02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2509)

232. mál, lax- og silungsveiði

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er nú á dagskrá og til umr., um breyt. á l. um lax- og silungsveiði, er flókið mál og grípur inn á viðkvæm hagsmunamál einstakra manna og einnig hópa manna, sem láta sig slík mál varða af ýmsum ástæðum. Þar koma til ólík sjónarmið, bæði af hugsjóna- og hagsmunaástæðum. En hér er einnig um mál að ræða, sem varðar alþjóð, því að fiskrækt í ám og vötnum og veiði nytjafiska snertir þjóðarbúskapinn í heild.

Ekki má ganga fram hjá þeirri staðreynd, þegar fjallað er um þetta mál, að hlunnindi í veiðiám og vötnum hafa, frá því að menn fyrst settu mörk á milli bújarða sinna, verið partur af landsnytjum jarðanna, veiðin verið eins konar hluti jarðanna, óaðskiljanlegur frá þeim, og það svo, að sumar jarðir voru og eru raunar enn í dag óbyggilegar, ef þeim fylgdi ekki fiskveiði í ám og vötnum, sem þær eiga hlutdeild í. Þess vegna er það mjög viðurhlutamikið verk, þegar löggjafarvaldið tekur sér fyrir hendur að færa til þessi hlunnindi með löggjafarákvæðum, minnka veiðimöguleika hjá sumum jörðum, sem alla tíð hafa búið við betri veiðiskilyrði en aðrar, og auka með einum eða öðrum hætti hjá öðrum á kostnað hinna fyrrtöldu. Ýmsir vilja halda því fram, að í einu og sama vatnahverfi hljóti allir, sem land eiga að á, læk eða vatni, að eiga fiskinn sameiginlega, sem um þann ós gengur, er flytur þessi vötn til sjávar. Þetta er að mínum dómi langt frá því að vera rétt, því að skilyrðin til veiðiskaparins eru ólík og misjöfn eftir því, hvernig til hagar á hverjum stað, og eftir því, hvar er á vatnasvæðinu.

Ég tel mig vera nokkuð kunnugan þessu á Suðurlandi, þar sem hin stóru vatnasvæði eru, og á ég þá sérstaklega við Ölfusár-Hvítársvæðið í Árnessýslu. Segja má, að öll vötn í Árnessýslu falli að einum ósi, þar sem er álfusárós. Í þetta vatnasvæði gengur oft mjög mikið af laxi. Ef ekki væri veitt í net í Ölfusá og Hvítá, yrði þessi mikla laxamergð að tiltölulega litlum notum, en mörg tonn af laxi úr Ölfusá og Hvítá eru árlega flutt til annarra landa fyrir gott verð og gefa í þjóðarbúið allgóða upphæð í gjaldeyri. Alveg sama er að segja um Þjórsá, að þar nýtast veiðihlunnindin ekki nema með því, að veitt sé í net. Það er óhugsandi að nýta veiðihlunnindin í Þjórsá á annan hátt. En þótt þessar stórár séu svona gjöfular, er aðstaða jarðanna við þessar ár til þess að njóta hlunnindanna mjög misjöfn, og hafa þar sumir lítið og aðrir jafnvel ekkert, og hefur svo verið frá fyrstu tíð. Þennan aðstöðumun telja sumir menn að eigi að jafna með félagsveiði og arðsúthlutun, sem minnki bilið milli jarðanna. Var töluvert gengið í þá átt, þegar síðast var gerð arðskrá fyrir allt þetta mikla vatnasvæði, Ölfusár- og Hvítársvæðið, sem Veiðifélag Árnesinga nær yfir. Ég tel hins vegar, að slík stefna sé ákaflega hæpin og hún byggist á skökkum forsendum, þó að segja megi, að jöfnuður sé alltaf fagurt hugtak í sjálfu sér. En ég lít svo á, að hver jörð eigi að njóta eða gjalda sinna náttúruskilyrða, alveg á sama hátt og menn njóta dugnaðar síns eða gjalda að nokkru ódugnaðar. Félagsveiði var um 20 ára skeið stunduð á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár, og hver jörð fékk arð eftir arðskráreiningum sínum. Útkoman varð sú, að flestir fengu svo lítið út úr þessu, að litlu máli skipti, hvort þeir fengu þennan arð, sem þeim var úthlutað, eða þeir fengu hann ekki. Það skipti menn litlu máli, meðan félagsveiðin var stunduð. Félagsveiðin var stofnuð í þeim tilgangi að jafna aðstöðu veiðiréttareigendanna til þess að fá arð af veiðirétti sínum, og svo átti með þessu að auka laxgengdina. Það var einn þátturinn í þessu starfi. Það átti að auka laxgengdina og koma í veg fyrir ofveiði, sem margir héldu, að hætta væri á, ef allir væru að fást við veiðiskap. Vonir manna um árangur af þessu brugðust algjörlega, og þess vegna var horfið aftur að því ráði að hver veiddi fyrir sínu landi, annaðhvort í net eða leigði fyrir stangarveiði. Veiðin hefur farið mjög vaxandi í jökulánum í netin, en það hefur ekki, dregið úr fiskgengd í bergvatnsárnar, heldur mun fiskur ekki hafa síður gengið í þær en áður.

