04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2539)

25. mál, þingsköp Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð til þess að koma í veg fyrir, að ég væri misskilinn.

Hæstv. forsrh. ræddi nokkuð áfram um útvarpsumræður, sem honum finnst ekki heppilegt fyrirkomulag og vill nema í brott, en það vil ég ekki, heldur vil ég fallast á till. n. um að stytta þessar umræður. Ég álít, að með því sé líklegt, að þær taki stórfelldum endurbótum. Hæstv. ráðh. sagði, að við yrðum að taka upp nýtízkulega hætti í þessum efnum og notfæra okkur sjónvarp og útvarp með nýstárlegu móti, svipað og aðrir gera. Ég tek fullkomlega undir þetta og tel mig allra manna ólíklegastan til þess að hafa áhuga á því að loka mig inni í einhverju gömlu kerfi í þessu efni. Ég hef tröllatrú á því, að sjónvarp geti komið hér að miklu liði, og hef ætíð haft, síðan ég fór fyrst að hafa spurnir af því, hvernig það er notað annars staðar, og tel, að það verði að koma í vaxandi mæli inn í þessi störf. En samt sem áður vil ég ekki sleppa útvarpsumræðum, þ. e. a. s. kappræðunum frá Alþingi, að þær komi einstöku sinnum og þá þannig, að fullt jafnræði sé á milli flokkanna og það sé tryggt í sjálfum þingsköpunum.

Ég var að rifja það upp fyrir mér, á meðan hæstv. ráðh. var að tala, hvernig þetta er á Norðurlöndum, eftir upplýsingum nefndarinnar, og þá sé ég t. d., sem er mjög athyglisvert, að í Danmörku, þar sem þessi mál eru með heppilegu sniði, býst ég við yfirleitt, er tvisvar, þrisvar sinnum á ári hljóðvarpað umræðum heil kvöld. Þetta ætla ég, að sé mjög svipuð stefna og hér hefur tíðkazt, nema ég geri ráð fyrir því, að tveggja kvölda umræður séu þá ekki tíðkaðar þar, en nú er einmitt meiningin að afnema þær, og hef ég lýst skoðun minni á því. Aftur á móti er sagt frá því, að í Svíaríki og Finnlandi séu umræður þannig fluttar áleiðis, að það sé valið úr ræðum manna, en þá segir t. d. um Finnland, að venja sé, að menn fái sjálfir að ráða, hvaða brot úr ræðum þeirra séu tekin, o. s. frv. En það kemur ekki alveg greinilega fram í því, sem sagt er um önnur Norðurlönd, hvort þar eru höfð afskipti af því af þingsins hálfu, að jafnræði sé í kappræðunum, en það tel ég hina mestu nauðsyn, og það sé alls ekki æskilegt að kasta sér alveg yfir í það að láta aðrar stofnanir algerlega ráða þessu. Það getur verið ágætt, að útvarp og sjónvarp hafi talsvert frelsi í þessu, en samt hygg ég, að skynsamlegra sé að hafa einhverjar umræður, sem eru eftir föstum reglum og þar sem fullt jafnrétti er hreinlega tryggt, eins og hér hefur verið í útvarpsumræðum, það sé ekki hyggilegt að sleppa því.

Ég vil alls ekki gera lítið úr því, að útvarp og sjónvarp geri sér far um hlutleysi í þessum efnum, en það er ákaflega vandasamt að synda hér á milli skers og báru, og það er alls ekki því að leyna, að okkur í stjórnarandstöðunni finnst það mikill ágalli, hvað t. d. útvarpinu finnst það vera miklu fréttnæmara, sem ráðherrar segja, heldur en það, sem við segjum. Þetta er kannske ekki nema mannlegt, en þetta er dálítið hættulegt. Ég held, að það séu engar aðdróttanir í því að segja, að það sé nokkuð augljóst, að starfræksla útvarpsins, og þá meina ég hljóðvarpsins, varðandi fréttaflutning í pólitískum efnum ber það alveg eindregið með sér, að í þeirri stofnun álíta menn það meiri fréttir, sem ráðherrarnir segja, og það er kannske dálítið vorkunnarmál, því að þeir eru oft að segja frá einhverjum beinum framkvæmdum, sem þeir hafa í huga að gera eða hafa verið gerðar, en stjórnarandstaðan, sem ekki kemur sínum málum fram, er meira að segja frá sínum hugmyndum og flytja till. um ýmislegt, sem menn hafa stundum ekki mikla trú á að komi til framkvæmda strax. Þarna þykir þessari stofnun áreiðanlega mikill munur á fréttagildi, sem verður til þess, að það er margfalt meira sagt frá því, sem ráðherrar hafa fram að færa, en aðrir, t. d. hliðstæðir menn úr stjórnarandstöðunni. Á þessu ber dálítið í þingfréttunum að sjálfsögðu, og dreg ég þó ekki í efa, að þeir, sem starfa að þeim, leggja sig mjög fram, en þetta er nú einu sinni svona.

