31.10.1968
Neðri deild: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2549)

28. mál, vinnuvernd

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. um vinnuvernd, greiðslu vinnulauna, uppsagnarfresti o. fl. flyt ég að þessu sinni ásamt hv. 8. landsk. þm., Steingrími Pálssyni. Ég hef áður mælt fyrir þessu frv. og tel því næsta óþarft að flytja langt mál um það til kynningar því að þessu sinni. Þó vil ég undirstrika það, að ég tel þetta mál mjög mikilsvert fyrir allt vinnandi fólk, og vissulega er að mínu áliti meira en tími til þess kominn að lögfesta það, því að vilyrði stjórnarvalda voru á sínum tíma gefin, þ. e. a. s. fyrir nokkrum árum í samningum við verkalýðshreyfinguna um, að löggjöf um vinnuvernd skyldi verða sett, en af því hefur þó ekki orðið enn þá, hefur strandað á að fá samkomulag um slíka löggjöf.

Ég vil taka fram, að ef einhver einstök atriði þessa frv. kynnu að teljast hættulegur ásteytingarsteinn, sem stæði í vegi fyrir, að það fengist samþ., þá mundum við flm. að sjálfsögðu vilja sýna fulla lipurð um að leita samkomulags um slík ágreiningsatriði, ef það mætti þá verða til þess að greiða fyrir framgangi málsins að meginefni.

Frv. er í 8 köflum, og því fylgir allýtarleg grg.

I. kaflinn er um holl og góð vinnuskilyrði á vinnustað. Í honum tel ég ekki vera neitt annað en sjálfsögð öryggisákvæði fyrir hið vinnandi fólk, og um hann gæti varla orðið ágreiningur.

Þá er það II. kafli frv. Hann fjallar um vinnutíma og vinnutilhögun. Í öllum meginatriðum er þar byggt á ríkjandi venjum og tilhögun á vinnumarkaðinum, en þó stefnt að 40 stunda vinnuviku framkvæmdri á 5 vinnudögum, eins og allir vita, að að er stefnt í öllum nágrannalöndum okkar. Þess vil ég þó geta í viðbót, að í einstökum tilvikum, eins og t. d. við námuvinnu, er í frv. gert ráð fyrir 36 stunda vinnuviku.

Í III. kaflanum eru nokkur nýmæli til verndar konum á vinnumarkaðinum, einkum varðandi barnshafandi konur, og ákvæði, sem eru sérstaklega við það miðuð að tryggja, að konur, sem að erfiðisstörfum ganga, geti jafnframt gegnt sínu helgasta hlutverki, móðurhlutverkinu. Þetta eru að minni hyggju ákvæði, sem nú þykja yfirleitt sjálfsögð mannréttindi meðal flestra menningarþjóða.

IV. kaflinn er um vinnuvernd barna og unglinga. Þar er mjög vægilega í sakir farið miðað við hliðstæð lagaákvæði annarra þjóða. Fullt tillit tel ég vera tekið til uppeldisgildis hæfilegrar vinnu fyrir börn og unglinga, en ákvæði frv. aðeins sett til að fyrirbyggja ofþjökun og fyrirbyggja, að börn séu látin vinna einhver þau störf, sem skaðleg geti talizt þroska þeirra, andlegum eða líkamlegum.

Í V. kafla frv. eru svo ýmis ákvæði um greiðslu vinnulauna, og þau ákvæði tel ég flest, ef ekki öll, vera í fullu samræmi við venjur, sem skapazt hafa hjá þeim atvinnurekendum, sem bezta reglu hafa á þeim fjárreiðum sínum gagnvart verkafólki sínu.

Í VI. kaflanum er fjallað um uppsagnarfresti starfsmanna. Það eru ákvæði um vaxandi rétt manna til ríflegri uppsagnarfrests, eftir því sem þjónustualdur er lengri. Tel ég það eðlilegt. Er báðum aðilum til hags og öryggis, að um þessi viðkvæmu mál gildi föst og ákveðin fyrirmæli í l. Að minni hyggju getur það afstýrt margvíslegum ágreiningi og deilum, sem gott er að geta komizt hjá.

Þá er VII. kaflinn um viðurlög og refsiákvæði vegna vanefnda og brota á l., einnig um setningu reglugerða samkv. þeim, sem ráðh. hefur heimild til, o. þ. h.

Og lokakaflinn, VIII. kaflinn, er svo einungis um gildistöku laganna.

Að lokum vil ég segja það, að við flm. teljum það fráleitt, að nokkur flokkspólitískur ágreiningur eigi rétt á sér gagnvart slíku máli sem þessu. Hér er um sjálfsagt öryggis- og menningarmál að ræða, menningarmál hins vinnandi fólks, fólksins, sem ber hita og þunga dagsins við framleiðslustörf þjóðarinnar og er alls góðs maklegt. Ég tel þetta frv. því vera mál, sem hverjum þm. er sómi að því að lögfesta, en frekar vansi að því að tefja fyrir eða berjast á móti.

Ég legg svo til, herra forseti, að þegar umr. er lokið, verði málinu vísað til hv. heilbr.- og félmn.