04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

25. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir ummælum hv. síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Austf., um það, að hann kvartar annars vegar undan of löngum tíma, sem fari í fsp., og vill setja allstrangar reglur til þess að stytta þann umræðutíma, þó að það sé hins vegar rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, að þessar reglur nægja í raun og veru ekki til þess, en sá er samt tilgangurinn með þeim, — ég get ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir því, að það skuli vera lögð mikil vinna í að finna slíkar reglur, en hitt skuli vera látið alveg athugasemdalaust, að halda þeim hætti, sem verið hefur, að hægt sé að koma og spyrja um hvaða málefni sem er og hvernig sem á stendur utan dagskrár og ætlast til svars, þó að oft sé þannig málum háttað, að ekki sé unnt að gefa svör nema að athuguðu máli. Í þessu er fullkomið ósamræmi. Og það er þá alveg eins hægt að láta það vera alveg opið, að fsp. sé hægt að bera fram, hvenær sem er, undir hvaða atvikum sem er. Ég veit ekki til þess, að þessi háttur tíðkist í öðrum þjóðþingum. Ef svo er, væri fróðlegt að fá það upplýst. Mér er ekki kunnugt um það. En það er vitað mál að oft hafa heilir fundir hér farið í þóf út af slíkum fsp., og það er auðvitað algerlega út í bláinn að hafa strangar reglur, sem takmarka málfrelsi þm. um venjulegar fsp., sem eru þó bornar fram á tilbærilegan hátt og búið er að leggja vinnu í að svara, en ætla svo að hafa hitt alveg reglulaust, að hægt sé að bera fram fsp. og síðan sé ráðizt á ráðh., ef hann er ekki viðbúinn að svara jafnvel hinum flóknustu málum, sem dettur í þm. að varpa inn í þingið undirbúningslaust með þessum hætti.

Því fer svo fjarri, að það vaki fyrir mér að draga úr möguleikum almennings til þess að fylgjast með þingstörfum, að ég legg einmitt ríka áherzlu á það, að mínar hugmyndir í þessum efnum ganga í þveröfuga átt.

Hv. 1. þm. Austf. spurði, hvernig væri hægt að koma því fyrir að láta — mér skildist bæði útvarp og sjónvarp fylgjast með á annan veg en þann, sem gert er með því að útvarpa umræðum. Nú er það þannig þegar, að allt er tekið á segulband, sem hér er talað, og víst ætti það að vera mögulegt og án þess að veruleg hlutdrægni kæmist þar að, að einu sinni í viku, einu sinni í mánuði eða hvenær sem menn vildu væri tekið það, sem hér er sagt og sérstaka þýðingu hefur, og almenningi gefinn kostur á að fylgjast með því. Ég teldi það til bóta, ef það væri gert vikulega. Það má ekki fara allt of langur tími í það, þannig að almenningur verði ekki leiður á því, en þá fer ekki á milli mála, hvað hér er raunverulega sagt og með hverjum hætti. Eins legg ég áherzlu á, að þar sem sjónvarp hefur verið tekið upp, — og mér er það ljóst, að það eru vissir annmarkar t. d. í okkar þröngu húsakynnum að koma sjónvarpi að að staðaldri, en annars staðar hefur þetta tekizt þannig, að ekki er undan kvartað. Og hví skyldum við telja víst, að hér væru lakari fréttamenn og hlutdrægari en í öðrum löndum, þar sem þetta hefur tekizt vel? Það er einnig vitað um ýmis mál, að þau hafa almenna þýðingu og vekja almenna eftirtekt. Um önnur mál er það svo, að enginn veit fyrir fram, hvenær um þau verða miklar umræður, sem eru líklegar til þess að vekja áhuga manna, og þá er erfitt að koma sjónvarpi við. En þá er hægurinn hjá að velja úr á segulbandi það, sem sérstaka þýðingu hefur.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, að að vissu leyti koma þessar útvarpsumræður í staðinn fyrir þingmálafundina gömlu. En hann er mér einnig sammála um, að þetta form, miðað við nútímahætti, er orðið of þungt í vöfum, og hann viðurkenndi einnig, að umræðurnar eru meira og minna tilbúnar. Slíkum umræðum er hægt að koma fyrir á milli flokka, þó að þær séu ekki dregnar inn í sjálft Alþingi. Nú þegar sjónvarp er komið og eftir tiltölulega skamman tíma nær um svo að segja allt landið, er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu, að fyrirsvarsmenn flokka fái einhvern tíma í sjónvarpi, undir stjórn fulltrúa sjónvarpsins, til þess að vera í kappræðum þar, ef svo vill verkast, eða láta uppi álit sitt á ýmsum efnum, þannig að ólíkar skoðanir og viðhorf manna komist þannig fram og menn geti fylgzt með því á hverju heimili í landinu. Einmitt ef menn eru spurðir þannig, eins og tíðkazt hefur hér í spurningatímum sjónvarpsins, verða menn að svara því, sem um er verið að ræða, en koma ekki með skrifaðar ræður, oft út í hött, eins og hv. 1. þm. Austf. réttilega benti á, að er allt of mikið einkennandi fyrir þessar útvarpsumræður, sem hér hafa tíðkazt. Ég hygg, að a. m. k. enn hafi það mælzt vel fyrir, þegar menn koma frá ýmsum flokkum og leiða saman hesta sína í sjónvarpi og verða þar að svara hver öðrum þegar í stað, eftir því sem atvik standa til. Það er einnig vitað, að í öðrum löndum er það ekki einungis, að menn leiði saman hesta sína, fulltrúar flokkanna, heldur eru þeir þar undirseldir eða ofurseldir spurningum frá fréttamönnum, að því er ég hygg völdum þannig, að öll sjónarmið komist að í spurningatíma, sem játað er af öllum, að ef til vill hafi meiri áhrif t. d. á kosningar en flest annað, sem í kosningahríðinni kemur fram. A. m. k. sænsku þm. sögðu nú, þ. á m. forsætisráðherrann, Erlander, að það hefði verið harðasta raunin, sem hann lenti í í allri kosningahríðinni, að svara slíkum spurningum. Ég er ekki að telja eftir þm. og þeim, sem eru í fyrirsvari fyrir flokka, að ganga undir slíka eldraun, þvert á móti.

