19.11.1968
Neðri deild: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2576)

61. mál, smíði fiskiskipa innanlands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til þess að deila við hv. 1. flm. þessa frv., hv. 4. þm. Austf. En þó var margt, sem hann sagði í sinni ræðu, sem fær engan veginn staðizt og ég er honum ósammála um. Hann segir t. d., að haldi svo fram sem verið hefur, sé borin von, að við séum færir um að smíða eða endurnýja okkar skipastól innanlands og til þess þurfi að láta ríkið koma til og hafa forgönguna um að ákveða smíði skipanna. Um þetta er ég honum alveg ósammála. Ég leyfi mér að halda því fram, að þetta frv. eigi ákaflega lítið erindi inn í þingið og sum ákvæði frv. séu óraunhæf. Sumt stafar af eðlilegum skoðanamun, grundvallarskoðanamun okkar, sem ekki er ástæða til að fara nánar út í, sumt stafar af því, að hv. flm. virðast engan veginn nægjanlega kunnugir því, sem er að gerast í landinu og hefur verið að gerast í sambandi við skipasmíðarnar innanlands. Það mætti ætla af því, sem hér var sagt, að það væri rétt eins og engar skipasmíðar ættu sér stað innanlands, en það munu nú samt sem áður um 13–14 fiskiskip vera í smíðum í íslenzkum skipasmíðastöðvum í dag eða smíði nýlokið. Að vísu eru nokkur af þessum skipum minni skip, tréskip, en sum þeirra eru myndarleg skip, yfir 100 rúml. og 200 rúml. og þaðan af stærri. En jafnhliða minni ég einnig á, að í smíðum í íslenzkum skipasmíðastöðvum eru í dag tvö strandferðaskip, eins og kunnugt er, í Slippstöðinni á Akureyri. Það lætur þess vegna mjög nærri, og hef ég áður vakið athygli á því, að við séum komnir að því marki að geta í okkar íslenzku skipasmíðastöðvum endurnýjað okkar eigin skipastól, og þá á ég við stálskipaflotann, sem hvað myndarlegastur er og nýlega hefur verið keyptur til landsins. Það er misskilningur hjá hv. þm., sem oft hefur komið fram áður hjá öðrum aðilum, að við hefðum getað byggt hinn nýja skipastól sjálfir. Það er ekki rétt. Það er fyrst upp úr 1960, eftir að viðreisnarstefnan var tekin hér í stjórnmálum, að menn fóru að hugsa til stálskipasmíða í landinu, áður höfðu menn ekki lagt í þær, og ríkisstj. hefur veitt öllum þeim aðilum margvíslega fyrirgreiðslu, sem höfðu hug á og hafa á síðari árum stofnað til stálskipasmíða hér innanlands. Það var gerð áætlun fyrir atbeina ríkisstj. um aðstoð við byggingu stálskipasmíðastöðva og dráttarbrauta til endurnýjunar hinum nýja flota á árinu 1964. Það er 1964, 1965 og 1966, sem fyrstu stálskipin eru smíðuð hér, umfram örfá einstök skip, sem áður höfðu verið smíðuð. Alla tíð síðan hefur af hálfu stjórnvalda verið stuðlað að fjáröflun til uppbyggingar skipasmíðastöðva og dráttarbrauta. Og það er fyrst núna, sem afkastageta þessara skipasmíðastöðva er orðin sú, sem ég sagði, að þær eru að nálgast það að geta endurnýjað flotann. Ég hygg, að það hafi verið nokkuð nálægt því, að afkastageta skipasmíðastöðvanna á s. l. hausti, miðað við verðlag þá, hafi verið um 400 millj. kr. á ári. Og við það er náttúrlega, eins og réttilega hefur verið bent á, mikill sparnaður í erlendum gjaldeyri, því að þá var talið, að um helmingurinn af smíði skipa væri erlendur gjaldeyrir. Og það er rétt, að skipasmíðastöðvar með þessum afköstum, sem nú þegar eru til, hafa rúm fyrir hundruð manna í sinni vinnu og verða einn sá þáttur iðnþróunar í landinu, sem taka mun mjög mikinn hluta af vinnuafli til sín á næstu árum.