Í hvert sinn sem laxveiðilög eru endurskoðuð virðist áhugi flestra, sem um það mál fjalla, beinast að því að takmarka veiði í net og helzt útiloka þá veiðiaðferð. Þó er vitað af reynslunni, að sú veiðiaðferð í hinum stóru og vatnsmiklu jökulám hefur ekki gengið á fiskstofninn, svo sem skýrslur sanna, og liggja fyrir nægar skýrslur til að sanna það. Það er líka vitað, að hlunnindi þessara vatnsfalla verða ekki nýtt á annan arðgæfan hátt, því að stangaveiði í jökulvatni er lítil. Því veldur hið mikla vatnsmagn jökulánna og hinn mikli jökulkorgur, sem þær flytja. Og eins og allir vita, eru net eitt af elztu veiðitækjum sem til eru, það er eitt af elztu veiðitækjum, sem menn hafa fundið upp, og netaveiddur lax er mjög verðmæt og eftirsótt vara til útflutnings, en lax veiddur á stöng er í litlu verði til útflutnings og gefur því laxveiði á stöng ekki gjaldeyri, sem neinu nemur, nema því aðeins að um sé að ræða miklar leigur til erlendra manna, sem verða að greiða í erlendum gjaldeyri. Útfluttur stangaveiddur lax er í mjög lágu verði á markaði, en hins vegar selst sá lax, sem veiddur er í net, fyrir mjög hátt verð erlendis. Eins og ég sagði, beinist áhugi flestra að því að útiloka netaveiðina, og það er af eins konar, að ég hygg, misskildum ótta við það, að hún fremur en önnur veiðiaðferð útrými fiskstofninum. Í laxveiðilögunum, sem sett voru 1932, var friðunartíminn fyrir netaveiðina 60 klst. á viku. Þegar þau l. voru endurskoðuð, sem var raunar 1947, þá var ekki friðunarákvæðunum breytt, en þegar þau voru endurskoðuð 1957, var friðunartíminn færður úr 60 klst. upp í 84 klst. á viku, og nú á með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að auka þennan friðunartíma enn og nú upp í 96 klst. á viku. Ef það nær fram að ganga, hefur friðunartíminn fyrir netaveiði verið lengdur síðan 1957 um 60%. Ég verð að telja, að hér sé mjög langt gengið á eignarrétt manna, og vil ég þó og mun styðja, að fullrar varkárni sé gætt í sambandi við netaveiði og raunar alla veiði, því að fleiri veiðiaðferðir en netaveiði eru hættulegar. Það má einnig og kannske fremur á margan hátt spilla veiði með öðrum aðferðum. Menn virðast ekki óttast, að stangaveiði geti verið fiskstofnum neitt sem talizt geti hættuleg. Þó vita allir, að vatnslitlar og spegiltærar bergvatnsár, þar sem hver fiskur er sjáanlegur augum veiðimannsins, eru lítil vörn fyrir fiskinn með þeirri veiðitækni, sem nú er hægt að beita, þó að engin net séu höfð í spilinu. Jökulárnar leyna hins vegar vel með sínum mikla, litaða vatnsflaumi þeim fiski, sem þar á veg um eða þar dvelst í hyljum eða álum. Ég tel, að með þeim mjög svo lengda friðunartíma, sem lagt er til að lögfesta með þessu frv. fyrir netaveiði, og öðrum þeim hindrunum fyrir slíkri veiði sem nú eru í l., sé mjög gengið á eignarrétt þeirra bænda, sem búa við jökulárnar og ekki hafa aðra möguleika til þess að nytja hlunnindi sín en veiða í net.

