17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

115. mál, verðlagsmál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í þessum umr., en það eru aðeins örfáar setningar út af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði. Ég vil fyrst segja, að það er ekki stefna Framsfl. að afnema verðlagseftirlit, eins og nú standa sakir, en á hinn bóginn höfum við ekki neina tröllatrú á verðlagseftirliti og teljum ýmsa ágalla á framkvæmd þess, en það er samt ekki stefna flokksins að afnema verðlagseftirlitið. Hann telur nauðsynlegt að hafa það, eins og nú er ástatt í okkar þjóðfélagi, og það kemur svo fram við atkvgr., hvernig einstakir þm. flokksins líta á þetta mál. Við höfum ekki nærri því eins miklar áhyggjur af því og hæstv. viðskmrh., þó að við kunnum að vera ósammála í Framsfl. um eitt og annað. Við höfum ekki neinar áhyggjur af því. Þess vegna grípur okkur engin skelfing, þó að það komi í ljós stöku sinnum, að við erum ekki allir þræddir upp á sama band í öllu. En það er kannske eðlilegt, að hæstv. viðskmrh. bregði í brún, þegar slíkt kemur fram, eða undrist, því að það er vitanlegt, að hans aðalstarf er fólgið í því að þræða Alþfl.-menn nauðuga upp á eitt band í öllum málum. Það er ekkert óeðlilegt, þó að maður, sem hefur þetta aðalstarf, og hefur jafnmikið fyrir því og hæstv. viðskmrh. að þræða þá upp á bandið, sé hissa, þegar hann verður var við svona undarlegt fyrirbrigði, sem sé að það skuli vera til flokkur í landinu, sem er þannig vaxinn og skipaður, að þar séu ekki allir alltaf sammála um allt, enda heyrðum við, að hæstv. ráðh. var mikið niðri fyrir, þegar hann ræddi þetta atriði.

Hæstv. ráðh. hefur hér visst hlutverk á Alþ. nú síðustu misserin, og það er að hlaupa upp af og til og halda smáskammarræðustúfa um framsóknarmenn. Ég hef engar áhyggjur af þessu. Ég segi alveg hreinskilnislega eins og er, ekki hinar minnstu, og það er m.a. eitt, sem gerir það að verkum, að ég tek þetta svona létt. Og það er þetta: Ég man vel, hvernig hæstv. viðskmrh. talaði um sjálfstæðismenn hér áður á meðan hann vann með Framsfl., og fann enga leið aðra en stuðning framsóknarmanna til þess að fá ráðherrasæti. Þá voru þeir ágætir, en aftur á móti voru sjálfstæðismenn þá svo fyrir neðan allar hellur, að róttækari lýsingar á þeim hafa víst aldrei verið fluttar á Alþ. en hæstv. viðskmrh. flutti þá. Af þessum ástæðum er ég alveg rólegur, og hef engar áhyggjur af þessu, ekki hinar minnstu, og tek þetta ákaflega létt. Ég þekki sem sé hæstv. viðskmrh., við þekkjum hann allir og vitum, hvernig hann snýr snældunni sinni, hann kann það, og það er engin hætta á öðru en að hann snúi henni öðruvísi, þegar honum finnst þess þurfa, finnst þurfa að gera það næst. Þá verða það öðruvísi ræður, sem hann flytur um framsóknarmenn, en þær sem hann flytur núna. Alveg eins og ræðurnar, sem hann flytur nú um Sjálfstfl., eru öðruvísi en þær voru á sinni tíð.

Hæstv. viðskmrh. virðist vera mjög tilfinningaríkur maður, þannig að hann færir þetta út í dálítið skrýtilegar öfgar, en það verður bara að taka hæstv. ráðh. eins og hann er. Þessi ræðuhöld ráðh. eru eiginlega orðin eins konar fastur gamanþáttur á Alþ., sem menn skemmta sér við, og það er raunar ekki of margt til upplyftingar — satt að segja — í þessari stofnun, þó að þessi þáttur verði ekki frá manni tekinn, enda vona ég, að hann flytji hér á eftir einn pistil í viðbót.