Hitt er svo alveg rétt, að þessar ungu skipasmíðastöðvar hafa átt í miklum erfiðleikum, og þeir eru af margvíslegum toga spunnir, m. a. almennur fjárskortur, eins og hjá öðrum aðilum í okkar þjóðfélagi, og svo stafa þeirra erfiðleikar, eins og augljóst hlýtur að vera, af þeim miklu erfiðleikum, sem yfir útgerðina hafa dunið. Það hefur ekki verið sama eftirspurn af útgerðarmönnum til þess að láta byggja fiskiskip, og þeir aðilar, sem hafa verið í viðskiptum við skipasmíðastöðvarnar, hafa átt erfitt með að standa í skilum, bæði í sambandi við byggingu skipanna og eins viðgerðir og endurnýjun, sem þar hefur farið fram. Allt hefur þetta bitnað á skipasmíðastöðvunum. En það er eins og hv. 1. flm. þessa frv. sagði, þá hefur af hálfu stjórnvalda verið gert verulegt átak til þess að skapa verkefni fyrir skipasmíðastöðvarnar. M. a. er það rétt, að ríkisstj. ákvað á fundi sínum 4. janúar 1968, að hún mundi hlutast til um 10% viðbótarfjáröflun til þeirra, sem létu smíða eða vildu láta smíða fiskiskip sín hér innanlands, til þess að stuðla að verkefnasköpun í bili í íslenzku skipasmíðastöðvunum. Það hefur svo verið höfð milliganga um það af hálfu iðnmrn. við bankana, að þeir aðstoðuðu með bráðabirgðalán, ef þyrfti. Það hefur lítið komið til þess enn. Skipin eru í smíðum, bráðabirgðalán út á þessi 10% viðbótarlán, þar til gengið yrði frá fjáröflun, sem mundi verða gert í sambandi við fjáröflun til fjárfestingarsjóðanna fyrir árið 1969, og bönkunum heitið, að ef þeir inntu af hendi slíkar bráðabirgðagreiðslur, bráðabirgðalán, fengju þeir þau endurgreidd í janúar 1969. Það er því óhætt að segja, að öllum þeim fiskiskipum, sem nú eru í smíðum í skipasmíðastöðvunum, hafi verið gefin fyrirheit, — öllum, en ekki nokkrum eða einstökum, eins og fram kom áðan, — fyrirheit um eða þau megi ganga út frá því að geta fengið þessi 10% viðbótarlán. Og þar með hafa menn, sem byggja þessi skip hér innanlands, 85% lán, þ. e. a. s. 10% lán til viðbótar 75% láni fiskveiðasjóðs. Þar að auki hafa svo þessir aðilar fengið ýmiss konar fyrirgreiðslu hjá öðrum fjárfestingarsjóðum, bæði atvinnujöfnunarsjóði og atvinnuleysistryggingasjóði, svo að ég hygg, að flestir þeirra hafi um og yfir 90% lán, sem eru að byggja þessi skip nú.

Það er í þessu frv. talað um gerð og útbúnað skipanna, að hann skuli ákveðinn af 5 manna n., sem rn. skipar, og skip skuli eigi vera af fleiri gerðum en þremur. Ég vil minna á það, sem ég hef sagt hér áður, að á miðju sumri 1967 áttum við sjútvmrh. hlut að máli um skipun stöðlunarnefndar fiskiskipa. Sú n. skilaði lauslegu bráðabirgðaáliti haustið 1967, en er ekki enn búin að skila fullnaðarnefndaráliti. Hins vegar hefur af hálfu iðnmrn. mjög verið rekið á eftir, sannast að segja, þessari n., að hún lyki verkefni sínu, og ég hygg, að þess sé nú mjög skammt að bíða, að hún leggi fram till. sínar. Ég hef lagt áherzlu á við n., að það sé betra, að hún skili till. sínum fyrr en síðar, jafnvel þó að hún kynni að vilja vinna betur að þeim, því að auðvitað megi halda áfram endurskoðun á þessum till. En í þessari n. eru mjög