08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (2500)

166. mál, menntaskólar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Menntmrh. lét í ljós þá ósk, að frv. þetta yrði afgr. á þessu þingi. Hann beindi jafnframt þeim tilmælum til þessarar hv. d., að hún afgr. málið með hliðstæðum hætti og Nd. Ég vil nú leyfa mér að benda á, að það er nokkur aðstöðumunur milli d. að þessu leyti. Þetta frv. er 166. mál þingsins. Það hefur verið alllengi á leiðinni gegnum Nd., svo að það er augljóst mál, að sá tími, sem Ed. er skammtaður til þess að fjalla um þetta mál, er miklu naumari en Nd. hefur haft til umráða, þannig að það getur í raun og veru ekki verið um það að tefla, að það sé hægt að tala um, að málið fái hér afgreiðslu með hliðstæðum hætti og í Nd. En þetta brennur nú við um fleiri mál, að þau eru, að því að mér virðist, nokkuð lengi að velkjast sum hver í hv. Nd. og hv. Ed. er ætlaður nokkuð skammur tími til að afgreiða málin, þó að stór mál séu. En þrátt fyrir það, þó að þessu sé þannig háttað og tíminn naumur, sem ætlaður er þessari hv. d. til að fjalla um þetta mál, þá vil ég lýsa því yfir og get lýst því yfir fyrir minn flokk, að við viljum vinna að því, að þetta mál fái afgreiðslu á þessu þingi, og munum greiða fyrir því, eftir því sem í okkar valdi stendur.

Ég á sæti í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, og skal ég ekki fara að ræða það sérstaklega. Ég vil þó aðeins segja það, að ég álít þetta frv. hafa að geyma umbætur á eldra skipulagi, og ég felli mig vel við þá meginhugsun, sem það er byggt á, þ. e. a. s. að opna fleiri námsbrautir, ef svo má segja, og auka valfrelsi í þessum greinum. Ég verð að segja það eins og er, að mér hefur staðið stuggur af og mér stendur stuggur af því að binda okkar menntunarkerfi í svo fastar skorður, að eiginlega sé verið að kenna öllum svo að segja það sama og að það sé verið að steypa alla einstaklinga í sama mótið. Ég held, að við þurfum einmitt að sníða okkar kerfi við það að vinna heldur að því að koma sérhverjum einstökum einstaklingi til nokkurs þroska. Þess vegna fagna ég einmitt þeirri grundvallarhugsun, sem mér virðist þetta frv. byggt á, og skal svo ekki frekar fara út í það að ræða efni þess og þau atriði, sem hv. menntmrh. vék að. En ég tel sem sagt frv. til bóta og tel sjálfsagt að greiða fyrir því, að það fái afgreiðslu á þessu þingi. Það er líka svo, eins og gerð var grein fyrir, að það er ekki nema rammalöggjöf, sem þarna er um að tefla, og það verður að fylla út í hana með reglugerðum eða öðrum fyrirmælum framkvæmdavaldshafa, og fer auðvitað mikið eftir því, hvernig til tekst um þau fyrirmæli, hvernig gengur.

En í sambandi við meðferð þessa máls í Nd. var sett fram ósk af hálfu Kvennaskólans í Reykjavík um það að fá réttindi til þess að útskrifa stúdenta. Mér hefði þótt eðlilegast, að ákvæði um það hefðu verið tekin upp í þetta frv. Það sjónarmið var þó ekki ríkjandi í menntmn. hv. Nd., heldur sneri hún sér með málaleitan í þessu sambandi til menntmrh. og gerði honum grein fyrir málinu, og árangurinn af því hefur í stuttu máli orðið sá, að nú í dag hefur einmitt verið lagt fram frv., sem flutt er að vísu af menntmn. Nd., um réttindi Kvennaskólans í Reykjavík til þess að útskrifa stúdenta. Ég er því eindregið fylgjandi, að kvennaskólanum verði veitt þessi réttindi. Ég álít, að það sé eðlilegt, að þau réttindi séu veitt honum nú, vegna þess að það stendur nokkuð sérstaklega á í því sambandi, og skólinn mun innan skamms eiga merkisafmæli, og væri ánægjulegt, ef hann á því merkisafmæli gæti útskrifað sína fyrstu stúdenta. Eins og ég áður sagði, er frv. flutt af menntmn., en ekki af stjórninni, eins og þetta menntaskólafrv., en ég álít eðlilegt, að þessi mál verði samferða eða að kvennaskólafrv. verði a. m. k. ekki neinn eftirbátur menntaskólafrv. Þess vegna og vegna þess, hvernig á stendur og tíminn er svo naumur, svo sem við allir vitum, að það þarf nokkuð sérstaka fyrirgreiðslu, úr því sem komið er, til þess að mál, sem flutt eru nú á þessum tíma, nái fram að ganga, þá vil ég leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort bann muni ekki beita sér fyrir afgreiðslu kvennaskólafrv. á þessu þingi og hvort hann telji það ekki eðlilegt, að kvennaskólafrv. verði samferða, að því leyti sem unnt er, þessu menntaskólafrv. Og mér er óhætt að lofa stuðningi míns flokks við þetta kvennaskólafrv. Ef vilji stjórnarinnar er einnig til þess, að frv. nái fram að ganga, þá sýnist mér, að afgreiðsla á því ætti að vera tryggð, þrátt fyrir þótt það sé seint fram komið.