25.11.1968
Neðri deild: 18. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (2582)

66. mál, greiðslufrestur á skuldum útgerðarmanna og vinnslustöðva sjávarafla

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 2. þm. Reykn. að flytja hér frv. til l. um tímabundinn greiðslufrest á skuldum útgerðarmanna og útgerðarfyrirtækja og vinnslustöðva sjávarafla til undirbúnings breytinga lausaskulda í föst lán og ef til vill skuldaskila.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur lækkað mjög síðustu tvö árin. Þetta snertir hag allrar þjóðarinnar, en það er ljóst, að þyngstu áföllin koma á þá, sem starfa við fyrirtæki, sem annast þessa framleiðslu. Að nokkru leyti kemur þetta fram á tekjum sjómanna, en að langmestu leyti bitnar þetta á afkomu fiskvinnslustöðva, báta og togara. Ég veit, að það er alls ekki upplýst, hversu mikið tapið verður hjá þessum fyrirtækjum á þessu ári, en ef maður lítur á, hvað útflutningsverðmætið hefur lækkað mikið, er ljóst, að það getur tæpast orðið minna en einn milljarður eða eitthvað nálægt því, jafnvel þó að afskriftir væru ekki reiknaðar.

Ég hygg, að það hafi verið gert yfirlit yfir þetta í ágúst í sumar af stofnunum ríkisstj., sem hún hefur til að athuga þessi efnahagsmál. Ég hef fengið að sjá eitt eintak af þessu, — ég vil taka það fram, að ég hef ekki fengið að sjá það hjá neinum þm., ég fékk að sjá það hjá öðrum aðilum af tilviljun, — og þar er reiknað með, að hallinn verði um 1600 millj., en af því eru afskriftir nálægt 700 millj., þannig að fyrir utan afskriftir ætti samkv. því tapið að verða allt að 900 millj. Nú er það ljóst, að þá lá ekki fyrir neitt endanlegt uppgjör á þessu og getur ekki legið fyrir fyrr en eftir næstu áramót. Þar var t. d. gert ráð fyrir því, að síldarsaltendur mundu geta rekið sínar stöðvar taplaust, en ég tel, að það sé dálítið vafasamt vegna þess, hve síldaraflinn hefur verið miklu minni en búizt var við þá. Það er ekki hægt að fullyrða um þetta, fyrr en komið er fram í janúar og búið er að safna ýtarlegum skýrslum. En við vitum, að lausaskuldirnar hvíla með ofurþunga á ýmsum útgerðarfyrirtækjum. Við vitum einnig, að frystihúsin hafa verið að smástöðvast. Þau hafa ekki getað greitt fólkinu kaupið. Fólkið hefur eðlilega ekki viljað vinna nema fá sitt kaup. Það þarf á því að halda. Það eru jafnvel sum frystihús nú, sem ekki er hægt að reka vegna þess, að þau eru í svo miklum rekstrarfjárskorti.

Ástæður útgerðarmanna eru þannig, að þeim er eiginlega hvergi vært fyrir rukkurum, þeir hafa hvorki matfrið né svefnfrið. Ég hygg, að margir eigi mjög erfitt með að gera upp við sjómennina nú.