Það er sjálfsagt að vernda sem bezt öll gæði landsins og gæta hófs um að veiða fiskinn í ám og vötnum, og ég skal verða síðastur manna til að mæla á móti slíku. En það er hægt að ganga svo langt, að það geti valdið beinum skaða, því að sjálfsagt er að nytja landgæðin að því, marki sem nauðsynlegt er, án þess að ganga á þau um of, enda á líka klak og eldi seiða, sem sleppt er í árnar, að vega á móti því, sem tekið er, og er slík kostnaðarsöm ræktun til lítils, ef hennar sér ekki nokkurn stað. Mér er óhætt að fullyrða, að klakið, sem Veiðifélag Árnesinga hefur séð um og sett í vatnasvæðin, hefur átt mikinn þátt í vaxandi veiði á því svæði. Félagið er núna nýbúið að reisa stóra klakstöð, sem á að geta framleitt 3 milljónir seiða á ári, og þar að auki vera hægt að geyma þar klaklax í þremur þróm sem allar ná þvert yfir þetta mikla hús, svo að þar hafa verið sköpuð gífurlega mikil skilyrði til fiskræktar með því að reisa þetta mikla og vandaða klakhús, sem byggt var undir Ingólfsfjalli s. l. sumri í landi jarðarinnar Laugarbakka. Þetta var mjög kostnaðarsamt fyrirtæki, en það á að geta aukið veiði á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár. En vera kann, að það verði að minna gagn fyrir þá, sem lagt hafa í þetta kostnaðarsama fyrirtæki, en til var ætlazt, ef svo fara leikar, að kvæði í þessu frv., sem gera ráð fyrir hinum lengda friðunartíma fyrir netin, verða gerð að lögum. Friðunartíminn er nú, eins og ég hef áður drepið á, hálf vikan, 84 klst., en það á að auka hann nú með frv. í 96 klst. Það er um 15% aukning frá því, sem var, og er það allmikið, þess er gætt, að áður var með lögum 1957 friðartíminn aukinn um 45%. Ég álít, að hér sé gengið feti framar en skynsamlegt geti talizt. Fiskurinn hefur áreiðanlega haft greiðan gang til þess að komast um vatnasvæðið og dreifa sér um það, þegar hann hefur haft í hverri viku hálfa vikuna, getað ferðazt um vatnasvæðið hálfa vikuna án nokkurrar hindrunar af netum.

Með þessari friðunaraukningu, sem núna er fyrirhuguð í þessu frv., verða hlunnindi þeirra, sem ekki geta veitt fisk nema í net, — en jökulárnar bjóða ekki upp á aðrar aðferðir til veiði,— þessi hlunnindi verða skert að mun og það á sama tíma og komin er af stað stóraukin klakstarfsemi, sem auðvitað kostar stórfé, eins og ég var áðan að drepa á, að Veiðifélag Árnesinga hefur nú með höndum.

