19.11.1968
Neðri deild: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (2572)

60. mál, olíuverslun ríkisins

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef flutt hér á allmörgum þingum frv. um olíuverzlun ríkisins, en það hefur ekki fengið afgreiðslu. Ég hef leyft mér að leggja fram frv. um þetta sama efni enn einu sinni. Ég hef verið að gera mér vonir um, að það væru meiri líkur til þess nú en áður, að fá mætti efni þessa frv. samþ. hér á Alþ. Ég hef veitt því athygli, að framámenn í Alþfl. hafa verið að gefa yfirlýsingar um það, að þeir aðhylltust þessa skipan mála í sambandi við olíusölumálin í landinu, þeir teldu, að það ætti að taka hér upp ríkisverzlun með olíur, og ég hef einnig tekið eftir því, að ýmsir aðrir áhrifamenn í landinu viðurkenna nú orðið opinberlega, að breyta þurfi í grundvallaratriðum því skipulagi, sem við höfum búið við í þessum efnum.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, höfum við hér í alllangan tíma búið við það skipulag á olíusölumálum, að það hafa verið þrjú stór olíufélög, sem byggt hafa í rauninni upp þrefalt dreifingarkerfi um allt land. Það getur ekki farið á milli mála, að þetta þrefalda dreifingarkerfi hefur verið mjög dýrt í stofnkostnaði og hlýtur að vera óheyrilega dýrt í rekstri. Í mörgum tilfellum eru hér hafðir þrír starfsmenn til þess að sjá um verk, sem einn gæti séð um, og það er verið að halda við þrefalt kostnaðarsamari eignum heldur en þörf væri á í a. m. k. mjög mörgum tilfellum. Þetta hefur auðvitað haft það í för með sér, að olíuverð hér á landi hefur jafnan verið mjög hátt í samanburði við olíuverð í nálægum löndum, og hefur auðvitað valdið hér óeðlilega háu verðlagi á ýmsum sviðum. Þó að þetta skipulag hafi verið hér ríkjandi, að þessi þrjú stóru olíufélög hafi haft með olíusölumálin að gera, þá er það nú samt sem áður svo, að það hefur verið ríkið í mörg ár, sem gert hefur formleg kaup um svo að segja allan olíuinnflutning til landsins. Kaupin hafa farið fram á þann hátt, að það hafa verið aðilar af hálfu ríkisins, sem hafa samið um kaupin á olíunni, en hins vegar hefur ríkið síðan afhent þessum þremur olíufélögum þennan mikla innkaupasamning, afhent olíufélögunum hann til framkvæmda, og þannig gefið þessum einkafélögum aðstöðu til þess að geta í rauninni komið fyrir þessum málum á þann hátt, sem þau hafa talið sér hagstæðast. Afleiðingin hefur m. a. orðið sú, að það hefur ekki verið hægt að fá keypta olíu hér á Íslandi af þessum olíufélögum með heildsölufyrirkomulagi í mörg ár. Enginn aðili í landinu hefur getað fengið olíuna keypta með heildsölufyrirkomulagi. Jafnvel stórir aðilar á vegum ríkisins sjálfs, sem óskað hafa eftir því að fá að kaupa olíu, sem þeir nota í allríkum mæli, á sanngjörnu og eðlilegu heildsöluverði, hafa ekki getað fengið olíuna keypta þannig. Heil bæjarfélög eða aðrir stórir aðilar í landinu hafa leitað eftir þessu líka, og þeir hafa ekki getað fengið olíuna keypta þannig. Þegar þeir hafa fengið nokkur sérhlunnindi umfram aðra, sem kaupa olíu, hafa þeir þurft að gera kaupin á þeim grundvelli, að þeir tóku olíuna á almennu útsöluverði, en gátu fengið lítils háttar afslátt frá því. Þetta hefur einnig átt sér stað með þau olíusamlög, sem upp höfðu verið byggð í landinu á ýmsum stöðum samkv. lögum frá Alþingi. Þau hafa ekki getað fengið olíu til þess að hafa til sölumeðferðar nema á þennan hátt, að semja við eitthvað af þessum þremur olíufélögum um það að taka olíuna af þeim á almennu útsöluverði, og fengið að vísu lítilsháttar afslátt fyrir öll þau störf, sem samlögin hafa haft af smásöluverzlun sinni. En um það hefur ekki verið að ræða, að hægt væri að fá keypta olíu til slíkra aðila sem þessara með venjulegu og eðlilegu heildsöluverði, sem byggt væri á því verði, sem olían er keypt á til landsins, með óhjákvæmilegum kostnaði, sem á hana hefur fallið við flutning í aðalbirgðastöðvarnar.

