02.12.1968
Neðri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (2610)

86. mál, söluskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að efna til mikilla umr. um þetta mál, en sannast sagna fannst mér viðbrögð hv. 1. flm. þessa frv. við mjög hógværri fsp. eins þm. hér í hv. d. ákaflega furðuleg. Ég held, að það sé sannast sagna ekkert eðlilegra og í rauninni annað algerlega ábyrgðarlaust heldur en menn spyrjist fyrir um það, hvað frv. sem þetta feli í sér háar upphæðir, hvað sé gert ráð fyrir, að ríkissjóður tapi miklu í tekjum, og það er náttúrlega ekkert svar við því að segja, að aðrir menn hafi stjórnað fjármálum ríkisins svo illa, að þess vegna sitji ekki á þeim að vera að tala um það, að þetta vanti nú í frv. og grg. fyrir því. Þetta er auðvitað alveg fráleitt, að bregðast svona við fsp. En það kannske sýnir bezt, hvað vakir fyrir hv. flm.

Mér fannst nú, þegar ég sá þetta frv. fyrst, að það minnti á gamansögu, sem ég skal ekki út í fara, en lauk með því, að viðkomandi maður, sem hafði ekki haft allt of mikið framtak til vissra aðgerða og þurfti að fá vin sinn til þess, sagði, þegar kom að hinni þægilegu hlið: Nú get ég. — Og mér fannst þetta frv. minna á það, að hv. flm. hefur alveg láðst að taka þátt í aðgerðum, sem eru kjarni þess vandamáls, sem við höfum verið að fást við síðustu vikurnar og mánuðina, og dregið sig algerlega ekki aðeins í hlé, heldur snúizt gegn ráðstöfunum, sem hafa verið kjarni vandans og hafa beinzt að því að leysa hann. En þegar að því kemur að minnka hann í hina áttina, þ. e. a. s. fara að rétta að hinum almennu borgurum ýmis þægindi, þá eru þeir til. Þá er ekkert vandamál að taka þátt í að minnka vandann, eins og það er orðað. Nú ætla ég mér ekki að fara að ræða þetta í neinum ádeilutóni. Ég get ekki gert annað en segja þetta, þegar hv. þm. bregzt svo við hógværri fsp. eins og hér var beint til hans áðan. Það sýnir, að ekki liggur það raunsæi á bak við þessa tillögugerð, sem ég satt að segja hefði eins og fyrirspyrjandi vænzt af þessum hv. þm., sem bæði er glöggur og reyndur maður og þekkir auk þess ákaflega vel fjárhagsvandamál, sem við er að fást í þessu sambandi. Nóg um það. Því er að vísu haldið fram, að þessi leyndardómsfulla upphæð, sem enginn veit, hver sé, við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af henni, því að það muni allt skila sér í till. hv. þm. um breytingar á skatteftirliti. Ég er nú í ákaflega miklum efa um það og skal ekki út í það mál aftur fara, en það hefur verið reynt, held ég, með öllum ráðum, sem tiltæk eru, að halda uppi virku skatteftirliti, og það skal vissulega ekki á standa að halda því áfram, en að sú till. út af fyrir sig færi ríkissjóði eitthvert stórfé í kassa, það held ég, að sé meira en ég veit að hv. þm. muni láta sér til hugar koma, að séu nokkrar sannanir fengnar fyrir.

Varðandi það atriði, að flm. og flokksbræður þeirra hafi aldrei fengizt til að taka þátt í að leggja skatta á fátæklinga, — ég veit nú ekki, hvort það er ástæða til þess að ræða það svo ákaflega ýtarlega, menn þekkja það allt of vel frá liðnum árum. Ég er ekki að saka þá um eitt né neitt fyrir það, en ég held, að það þýði ekki með einfaldri setningu eins og þessari að hvítþvo sig af því, að þeir hafi aldrei komið nálægt neinni óhæfilegri skattlagningu á almenning í landinu. En sleppum því einnig.