Ég verð að álíta, að þeir, sem leggja þetta til, fari ekki nógu búmannlega að ráði sínu, og vil vona, að hv. landbn., sem mun fá þetta mál til meðferðar, athugi þetta atriði mjög vandlega og hv. alþm. yfirleitt skoði málið vandlega, áður en þeir fallast á hinar auknu friðunartillögur fyrir netaveiðinni, a. m. k. hvað snertir vatnasvæði Ölfusár og Hvítár og Þjórsár, og ég hygg, að það gildi nokkurn veginn það sama um Hvítá í Borgarfirði. Vera kann, að svo sé víðar, en þetta munu þó vera aðalsvæðin, sem um er að ræða, sem ekki verða verulega nýtt til gagns fyrir eigendur og fyrir þjóðarbúið með öðrum hætti en þeim að taka þar fisk í net á tímabili sumarsins. Veiðitíminn er skv. l. nú og á að vera áfram skv. því frv., sem hér liggur fyrir, að ég hygg, 3 mánuðir á sumri hverju. Og þá er naumast um að ræða nema 2 mánuði af þessum tíma fyrir þá, sem í net veiða, sú hefur a. m. k. verið reynslan. Það er hvort tveggja, að úr því að kemur fram í miðjan ágústmánuð, er veiði í net farin svo að minnka, að ekki er eftir miklu að slægjast úr því, og svo hitt, að laxinn fer þá venjulega að breyta svo útliti og gæði hans að rýrna, að hann er úr því mjög léleg og verðlítil verzlunarvara, borgar sig yfirleitt ekki að stunda veiði, úr því að kemur fram í miðjan ágústmánuð. Verði horfið að því ráði, sem lagt er til í þessu frv., að lengja friðunartímann enn fyrir netaveiðina úr hálfrar viku friðun í 96 klst. á viku, sé ég ekki annað en margir bændur verði alveg að hætta veiði og tapi þess vegna alveg hlunnindum jarða sinna af laxveiðum.

Netaveiði kostar allverulega fjárfestingu. Menn skyldu gera sér það ljóst, að hún kostar allverulega fjárfestingu fyrir utan mikla vinnu, sem hver veiðibóndi verður að leggja fram. Netin eru dýr, bátar kosta allmikið fé og þurfa viðhald, og annar útbúnaður kostar einnig fé. Veiðitækin munu kosta hið sama, þó að veiðitíminn styttist. Það verður enginn sparnaður í sambandi við veiðitækin, þó að veiðitíminn styttist, og vinnan við allan undirbúning verður einnig sú sama. Jökulárnar bera oft mikil óhreinindi í netin og í látrin, og allt þetta þarf að hreinsa og undirbúa, áður en lagnirnar eru settar niður. Þetta kostar alveg sömu fyrirhöfnina og jafnmikið fé, þó að veiðitíminn sé svo styttur sem gert er ráð fyrir í frv., eins og þó að hann væri lengri. Þess vegna geri ég ráð fyrir því, að ef svo fer, að veiðitíminn verði styttur svona mikið, eins og gert er ráð fyrir í frv., þá verði ýmsir bændur að yfirgefa það að nytja laxveiðihlunnindi sín, þeir sem búa með jökulánum á Suðurlandi. Hinir, sem áfram halda við laxveiði í netin, verða auðvitað einnig fyrir stórskaða, og jarðir allra þessara manna stórfalla í verði. Þar við bætist svo það, að sveitarfélög þau, sem fyrir þessu verða, missa tekjur við það, að draga skuli úr þeirri tekjuöflun hjá hlutaðeigandi bændum, sem þeir hafa áður haft, svo sem gert er ráð fyrir með þeirri rýrnun á þessum hlunnindum, sem hlýtur að verða, ef þetta nær fram að ganga. Ég get ekki betur séð en hinn lengdi friðunartími fyrir netaveiðinni, sem frv. gerir ráð fyrir, leiði af sér óbeina og lævíslega eignaupptöku fyrir þeim bændum, er búa við þau hlunnindi að hafa getað drýgt tekjur sínar með því að veiða laxfiska í net. Þeir munu missa verulegar tekjur og ekkert kemur á móti. Jarðir þeirra munu falla í verði og tekjuöflun viðkomandi sveitarfélaga rýrna til muna. Þetta verður afleiðingin. Sjálfsagt er til þess ætlazt, að hlutur einhverra annarra batni að sama skapi við þessar aðgerðir. En í því hygg ég, að menn verði fyrir miklum vonbrigðum. Ég hygg, að það nái ekki tilgangi sínum sú hugsun að bæta hlut annarra, og því er nú miður, að það getur þó ekki einhver haft gott af þessu.