Nú vita allir, að olían er mjög þýðingarmikil nauðsynjavara hér á landi. Við þurfum að nota hér á Íslandi tiltölulega mjög mikla olíu miðað við okkar mannfjölda og okkar atvinnurekstur.

Verulegur hluti af húsahituninni í landinu byggist á olíunotkun, og þar er því um mjög viðkvæman kostnaðarlið að ræða hjá mörgum. Sama er um það að segja, að tiltölulega stór hluti af okkar atvinnurekstri þarf að nota mjög mikið af olíuvörum. Og því er útkoman sú hér hjá okkur, að olíunotkun hér er tiltölulega mjög mikil. Enn er talsvert rekið í landinu af raforkufyrirtækjum, sem byggja orkuvinnslu sína á olíunotkun, og er þar langstærsti aðilinn ríkið sjálft. En þetta allt saman gerir það að verkum, að við notum eins mikið af olíu og raun er á. Þá fer það ekki heldur á milli mála, að olíunotkun og þar með benzínnotkun er tiltölulega mikil hér á landi vegna þess skipulags, sem við búum við á okkar flutninga- og samgöngumálum. Hér verðum við að flytja mestallt, sem við flytjum á landi innanlands, með bílum, sem annaðhvort nota olíu eða benzín, og þessar vörur eru því mjög viðkvæmar í sambandi við verðlagið allt í landinu af þessum ástæðum.

Það er því býsna stórt mál, hvernig fyrirkomulagið er í sambandi við innflutning á olíu til landsins og með sölumeðferðina á olíum, hvort við reynum að koma þar við hagkvæmu skipulagi eða búum við dýrt og óhagkvæmt skipulag. Ég held, að það geti enginn maður borið á móti því, að við höfum búið í þessum efnum við mjög kostnaðarsamt og óhagkvæmt skipulag, enda koma fram fáar varnir fyrir því, að það, sem við verðum að þola í þessum efnum nú, sé hagstætt. Nú er um þessar mundir mikið talað um það að koma við hagræðingu á hinum ýmsu sviðum, koma við bættu rekstrarskipulagi. Athyglin hefur m. a. beinzt að því, að það þurfi að koma við allmikilli hagræðingu í okkar atvinnulífi. Menn tala um að fækka frystihúsum í landinu og sameina þau á ýmsum stöðum, og nokkuð hefur verið að þessu gert. Og það er greinilegt, að menn tengja miklar vonir við það, að ef þarna væri beitt öðrum vinnubrögðum en verið hefur, mætti spara allmikið fé. En hvers vegna þá ekki að spara eitthvað í sambandi við olíudreifinguna í landinu? Ég er ekki í neinum vafa um, að það er miklu meira aðkallandi mál hjá okkur að taka til endurskoðunar ýmsa þessa milliliðastarfsemi í landinu og koma þar fyrir hagkvæmara skipulagi heldur en er í sambandi við okkar beina atvinnurekstur. Og efast ég þó ekkert um, að þar er hægt að koma fyrir miklu hagkvæmari vinnubrögðum í mörgum efnum, bæði í sambandi við okkar fiskvinnslu, útgerð, iðnaðarrekstur í landinu og marga aðra þætti í okkar atvinnulífi. Það er hægt að koma fyrir miklu hagkvæmara skipulagi en við búum við, og það ber auðvitað að vinna að því. En hitt er þó að mínu viti miklu meira aðkallandi, að snúa sér að ýmsum þeim kostnaðarþáttum, sem nú hvíla á okkar atvinnulífi almennt, vegna þess að við búum við mjög óhagkvæmt skipulag varðandi hvers konar þjónustu og milliliðastarfsemi, og ein greinin í þeim efnum er einmitt olíuverzlunin.