færir menn og hæfir á sínu sviði, að því er ég bezt veit. Það eru sérfræðingar þrír, tæknifræðingur og sérfræðingar fiskveiðasjóðs og Fiskifélags Íslands. Það eru fulltrúar frá Landssambandi skipasmíðastöðvanna, skipaðir af iðnmrh., og fulltrúar frá útgerðarmönnum, skipaðir af sjútvmrh. Það þarf þess vegna enga lagasetningu um þetta atriði, en það er auðvitað veigamikið, og því hefur verið á þetta áherzla lögð af hálfu iðnmrn., að slík n. skili sem fyrst áliti, því að það gerir tvennt í senn: Það skapar aðstöðu til þess að fá hagkvæmari skip byggð hér heldur en e. t. v. yrði ella völ á, og auk þess mundi það greiða fyrir, að auðveldara er að ráða við það, sem stundum kemur upp og að mjög eðlilegum hætti á skipasmíðastöðvunum, að hægt sé að skapa þeim stöðugt verkefni við skipasmíði, jafnvel þótt kaupandi sé ekki í bili, í þeirri veru, að þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, stjórnvöld, fiskveiðasjóður eða aðrir aðilar, vita þá, að slíkt skip ætti að vera óhætt að gefa skipasmíðastöð í verkefnaskorti kost á að byrja að byggja, vegna þess að þar sé sú skipagerð, sem hafi fengið á sig almennan viðurkenningarstimpil í þessum flokki. Í öðru lagi stuðlar þessi stöðlun fiskiskipanna að ódýrari skipum. Og ég hef nýlega fengið frá einni skipasmíðastöðinni t. d. að gefnu tilefni upplýsingar um, hverju ætla mætti, að slíkt næmi, og það er í stórum dráttum þannig, að ef miðað væri við 120 rúml. skip eða fiskibát, þá er skoðun þeirra, að smíði eins skips kosti um 16.5 millj, kr., eins út af fyrir sig. Hins vegar, ef saman getur gengið smíði tveggja skipa, mundi sennilega vera hægt að hafa verðið 14.1 millj. kr. á hvoru um sig. Og ef um væri að ræða stöðug verkefni án afláts af sams konar gerð, þá er talið, að þrjú skip, ef þau væru í takinu, gætu hvert kostað 13.3 millj., af 4 skipum hvert 12.9 millj. og af 5 skipum 12.6 millj. Þetta er orðið gífurlegur verðmismunur frá því að hafa eitt stakt skip í smíðum, 16.5 millj., eða 5 skip undireins til smíða, þannig að hvert kosti 12.6 millj. kr. Þetta verð, sem hér er nefnt, er miðað við októbermánuð 1968 og að 20% aðflutningsgjaldið, sem þá var, yrði endurgreitt. Auk þess má segja, að þetta séu lauslegar bráðabirgðatölur, sem er aðallega ætlað að gefa til kynna, hvað hér geti verið mikið í húfi.

Það hefur verið unnið að því núna á þessu hausti að hefja fyrstu tilraun með það að skapa skipasmíðastöð slík verkefni, án þess að ákveðnir kaupendur væru fyrir hendi, og það hefur ekki staðið á stjórnvöldum, hvorki ríkisstj. né peningastofnunum, en það hefur ekki komizt í framkvæmd enn þá vegna erfiðleika í sambandi við tryggingar á fé, sem til þessara hluta þarf, því að það er, eins og ég sagði áðan, rétt, að allar þessar skipasmíðastöðvar hafa oft staðið í ströngu og oft átt erfitt uppdráttar vegna fjárvöntunar, jafnvel þó að lögð hafi verið hönd á plóginn með að útvega þeim fé til byggingarstarfseminnar eða fjárfestingarinnar og rekstrarins. En það er eins og ég sagði áðan, það er svo sem ekki einstakt fyrirbrigði, hvorki fyrr né síðar, í okkar þjóðfélagi.