Með stjórnarskránni á eignarrétturinn að vera friðhelgur, og ef almannaheill krefst þess, að það verði að taka af mönnum eignir eða rétt til afnota af eignum þeirra, eiga þeir að fá fullar bætur fyrir. Ég tel því alveg víst, að ef veiðiréttur þeirra bænda, sem ekki geta haft not af veiðihlunnindum sínum í ám og vötnum nema á þann hátt að veiða í net, verður rýrður eða af þeim tekinn, þá muni hið opinbera, ríkið sjálft, verða að bæta slíkt tjón með stórfelldum fébótum. Ég hef að vísu tekið eftir því, að í 56. gr. frv. er nýtt ákvæði um skaðabótaskyldu til þeirra, sem verða fyrir tjóni af framkvæmd á ákvæðum, sem samkv. frv. verða að lögum, ef þau ná samþykki. Er þessi skaðabótaskylda nú lögð á eigendur veiðiréttar í fiskihverfi því, sem í hlut á, eftir ákvörðun matsnefndar, eins og frá þessu er gengið í þessari 56. gr. Í núgildandi lögum er skaðabótaskyldan lögð að hálfu á ríkissjóð og að hálfu á hlutaðeigandi sýslusjóð. Ég er ákaflega hræddur um, að það sé mjög hæpin lagasetning, svo að ekki sé nú meira sagt, að ætla einhverjum mönnum, sem eru í sama fiskihverfi, að borga öðrum í því sama fiskihverfi skaðabætur fyrir eignatjón, sem þeir verða fyrir af setningu laga, ekki sízt ef það nú kemur í ljós, að þessir aðrir eigendur veiðiréttar í fiskihverfi því, sem í hlut á, hafa ekkert bætt sinn hlut við það, að hlunnindin voru rýrð hjá öðrum í fiskihverfinu eða af þeim tekin. Og hvenær og hvernig verður það sannað, að annarra hlutur hafi svo batnað, að þeir eigi að borga skaðabæturnar? Ég hygg, að í mörgum tilfellum geti orðið erfitt að sanna slíkt. Og ætli það geti ekki orðið erfitt að innheimta þetta fé, jafnvel þó að lögtaksheimild sé fyrir hendi í frv.? Ég er ákaflega hræddur um, að það gæti orðið erfitt að innheimta slíkar skaðabætur hjá ýmsum aðilum, og ég vil þess vegna eindregið biðja n., sem málið fær til meðferðar, að athuga þetta atriði mjög vandlega.