Ég hygg, að við eigum að ætla okkur það sama í þessu eins og menn verða að gera í öðrum þjóðþingum og annars staðar þar, sem stjórnmálabarátta er háð, en ekki loka okkur inni í gömlu kerfi, sem ég skal ekki segja, hvort átti rétt á sér á sínum tíma eða ekki. Ég hef raunar alltaf talið frá því fyrsta, að þetta fyrirkomulag væri óheppilegt og væri til þess lagað að skapa minnkandi virðingu fyrir Alþingi og gefa mönnum rangar hugmyndir um störf hér. En látum það vera. Nú er komin önnur tækni og aðrir möguleikar en þá var og auðveldara að koma fram skoðun manna, þannig að menn geti fylgzt með á hverju heimili í landinu, heldur en áður var, og við eigum ekki að vera hræddir við að hafa sams konar hátt á því og aðrir selja sig undir, að upp sé tekið það, sem hér er talað, oft undirbúningslaust, og almenningur eigi þess kost að hlusta á þær raunverulegu umræður, eftir atvikum sjá þær raunverulegu umræður, og að menn séu leiddir upp í sjónvarp, þegar þannig stendur á, og látnir þar standa fyrir máli sínu, en umræður í Alþ. fái svo að vera eftir því hefðbundna formi, sem í þjóðþingum tíðkast, ótruflaðar af því að reyna að gera þær frekar að áróðursfundum en efni standa til.

Það er algerlega rangt hjá hv. 4. þm. Austf., að ég sé á móti því, að þetta frv. sé afgreitt í heild. Ég hef þvert á móti lýst því yfir bæði á þinginu í vetur sem leið og nú aftur, að flest í frv. hygg ég að sé ágreiningslaust. Það er að vísu svo, að flest af því hefur tiltölulega sáralitla þýðingu, það er annað mál, en flestum ákvæðum frv. er ég sammála. En það eru nokkur meginatriði frv., sem ég tel að þurfi að athuga betur. Og það má ekki segja, að vegna þess að ég hef sagt, eins og hv. 4. þm. Austf. einnig segir, að það eigi helzt ekkert að afgreiða nema það, sem almennt samkomulag er um, að þá eigi að afgreiða einmitt það, sem hann telur sér henta, og ekki megi gagnrýna það. Því aðeins geta menn orðið sammála, að menn gefi sér tíma til þess að ræða um þau málefni, sem hér eru gerðar tillögur um og eru engan veginn lítilmótleg. Þetta er ekki eingöngu varðandi fundarsköp, heldur afgreiðslu mála í heild og hvaða svip þingið fær gagnvart þjóðinni. Það hefur þess vegna raunverulega mjög mikla þýðingu, að menn gefi sér dagstund til þess að ræða um það í alþjóðaráheyrn, og er furðulegt, að hv. þm. skuli koma fram með gagnrýni á því, að ekki sé hiklaust gleypt allt það, sem honum kann að detta í hug í þeim efnum.