19.11.1968
Neðri deild: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (2577)

61. mál, smíði fiskiskipa innanlands

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Mér sýnist, að hæstv. iðnmrh., sem ég velt þó af nokkrum viðskiptum við hann í sambandi við þessi mál, að er mjög velviljaður í sambandi við þessa starfsgrein, sem hér um ræðir, skipasmíðarnar, og hefur sýnt það í ýmsum greinum, þar sem hann hefur getað komið sínum ráðum við, og ég met það til fulls, — en mér sýnist, að hann hafi þó ekki áttað sig á því, hvert er meginvandamálið, eins og nú er högum háttað hjá okkur, í þessu efni, því miður hafi hann ekki gert það enn. Það er mikill misskilningur hjá honum, ef hann heldur, að þannig sé ástatt í okkar skipasmíðaiðnaði nú, að þar sé um nóg verkefni að ræða. Menn tala um 13–14 skip. Það er hægt að telja þetta upp á fingrum sér af mönnum, sem þekkja til, hvað af skipum er í byggingu. Sum af þessum skipum í tölunni 13–14 eru skip, sem eru búin að vera í byggingu í 4–5 ár, eins og eitt hérna í nágrenni við okkur, og svo nokkrir smábátar. Sannleikurinn er sá, að við getum gengið á þessar skipasmíðastöðvar, sem hér skipta einhverju máli, og þær eru hver með sitt skip og eru að ljúka og hafa ekkert verkefni fram undan. Þannig er það með Stálvík, þannig er þetta með Akranes, þannig er þetta með Ísafjörð og nú Akureyri. Við vitum, að þeir eru með það verkefni að smíða farþegaskip fyrir Skipaútgerðina. Fyrir utan þetta eru nokkur skip, eins og tveir bátar í smíðum í Stykkishólmi upp á 45 rúml., og svo nokkrir, sem hafa orðið að mestu leyti eftir og eru í vandræðum. En um ný verkefni er hér yfirleitt ekki að ræða, og ég hef enga trú á því, að það komi verkefni handa þessum skipasmíðastöðvum okkar, miðað við núverandi verðlag og aðstæður, gangi maður út frá því, að kjörin eigi að vera eins og þau hafa verið.

Það er rétt, að það hefur ekki skort út af fyrir sig á lánsupphæðina. Maður hefur getað fengið upp undir 90% af stofnverðinu. En það er annað, sem um er að ræða. Það er alveg blátt nei við því, að skipasmíðastöð megi byggja skip, nema þar sem fyrir liggur alveg skýrt, hver sé kaupandi að skipinu. Það er algert nei við því. Það er svona, hvað svo sem ráðh. segir. Ég hef alveg síðustu daga rætt við fiskveiðasjóð og fengið það alveg skýrt þar upp, að það er algert nei við því. Ég vildi mjög gjarnan, að ráðh. endurtaki það hér, að það sé búið að breyta þessu, því að ég velt a. m. k. um einn aðila, sem hafði hugsað sér að smíða skip með því fyrirkomulagi. En það hefur ekki fengizt til þessa, það hefur verið algert nei, nema það lægi fyrir samningur um það, hver væri kaupandi að skipinu.

En það voru fleiri atriði í ræðu ráðh., sem mig langaði til þess að víkja að, en hann hefur nú vikið af fundi. Mér sýnist þar gæta talsverðs misskilnings á eðli málsins. En svo að ég haldi þá fyrst áfram með þetta atriði, er það svo, að ég álít, að það séu engar líkur til þess, að skipasmíðastöðvarnar fái hér verkefni nú á næstunni, nema um það verði að ræða, að einhver einn aðili, t. d. eins og fiskveiðasjóður eða þá ríkið í einu eða öðru formi, geri samninga við stöðvarnar um smíðar, án þess að fyrir liggi um kaupendur. Ég hef ekki trú á því, að verkefnin verði öðruvísi.

