17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

115. mál, verðlagsmál

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hér liggja fyrir tvö nál. um þetta stjfrv. Annað er á þskj. 187 frá meiri hl. fjhn., sem frsm. þess meiri hl. hefur nú gert grein fyrir. Og hitt er á þskj. 190, ég stend að því áliti. Ég hef nokkuð aðra skoðun á þessu máli heldur en meiri hlutinn, og vil ég gera grein fyrir henni.

Efni frv. er það að framlengja ákvæði laga um skipun verðlagsnefndar. Stærri stjórnarflokkurinn hér, Sjálfstfl., segist hafa frelsi á sinni stefnuskrá. Sá flokkur hefur 3 fulltrúa af 7 í hv. fjhn. Og þegar fulltrúar flokksins í n. sögðust vilja hafa áframhaldandi verðlagshöft, þá horfði ég rannsakandi á þá og spurði sjálfan mig: Eru þetta fulltrúar frelsisins, eins og þeir segjast vera, eða eru þetta jólasveinar komnir ofan af fjöllunum? Ja, það kemur líklega á daginn. Og þegar þeir tala um þetta áhugamál sitt, kemur mér ósjálfrátt í hug eitt lítið stef, sem stundum er raulað við börnin, einkum fyrir jólin, en það byrjar svona:

„ Krakkar mínir, komið þið sæl,

hvað er nú á seyði?

Áðan heyrði ég“ o.s.frv.

Sjálfstæðismenn í fjhn. hafa einnig snotran Alþýðuflokksmann sér til stuðnings þar og geta myndað meiri hl. með honum, eins og í mörgum öðrum nefndum og ráðum. Ég ætla ekki að flytja hérna neinn þátt af honum, tek hann út af dagskrá.

Í fjhn. bar ég fram nokkrar spurningar viðvíkjandi verðlagsnefnd og hennar starfi og eins og hv. frsm. meiri hl. gat um og skýrði einnig frá, þá hef ég nú fengið svör við þeim. Fyrsta spurning mín var um það, hvað margt fólk ynni nú á verðlagsskrifstofunni og við verðlagseftirlitið. Svarið frá verðlagsstjóra er þannig: .

„Alls eru nú starfandi á vegum stofnunarinnar:

a) í Reykjavík 20 fastráðnir og 1 maður lausráðinn, b) utan Reykjavíkur 5 menn fastráðnir auk 5 manna, sem eru lausráðnir og stunda eftirlitsstörf sem aukastörf.“

Í öðru lagi spurði ég: Hve mikill heildarkostnaður varð af eftirlitinu árið 1967?

Svar: „Heildarkostnaður vegna skrifstofu verðlagsstjóra og verðlagsnefndar nam árið 1967 kr. 6.191.795.37“.

Þá spurði ég í þriðja lagi um það, hvaða vörur væru nú undir verðlagseftirliti. Því svarar verðlagsstjórinn þannig, með leyfi hæstv. forseta.

„Mikill meiri hluti innfluttra vara er háður verðlagsákvæðum. Ýmsar innlendar framleiðsluvörur eru háðar verðlagsákvæðum, svo sem smjörlíki, brennt og malað kaffi, nokkrar brauðtegundir, öl og gosdrykkir, nema pilsner og Thule-öl, sælgæti, niðursuðuvörur, svo sem fiskbollur og fiskbúðingur, málningarvörur o.fl. Ýmis konar þjónustustarfsemi er einnig háð afskiptum verðlagsyfirvalda. Má þar nefna fatahreinsun, starfsemi þvottahúsa, aðgangseyri kvikmyndahúsa, hárskurð, akstur leigubifreiða o.fl.“

Hver er nú eftirtekjan af þessu? Ég held, að það megi segja, að hún sé í mörgum tilfellum rýr, og fyrirkomulagið á þessu er vafasamt. Það er t.d. yfirleitt ákveðin álagning í hundraðshlutum af verði vörunnar. Þetta getur gert vörurnar dýrari. Vegna þessa hafa innkaupendur hvöt til að kaupa sem dýrastar vörur, því þá fá þeir meira í sinn hlut fyrir ómakið.

Ég held það sé óhætt að segja það, að menn treysti um of á opinbera forsjá, og af því verða menn andvaralausir og athuga ekki sjálfir sinn gang sem skyldi.

