02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2490)

166. mál, menntaskólar

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. gerði nokkrar athugasemdir um þetta frv. og óskaði eftir nánari upplýsingum um það, hvað fyrir menntmn. vekti varðandi 1. gr. frv., m. ö. o. hann óskaði eftir skýrum heimildum og ákvæðum um það, með hverjum hætti væri hægt að stofna menntaskóla eða veita réttindi til þess að útskrifa stúdenta. Ég vil taka það fram, að n. vill gera skýran mun annars vegar á hreinum menntaskólum og hins vegar á öðrum skólum, sem fá heimild til þess að útskrifa stúdenta. Þetta frv. fjallar aðeins um menntaskóla, sem eru eingöngu menntaskólar og eru algerlega kostaðir af ríkinu. Við lítum svo á, að þetta frv. komi ekki í veg fyrir það, að aðrir skólar geti fengið heimild til þess að útskrifa stúdenta, og má gera ráð fyrir, að stúdentsdeild sé aðeins partur af starfsemi þess skóla, eins og er með kennaraskólann og verzlunarskólann. Verður að gera ráð fyrir því, að þeim skólum geti fjölgað í framtíðinni, og á ég þar ekki aðeins við Kvennaskólann í Reykjavík, ég er persónulega stuðningsmaður þess, að hann fái umbeðið leyfi, en t. d. er mjög líklegt, að tækniskólinn fái áður en langt um líður heimild til þess að útskrifa stúdenta. Þegar skilið er á milli þessara tveggja tegunda af skólum, verður augljósara, hvað fyrir menntmn. vakir. Þetta frv. er aðeins um menntaskóla. Eins og ég skýrði frá, varð ekki samkomulag um það í n. að telja upp fleiri skóla en þá, sem þegar eru í l., en að öðru leyti er 1. gr. hugsuð þannig, að það verði fyrst og fremst með samþykkt á fjárveitingu frá Alþ., sem nýir menntaskólar yrðu stofnaðir. Ég tel, að stofnun nýrra menntaskóla í framtíðinni mundi þá gerast á þann hátt, að gerð mundi verða fyrir frumkvæði menntmrn. skólaáætlun. Það er þegar búið að leggja mikið starf í slíka áætlun. Sú áætlun hlýtur, eins og áætlanir um framkvæmdir á öðrum sviðum, að gera ráð fyrir svo og svo mikilli aukningu á menntaskólum í landinu. Síðar mundi sú áætlun af ráðh. og rn. verða send til Alþ. og Alþ. síðan ákveða að framkvæma hana, eftir því sem það sér, sér fært, með fjárveitingum á fjárl. Þess vegna er hugmyndin sú, að það þurfi ekki löggjöf hverju sinni eða breyt. á gildandi l., þegar stofnaðir verða menntaskólar umfram þá, sem getið er í þessum lögum. Vænti ég þá, að það ætti að geta verið nokkuð ljóst, hvað fyrir n. vakir, og ég vænti þess, að það þurfi ekki að vefjast fyrir neinum, hvernig þetta er af nefndarinnar hálfu hugsað. Ef hv. þm. eða ráðh. óska eftir því að velta vöngum yfir þessu frekar og íhuga það, þá er sjálfsagt, að þeim gefist tóm og tækifæri til þess, en af hálfu menntmn. liggur málið svona fyrir.