Það hefur líka verið kvartað undan því og stundum ekki alveg með réttu, að skipasmíðastöðvarnar gætu haft miklu meiri verkefni, ef skipaviðgerðir hefðu ekki farið í jafnríkum mæli fram erlendis og að undanförnu. Ég vil nota þess vegna tækifærið til þess að gera hv. þd. grein fyrir því, að um það var tekin ákvörðun í maímánuði 1967 hjá gjaldeyrisdeildum bankanna að veita ekki gjaldeyrisleyfi vegna skipaviðgerða erlendis, nema ekki væri unnt að annast skipaviðgerðina innanlands á hagkvæmu verði og hæfilega löngum tíma, miðað við það, sem unnt væri erlendis. Þegar þessi stefna var tekin upp, skrifaði viðskmrn. Landssambandi ísl. útvegsmanna og skýrði frá því, að útvegsmönnum væri óheimilt að senda skip sín utan til viðgerða án þess að fá áður leyfi gjaldeyrisyfirvaldanna. Og gjaldeyrisdeild bankanna setti tilkynningu um svipað efni í dagblöðin. En sú tilkynning var reyndar víðtækari og kvað á um það, að allir, sem sendu skip utan til viðgerða, yrðu að fá leyfi gjaldeyrisyfirvaldanna áður. Nú er það sannast bezt að segja, að það hefur orðið brotalöm á framkvæmd þessarar stefnu, af því að það hefur komið fyrir í einstökum tilfellum, — það eru ekki mikil frávik frá því, — að útgerðarmenn hafa látið gera við eða endurbyggja að einhverju leyti skip sín erlendis og komið svo eftir á til þess að fá aðstoð til greiðslu á þessum kostnaði. En þó er það svo, að á fyrstu 9 mánuðum ársins 1968 er gjaldeyrir, sem látinn hefur verið út til viðgerða og endurbygginga á skipum erlendis, 47% minni en á fyrstu 9 mánuðum ársins 1967, og munar þar nokkuð verulega. Enn fremur liggja fyrir tölur um það, hve gjaldeyrisleyfi voru mikil í lok októbermánaðar eða eftir fyrstu 10 mánuði ársins 1968 og 1967, og þar munar einnig svipaðri upphæð, en í heild eru gjaldeyrisleyfin, sem á þessum 10 mánuðum ársins 1968 hafa verið látin út til skipaviðgerða erlendis, 57.2 millj. kr. Þetta virðist í fljótu bragði há upphæð. En hún skiptist þannig, að þarna eru farskipin með 47.1 millj., togarar með 3.7 millj. og fiskiskip 6.5 millj.

Við mig hefur einkum verið talað af umboðsmönnum málmiðnaðarins um erlendar viðgerðir á fiskiskipunum og þá togurunum, og ég skal játa það, að þegar rætt var um þessi mál við mig ekki alls fyrir löngu af fulltrúum frá málmiðnaðinum og ég fékk þessar upplýsingar um viðgerðir farskipanna erlendis, þá var mér óljóst það dæmi áður og þeim var það reyndar líka, sögðu að vísu sem svo, sem augljóst var: Sennilega er meginhlutinn af þessum viðgerðum þó þannig, að farskipin verða ekki tekin nema sum hver í slipp hér heima og bolviðgerðir er ekki hægt að framkvæma hér. — Ég skrifaði þá hins vegar, — það var í byrjun þessa mánaðar, — Eimskipafélagi Íslands og Hafskip hf. og skipadeild Sambands ísl. samvinnufélaga og óskaði eftir því, að þessi skipafélög gerðu iðnmrn. grein fyrir því í fyrsta lagi, í hverju felist skipaviðgerðir á því tímabili, er skýrslan tekur til, þ. e. þessa fyrstu tíu mánuði ársins, hérlendis eða erlendis, og í öðru lagi skoðun sinni á því, að hve miklu leyti hefði verið hægt að framkvæma erlendar viðgerðir hérlendis. Mér hefur ekki enn borizt bréf frá þessum aðilum, en það er sjálfsagt væntanlegt mjög bráðlega, og þessar bréfaskriftir voru gerðar til þess að gera sér grein fyrir, hvað um væri að ræða á þessu sviði skipaviðgerða og endurbygginga, og séu veruleg verkefni þarna, sem ég mundi mjög gjarnan mega vona, þá verður auðvitað stuðlað að því að reyna að fá þau gerð í ríkari mæli hér innanlands eftir en áður. Ég hygg líka, að það sé rétt hjá hv. 4. þm. Austf., að um það atriði velji menn kannske sjálfir, án þess að þurfi að hvetja þá til þess, frekar innlenda smíði, ef hægt er, vegna gengisbreytingarinnar og áhrifa hennar, eins og hann vék að.

