04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

25. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og hv. aðalflm. hefur rifjað upp, varð nokkur ágreiningur um þetta frv., þegar það var flutt á síðasta þingi. Ég skal ekki rekja þann ágreining í einstökum atriðum né fara aftur yfir þær aths., sem ég þá bar fram við frv. Það er rétt, að ýmis atriði frv. eru tvímælalaust til bóta, en ég leyfi mér hins vegar mjög að draga í efa, að ákvæðin varðandi meginbreytinguna, þ. e. a. s. um fyrirkomulag útvarpsumr., séu viðhlítandi.

Hv. aðalflm. gat þess, að frv, fylgdi grg. um útvarpsumr. í ýmsum þingum og sagði, að þær væru með mjög mismunandi hætti. Nú játa ég að vísu á mig þá vanrækslu, að ég hef ekki lesið þessa skýrslu aftur, en ef ég man rétt, hygg ég, að komið hafi fram í henni, að slíkt fyrirkomulag eins og hér tíðkist hvergi. Og ég þori enn að fullyrða og hef staðfestst í þeirri skoðun minni, sem ég hef lengi haft, að sá háttur á útvarpsumr., sem á að verða aðalreglan einnig eftir þessu frv., þessar tilbúnu umr. frá Alþ. séu mjög óheppilegar, að fátt hafi orðið til þess frekar að draga úr virðingu almennings fyrir þinginu og ekkert til þess að skapa meiri misskilning almennings á því, hvað hér í raun og veru gerist og hvernig störfum er háttað.

Út af fyrir sig getur það vel komið til greina, ef menn vilja, að stjórnmálaflokkar öðru hverju fái færi á því að ræða deilumál sín í útvarpi. En það er með öllu ástæðulaust að tengja þær umr. við Alþ. á sama hátt og verið hefur, enda hygg ég, að svo sé hvergi gert á byggðu bóli nema hér. Annars vegar er útvarpað öllum umr., sums staðar alveg öllum umr., sums staðar um sérstök málefni eða, — og það hygg ég, að sé tíðast og sé að vinna á, — að fréttastofnanir fá heimild þingsins til þess að velja það úr umr., sem þeim þykir sérstaklega fréttnæmt og ástæða til þess, að almenningur kynnist. Það skal játað, að slíkt er miklum erfiðleikum háð. Það krefst hlutleysis og réttsýnis af þeim fréttamönnum, sem að þessu starfa, og einnig mikillar þekkingar og yfirsýnar um þingmál. En ég hygg, að þetta hafi tekizt vel. Nú fyrir fáum dögum átti ég t. d. viðræður við forseta norska Stórþingsins um það, hvernig þetta hefði tekizt í Noregi, og það er þeim mun athyglisverðara, það sem hann sagði, þar sem nú fyrir tiltölulega fáum árum tók ný stjórn við í Noregi, nýr aðalforseti þingsins eftir langvarandi stjórn annars flokks. Forseti Stórþingsins sagði mér, að það væri enginn vafi á því, að þar hefði tekizt vel það úrval, sem fréttamenn hefðu gert. Það væri svo, að almenningur hlustaði á það, sem sagt væri, og þingflokkar hefðu yfirleitt ekki borið fram kvartanir yfir því, að ranglega hefði verið valið. Hitt kynni að vera, að einstakir þm, kvörtuðu undan því, að ekki væru valin einmitt þeirra orð, en í heild væri viðurkennt af öllum, að þarna fengist rétt mynd af því, sem gerðist í þinginu. Ég þori aftur á móti að fullyrða, að núverandi fyrirkomulag útvarpsumr. gefur algerlega ranga mynd af þinginu. Og þess vegna er það mér kappsmál, að slíkt útvarp sé fellt niður, ekki til þess að almenningur fái minni fréttir af þingi og eigi síður kost á að fylgjast með því, sem hér gerist, heldur en áður, heldur að það, sem flutt er, verði í aðgengilegri búningi, það verði raunveruleg frásögn og mynd af því, sem hér gerist, en ekki þær tilbúnu umr., sem hér hafa tíðkazt nú alllengi. Þetta er það aðalatriði, sem menn þurfa að reyna að koma sér saman um. Og ég hef ekki trú á því, að þetta mál verði leyst nema með samkomulagi milli flokka. Ég tel ekki, að það sé hyggilegt né til þess sé grundvöllur, að um þetta sé tekin flokksleg ákvörðun innan þingsins. En ég hygg, að n. hefði betur gert í því efni að kanna betur, hvort ekki var möguleiki á því að fá samkomulag um gjörbreytingu í þessu efni.