Ég hef orðið þess var, eða heyrt það stundum, að stéttarfélög og forystumenn þeirra heimta verðlagseftirlit og meira verðlagseftirlit. Ég held, að þetta sé á nokkrum misskilningi byggt hjá þeim góðu mönnum. Ég held þeir gætu með öðrum aðferðum náð betri árangri, fyrst og fremst með þátttöku í kaupfélögum. Þar geta félagsmennirnir beitt áhrifum sínum til að gera rekstur félaganna sem beztan, svo að þau geti veitt góða þjónustu. Auðvitað eru samvinnufélögin misjafnlega vel rekin, en víða um land eru þau langstærstu viðskiptafyrirtækin og hafa þar með sannað yfirburði sína. Kaupmenn hafa ekki talið gróðavænlegt að setja upp verzlanir við hliðina á þeim.

Hér í Reykjavík er myndarlegt kaupfélag, sem hefur verið að færa út kvíarnar. Ég hef kynnzt því nokkuð, því þar kaupi ég aðallega mínar nauðsynjar þann tíma ársins, sem ég er hérna í Reykjavík. Ég kem oft í búð þess við Skólavörðustíg, og mér sýnist hún vera vel rekin. Myndarbragur er þar á, afgreiðslufólkið lipurt og vörurnar góðar. Sjálfsagt eru fleiri verzlanir hérna í bænum — borginni, fyrirgefið — reknar með myndarbrag, en munurinn á þessum einstaklingsverzlunum og samvinnuverzlunum er sá, að félagsmenn í samvinnufélögum eiga eða geta átt þátt í stjórn þeirra. Þeir geta, hver fyrir sig og allir sameiginlega, haft viðskiptamálin í sínum höndum með því að gerast félagsmenn í kaupfélögum, og það verður affarasælast. En ef menn vilja af einhverjum ástæðum ekki ganga til liðs við þá félagsmenn, sem eru í kaupfélaginu, t.d. hér í Reykjavík, og vinna með þeim að því að gera þetta enn betra og öflugra fyrirtæki en það nú er, þá geta þeir farið aðrar leiðir. T.d. gæti verkamannafélagið hérna í borginni stofnað sitt eigið innflutnings- og vörudreifingarfyrirtæki fyrir sina félagsmenn. Þetta gæti BSRB líka gert. Þannig gætu þeir tekið milliliðastarfsemina í eigin hendur og notið beztu viðskiptakjara, sem völ er á, því sjálfs er höndin hollust.

Þetta væru að mínu áliti manndómslegri vinnubrögð og heillavænlegri en að heimta barnfóstrur handa fullorðnu fólki frá einhverri opinberri n. Hún er nú satt að segja ekki svo björguleg okkar forysta í málefnum ríkisins um þessar mundir, að gott sé að setja allt sitt traust á hana. En margir hafa oftrú á jarðneskum stjórnarvöldum, enda reyna ýmsir að innræta fólki þá trú. Það er hált á götunum suma daga núna, og lögreglan er að birta aðvaranir til fólks í morgunútvarpið. Ég gæti vel búizt við því, að þeir, sem trúa mjög á opinbera forsjá, fyndu upp á því einhvern daginn að snúa sér til doktoranna í stjórnarráðinu og hans Geirs oddvita í sveitarstjórn Reykjavíkur og færu fram á það við þá, að þeir settu nú upp stofnun til að aðstoða fólk í hálkunni. Þá þyrftu menn ekki annað en að hringja í það fyrirtæki og óska eftir að fá menn til að leiða sig á milli húsa í borginni, þegar þeir þyrftu að ferðast innanbæjar. Þetta gæti nú verið gott, en það er einmitt það, að menn gætu dottið samt á svellunum, jafnvel þó þeir fengju þessa aðstoð, eins og menn láta stundum snuða sig í viðskiptum, þrátt fyrir allar „barnapíur“ verðlagsnefndar.