Sérstaklega ber mikið á þessu í öðrum fréttum en þingfréttunum, því að þingfréttirnar eru miklu betri í þessu tilliti en aðrar fréttir. Það er þannig komið, — það þýðir ekki annað en tala um það hreinskilnislega, — að ráðh. leika þann leik að mæta hjá ýmsum stofnunum hingað og þangað, halda þar hápólitískar áróðursræður og fá þær birtar í útvarpinu, án þess að nokkurt annað sjónarmið komi þar til greina. Slíkt er náttúrlega mjög vítavert, og hefur allt of lítið verið gert að því af hálfu almennings og stjórnarandstöðunnar að benda á þetta. Ég dreg það ekki í efa, að það mætti fá einhverjar lagfæringar á þessu, því að máske er þetta að einhverju leyti fyrir það, að menn hafa ekki veitt þessari þróun nægilega athygli. Þetta hefur þróazt í þessa átt.

Fyrir 20–30 árum þýddi ekkert fyrir ráðh. að fara á fund í einhverjum félagssamtökum og halda þar ræðu um pólitískt efni, hún var alls ekki tekin í útvarpið og ekkert úr henni. Það var allt saman vandlega pillað út, sem gat skoðazt pólitík. Nú er þetta alveg gerbreytt. Ég er ekki að segja, að gamla lagið hafi verið að öllu leyti gott, því að það varð til þess, að þessar stofnanir gátu ekki fullkomlega þjónað sínu hlutverki í því að koma því á framfæri til þjóðarinnar, sem raunverulega var að gerast. Þess vegna þurfti að breyta þessu. En það er vandi að breyta þessu, og það hefur ekki tekizt nógu vel, því að þetta er orðið þannig, að útvarpið — hljóðvarpið — er í fréttatímunum löðrandi í áróðri úr stjórnarherbúðunum, sem komið er inn í það eftir þessum krókaleiðum. Um þetta þarf ekkert að deila, því að þetta getur hver maður sannfært sig um, sem hlustar að staðaldri á hljóðvarpið. Nú er ég ekki að finna að því, þó að tekið sé talsvert úr ræðum ráðh., þegar þeir fara í stofnanir, ef það eru fréttir og ef það er gert hóflega og ekki teknar 10–15 mín. lotur og jafnvel stundum valið úr það, sem hefur mest áróðursgildi, að því er manni virðist, o. s. frv. Ég er ekki að finna að því, að það sé talsvert gert að þessu, ef um fréttir er að ræða, því að ég álít, að það geti verið gott. En ég tel, að útvarpið ætti að fara inn á þá braut að innleiða meira jafnvægi í þessu og meira jafnræði og að það eigi að leggja sig fram og taka upp samstarf við stjórnarandstöðuna um það, að hún eigi opna leið fyrir afstöðu og fréttir. Stundum er sagt, að þetta sé gert, en það er ekki alveg einfalt, vegna þess að auðvitað eru stjórnarandstæðingar ekki kallaðir til að mæta í embættisnafni á aðalfundum samtaka víðs vegar um landið, alls ekki kallaðir á þann hátt, þannig að þeir yrðu þá að fá til jafnræðis, ef í þessu ætti að vera fullkomið jafnræði, sérstaka tíma til þess að koma fram með aths. og upplýsingar, þegar sérstök tilefni gefast, t. d. þegar ráðh. fer á fund og heldur ræðu um ágreiningsefni, þá sé föst venja að gefa stjórnarandstæðingum tækifæri til þess að segja sína skoðun á þessum sömu efnum.

