08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2498)

166. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var þar samþykkt samhljóða, eftir að menntmn. hafði einróma og í samráði við menntmrn. og rektora og menntaskólakennara gert nokkrar minni háttar breytingar á frv.

Þeir aðilar, sem látið hafa í ljós skoðun sína á þessu máli, fyrst og fremst kennarar og nemendur menntaskólanna í landinu, hafa talið, að hér væri um merka laganýjung að ræða og mikið framfaraspor í málefnum menntaskólanna. Þess vegna var lögð á það áherzla af hv. menntmn. Nd. að hraða málinu í hv. Nd., og tókst það. Vildi ég leyfa mér að beina því til hv. menntmn., sem ég vona að fái mál þetta til meðferðar að lokinni þessari 1. umr., að hún athugi, hvort hún treysti sér ekki til þess að hafa hliðstæð vinnubrögð um hönd og afgr. málið frá sér, þannig að það geti komið til lokaafgreiðslu nú á þessu þingi.

Þær breytingar, sem urðu á frv. í Nd., lutu fyrst og fremst að því, að í frv. ríkisstjórnarinnar hafði verið gert ráð fyrir, að menntaskólar skyldu vera svo margir sem þörf sé á að dómi menntmrh. og kostnaður við stofnun og rekstur menntaskóla greiðist úr ríkissjóði, eftir því sem fé sé veitt til á fjárlögum. Áhugamenn um stofnun menntaskóla á Vestur- og Austurlandi töldu, að í þessu orðalagi 1. gr. frv. kynni að eiga að felast breyting á þeirri stefnu, sem Alþ. hefur markað með því að taka í lög ákvæði um, að menntaskólar skuli vera starfræktir á Vestfjörðum og Austurlandi, þegar fé sé veitt til þess í fjárl. Ég lýsti yfir, að ekkert slíkt hefur vakað fyrir höfundum menntaskólafrv. né heldur fyrir mér né ríkisstj. og þess vegna mætti mín vegna gjarnan taka ákvæði gildandi laga upp í 1. gr. frv., ef það gæti orðið til þess, að allri tortryggni yrði eytt í þessum efnum. Um það varð samkomulag, að svo skyldi gert, og þannig gekk hv. Nd. frá frv. M. ö. o.: eins og það er nú frá hv. Nd., eru sömu ákvæði í þessu frv. og nú eru í gildandi lögum um það, hvar starfrækja skuli menntaskóla, en auk þess er menntmrh. heimilað að fjölga menntaskólum, eftir því sem fé er veitt til í fjárl. hverju sinni, og þá kveða á um staðsetningu þeirra. En engin ástæða er til, að Alþ. taki ákvörðun um stofnun menntaskóla hverju sinni með öðrum hætti en verið hefur um aðra framhaldsskóla, gagnfræðaskóla, barnaskóla, iðnskóla o. s. frv.

Kjarni þessa frv., er, að það felur í sér almenna lagaumgjörð um menntaskóla og stöðu þeirra í skólakerfinu, hlutverk, kennslu, starfslið og starfshætti. Ef frv. verður að l., sem ég vona, verða þau lög fyrst og fremst rammalöggjöf. Fjölmörgum atriðum, sem um er fjallað í frv., þarf að gera frekari skil í reglugerð, og um sum þarf að skipa þar að stofni til. Er því augljóst, að mjög þarf til reglugerðar samkvæmt þessum l. að vanda, og tel ég sjálfsagt að hafa við setningu þeirrar reglugerðar samráð við forustumenn og kennara menntaskólanna, sem og forustumenn nemenda.

Meginbreyt., sem gerð er á menntaskólakennslunni og menntaskólunum með þessu frv., ef að l. verður, er sú, að ákvæði gildandi l. um námsefni menntaskólanna og kennsluna felast í skrá um þær greinar, sem kenna skal, og heimild til að fjölga greinum eða fækka þeim. Að baki þessum gömlu ákvæðum liggur sú hugmynd, sem á sér langa sögu og langa hefð, að almenn menntun felist umfram allt í kynnum af tilteknum námsgreinum, og jafnframt, að tilteknar námsgreinar hafi almennt menntunargildi umfram aðrar greinar. En reynslan hefur sýnt, að hagfelldara og skynsamlegra er að fella greinar af menntaskránni og taka upp aðrar í þeirra stað, einkum og sér í lagi vegna breyttra hagnýtra þarfa. Grundvallarhugmyndin hefur þó lítið breytzt. Merkasta breyt., sem orðið hefur á undanförnum áratugum, er sú, sem fram kemur í skiptingu menntaskóla í mála- og stærðfræðideild og nú nýverið í þriðju deild hér á landi — í náttúrufræðideild, auk þess sem Verzlunarskóli Íslands og Kennaraskóli íslands brautskrá stúdenta með nokkuð sérstöku námsefni. En í þessum deildum öllum er gert ráð fyrir samhliða, jafngildum námsbrautum, en á hverri braut um sig er eftir sem áður hvert spor ófrávíkjanlega fyrirskipað.