Ég veit, að það hafa einnig farið fram viðræður milli Slippstöðvarinnar á Akureyri og Eimskipafélags íslands um það, hvort Slippstöðin mundi ekki geta fengið verkefni við smíði skipa, sem Eimskipafélagið áformar að láta smíða, þegar lokið er strandferðaskipunum, og stálsmíði þeirra á að vera lokið einhvern tíma upp úr miðju ári 1969, stálsmíðinni sjálfri, þó að þá eigi eftir að gera margt við skipin. Það er kannske eðlilegt viðhorf, eins og ég veit, að Eimskipafélagið hefur látið í ljós: Við þurfum að fá vissa vitneskju um hæfileika ykkar til þess að smíða slíkt skip, áður en við mundum þora að ákveða skipabyggingar hjá ykkur. — En það ætti mjög fljótt að geta komið reynsla á það, og ég hygg, að hæfni og geta íslenzku skipasmíðastöðvanna sé að færast í það horf, að þau geti tekið bæði stærri skip en áður, farskip og t. d. togara eða skuttogara eða önnur slík skip.

Það hefur verið álitið, að það væri mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir endurnýjunarþörf fiskiskipastólsins á næsta árabili, 5–10 árum, því að það er ekkert vit af okkur að hugsa bara sem svo, að þetta sé að miklu leyti nýr skipastóll og við þurfum ekki í bili að eyða fé í endurnýjunina. Iðnmrn. hefur þegar skrifað Fiskveiðasjóði Íslands og beðið hann, sem eðlilegt er, sem er aðallánastofnunin og hefur sérfræðinga í sinni þjónustu, að hafa forgöngu um það að gera slíka áætlunargerð. Slík áætlunargerð er að mínum dómi einnig nauðsynleg til þess að ýta undir þá fjáröflun, sem verður að ganga í að afla íslenzku skipasmíðastöðvunum á næstu árum, ekki bara þeirra vegna, heldur þjóðarinnar í heild og búskapar okkar í heild og sjávarútvegsins vegna, því að ég álít, að það sé rétt, sem sagt var áðan, að þær séu færar um að smíða engu lélegri eða kannske betri skip en sum þau skip, sem smíðuð hafa verið erlendis. En þetta er því miður svo á fleiri sviðum, að við þurfum að taka til hendinni og efla íslenzkan iðnað, þar sem íslenzkur markaður er mestur, og þar verð ég að segja, að sumir hafa staðið í stríðu á undanförnum árum, og vitna ég til t. d. tilrauna minna til þess að efla veiðarfæragerð hér á Íslandi, sem sannast að segja hefur ekki hlotið allt of góðar undirtektir, hvorki hjá útgerðarmönnum né innflytjendum, og ég harma mjög, að ekki skuli hafa komizt á gagnkvæmur skilningur og samvinna milli þessara aðila, því að það liggur í augum uppi, að við kaupum erlendis frá veiðarfæri á eldra genginu fyrir meira en 200 millj. kr. og framleiðum kannske veiðarfæri í landinu sjálfu fyrir um 30–40 millj. kr. Svo finnst mönnum í bili, að þeir geti fengið keypt eitthvað betri veiðarfæri erlendis frá. En ef meginhluti þessara veiðarfæra væri framleiddur hér í stórri veiðarfæragerð eða stórum veiðarfæragerðum, tveimur eða þremur eða eitthvað því um líkt, þá mundi aðstaða þessarar veiðarfæragerðar verða allt önnur til þess að framleiða betri og einnig ódýrari veiðarfæri. Og ég hef alltaf litið svo á sjálfur, að þetta væri mikið hagsmunamál fyrir útgerðina. En auðvitað geri ég ekki kröfur til þess, að það sé tekið meira mark á mér í því sambandi heldur en þaulreyndum útgerðarmönnum, sem fram til þessa hafa margir hverjir haft allt aðra skoðun af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta. Það er auðvitað ekki nema góðra gjalda vert, frv. eins og þetta, sem hér er flutt. Ég tel ekki miklu máli skipta, miðað við það, sem ég hef sagt, hver verður afgreiðsla þess, og í vissum meginatriðum mundi ég vilja fara allt aðrar leiðir. En þó er, eins og ég segi, ánægjulegt að vita til þess, að í meginatriðum eru menn á sömu leið úr bæði stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu, og allt það er mikilvægt til þess að hjálpast að, til þess að þessi nýja og unga atvinnugrein okkar Íslendinga geti eflzt í framtíðinni og þurfi ekki að lamast og missa fótanna svo að segja á fyrstu árum sínum, og það þykist ég alveg viss um, að allir hv. þm. eru sammála um að leggja sitt af mörkum til þess, að slík atvinnugrein eflist í landinu til styrktar fyrir íslenzkan iðnað og iðnþróun og íslenzkan útveg og atvinnulíf yfirleitt.