Ég ætlaði að víkja sérstaklega að því við ráðh., að mér finnst líka gæta hjá honum nokkurs misskilnings um eitt mjög þýðingarmikið atriði í þessum málum, en það er í sambandi við þessa stöðlun á fiskiskipum, sem maður er að heyra alltaf annað slagið, og satt að segja, þegar um það hefur verið talað, hefur verið talað þannig að mínum dómi, að mér sýnist eins og menn hafi ekki gert sér fulla grein fyrir því, hvað þeir eiga við með stöðlun á fiskiskipum. Það er auðvitað ekkert nýtt fyrir okkur að heyra það og vita, að ef samið er um smíði á nokkrum skipum af sömu tegund, komumst við að betri kjörum. Um þetta höfum við sjálfir samið við erlenda aðila oftsinnis áður, og meira að segja lent í því, að sumar þekktar skipasmíðastöðvar hafa sagt við okkur: Við smíðum ekki minna en 5 skip af sömu tegund. Við förum ekki lægra. Við tökum það ekki að okkur.— Frammi fyrir þessu stóðum við t. d. í sambandi við skipasmíðastöðvar í Austur-Þýzkalandi, og við komumst að miklu betri kjörum, þegar við sömdum um smíði á 12 nákvæmlega eins skipum. Þetta eru þeir búnir að vita í mörg ár, sem í þessum málum hafa staðið og þurft hafa að semja við t. d. erlenda aðila um smíði á skipum. Það er miklu hagkvæmara, ef hægt er að koma við samfelldri vinnu við alveg eins skip. En út af fyrir sig er þetta engin stöðlun að öðru leyti en því, að maður hefur slegið fastri ákveðinni teikningu, ákveðinni gerð af skipi, og maður þarf að fá fimm skip af þessari tegund. Það er auðvitað alveg nákvæmlega eins hægt að semja við þessa skipasmíðastöð næsta dag á eftir um það, að hún smíði fyrir mann önnur tíu skip af annarri stærð, en hún vill bara hafa þau 10 af sömu gerð út af fyrir sig. Ég hef enga trú á því, að það verði búið til þannig módelskip hér, t. d. sem landróðrarbátur eða síldveiðibátur, að það verði sagt við allan fjölda íslenzkra útgerðarmanna: Hér er n. búin að finna það út, að svona skal skipið vera, og þetta er hin stimplaða skipagerð og hingað og ekki lengra. — Svona verður þetta ekki. Það kemst engin n. að þessari niðurstöðu. Það fer engin slík stöðlun fram. Það er auðvitað hægt að koma við í skipabyggingum eins og í húsbyggingum og öðrum byggingum ákveðinni stöðlun á ýmsum hlutum, gluggastærð og mörgu öðru slíku í einu skipi, þannig að það sé búið að fella saman nokkuð samfellda stærð af hinum ýmsu hlutum, þó að um mismunandi stór skip sé að ræða. Það getur verið hægt í ýmsum tilfellum og er eflaust gagnlegt. En ég held, að það, sem hér er um að ræða, sé einfaldlega þetta, að það er gott að fá góða menn, sem hafa praktíska þekkingu og tæknilega þekkingu líka, til þess að koma sér saman um það, hvaða stærð af skipum er hentugt að byggja í bili eða óhætt að byggja nokkur slík skip, þó að kaupendur séu ekki fyrir hendi, líklegt sé, að þau muni seljast. Það er sjálfsagt að gera það, það leggjum við til í okkar frv.