Hitt held ég, að sé alger ofrausn, að ætla að halda þessu hvoru tveggja, annars vegar að hafa í stórum dráttum hið sama fyrirkomulag og verið hefur, að vísu miklu styttra en lagastafurinn segir til, en ívið styttra en framkvæmdin hefur orðið. Það er bitamunur, en ekki fjár, breytir ekki þeirri heildarmynd, sem menn fá af störfum hér. Ég held það sé ofrausn að ætla að halda þessu, en innleiða hitt einnig. Ég held, að við eigum að hafa kjark til þess að yfirgefa það, sem illa hefur tekizt, og taka upp alveg nýja skipan, það eitt sé skynsamlegt. Við sjáum líka, að hæpin er sú till. n. að breyta nokkuð til um það, hverju útvarpa eigi, sem kemur fram í því, að það eigi í upphafi þings að útvarpa stefnuskrárræðu forsrh. Ég vakti athygli á því á síðasta þingi, að hér er um algera nýlundu að ræða. Slík ræða hefur raunar verið haldin örsjaldan hin síðustu ár. En að þessu sinni þótti ekki hyggilegt að efna til slíkra umr. í upphafi þingsins þegar vegna þeirra almennu samninga, sem eiga sér stað á milli allra stjórnmálaflokkanna. Það hefur engin aðfinning komið fram enn yfir því, að umr. var ekki höfð. Ég geri ráð fyrir, að það sé vegna þess, að menn hafa talið, að það væri ekki skynsamlegt að efna til slíkrar umr., fyrr en sýnt er, hvernig fer með þá samninga. Nú líður senn að því, að þeim ljúki, og á hvern veg sem það verður, þá er eðlilegt, að þá hefjist almennar stjórnmálaumr., en þá er vitaskuld mikill munur, að það væru ófalsaðar umr. frá Alþingi og því, sem hér raunverulega gerist, fremur en sams konar tilbúnar umr. og þingskapaákvæðin hafa leitt til, að allt of oft hafa verið haldnar. Ég játa, að það er út af fyrir sig kostur að stytta þessar umr., en ég tel, að þær hafi þegar orðið þinginu til svo mikils álitshnekkis, að það eigi ekki að lögfesta þær að nýju, heldur eigi að nota tækifærið til þess að gera á þessu gerbreytingu.

Það er rétt hjá hv. aðalflm., að þetta var og er aðalefni frv. En það var einnig vikið að öðru, sem er ekki leyst á fullnægjandi hátt í frv. n., og það er varðandi fsp. Ég þori að fullyrða, að þó að segja megi, að till. um fsp. stefni e. t. v. í rétta átt að því leyti, sem þær miða að því að stytta þær umr., og er þó vafasamt, hvort þær ná tilgangi sínum að því leyti, en þá er þar einnig gengið fram hjá því, sem ég vil segja, að fyrst og fremst þarf úrlausnar við, og það er þetta, sem komizt hefur á fyrir venju, að menn geti borið fram fyrirspurnir og af hálfu stjórnarinnar gefið skýrslur algerlega fyrirvaralaust og án þess að um slíkt sé tilkynnt fyrir fram í dagskrá. Í sjálfu sér er alveg þýðingarlaust að hafa ákvæði um fsp. með takmörkuðum ræðutíma og hafa ákvæði um skýrslugjafir af hálfu stjórnvalda á Alþ., ef svo á að vera hægt, eins og venja hefur komizt á, að hafa takmarkalausar umr. þar fyrir utan. Þetta er ákaflega óheppilegt. Það getur stundum staðið þannig á, og þá er hægt að gera það með afbrigðum frá þingsköpum, að það sé með öllu óhjákvæmilegt að veita leyfi til þess að taka fyrirvaralaust upp eitthvert mál til umr. Mundi slíkt þó vera ærið sjaldgæft í framkvæmdinni. En hér þarf að komast ný skipan á. Það er fullkomið ósamræmi í þessum nokkuð löngu og ýtarlegu fyrirmælum um skýrslugjöf og fsp. og halda svo áfram þeirri venju, sem verið hefur varðandi fsp. og skýrslugjafir utan dagskrár. Mér er það ljóst um þetta eins og með útvarpsumr., að það er mjög hæpið að breyta þessu með einhliða meirihlutaákvörðun. Ég segi ekki, að það kunni ekki að því að koma, að slíkt sé réttlætanlegt. En það er hæpið, að slíkt eigi að gera, nema búið sé áður að reyna að fá um þetta samkomulag, til þess að koma betri skipan á störf þingsins. En ég tel, að mþn. hefði átt að sinna þessu atriði ýtarlegar en hún hefur gert.

Þá vil ég einnig minnast á það, sem ég lítillega drap á í fyrra við umr. um þetta mál, og það er, að ég tel, að betri skipan þurfi að koma á fyrirkomulag umr. Við vitum, að sá háttur hefur orðið, að jafnvel mikilsverð mál hafa oft verið til umr. stuttan tíma dag hvern dögum og vikum saman. Slíkt er í raun og veru ákaflega óeðlilegt. Það er langheppilegast að ljúka hverri umr. á sama degi eða á allra næstu dögum í beinu framhaldi og þjappa þannig saman umr. Með því fæst frekar líf í umr. Hún verður fréttnæmari fyrir aðra og leiðir frekar til þess, að umr. hafi einhverja þýðingu sjálf, heldur en ef sá háttur er á hafður, sem lengi hefur tíðkazt, auk þess sem þetta mundi setja skemmtilegri blæ á störf þingsins og verða til þess, að tími þm. nýttist betur en ella. Það má deila um, hvort þörf sé á beinni þingskapabreytingu til þess að koma slíku á. Sennilega er hægt að koma henni á með því valdi, sem forsetar hafa nú, með samkomulagi við alla þingflokka. En ég vil mjög eindregið beina því til hæstv. forseta, að að því verði unnið að taka upp í þessu skipulegri hátt en hingað til hefur verið.

Ég lét þess getið í fyrra og ítreka það nú, að ég hefði talið æskilegra, að mþn. hefði farið rækilegar ofan í þessi málefni en hún hefur gert, og beindi því þá til hennar, að hún héldi störfum sínum áfram. Nú hefur hún ekki gert það, heldur leggur frv. aftur fram óbreytt. Það verður þá að sjálfsögðu athugað hér í n. í Alþ. í vetur, og er ekkert við því að segja. En ég vil lýsa því yfir, að ég tel, að frv. leysi ekki þau höfuðverkefni, sem þarf að leysa til þess að fá betri skipan á þingstörf og réttari mynd gagnvart almenningi á því, sem hér gerist.