04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

25. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Út af umtali hv. 1. þm. Austf. vil ég segja, að það er gersamlega ástæðulaust af því tilefni, sem ég hreyfði hér um breytingu á útvarpi frá Alþ. Mér hefur aldrei komið til hugar, að sú breyting gæti orðið, nema því aðeins að þingið fylgdist með einum eða öðrum hætti með því, að jafnræði ætti sér stað, og það eru auðvitað til þess margar leiðir, jafnvel þó að fréttamönnum sé falið verkið, og mér er það alveg ljóst, að það væri fráleitt að ætlast til þess, að það væru einungis birtar ræður ráðh. eða stjórnarandstæðinga. Það verður að vera rétt mynd af því, sem kemur, og þeim ólíku sjónarmiðum, sem eiga sér stað. Ég held, að það væri vinningur fyrir þingið og eitt af því, sem hefði þurft að taka upp við endurskoðun þingskapa, að reyna að koma á samkomulagi milli þingflokka um það, að umr. yrðu með nokkrum jafnræðisblæ, þannig að það væri ákveðinn fyrir fram tími, sem væri ætlaður til umr, meiri háttar mála, og tímanum síðan nokkurn veginn skipt jafnt á milli þeirra höfuðsjónarmiða, sem um er deilt hverju sinni. Þannig er þetta gert í mjög mörgum þjóðþingum. Ég hef ekki þekkingu til að segja, að það sé gert í öllum, en það er gert í mjög mörgum þjóðþingum og tekst vel, og ég tel, að slíkar breytingar á þingstörfum séu mjög nauðsynlegar.

Þegar ég sagði hér áðan, að ég hefði talið æskilegt, að mþn. hefði skoðað þetta mál aftur, er það út frá því, að það kom í ljós í fyrra, að því fer fjarri, að menn séu í meginatriðum sammála um breytingarnar, og þess vegna hefði verið æskilegt, að menn innan mþn. hefðu tekið upp viðræður um það, hvort hægt væri að koma af stað víðtækara samkomulagi en þarna er gert. Það var ekki til þess að gera lítið úr störfum n. Ég benti á þessa leið strax í fyrra. N. hefur ekki talið rétt að fara þá leið. Ég sagði þá þegar, að ef menn treystu sér til þess að afgreiða málið á vorþinginu sem leið, þá skyldi ég taka þátt í því, og sízt hef ég hug á að stöðva meðferð þessa máls. En mér er það ljóst, að hér þarf víðtækt samkomulag. En þá verða menn líka að átta sig á, í hverju gallar þingstarfanna eru fólgnir, og ræða um þau á nógu breiðum grundvelli, ef svo má segja, en taka ekki einungis einstök atriði út úr, eins og hér hefur of mikið verið gert.

Hitt er svo annað mál hjá hv. 1. þm. Austf., að fram hjá því verður aldrei komizt, að ráðh. og aðrir framámenn hljóta að mæta við ýmis tækifæri, sem fréttnæmt þykir að flytja sagnir af, hvort heldur í sjónvarpi eða hljóðvarpi. Það er fróðlegt, að í þeim síðustu kosningum, sem nú fóru fram hjá nágrannaþjóð okkar, Svíþjóð, var það á sjálfa kosninganóttina, þegar úrslitin lágu fyrir, þá sagði forustumaður hægri manna, að úrslitin væru ekki sízt því að kenna, að ráðh. hefðu mjög misnotað aðstöðu sína í útvarpi og sjónvarpi, mér skilst á þann sama veg og hv. þm. telur, að aðstaðan hafi verið misnotuð hér. Framkvæmdastjóri eða forstöðumaður þessarar stofnunar þar óskaði jafnskjótt eftir því, að það yrði sett rannsókn á um þetta efni, og víst væri það fróðlegt fyrir okkur að fylgjast með því, sem fram kemur við þá rannsókn. En það var einnig játað af þeim, sem þá báru fram gagnrýnina, að við mörg tækifæri er það óhjákvæmilegt, að ríkisstj. er í þeirri aðstöðu, að frekar er sagt frá því, sem hún gerir, heldur en stjórnarandstæðingar. Menn eru frekar að segja frá athöfnum heldur en hugsunum, ef svo má segja. Slíkt er óhjákvæmilegt og hlýtur alltaf að verða. Það fer í taugarnar á öllum þeim, sem eru í stjórnarandstöðu hverju sinni.

En ég spyr hv. þm.: Ætlast hann t. d. til þess, að það sé ekki skýrt frá því, sem forustumenn stéttarfélaganna segja á sínum fundum, vegna þess að þar er enginn til andsvara? Eða ef formaður L. Í. Ú., ef formaður Stéttarsambands bænda eða Búnaðarfélagsins er búinn að halda ræðu, á þá alltaf að hleypa einhverjum öðrum að og segja: ég var nú þessu ósammála? Ég held, að það verði ekki komizt hjá því, að annaðhvort verði að þegja um þetta eða herma frá því, sem þarna fór fram, alveg eins og það finnur enginn að því, þó að sagt sé frá fundi Alþb. í gær. Ég tel víst, að ýmsir séu ósamþykkir því, sem þar gerðist. En það er fréttnæmt og þess vegna eðlilegt, að frá þessu skuli vera sagt. Fram hjá því verður ekki komizt. En ég ítreka það, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að ég kannast ekki við þær krókaleiðir, sem ráðh: fara í þessum efnum. Ég get sagt það, þó að ég hafi hvað eftir annað orðið fyrir árásum fyrir það að hafa komið fram í útvarpi og sjónvarpi, að ég hef oftar neitað þessum stofnunum um að koma þar fram, vegna þess að ég hef ekki viljað sæta þeirri gagnrýni, sem ég vissi, að mundi þar af leiða, og hvað eftir annað aðvarað fréttamenn um það, að þeir mættu búast við gagnrýni fyrir það að vera að spyrja mig einhliða. Þeir hafa engu að síður óskað eftir því að fá þær fregnir, sem þeir hafa talið mig hafa að flytja verandi í þessari aðstöðu, og ég hef ekki alltaf talið mér fært að skorast undan því. En það er síður en svo að mínu viti, að sótt sé eftir af hálfu ráðh. í þessum efnum. Það eru fréttastofnanirnar sjálfar, sem æ verða aðgangsfrekari um fréttir. Þetta vitum við úr fleiri samböndum en þessum, og ég tel, alveg eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að það sé ákaflega hæpinn vinningur fyrir menn hér á landi, þar sem hver þekkir annan og auðvelt er að koma til vitundar almennings öllum fregnum, ef menn fá það orð á sig, að þeir oti sínum tota mjög í þessum almannastofnunum, svo að ég hygg, að það sé pólitískt hyggilegt að hafa þar í nokkra varfærni. En þarna er alltaf um töluverðan vanda að ræða. Það er alveg rétt, að það hljóta að verða takmarkatilfelli. Ég benti á, að þetta atriði er undir athugun og í rannsókn hjá einni af okkar nágrannaþjóðum. Það er fróðlegt að fylgjast með því, sem þar gerist, en alltaf hlýtur það að verða svo, að þeir, sem ákvörðunarvald hafa og koma fram af hálfu ríkisins, standa í framkvæmdum, aðgerðum, sem þykja fréttnæmar, verða krafðir sagna, og væri talið með öllu óboðlegt, ef þeir neituðu að svara spurningum eða bönnuðu að hafa eftir sér það, sem þeir segja.