Um nokkurt skeið undanfarið hafa þeir menn, sem sérstaka þekkingu hafa á málefnum menntaskólanna og kennslu þar, komizt að þeirri skoðun, að nauðsynlegt væri að fjölga slíkum námsbrautum innan menntaskólanna og jafnframt velta menntaskólanemendum aukið valfrelsi um það, hvaða greinum þeir helga sig sérstaklega, það sé því ekki rétt að hafa námsbrautina svo ósveigjanlega sem hún hefur verið fram að þessu, heldur sé æskilegra að gera hana sveigjanlegri, einmitt til þess að hægt sé að sinna misjöfnum þörfum og hæfileikum nemenda að því marki, sem réttmætt og nauðsynlegt má teljast. Þess vegna er í þessu frv. lagt til, að felld sé á brott úr l. skrá um námsgreinar skólanna og tekin upp í hennar stað ákvæði, sem myndi almenna umgjörð um námsefni, námsmagn og námskröfur skólanna, en settar í þessum efnum starfsemi þeirra þær skorður einar, sem nauðsynlegar þykja til að tryggja, að markmiði þeirra verði jafnan náð. Í samræmi við þessa grundvallarhugsun kveða lögin svo á, ef þetta frv. nær fram að ganga, að námsefni menntaskóla skuli framvegis greinast í þrennt, þ. e. kjarna, kjörsvið og frjálsar valgreinar. Kjarnanum svokallaða er ætlað að vera grundvöllur hinnar almennu menntunar nemenda. Á kjörsviðinu er ætlazt til, að þeir búi sig undir sérnám í háskóla, og í frjálsum valgreinum fær hver og einn menntaskólanemi nokkurt svigrúm til að fullnægja einkaþörfum sínum o. s. frv. En jafnframt er lögð rík áherzla á samhengið milli hinna þriggja þátta námsefnisins. Sú almenna menntun, sem í kjarnanum felst, er að sjálfsögðu jafnframt almennur undirbúningur undir háskólanám. Rækileg kynni af einhverju einu þeirra sviða mannlegrar þekkingar, sem kjörsviðin eiga að vera fulltrúar fyrir, eru ómissandi þáttur almennrar menntunar. Og þótt svo sé til ætlazt, að hinar frjálsu valgreinar geti orðið allsundurleitar, er þó öllum ætlað, hverri á sinn hátt, að efla andlegan þroska nemenda. Hlutverk kjarnans er tvíþætt: annars vegar á að þjálfa nemendur í meðferð vitsmunalegra tækja, umfram allt móðurmálsins, og kenna þeim vitsmunaleg vinnubrögð. Kjörsviðin hafa einnig sérstöku hlutverki að gegna og rýra, eins og ég sagði áðan um mikilvægi kjarnagreina, á engan hátt gildi þeirra. Þau hljóta öll að vera efnislega tengd kjarnagreinum. Hlutverk frjálsra valgreina á m. a. að vera það að auka fjölbreytni námsefnisins. En það er ekki efnisinnihald greinanna, sem skilur einhverjar hinna frjálsu valgreina frá kjarna og kjörsviði. Að sjálfsögðu er til þess ætlazt, að meðal hinna frjálsu valgreina séu greinar, sem hvorki er að finna í kjarna né á kjörsviðum, og telja höfundar frv. því næsta lítil takmörk sett, hvers konar námsefni kynni hér að reynast boðlegt og eftirsóknarvert.

Stundum hefur sá ótti verið látinn í ljós, að aukið valfrelsi í skólum og þá sérstaklega í menntaskólum kunni að hafa í för með sér, að slegið verði af námskröfum, að gildi fullnaðarprófa rýrni og los komist á hugmyndir manna um markmið skólanna. Höfundar frv. telja, að auk þess sem hlutur frjálsra valgreina í námsefninu á að vera tiltölulega lítill, þá eru með ákvæði um kjarna og kjörsvið reistar öflugar skorður gegn því, að slík upplausn eigi sér stað. Að því er varðar hæfni nemenda til þess að velja sér sjálfir námsefni, — sumir hafa dregið í efa, að um nægilega slíka hæfni sé að ræða, — má á það benda, að samkv. gildandi 1., velja nemendur menntaskólanna hömlulaust um deildir, og hefur hingað til ekki verið talinn skaði að því.