Nú, þegar verið er að gera miklar efnahagsráðstafanir til þess m. a. að styrkja atvinnuvegina, að sagt er, þá sýnist manni, að það væri ekki úr vegi að grípa fyrst til þess ráðs að reyna að lækka útgjöldin hjá atvinnurekstrinum með beinni verðlækkun í sambandi við nýtt skipulag, sem hægt er að taka upp í verzlunarmálum og viðskiptamálum og ýmsum þjónustumálum, eins og t. d: á þessu sviði. Ég hef verið að vona, að einmitt í sambandi við þessi mál kæmu upp möguleikar á því, að breytt yrði hér um rekstrarform á olíuverzluninni í landinu og það fengizt tekin upp olíuverzlun ríkisins. Það er mín skoðun, að þannig eigi að reka olíuverzlun ríkisins, að hún eigi að hafa með höndum innkaup á allri olíu til landsins, sjá um flutning á öllum olíuvörum til landsins, eiga og reka aðalbirgðastöðvarnar í landinu og tryggja á þennan hátt, að við höfum jafnan til í landinu nægilegar birgðir á sem hagstæðustu verði, og síðan eigi þessi stofnun að sjá um eðlilega heildsölu á olíu til þeirra, sem þannig eru settir, að þeir geta keypt olíu af olíuverzlun ríkisins til sinnar starfsemi í dálítið stórum stíl. Þannig álít ég t. d., að þau olíusamlög útvegsmanna, sem á nokkrum stöðum hafa verið mynduð á landinu, ættu að geta fengið olíuna keypta til sinnar starfsemi á réttu heildsöluverði. Ég álít einnig, að það væri sjálfsagt, að stórar ríkisstofnanir og aðrar slíkar stofnanir ættu að geta fengið olíu keypta frá þessari heildsölu ríkisins á réttu heildsöluverði og þá væntanlega á miklu lægra verði en þessir aðilar verða að kaupa olíuna á nú. Sömuleiðis álít ég, að bæjarfélög og einstaka aðrir aðilar, sem þurfa vegna síns rekstrar að nota mikið af þessari vöru, ættu að geta keypt olíu og dreift til sinna stofnana sjálfir, ef þeir óskuðu eftir. Ég tel hins vegar alveg nauðsynlegt, að þessi olíuverzlun ríkisins taki einnig að sér smásöludreifinguna út um allt land, taki hana úr höndum núverandi olíufélaga til þess að koma þar fyrir hagstæðara og ódýrara dreifingarskipulagi en við nú búum við.

Það gefur auga leið, þegar skipt er yfir á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, að þá þarf auðvitað að semja við olíufélögin þrjú, sem þetta hafa með höndum nú, um eignir þeirra, þannig að þau fái eðlilega greiðslu fyrir sínar eignir, eftir því sem réttmætt er að verðleggja þær, eða þá ef samningar takast ekki, þá auðvitað verður hér að fara fram eignar- eða leigunám, því að ekkert vit væri í því, að ríkið færi að byggja hér upp nýtt kerfi eða það fjórða í mörgum tilfellum.

Ég þarf ekki að hafa um þetta miklu fleiri orð. Ég er búinn, eins og ég hef sagt hér áður, að ræða þetta mál hér á mörgum þingum og lýsa mínum skoðunum á því, en það er von mín, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar nú, afgreiði málið frá sér, svo að það megi koma hér skýrt fram á Alþingi, hver afstaða alþm. er til þessa máls, hvort þeir vilja með atkv. sínu hér ákveða, að það skipulag skuli ríkja áfram í þessum málum, sem ríkt hefur, eða hvort þeir vilja standa að því að taka hér upp hagkvæmara skipulag, t. d. með því að koma á fót olíuverzlun ríkisins. Ég teldi það sérstaklega æskilegt að fá úr þessu skorið nú, einmitt nú, eins og ástatt er í okkar efnahagsmálum, og í sambandi við þær stórfelldu ráðstafanir, sem nú þarf að gera, hvort þeir, sem nú telja alveg nauðsynlegt, m. a. til þess að styðja atvinnuvegi landsmanna, að sagt er, að leggja á allan almenning þungar byrðar, — hvort þeir telja ófært að breyta nokkuð til um skipulagsatriði varðandi olíusölumálin í landinu, jafnvel þó að það yrði eitthvað á kostnað gróðans hjá þessum þremur stóru olíufélögum. Ég held, að það væri ákaflega gott að fá einmitt úr því skorið nú, hvort þeir, sem standa t. d. að þessum stóru og þungu efnahagsráðstöfunum, telja, að þarna megi ekki koma við þessa gróðaaðila að einu eða neinu leyti.

Ég vænti svo þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, sjái nú um að afgreiða það hér til þingsins og geti helzt af öllu fallizt á samþykkt þess. Ég óska svo eftir því, herra forseti, að þetta frv. gangi til fjhn. að lokinni þessari umr.