04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2545)

25. mál, þingsköp Alþingis

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Starfsemi fréttastofnana ríkisútvarpsins er að sjálfsögðu ekki beinlínis viðkomandi þessu frv., þó að um skylt mál sé að ræða, og er því ekki rétt að eyða miklum tíma í það hér, þó að það væri mjög æskilegt að ræða þessa fréttastarfsemi við annað tækifæri.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, að hið þingkjörna útvarpsráð ber endanlega ábyrgð á óhlutdrægni útvarpsins, — óhlutdrægni er orðið, sem notað er í lögum og reglugerðum, — en formaður þess hefur að sjálfsögðu ekki meiri ábyrgð heldur en aðrir, því að hann hefur aðeins eitt atkv. eins og aðrir útvarpsráðsmenn.

Í tíð núverandi útvarpsráðs, sem hefur verið lítt breytt að mannaskipan um alllangt árabil, hefur verið gerð stórkostleg breyting, ekki aðeins á fréttastarfsemi, heldur líka á dagskrá hljóðvarps og sjónvarps, í þá átt að auka mjög flutning á efni, sem varðar stjórnmál og ýmis umdeilanleg mál í þjóðfélaginu. Áður fyrr var óhlutdrægninni framfylgt á þann hátt, að þetta efni var að mestu útilokað, nema það sæti við borð einn maður frá hverjum pólitískum flokki og þeir töluðu í jafnmargar sekúndur hver.

Í sambandi við þá breyttu starfsemi að taka meira af deilumálum samtíðarinnar í útvarpsdagskrána, hafa að sjálfsögðu skapazt ýmis vandamál, sem við verðum smám saman að leysa. Ég hygg, að menn verði að játa, að ráðh. hafa óhjákvæmilega meira af fréttum og fréttnæmum ræðum fram að færa en aðrir stjórnmálamenn. Hjá þessu verður ekki komizt, og það er útilokað annað en fréttastofnanir flytji mikið af slíku máli. Ég hygg, að það sé rétt, sem tveir ráðh. hafa sagt hér í dag, að oft séu það fréttastofnanirnar, sem sækja á í þessu efni, en ekki þeir. En það er eitt vandamál í sambandi við þennan fréttaflutning, sem hv. 1. þm. Austf. hefur kvartað undan. Hér á landi tala forustumenn stjórnarandstöðunnar yfirleitt lítið utan sala Alþingis nema helzt á lokuðum flokksfundum. Þegar þeir flytja stefnuyfirlýsingar eða gera grein fyrir viðbrögðum flokks síns við ýmsu, sem er að gerast, er það oftast við aðstæður, þar sem fréttastofnanirnar komast ekki að. Í Englandi flytur t. d. Heath, leiðtogi íhaldsflokksins, í hverri viku ræðu einhvers staðar á landinu, og fréttastofnanir segja frá skoðunum hans, enda eru þessar ræður fluttar fyrir opnum tjöldum og ráð fyrir því gert, að fréttastofnanirnar geti frá þeim sagt.

Hér er vandamál, sem við verðum á einhvern hátt að leysa, þannig að leiðtogar stjórnarandstöðunnar geti við það unað, hvaða tækifæri þeir fá til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. En ég hygg, að við ættum að leita að leiðum til þess að leysa þennan vanda, en ekki snúa til baka, því að ég hygg, að þjóðin sé í heild mjög ánægð með þá breytingu, sem hefur orðið á flutningi þessa efnis í hljóðvarpi og sjónvarpi á síðustu árum.