Það má nefna mörg dæmi um vafasama forystu ríkisins og sveitarstjórna. Ég get ekki stillt mig um að nefna eitt dæmi, það eru húsbyggingarframkvæmdir ríkisins og Reykjavíkurborgar á þessu ári. Ja, það átti nú að vera fyrir þá, sem höllustum fæti standa í lífsbaráttunni. Það var sett á laggirnar allfjölmenn n. til að stjórna framkvæmdunum. Ekki kannske eins fjölmenn og verðlagsnefnd, en hátt upp í það. Þeir sóttu mann til formennsku í n. norður á Blönduós. Blönduós er góður staður, ágætur. Þar er athafnasamt og gott fólk og þar eru menn, sem eru vel færir um að byggja hús, en þó auðvitað misjafnlega færir um það, eins og gefur að skilja, í nokkur hundruð manna kauptúni. Ég held, að yfirvöldin hafi orðið fyrir því óláni að finna skakkan Blönduósmann til formennskunnar. Þetta getur með fram stafað af því, að hann þurfti líka að vera alþm. í stjórnarflokki. En það er ekki um marga slíka að ræða á Blönduósi. Ekki ætla ég að lasta þennan mann, hv. 3. landsk. þm., þetta er myndarlegur og vel gefinn maður og lærður í lagavísindum. Vafalaust getur hann unnið ýmislegt gott á þeim sviðum, þar sem hans hæfileikar njóta sín bezt, en ég er hræddur um, að yfirvöldin, sem stóðu fyrir þessari byggingarframkvæmd hér, hafi ekki aðeins orðið fyrir því að velja skakkan Blönduósmann, heldur líka skakkan landsk. þm. Ég gæti bezt trúað, að það hefði betur til tekizt, ef þeir hefðu — í stað þess að velja hv. 3. landsk. þm., Jón Þorsteinsson, til formennsku í framkvæmdanefndina — fengið hv. 4. landsk. þm. Jónas Árnason, til að taka það sæti, því að hann hefur sýnt það, hv. 4. landsk. þm., að hann hefur dálítið vit á þessum málum. Hann byggði gott og fallegt íbúðarhús í sumar fyrir sig og fjölskyldu sína. Það var um það bil helmingi ódýrara en íbúðirnar, sem framkvæmdanefnd yfirvaldanna lét byggja í Reykjavík. Framkvæmdanefnd byggingaáætlunar, ég held að það sé hennar viðurkennda nafn, tókst að gera húsin svo dýr, að vafasamt er, að þeir, sem þar er ætlað að búa, geti risið undir þeim kostnaði. Ég veit ekki hvaða atvinnuvegur getur borgað það kaup, sem verkamenn þurfa að hafa til að geta búið í svo dýrum húsum. Þannig gafst forysta yfirvaldanna í þessu efni og svipaðar sögur gerast trúlega á fleiri sviðum.

Ég vil aðeins geta þess í leiðinni, í sambandi við þetta mál, að það er til hér félagsskapur, ef ég man rétt, sem nefnist, held ég, Neytendasamtökin. Ég er ókunnugur þeim samtökum, en hugsanlegt finnst mér, að þau gætu gert gagn, ef þeim væri skynsamlega stjórnað, gætu fylgzt með vöruverði og gefið almenningi upplýsingar um það. E.t.v. gætu þau auglýst, að undangenginni rannsókn, hvar hægt væri að fá hagstæðust viðskiptakjör, og mér finnst, að það gæti komið til mála að styðja þessi samtök eitthvað, ef þau starfa vel, en hins vegar er hægt að spara verulega við verðlagsmál, en til þeirra er nú eytt á 7. milljón á ári.

Eins og fram kemur í nál. mínu á þskj. 190, tel ég þörf breytinga á lögunum um þessi verðlagsmál. Einkum bendi ég á, að það sé óþarft með öllu að halda uppi opinberum verðlagsákvörðunum og opinberu eftirliti með verðlagi á vörum, sem öllum er frjálst að flytja til landsins. Það gegnir náttúrlega öðru máli með vörur, sem takmarkaður er innflutningur á. Það er enginn tími til að koma fram breytingum á l. núna fyrir þinghléið, en það er m.a. vegna þess, að þeir, sem á að heita, að gegni hér enn húsbóndastörfum, hæstv. ráðh., virðast ekki hafa löngun til að láta sópa gólfið hjá sér fyrir jólin, en vilja sitja áfram í ruslinu yfir hátíðina.

Ég hef leyft mér að flytja eina brtt. við þetta frv., sem er prentuð á þskj. mínu 190. Og hún er aðeins um það, að lögin skuli öðlast gildi 1. jan. 1969, eins og meiri hl. leggur til, en gilda aðeins til 1. apríl 1969, þ.e.a.s. gilda í næstu 3 mánuði. Með því að samþ. mína brtt. er hægt að tryggja, að málið verði tekið til nýrrar athugunar á framhaldsþinginu í febr. eða marz í vetur, og þá mætti reyna að koma fram lagfæringum á þessari löggjöf.

Meiri hl. hv. fjhn. segir við landsmenn: Við viljum verja nokkrum milljónum af almannafé til að launa menn, sem eiga að gæta þess, að ekki sé okrað á ykkur í verzlunum. En ég segi við fólkið: Takið viðskiptin í ykkar eigin hendur, hjálpið ykkur þannig sjálf, það verður heilladrýgst, það mun koma ykkur að betri notum en verðlagsnefnd og hennar lið.