Það var í rauninni annað, sem ég hafði í tilefni af frv. viljað ræða efnislega um. Og það er það, að vitanlega kemur mjög til álíta, hvað hægt sé að gera til þess að létta almenningi og þá fyrst og fremst hinu tekjulægsta fólki áhrif gengisbreytingarinnar og hinnar miklu verðhækkunar, sem henni fylgir. En það mál þarf allt saman nánari athugunar við, og þýðir ekki að varpa fram undirbúningslaust frv. um það efni. Það mál verður tekið fyrir á næstu vikum og skoðað niður í kjölinn, með hvaða hætti auðið er að gera það, og ég er síður en svo sannfærður um, að það verði heppilegasta leiðin að velja þetta úrræði sem eitt þeirra úrlausnarefna eða úrræða, sem þar koma til álíta. Þar kemur margt alveg eins til greina. Ég er nefnilega alveg í vafa um það, að niðurgreiðslur út af fyrir sig eða lækkun vöruverðs almennt, eins og hér er gert ráð fyrir, leysi almennt sérstaklega vanda þeirra, sem eru miður settir í þjóðfélaginu, því að slíkar greiðslur létta auðvitað vanda allra, líka þeirra, sem eru mjög vel settir í þjóðfélaginu. Hér er um almennar niðurgreiðslur að ræða, og ég er t. d. í vafa um það, hvort það gæti ekki jafnvel komið til álíta að minnka niðurgreiðslur almennt og nota þá peninga, sem þar sparast, með einhverjum öðrum hætti til þess að minnka álögurnar á þá, sem verst eru settir. Ég er ekki þar með að segja, að líta beri á þetta sem mína tillögu. Ég álít, að það komi mjög til álita, því að það er alveg ljóst og verður aldrei hjá því komizt, að það verður nú að leggja almennt álögur á landsmenn. Hjá því getur enginn maður komizt með neinum hætti. Spurningin er aðeins: Hvernig er hægt að létta byrðarnar fyrir þá, sem verst eru settir? Það er það viðfangsefni, sem þarf að skoða nú á næstunni.

Það atriði, að því hafi verið slegið föstu 1966 með verðstöðvunarstefnunni og auknum niðurgreiðslum í því sambandi, að fólk gæti ekki keypt þær vörur, sem þar er um að ræða, nema með því að halda niðri vöruverðinu, það er auðvitað allt annars eðlis, sem þar er um að ræða, og ekkert mat á því. Þar var eingöngu um að ræða aðgerðir til að halda niðri vísitölu, hreint og afdráttarlaust sagt, og það vissu allir. Það er enn þá varið mjög miklum fjárhæðum í niðurgreiðslur, og það er eitt af þeim málum, sem þarf að taka til íhugunar, hvort því fé sé jafnvel ekki betur varið til þess að létta undir með þeim, sem verst eru settir.

Það er svo staðreynd, að það er ákaflega erfitt að hafa margar vörur undanþegnar söluskatti. Reynslan hefur sýnt það á undanförnum árum og áratugum, að miklar undanþágur frá söluskatti, a. m. k. í sambandi við blönduð viðskipti, eru ákaflega erfiðar og leiða til þess, að það er miklum erfiðleikum bundið að koma við virku eftirliti með söluskattsskilum. Þetta vita allir og hafa bent rækilega á, sem fást við framkvæmd söluskattsmálanna, þannig að það að fara að undanþiggja einstakar vörutegundir, sem eru seldar blandaðri sölu í almennum matvöruverzlunum, er mjög erfitt og vandasamt og hættulegt. Það má segja, að nýmjólk út af fyrir sig, sem seld er í sérstökum mjólkurbúðum, það sé mál, sem komi til athugunar og þurfi ekki að vera erfitt, né heldur nýr fiskur eða eitthvað slíkt, sem er selt í sérstökum fiskbúðum. En að öðru leyti er það mjög varhugavert.

Ég skal að öðru leyti ekki, herra forseti, segja um þetta annað en endurtaka það, sem ég áður sagði, að ég efast stórkostlega um það, að þetta sé heppileg lausn á þeim vanda að leysa sérstaklega byrðar þeirra, sem nú eru verst settir, og í annan stað álít ég, að þetta verði ekki slitið úr samhengi við hina almennu skoðun þess vandamáls og þess vegna sé það út af fyrir sig ekki sérstakt innlegg í málið að flytja frv. með þeim hætti, sem hér hefur verið gert.