Þá vil ég taka það fram, að ég tel, að það geti reynzt varhugavert í sambandi við ákvarðanir í veiðifélögum, að menn geti haldið áfram að skipta jörðum sínum í mörg lögbýli til að fjölga atkv. í veiðifélaginu og veiðitækjum eða veiðivélum í ám eða vatni. Mér virðist, að þessi ákvæði standi óbreytt í þessu frv. og það sé ekki ætlazt til, að þeim verði breytt. Ég álít, að þarna séu mjög varhugaverð ákvæði í l., eins og þau eru núna, og þyrfti að breyta til batnaðar. Eins og l. eru núna, geta menn skipt niður jörðum sínum, fjölgað atkv. í veiðifélögum og einnig um leið fjölgað veiðivélum fyrir landi þeirrar jarðar, sem skipt hefur verið í fleiri býli. Ég hygg, að þetta hafi talsvert átt sér stað, og mér sýnist, að það hafi ekki verið neitt sett undir þennan leka í frv. Mér hefur skilizt, að margir séu að komast á þá skoðun, að ekki sé heppilegt upp á framtíðarþróun búnaðarmála, að jarðir séu brytjaðar niður í smábýli, og ég get vel fallizt á það sjónarmið. Ég álít, að atkvæðisrétturinn í veiðifélögunum verði þess vegna að vera bundinn við einhverja ákveðna stærð jarðar, en megi ekki miðast við, að hver maður, sem nær með einhverjum hætti og við margskiptingu jarðar eignar- eða ábýlisrétti, geti skilyrðislaust að öðru leyti eignazt atkvæðisrétt og þá um leið með hverju nýju lögbýli fjölgað veiðitækjum. Ég hygg, að atkvæðisréttinn ætti kannske að miða við jarðirnar eins og þær voru, þegar l. voru upphaflega sett árið 1932, a. m. k. ekki seinna en 1940.

Veiðimál eru, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, viðkvæm mál og vandmeðfarin og ég álít, að það sé eitthvert það vandamesta löggjafaratriði, sem Alþingi fær til meðferðar, að setja skynsamleg lög um notkun fiskivatna og veiðiréttar í ám og vötnum hér á landi og ganga svo frá, að menn geti sæmilega við það unað. Veiðihlunnindin eiga að mínum dómi að fylgja jörðunum, eins og þau hafa frá fornu fari gert. Það á að auka og efla þessi hlunnindi með vísindalegum hætti, og stuðlar þetta frv. að því að vissu leyti. Ég skal taka undir það og játa það, að frv. gengur á ýmsum sviðum í rétta átt, m. a. með stofnun fiskræktarsjóðsins, sem ákvæði er um í frv., og mun ég geta stutt það af heilum hug. Ég tel, að eitt hið nauðsynlegasta í veiði- og fiskræktarmálum sé öflugt eftirlit með því, að lögum og reglum um veiðina sé hlýtt í einu og öllu og komið sé í veg fyrir skemmdarstörf í ám og vötnum. Ef löggjafinn setur þjösnalegar reglur, sem eigendum veiðiréttar þykja óréttlátar og ganga um of á sinn rétt, þá er hætta á því, að erfitt reynist að gæta þess, að þeim verði í öllu hlýtt. Það er kunnugt, að í okkar stóra og strjálbýla landi er erfitt um alla gæzlu með veiðiám og vötnum og slík gæzla kostar mikið fé. Ég tel þess vegna skynsamlegast, að það sé farið með fullri gát og kosti veiðiréttareigenda verði ekki þröngvað svo, að þeir telji gengið á sinn rétt umfram það, sem þjóðhagslega er nauðsynlegt. Hvert veiðisvæði á að mínum dómi að hagnýta á þann hátt, sem bezt samrýmist hagsmunum eigendanna og því markmiði að vernda hlunnindin fyrir ofnotkun. Þeir, sem njóta arðs af þessum hlunnindum, og hinir, sem njóta fyrst og fremst yndis af því að veiða, þurfa að skilja hverjir aðra og taka hæfilegt tillit hver til annars. Þetta sjónarmið verður löggjafinn að hafa í huga, þegar hann setur ný lög, svo að sem flestir geti orðið sæmilega ánægðir eða a. m. k. við þetta unað. Svo bezt getur þjóðin öll haft full not af gæðum landsins á því sviði, sem hér er um að ræða, að það sé tekið tillit til þeirra, sem hlunnindin eiga, þess þjóðarhags, sem þau geta veitt, og þess yndis, sem fjöldi manna hefur af því að taka þátt í veiðiskap.

