02.12.1968
Neðri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

86. mál, söluskattur

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Vestf., vil ég taka fram, að mér hefur ekki tekizt að fá hjá þeim, sem ég leitaði eftir, nákvæmar tölur um það, hve mikla fjárhæð hér er um að ræða. En í sambandi við það, sem fram kom í ræðu hans um ábyrgð þm., þá mun ég ekki telja mig neitt standa þar höllum fæti. Ég veit ekki, hvort þeir hv. þm., sem hafa stjórnað fjárhagsafkomu þjóðarinnar síðasta áratug, hafa efni á því að tala um ábyrgðarleysi annarra.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr. fjárlagafrv., að afkoma ríkissjóðs er ekki góð og fyrir fjármálum ríkissjóðs er ekki vel séð. En þau verða aldrei leyst með því að leggja söluskatt á mat fátækasta fólksins í landinu. Það verður ekki sú lausn, sem ég vil standa að, og ég ber þess vegna þetta mál hiklaust fram. Ég vil líka minna hv. þm. á, að það hefur verið við fjárlagaafgreiðslu talið ekki hægt að sinna smámálum, en komið nokkru seinna með útgjöld úr ríkissjóði upp á hundruð millj., eins og gert var á yfirstandandi ári í janúar eða febrúar, þó að fjárlög væru afgreidd fyrir hátíðar og ekki talið fært að taka þá smáútgjaldahækkun á fjárlagafrv. Þess vegna er ég sannfærður um það, að því er betur varið og þessi þáttur er frekar til að leysa úr erfiðleikum í aðsteðjandi vandamálum heldur en flest annað, sem nú er fram komið, og það verður ekki hægt að komast hjá því að leysa málefni hinna verst settu í þjóðfélaginu, og þessi lausn mun reynast ríkissjóði happadrýgri en flest annað.