En við þurfum ekki að bíða eftir neinni stöðlunarnefnd út af fyrir sig, sem breytir í neinu frá þeim grundvallarreglum varðandi þessi mál, sem við höfum búið við um margra, margra ára skeið. Um það er ekkert að efast. Þessar tölur, sem ráðh. nefndi hér sem dæmi um það, hvað hægt væri að lækka verð á skipum með því að semja um smíði á mörgum skipum af sömu tegund, voru eflaust réttar og lýstu því vel, hvaða árangri er hægt að ná í þessum efnum. Við viljum einmitt með þessu frv. okkar stuðla að því, að þetta verði gert, og við álítum enn fremur, að þessari hagkvæmni verði ekki komið við, nema það komi fram einhver einn aðili, sem hefur vald til þess að semja við skipasmíðastöðvarnar um ákveðinn fjölda af einni tiltekinni gerð. Ef það á að vera á valdi einstakra útgerðarmanna að semja hver fyrir sig við sína skipasmíðastöð um bátinn, þá verður þessari hagkvæmni aldrei komið við. Reynslan mun verða sú. Þetta er ósköp svipað í rauninni í þessum efnum eins og í sambandi við húsbyggingar. Ef það er svo, að það kemur hver einstakur maður og segir: Ég ætla að ráða bæði innréttingu og gluggagerð og öllu saman á minni íbúð, — þá er ósköp hætt við því, að það verði 100 mismunandi útgáfur hjá 100 mönnum í þessum efnum. En ef hins vegar getur komið fram eitt byggingarfélag, einhver aðili, sem byggir 100 íbúðir af tiltekinni gerð, sem verða að teljast heppilegar íbúðir, þá er kannske hægt að koma fram meiri „standardíseringu“ í byggingunni en annars. Og það er þetta, sem ég held, að verði að gerast, og ég held, að það verði mjög verðugt verkefni einmitt fyrir hæstv. iðnmrh., sem tvímælalaust hefur sýnt áhuga í sambandi við það að koma hér upp slippum og að búa í haginn fyrir skipasmíðastöðvar á margan hátt, — það væri verðugt verkefni fyrir hann að taka það að sér nú að standa fyrir því, að samið verði við skipasmíðastöðvarnar um smíði á tilteknum fjölda fiskiskipa af þeim stærðum og gerðum, sem nokkurn veginn liggur augljóst fyrir, að við þurfum á að halda, — semja við þær um góð verkefni fyrir stöðvarnar, um hagkvæm skip og eitthvað ódýrari skip fyrir útgerðina en annars væri hægt að fá og auðvitað um þann tvímælalausa gjaldeyrissparnað, sem hér væri um að ræða og hæstv. ráðh. viðurkenndi, að tvímælalaust væri hér til staðar. Ég held, að það væri verðugt verkefni einmitt fyrir hæstv. ráðh., að fá sér heimild til þess að takast á við þetta verkefni og leysa það. En það er skoðun mín, að verði þetta látið vera eins og það er, hafi skipasmíðastöðvarnar okkar á næstunni lítil verkefni, sundurslitin verkefni, hér verði um sérbyggingar að ræða hjá hverjum og einum, að því litla leyti sem það verður. Og það verður mjög erfitt fyrir hina einstöku aðila að komast í gegnum þau form, sem enn gilda, — mjög erfitt.

Það er svo annað atriði í þessu líka, sem ég álít, að menn megi ekki blanda saman, en mjög er algengt, að menn blandi saman í þessum efnum, og það er það, hver hefur verið aðstaðan hér til þess að smíða skip innanlands og hver hefur verið aðstaðan til þess að taka upp skip í dráttarbrautir til þjónustuviðgerða. Við vorum orðnir mjög illa settir með dráttarbrautir fyrir stærri skip. Þar stóð þetta í rauninni þannig, að við höfðum varla hæfar dráttarbrautir nema hér í Reykjavík fyrir hin stærri skip okkar, ekki einu sinni stærri fiskiskip. Í þeim efnum hefur nú verið gert stórátak og lagast talsvert mikið. Við þurfum að hafa góðar dráttarbrautir til þess að geta tekið skipin upp og þjónað þeim á eðlilegan hátt. En við þurfum ekki slíkar dráttarbrautir til þess að smíða skip. Það er misskilningur. 300–400 tonna skipin okkar, sem við erum að kaupa frá Noregi, eru byggð á stöðum, þar sem engin dráttarbraut er. Þau eru byggð á stöðum í ýmsum tilfellum, sem ég gæti helzt líkt við stað eins og Mjóafjörð hjá okkur fyrir austan. Það þarf ekkert ýkjamikla aðstöðu til þess að geta unnið a. m. k. stóran hluta af því að smíða skip. Við gátum byggt hér miklu meira af skipum, og þar sem aðstaða hefur verið langbezt í þessum efnum, eins og hér í Reykjavík, þar hefur næstum ekkert verið gert í þessum efnum. Ég álít því, að til þess að gera virkilega fullkomin og góð aðstaða, eins og að nokkru leyti hefur tekizt að koma upp bæði á Akureyri og Akranesi, þar sem hægt er orðið að vinna innanhúss við smíði allstórra skipa, það er auðvitað mjög þýðingarmikið og gott miðað við okkar aðstæður. En það er sem sagt ekkert algert skilyrði til þess, að hægt sé að byggja þokkaleg fiskiskip fyrir okkur, að hafa þannig aðstöðu, og höfum við byggt auðvitað talsvert mikið af skipum hér allt til þessa án þess að hafa það. En ég er svo ekki að þræta við hæstv. ráðh. um þetta, því að ég sé, að það er ekki skoðanamunur hjá okkur um þetta að öðru leyti en því, að mér finnst, að hann trúi á það, að það ástand, sem við búum við í þessum efnum, eða þær reglur, sem við búum við, þeir lánamöguleikar, sem við búum við, muni út af fyrir sig duga, hér verði smíðaðir bátar og endurnýjun muni fara fram hér og það þurfi því ekki að hafa svona forgöngu ríkisvaldsins, sem stungið er upp á í okkar frv. Þar er nokkur skoðanamunur hjá hæstv. ráðh. og okkur, sem stöndum að þessu frv. Við álítum, að þetta, sem er nú, dugi ekki, það þurfi að koma til forusta ríkisvaldsins í þessum efnum.

