28.10.1968
Neðri deild: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2521)

24. mál, almannatryggingar

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Breytingar þær, sem hér er lagt til að gerðar verði á almannatryggingal., eru efnislega tvær: að atvinnuleysisbætur skerði í engu bótarétt manna til almannatrygginga né einstæð móðir missi mæðralaun sín, þótt hún verði öryrki og hljóti þar af leiðandi örorkubætur.

Um fyrra atriðið skal þetta tekið fram: Atvinnuleysistryggingar og almannatryggingar eru óskyld tryggingakerfi, þar sem bótaréttur byggist á ólíkum forsendum í meginatriðum eða í þeim tilvikum, sem hér hafa helzt komið til bótatakmarkana, eins og l. eru nú, annars vegar vinnutap, hins vegar aldur eða örorka. Virðist harðleikið af löggjafanum, meðan þjóðin telur sig ekki geta greitt hærri elli- og örorkulífeyri en nú er, að ellilífeyrisþegi eða örorkulífeyrisþegi, sem þrátt fyrir aldur sinn eða örorku freistar þess að vinna hörðum höndum, meðan hann orkar, en missir svo atvinnu vegna atvinnuskorts, missi auk vinnunnar líka rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Kunna þeir, sem hafa haft með höndum framkvæmd laga þessara, mýmörg dæmi þess, hve ranglátlega þetta getur komið niður.

Um síðari breytinguna, sem hér er lagt til að gerð sé á almannatryggingalögunum, þá, að einstæð móðir missi ekki rétt sinn til mæðralauna, þótt hún sé eða verði öryrki, þarf ekki að hafa mörg orð. Mun þessi óréttur hafa lent inn í l. vegna óaðgæzlu í skilgreiningu, því að svo augljóst er það, að einstæð kona, sem hefur barn eða börn á framfæri sínu og verður öryrki, er verr sett eftir en áður í lífsbaráttunni, þótt örorkulífeyri fái, en meðan hún hefur vinnugetu sína óskerta. Og því er augljóst óréttlæti að svipta hana mæðralaunarétti við þær aðstæður.

Þó að hér séu ekki gerðar fleiri till. um breytingar á almannatryggingal., er raunar augljóst mál, að brýn þörf er orðin á gagngerðri endurskoðun þeirra. Er hér t. d. minnt á, að aðkallandi er að taka inn í almannatryggingalög tryggingarákvæði um þá, sem nauðsynlega verða að leita sér læknishjálpar erlendis, en þar sem Alþ. samþykkti s. l. vetur þál. varðandi endurskoðun á því atriði, er því ekki blandað hér inn í, með von um, að árangur þeirrar endurskoðunar komi innan tíðar fyrir Alþ. til samþykktar.

Ég legg svo til, að frv. verði afgreitt til 3. umr. og vísað til heilbr.- og félmn.