Við höfum ekki samið neitt endanlegt frv. viðvíkjandi þessu, því að reynsla okkar er sú, sem í stjórnarandstöðunni erum, að yfirleitt kærir ríkisstj. sig ekkert um, að við séum að semja nein frv., sem eiga að fara í gegn. En við höfum viljað vekja athygli á þessu máli. Og ég vil taka það fram, að það eru ekki eingöngu við, þessir tveir flm., sem stöndum að þessu, flokkurinn gerir það í heild, sem við tilheyrum. Hann vill vinna að því að leysa þetta á sem hagkvæmastan hátt. Að sjálfsögðu þarf að athuga þetta ýtarlega, áður en frv. er samið. Það geta ýmsar leiðir komið til greina. Bezt væri að þurfa ekki að framkvæma skuldaskil nema þá í mjög fáum tilfellum. Það er einnig mjög athugandi, á hvern hátt á að koma þessum lánum fyrir, hvort lánin eiga að vera við viðskiptabanka eða fiskveiðasjóð eða einhvern sérstakan sjóð. Fyrir útgerðarmenn og fiskvinnslustöðvar álít ég, að væri langbezt að hafa þetta í sambandi við fiskveiðasjóðinn, því að sannleikurinn er sá, að fiskveiðasjóðurinn hefur reynzt okkur betur en nokkur önnur lánastofnun með skilningi og greiðvikni á ýmsan hátt, og er það ekki nema eðlilegt, því að það er greitt árlegt tillag til hans, en auk þess, að það er eðlilegt, hefur þar ríkt skilningur og velvilji í garð þeirra stofnana, sem að framleiðslu sjávarafurða vinna. Ég held, að það sé nauðsyn að gera þetta sem allra fyrst, hvort sem stjórnarflokkarnir vilja, að þetta frv. sé samþ. óbreytt, eða þeir vilja koma með frv., sem einhvern veginn væri öðruvísi. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er, að eitthvað sé gert í málinu og það sem allra fyrst.

Ég hef enga trú á því, að þetta geti gengið miklu lengur, að það sé ekki greitt fyrir að koma þessum óreiðuskuldum einhvern veginn hagkvæmar fyrir en nú er. Við vitum það, að útgerðarlán hafa eiginlega ekkert hækkað, frá því að gengi peninganna fór að lækka. Ég hygg, að þau hafi ekkert hækkað, síðan gengið var fellt í fyrra, og nú er búið að fella það á einu ári yfir 100%. Ég hygg, að lánin fyrir bátana séu 250–350 þús. kr., og mér er ekki kunnugt um, að það sé nokkur vegur að fá aðra fyrirgreiðslu í lánastofnunum. Við vitum, að lausafé bankanna er ekkert eins og stendur, og þó að menn séu að biðja um smávíxla, er mjög örðugt að fá þá og alls ekki hægt með stærri upphæðir. Ég er ekki að ásaka bankastjórana fyrir þetta, því ég veit, að þeir hafa peninga ekki til. Þó að þeir hafi stundum sagt, að þeir hefðu ekki peninga, þó að þeir hefðu þá, hygg ég, að þeir geri ekki mikið að því nú. Ég sé því ekki, að það sé neltt að flýja. Við vitum enn fremur, að þessar óreiðuskuldir lama atvinnulífið í landinu. Fiskvinnslustöðvar er ekki hægt að starfrækja, ef alls staðar hvíla á þeim óreiðuskuldir. Olíuna þarf t. d. að borga, um leið og hún er tekin, lítrinn er kominn á fjórðu krónu. Þetta er bara einn liður. Það þarf allmikla fjárhæð til að geta greitt olíuna fyrir fram. Veiðarfæri hafa raunar fengizt á víxlum, og má vera, að það verði áfram, en þau þurfa líka að borgast, og ýmislegt þarf að greiða. Þessi útgerðarlán eru, eins og ég talaði um, ekki há, ég held, að það sé svipuð upphæð og hefur verið, og þar að auki eru þau dýr, og sannleikurinn er sá, að það er hrein neyð að þurfa að taka þau. Ég held, að ríkisstj. hefði getað hlutazt til um að gera þessi lán auðfengnari og ódýrari en er með því að létta af einhverju af þessum gjöldum, stimpilgjöldum og öðrum kostnaði, þinglýsingargjöldum og öðru slíku af þessum lánum, semja einföld lög viðvíkjandi útgerðarlánum, og þannig greiða fyrir, að útgerðarmenn gætu fengið þau án þess að borga þennan aukakostnað, sem er mikill og mikil vinna við þau. Ég hef ekki tekið útgerðarlán í nokkur ár, því að mér hafa fundizt þau svo leiðinleg og ógeðsleg, að ég hef ekki notað þau, enda er það ekki nema aðeins tímaspursmál. Þetta eru smáupphæðir, sem teknar eru þegar af aflanum, og ekkert nema fyrirhöfnin og erfiðleikarnir við þau. Það væri æskilegast fyrir sem flesta útgerðarmenn að þurfa ekki að taka þau. Að sjálfsögðu bitna efnahagserfiðleikarnir einnig á verkafólkinu í landinu, því að þegar fyrirtækin geta ekki borgað kaup, hvort sem það eru sjómenn eða fólkið, sem vinnur í frystihúsunum eða söltuninni, þá leiðir það til þess, að fólkið hættir að vinna fyrr eða síðar, og þar að auki er staðreynd, að fólkið vinnur verr, ef það fær kaupið sitt ekki greitt skilvíslega, enda þarf það vitanlega á því að halda.