Ég skal svo aðeins að lokum taka undir það með hæstv. ráðh., að ég er honum alveg sammála í því, að við hefðum þurft að gera hér miklu meira en gert hefur verið í sambandi við ýmsar aðrar greinar okkar iðnaðar, m. a. veiðarfæragerðina. Ég er honum alveg sammála um það. Ég álít, að við þyrftum að koma hér upp miklu öflugri innlendri veiðarfæragerð en við höfum hér. En ég held, að sú tregða, sem fram hefur komið í sambandi við þá veiðarfæragerð, sem hér er, nú eiginlega ein til, hafi verið af öðrum toga spunnin. Ég veit, að það hefur eflaust gætt nokkurrar íhaldssemi hjá togaraeigendum að skipta við þessa veiðarfæragerð og reyndar fleiri útgerðarmönnum. Þarna er aðeins eitt fyrirtæki, sem starfar á nokkuð tilteknu sviði. En ég er hæstv. ráðh. alveg sammála um það, að við eigum í rauninni ekki að una við það, að við, sem kaupum svona mikið eins og raun er á af veiðarfærum til landsins á hverju ári og þurfum svona mikið á veiðarfærum að halda eins og raun er á, við skulum ekki geta komið hér upp myndarlegri veiðarfæragerð, sem gæti framleitt megnið af þeim veiðarfærum, sem við þurfum að nota á hverju ári. En ég er líka á þeirri skoðun, og kemur þá til þessa sama, ég hef litla trú á því, að þetta verði leyst, eins og ástatt er hjá okkur, nema með beinni forgöngu ríkisvaldsins. Ég held, að ríkið verði að standa að því, að lagt sé í slíka stórframkvæmd eins og að koma hér upp stórri og myndarlegri veiðarfæragerð. Ég hef ekki trú á því, að þeir aðilar, sem fyrir starfa í þessum efnum, ráði við þetta verkefni. Það er nú svo, að í æðimörgum tilfellum einmitt stendur svo á, að við erum tiltölulega litlir hér. Fjármagn einstakra aðila er svo lítið hér, að þeir ráða ekki við þessi stærri verkefni, og það þarf því að koma til bein forusta af hálfu ríkisvaldsins, t. d. eins og í því formi að láta byggja talsvert af góðum skipum, jafnvel þó að þau gangi áfram út til sölu og verði síðan í höndunum á allmörgum aðilum í rekstri. Það er annað mál. En að því leyti til, sem hæstv. ráðh. tók undir það, sem er meginmál þessa frv., að reyna að vinna að því að ýta undir framkvæmd í þessum efnum, þá þakka ég sem sagt fyrir þær undirtektir.