18.12.1968
Neðri deild: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (2635)

90. mál, greiðslufrestur á skuldum bænda

Flm. (Stefán Valgeirsson) [frh.]:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. viðskmrh. er ekki í fundarsalnum, en þar sem aðalmálgagn hæstv. ríkisstjórnar, Morgunblaðið, hefur upplýst mig um það, að það séu hálfgerð skrípalæti að ætlast til þess, að hæstv. ráðh. sinni þingstörfum, vil ég bera það undir forseta, hvort um annað sé að ræða en að hefja mál mitt að hæstv. viðskmrh. fjarstöddum, þó að mér finnist, að það hefði verið viðkunnanlegra, að hæstv. ráðh. hefði verið viðstaddur, þar sem ég ætla fyrst og fremst að beina máli mínu til hans. (Forseti: Forseta þætti vænt um, ef hæstv. þm. vildi halda áfram ræðu sinni. Hins vegar vill forseti stuðla að því eftir megni, að hæstv. viðskmrh. verði viðstaddur.) – Mun ég nú ræða stöðu landbúnaðar í þjóðfélaginu með tilliti til þeirra fjárhagslegu erfiðleika, sem hann hefur nú við að stríða. Ástæðan, sem ég tel fyrir þessum erfiðleikum, er fyrst og fremst hin breytta stefna, sem hæstv. ríkisstj. knúði fram í krafti meiri hl. síns, er hún settist á valdastóla. Ég mun ræða hina nýju landbúnaðarstefnu ríkisstj., sem nú er verið að marka vegna kröfu Alþfl. Ég mun ræða, til hvers sú stefna muni leiða, ef hinir misvitru ráðh. fá ráðrúm til þess að koma henni í framkvæmd. Ýmsir kaupstaðir og bæir eiga mest sitt undir því, að samdráttur verði ekki í landbúnaði, nema áður sé öðrum stoðum rennt undir atvinnulíf hjá þeim. M. a. kemur það fram, að landbúnaðarafurðir eru nú fluttar út fyrir um 500 millj. kr. Þá mun sú spurning sækja á flesta, hvort gjaldeyristekjur þjóðarinnar séu svo miklar, að hún megi við því að verða af þessum gjaldeyri. Ég mun einnig sýna fram á, að hæstv. viðskmrh. nefnir aðeins það, sem fer út úr ríkiskassanum vegna útfluttra landbúnaðarafurða, en nefnir það ekki að neinu, sem kemur aftur til baka af innflutningnum fyrir þann gjaldeyri í tollum og söluskatti, en það mun vera lítið lægri upphæð. Ég mun benda á það, að sá, sem græðir mest á gengisfellingunni, verður varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og Sviss Alúminíumfélagið í Straumsvík og erlendir verktakar á vegum þeirra. Niðurstaða mín er sú, að skorturinn eigi að vera skömmtunarstjóri hjá ríkisstj. í stað skynseminnar.

Þegar unnið var að verðlagningu landbúnaðarvara haustið og veturinn 1967 og í ljós kom, að lög um framleiðsluráð landbúnaðarins voru gjörsamlega sniðgengin og hreinni valdníðslu beitt til þess að hindra allar verðhækkanir á framleiðsluvörum bænda, ræddi ég hér á hinu háa Alþingi, hvernig efnahagur margra bænda væri þá þegar kominn og til hvers það mundi leiða, ef dómur yfirnefndar yrði látinn standa og engar ráðstafanir gerðar til þess að rétta hlut bændastéttarinnar að öðru leyti. Ég benti á, að verðlagningin haustið 1966 hefði ekki tekizt betur en það, að meðaltekjur bænda mundu a. m. k. verða 33% minni en viðmiðunarstéttanna, þótt fullt tillit væri tekið til þeirra hliðarráðstafana, sem fylgdu samningunum 1966. Nú hefur aftur komið í ljós, að bændur náðu ekki hálfum tekjum það ár, miðað við viðmiðunarstéttirnar. Er það samdóma niðurstaða búreikningaskrifstofu landbúnaðarins og hagstofunnar. Niðurstaða þessara stofnana beggja varðar vinnulaun bændafjölskyldunnar allrar, og voru þau um 95 þús. kr. að meðaltali. Hins vegar voru meðaltekjur viðmiðunarstéttanna 228 þús. það árið, fyrir utan vinnulaun konu og barna. Það vantaði því hvorki meira né minna en 133 þús. á meðaltekjur bændanna það árið, miðað við aðrar stéttir, og þó er að engu reiknuð öll sú vinna, sem húsfreyjurnar og börnin inna af hendi við framleiðslustörfin.