Þessi ákvæði um breyt. á námsefni og kennslutilhögun, þ. e. þessi þrískipting efnisins í kjarna, kjörsvið og frjálsar greinar, eru í raun og veru meginefni frv. Auk þess er rétt að geta sérstaklega þeirra breyt., sem frv. gerir ráð fyrir á skólastjórn menntaskólanna. Samkv. gildandi l. er hún fyrst og fremst í höndum kennarafunda, en reynslan hefur sýnt, að skólastjórar menntaskóla þurfa oft og einatt að taka ákvarðanir um fjölmörg atriði, sem lögum samkvæmt heyra undir kennarafund, en reynsla sýnir, að óhjákvæmilegt er, að skólastjórinn taki afstöðu til og marki stefnu í. Þess vegna er sú breyt. hér gerð á, að skólastjóri er gerður forstjóri skólans, en hefur sér við hlið skólaráð, þar sem bæði eiga sæti fulltrúar kennara og nemenda. Ákvæði um skólaráð eru algert nýmæli, og sérstaklega er ákvæðið um fulltrúa nemenda í skólaráði, þ. e. aðild nemenda að stjórn menntaskólanna, algert nýmæli, sem ég hygg þó, að sé til mikilla bóta. Það hefur reynslan af aðild stúdenta í stjórn háskólans sýnt, að sú aðild hefur verið til mikilla bóta, bæði fyrir háskólann sjálfan og fyrir stúdentana, og ég efast ekki um, að nái þessi ákvæði fram að ganga, muni reynslan af því vera hliðstæð og orðið hefur á háskólastiginu. Hef ég raunar hugsað mér, ef þessi ákvæði ná samþykki hins háa Alþ., að koma á hliðstæðum breyt. í öðrum hliðstæðum framhaldsskólum, en til þess tel ég, að ekki þurfi lagabreyt., það tel ég hægt að gera án sérstakrar lagaheimildar.

Að síðustu skal ég láta þess getið, að þetta frv., sem hefur verið mjög rækilega undirbúið, hefur verið í samningu síðan snemma árs 1963, og eru höfundar þess Kristinn Ármannsson rektor menntaskólans í Reykjavík, sem var fyrsti form. n., Ármann Snævarr háskólarektor, Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, dr. Broddi Jóhannesson skólastjóri Kennaraskóla Íslands, Jóhann S. Hannesson skólastjóri menntaskólans að Laugarvatni, dr. Jón Gíslason skólastjóri Verzlunarskóla Íslands og Þórarinn Björnsson skólameistari menntaskólans á Akureyri. Árni Gunnarsson fulltrúi í menntmrn. var ritari n. Sumarið 1964 var Magnús Magnússon prófessor skipaður varamaður háskólarektors, og gegndi hann því starfi þangað til í jan. 1966. 1. sept. 1965 skipaði menntmrh. í n. þá Einar Magnússon rektor, er hafði tekið við stöðu rektors menntaskólans í Reykjavík, og Guðmund Arnlaugsson, rektor hins nýstofnaða menntaskóla við Hamrahlíð. Og loks tók Steindór Steindórsson sæti í n. haustið 1967, er hann hafði verið settur skólameistari menntaskólans á Akureyri.

Ég tel ástæðu til þess, eins og ég gerði í hv. Nd., að láta í ljós sérstakt þakklæti til höfunda frv. fyrir það, hversu vel og rækilega og ýtarlega þeir hafa undirbúið málið og hversu framfarasinnaðar till. þeir hafa sent frá sér í þessu frv. og með þessu frv. Það kom í ljós við störf hv. menntmn. í Nd., að frv. hafði verið óvenjulega vel undirbúið, þannig að í ljós kom, að öll vinnubrögð að frv. gátu gengið miklu hraðar, en ég held að flesta hafi grunað, áður en þeir kynntu sér málið. Ég vona, að hv. menntmn. þessarar d. komist að sömu niðurstöðu og meti og athugi fyrir sitt leyti hið ágæta verk höfunda þessa frv.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði vísað að lokinni þessari 1. umr. til 2. umr. og hv. menntmn.