Það er ljóst, að þessi háttur, sem þarf að komast á, mundi gera æðimiklar kröfur til stjórnarandstæðinga, sem sé þær, að þeir hefðu þá á reiðum höndum sína afstöðu og sínar upplýsingar. En þannig verður það að vera. Þeir hafa að vísu til þess ákaflega ömurlega aðstöðu á allan hátt, eins og nú standa sakir. En ég hef sterka trú á því, að það geti ekki staðið öllu lengur eins og það er og hún hljóti að verða bætt, stjórnarandstaðan hljóti að fá bætta aðstöðu, og þá mundi þetta færast í betra horf.

Ég er ekki að ræða þetta til þess að þekkjast til við hljóðvarpið, síður en svo. Ég er að koma með þetta núna inn í umr. vegna þess, að það hefur lengi vakað fyrir mér að koma aths. um þetta á framfæri og reyna að fá einhverjar lagfæringar á þessu. Það þýðir ekkert að byrgja þetta innra með sér endalaust. Það er betra að segja hreint út, að það er ákaflega mikil óánægja með þetta í röðum stjórnarandstæðinga. Og menn mega ekki taka þetta sem ásakanir, að bent er á þetta, heldur er hér efni, sem er vandasamt í meðförum og að sumu leyti nokkuð nýstárlegt, því að það er ekkert ákaflega langt síðan ríkisútvarpið fór út á þá braut að flytja pólitískar fréttir ekki síður en ópólitískar. Það álít ég, að hafi í sjálfu sér verið alveg eðlileg og sjálfsögð braut að fara út á. En það er vandratað á henni, eins og ég veit, að forráðamönnum ríkisútvarpsins er ljóst. Ég vona, að það, sem ég hef sagt hér um þetta, verði ekki til þess að innleiða neina beiskju í þeim herbúðum. Við megum a. m. k. ekki við því í stjórnarandstöðunni, að svo fari, og ég vona, að það komi ekki til, heldur verði þetta skoðað sem vottur um einlægan vilja til þess að ræða hreinskilnislega um þetta. Þeir eru ekkert betur farnir með því, að við séum að nudda um þetta sífellt á bak, og bezt að ræða þetta í heyranda hljóði. Það má vel segja það alveg hreinskilnislega líka, að þegar ég hef beyg af till. eins og t. d. þeim að hætta við gömlu útvarpsumr., þá er það að sumu leyti vegna þess, að ég óttast, að þá muni halla enn meira á í þessu efni en orðið hefur undanfarið, og má það þó að okkar dómi ekki meira vera, að það færi þá þannig, að það þætti líka fréttnæmara úr þingræðunum það, sem ráðh. segðu en stjórnarandstaðan, og það snaraðist þá á sömu sveif og önnur þau atriði, sem ég hef verið að lýsa. Og ég játa það fullkomlega, að þetta hefur talsverð áhrif á mig í þá átt, að ég vil alls ekki fyrir mitt leyti samþykkja það að fella niður gömlu útvarpsumr. Það er þó algerlega tryggt fullt jafnrétti í þeim.

Mér finnst halla meira á í hljóðvarpinu en sjónvarpinu að þessu leyti. Það kann að vera, að ég sé ekki dómbær um þetta, og það hjálpar ef til vill, að sjónvarpið er blessunarlega lokað fyrir þessum löngu lotum, sem útvarpið virðist vera svo spennt fyrir að fá, a. m. k. frá þeim, sem eru taldir segja eitthvað, sem fréttnæmt eigi að skoða, þar sem við liggur, að teknar séu upp heilar áróðurslanglokur frá ráðh. í útvarpi. En sjónvarpið er blessunarlega laust við þetta. Ég held, að það sé nú líka einu sinni þannig, að sjónvarpinu henti ekki langlokur miklar, sem betur fer, og annað slíkt, enda hef ég orðið var við sterkan vilja, — ég hef orðið var við sterkan vilja í sambandi við fréttirnar sjálfar í útvarpinu og sjónvarpinu, að menn vilja gæta hlutleysis og vera sanngjarnir. En það eru þessar krókaleiðir ráðh., sem ég vil sérstaklega gera aths. við, og að það skuli vera opið eftir þeim inn í ríkisútvarpið. Ég minnist á þetta einmitt nú í sambandi við þingsköpin og umr. um þau, af því að ég er óttasleginn í sambandi við jafnræðið í þessu, ef öllum föstum reglum er sleppt.