Þessir rekstrarörðugleikar geta orðið til þess, að ýmsir bátar komist ekki á veiðar á réttum tíma, og fiskvinnslustöðvarnar fá síður afla, ef þær geta ekki greitt fiskinn út. Það er allt, sem hjálpast að því að gera þessar aðgerðir nauðsynlegar. Ég veit vel, að mikið af þessu tapi útgerðarmanna liggur í því, að það eru ekki greiddar afborganir af lánunum eða vextir af lánunum í fiskveiðasjóði. Ég reikna ekki með því, að margir bátar geri það og e. t. v. ekki fiskvinnslustöðvarnar heldur í ár. Ég reikna með því, að það verði farið inn á þá leið að hækka prósentuna, sem tekin er af aflanum, ríkið leggi eitthvað á móti. Það var byrjað á þessu í fyrra til þess að standa undir vöxtum og afborgunum. Ég segi þetta ekki af því, að ég hafi frétt það eftir neinum leiðum frá ríkisstj., en ég held, að þetta verði eina leiðin, sem hægt er að fara. Það verður óhjákvæmilegt að gera þær ráðstafanir. Útgerðarmenn hafa sjálfir verið að samþykkja till. um þessi efni og farið fram á, að tekin verði 20% af aflaverðmætinu, og það veitir áreiðanlega ekki af því. Jafnvel þó að það kæmi eitthvað svipað framlag frá ríkissjóði, þá veitir ekkert af því til að standa undir þessum liðum. En hvað sem um það er, þá er jafnnauðsynlegt að losna við þessar óreiðuskuldir.

Til þess er þetta frv. flutt, að útgerðarmenn geti verið eins og frjálsir menn þennan tíma, þangað til eitthvað verður gert í þessu, og þá reikna ég með, ef stjórnarflokkarnir aðhyllast þá leið, sem við flm. og okkar flokkur aðhyllumst, að óhjákvæmilegt sé að gera eitthvað í þessu, og það er miðað við 1. maí 1969, að fresturinn sé þangað til, vegna þess að það er ekki hægt að safna endanlegum skýrslum um afkomu ársins fyrr en eftir áramót, og svo tekur alltaf sinn tíma að semja frv. og koma þeim í gegn. Þetta er ekki gert í þeim tilgangi, að við ætlumst til, að menn tapi skuldum sínum, heldur til þess að greiða fyrir því að minnka þá örðugleika, sem fiskvinnslustöðvar og útgerðarmenn eru í nú í bili, eða með það fyrir augum, að síðar verði gerðar raunhæfar ráðstafanir. Vilji stjórnarflokkarnir ekkert í þessu máli gera og ætli sér ekkert í því að gera, er það sjálfsagt, að þetta frv. dagar uppi eins og mörg frv., sem við höfum komið með í stjórnarandstöðunni, og nær það þá ekki lengra. En við vildum sýna okkar hug til málsins með því að flytja þetta nú og vekja athygli á því.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.