun á og ég, að hér sé um merkilegt mál að ræða og mikið framfaraspor í menntaskólamálum og í skólamálum þjóðarinnar yfirleitt.

Að síðustu vil ég svo aðeins láta í ljós ánægju mína með þær mjög vinsamlegu undirtektir, sem allt meginefni þessa frv. hefur hlotið. Ég lít á undirtektir manna um efni málsins sjálfs sem viljayfirlýsingu af hálfu allra flokka þingsins um það, að hér sé um að ræða frv., sem eigi að hrinda í framkvæmd sem allra fyrst og að það mundi horfa til mikilla framfara og endurbóta, þegar því verður hrundið í framkvæmd. Ríkisstj. ákvað að leggja frv. fyrir Alþ. alveg eins og menntaskólanefndin gekk frá því, gera engar breytingar sjálf á tillögum menntaskólan., enda má segja, að frv. sé samið af þeim mönnum, sem ég held að óhætt sé að segja, að að dómi hlutlauss mats séu til þess hæfastir að gera till. til Alþ. um skynsamlega menntaskólalöggjöf. Þannig a, m. k. reyndi ég að velja menn til þessa vandasama verks. Ég endurtek enn: Alþ. fær frv. nákvæmlega eins og n. skilaði því til rn. fyrir örfáum vikum.

Ég verð að játa það, ég verð að gera alveg hreinskilnislega játningu, að þegar ég las 1. gr. frv., eins og aðrar gr. frv. að sjálfsögðu, las það allt oftar en einu sinni, þá hvarflaði ekki að mér, að það væri hægt að skilja 1. gr. frv. þannig, að með því móti væri ætlazt til, að breytt yrði fyrri ákvörðun Alþ. um, að menntaskólar skuli starfa á Ísafirði og á Austfjörðum, þegar fé hefur verið veitt til þess á fjárlögum. Þegar ég varð var við þennan misskilning, eftir að frv. hafði verið lagt hér fram, tók ég ummæli um þetta efni inn í framsöguræðu mína, sem áttu að taka af öll tvímæli um það, að ríkisstj. liti ekki svo á, að 1. gr. frv., þótt hún stæði óbreytt, breytti í einu eða neinu fyrri ákvörðun Alþ. um, að menntaskólar skyldu starfræktir á Ísafirði og Austurlandi, þegar fé hefði verið veitt til þess í fjárlögum. Enn treysti ég því, að ummæli mín í framsöguræðu um þetta efni muni verða talin nægileg fullvissa til hv. þm. af hálfu ríkisstj. og n., sem ég hafði samband við um þetta efni, að þarna hefði enginn fiskur verið falinn undir steini. Ég þóttist verða þess var, að nokkrir þm. hefðu komið með undirbúnar ræður, skrifaðar ræður, til 1. umr., sem byggðar hefðu verið á því, að í 1. gr. fælist breyt. á fyrri ákvörðun Alþ. og það kynni að hafa verið tilgangur menntaskólanefndar og minn og ríkisstj. að gera hér einhverja raunverulega breytingu á, og fyrst mér hafði ekki tekizt að eyða allri tortryggni varðandi þetta efni í framsöguræðu minni, gaf ég um það alveg skýlausa yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstj., að hún hefði ekkert við að það athuga, þó að 1. gr. yrði breytt í það horf, að tekin yrðu af öll tvímæli um, að fyrri ákvarðanir Alþ., fyrri vilji Alþ. í þessu efni skyldi standa. Þetta vonaði ég enn, að mundi duga, en enn heyrðist mér samt á hv. ræðumanni, sem hér talaði áðan, hv. 1. þm. Vestf., að hann væri ekki fullkomlega ánægður, fyrr en greininni hefði í reynd verið breytt, og af hálfu okkar í ríkisstj. er ekkert því til fyrirstöðu, að það verði gert. Ég endurtek enn viljayfirlýsingu mína um það og vona með því, að þá sé úr sögunni það eina ágreiningsefni, sem við þessa 1. umr. hefur komið fram um málið.

Varðandi Kvennaskólann í Reykjavík, sem einnig hefur verið nefndur, vil ég einnig endurtaka þá yfirlýsingu, að ég tel eðlilegt, að Alþ. sjálft skeri úr því, hvort Kvennaskólinn í Reykjavík skuli fá leyfi til þess að brautskrá stúdenta, þó að menntaskólan. hafi ekki beinlínis gert ráð fyrir því með skýru lagaákvæði, en hins vegar orðað 5. gr, frv. þannig, að telja megi heimilt samkvæmt henni að veita Kvennaskólanum í Reykjavík leyfi til þess að brautskrá stúdenta. Ég tel eðlilegt, að Alþ. ákveði þetta einfaldlega með atkvgr., enda er hér um fjárhagsatriði að ræða. Ég get tekið það fram, að ég mun persónulega greiða atkv. með því, að kvennaskólinn fái leyfi til þess að brautskrá stúdenta, en ég segi, að mitt atkv. ræður ekki meira en annarra þm. um það, fyrst við teljum rétt að láta það verða og er sjálfsagt að það verði úrskurðaratriði Alþ., hvort þetta verður eða ekki.

Með þessu held ég, að ég hafi vikið að því, sem ég tel ástæðu til að láta koma fram, áður en þessari 1. umr. um málið lýkur, og beini svo að síðustu þeim tilmælum til hv. menntmn., þegar málinu hefur verið vísað til hennar, að hún taki málið sem fyrst fyrir og leggi í það nauðsynlega vinnu, til þess að það geti orðið sem fyrst að lögum.