Þá langar mig að lokum að fara fáum orðum um 20. gr. frv., þar sem segir: „Skylt er mönnum að gera með sér félagsskap um skipulega veiði í hverju fiskihverfi, svo fljótt sem kostur er. “ Um þetta ákvæði frv. er sagt í aths., með leyfi forseta: „Hér er kveðið á um eitt aðalefni frv., þ. e. að mönnum skuli skylt að stofna veiðifélög í fiskihverfi hverju.“ Það er eins og höfundar frv. séu stoltir af þessu nýja lagaákvæði, sem ég held að sé einsdæmi í lagasmíði. Ég hef aldrei heyrt lagða þá skyldu á nokkurn mann með lögum, að hann sé skyldugur til þess að stofna félag. Ég held, að þarna sé um brot að ræða á persónufrelsi því, sem íslenzkum mönnum á að vera tryggt með stjórnarskránni. Ég er síður en svo á móti því, að menn gangi í félög, og tel, að slíkt sé eðlilegt í þeim tilfellum, sem hér er átt við, en þó því aðeins, að meiri hl. manna t. d. í fiskihverfi, eins og hér er um að ræða, vilji slíkt af frjálsum vilja. Ég hygg, að ekkert gott geti af því leitt að þvinga menn til slíks. Og ég ætla ekki að öfunda veiðimálastjórann af því að koma slíkum félagsskap á, en hann mun eiga að sjá um þetta, koma þeim félagsskap á, sem hér um ræðir, þar sem meiri hluti manna og kannske allir í sumum tilfellum eru slíku mótfallnir. Og hvernig skyldu höfundar þessa frv. hugsa sér, að það verði hægt að fá menn til þess að starfa í veiðifélagi og stjórna því, ef þeir vilja ekki hafa með sér slíkan félagsskap? Ég hef staðið í þeirri meiningu, að félagsskap sé ekki hægt að hafa, nema viljinn til slíks komi að innan frá hjá mönnum, a. m. k. hjá meiri hl. á hverjum stað. En hér er gert ráð fyrir lagaskyldu í þessu efni og skipunum um það frá veiðimálastjóra. Mér finnst þetta ákvæði frv. minna á það, sem gerist hjá einræðisherrum, sem stjórna með tilskipunum og líta á þegna sína sem eign, líkt og um skepnur væri að ræða. Mér finnst það svo fráleitt að setja þetta í lög. Ég vona, að Alþ. láti það ekki henda sig að lögfesta þetta fáránlega ákvæði um, að menn séu skyldugir að stofna veiðifélög, hvort sem þeir vilja eða ekki. Hitt er allt annað mál, að stuðla að slíku, stuðla að því að stofna veiðifélög, þar sem vilji er til slíks, og að reynt sé að glæða þann vilja, þar sem hann er daufur fyrir í þeim efnum og menn telja nauðsyn á slíkri félagsstofnun. Með frjálsum hætti eru líkur til árangurs, en ekki með nauðung, þar sem um það gæti verið að ræða, eins og menn ímynda sér, að væri sums staðar. Ég þekki t. d. tvö dæmi um það, að það hefur hvað eftir annað verið reynt að stofna veiðifélög í fiskihverfi, og það hefur ekki verið hægt, vegna þess að menn hafa ekki viljað það. En nú ætti að gera þetta með lagaboði. Ég held, að það sé ekki mikils eða góðs árangurs að vænta af slíku. Þetta er eitt af því, sem ég vildi nú biðja hv. n. að líta á og hvort mönnum gæti ekki sýnzt líkt og mér, að þarna væri um atriði að ræða, sem þyrfti að breyta í frv.

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að taka fleiri þætti þessa máls til athugunar að þessu sinni, en þrátt fyrir það, þó að mér væri kunnugt um það, að málið mundi ekki eiga fram að ganga núna, og heyrði yfirlýsingu hæstv. landbrh. um það, þá vildi ég ekki láta það dragast að láta þessi atriði koma fram, sem ég hef drepið á hér.