Þegar þessi niðurstaða er höfð í huga, og hvernig var að verðlagningu landbúnaðarvara staðið haustið 1967, ætti það ekki að vera undrunarefni neinum vitibornum manni, þó að miklir erfiðleikar séu nú hjá bændastéttinni í heild. Gengisfellingin í fyrra jók svo enn á erfiðleika bændastéttarinnar. Þó að afurðaverðið hækkaði, miðað við hinn úrskurðaða grundvöll, var það ekki í reynd nema hluti af hinum raunverulega aukna rekstrarkostnaði, þar sem magntölur í grundvellinum voru þar vanreiknaðar, jafnvel að hálfu leyti. Og fleira kom til. Sú rekstraraðstaða, sem viðreisnarstjórnin hafði búið bændastéttinni á valdaferli sínum og Morgunblaðið hefur hælt hæstv. landbrh. mest fyrir, reyndist bændum svo heil, að sú hækkun að krónutölu, sem við fengum fyrir aðalútflutningsvöru landbúnaðarins, er leiddi af gengisfellingunni, reyndist vera um 7 kr. á einingu, en hinn raunverulegi rekstrarkostnaður hækkaði um 10–11 kr. á hverja einingu. Þetta er sá hagnaður, sem íslenzkur landbúnaður hafði af gengisfellingunni 1967, og ekkert bendir til þess, að það verði svo miklu hagstæðara nú, að það bæti útflutningsaðstöðu okkar, heldur þvert á móti. Enda virðist ekki að því stefnt að bæta aðstöðu íslenzkra atvinnuvega fyrst og fremst, heldur hinu, að laða hingað erlent fjármagn í stórum stíl. Skilyrðið fyrir því, að erlend auðfélög fái aukinn áhuga á Íslandi, sýnist vera, að íslenzkir valdhafar geti bent á, að hér sé hægt að fá ódýrt vinnuafl og ódýra orku. Og varla er hægt að neita því, að eins og nú standa málin, hafi valdhafarnir hér allvel lagt grundvöllinn að því, þar sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og erlendir verktakar á vegum Sviss Alúminíumfélagsins í Straumsvík munu nú þurfa að borga fyrir íslenzkt vinnuafl aðeins helming þess, sem þessir aðilar þurftu að borga fyrir einu ári.

Í þessu sambandi væri ekki úr vegi, að það kæmi fram, hvað það íslenzka vinnuafl, sem vinnur hjá þessum aðflum, aflar nú þjóðinni miklu minni gjaldeyris en fyrir gengisfellinguna í nóvember 1967, og við ýmsa aðra þjónustu, sem ekki er bundin í erlendri mynt, yfir eitt ár, en fróðir menn telja, að það muni vera hærri upphæð yfir eitt ár en gengislánin tvö, sem hæstv. ríkisstj. og fjármálaspekingar hennar tóku nú í sambandi við þessa síðustu endurreisn á viðreisninni, en þau námu um 770 millj. kr.

Það hlýtur að vera einhver sérstök tegund af hagspeki, sem slíkar aðfarir útfæra á þá leið, að gengisfelling hafi verið bezta úrræðið fyrir íslenzka atvinnuvegi og íslenzkt launafólk og fyrir þjóðina í heild, eins og stjórnarliðið og málgögn þess halda nú fram. Hitt er svo annað mál, að þetta er stjórnarstefna viðreisnarinnar. Við þekkjum þessa stefnu. Þetta er fjórða gengisfellingin á tíu ára ferli hennar.

Hæstv. stjórnarherrar og skutulsveinar þeirra hafa á undanförnum árum hamrað það inn í þjóðina, að allar stjórnarathafnir þeirra væru við það miðaðar að byggja upp atvinnuvegina og þó fyrst og fremst iðnaðinn. Þetta hefur verið gert með því að gefa allan innflutning frjálsan, þannig að háþróaðar iðnaðarþjóðir, sem búa við allt önnur ytri skilyrði en okkar iðnaður, hafa fyllt hér markaðinn af alls konar vöru, og hefur það svo leitt til þess, að fjölmörg iðnaðarfyrirtæki hafa orðið ýmist að draga mjög úr starfsemi sinni eða hætta henni alveg.

Á þennan hátt hefur atvinnuuppbygging viðreisnarinnar verið. Hún hefur verið á þann veg að draga úr atvinnu í okkar landi, en hins vegar hefur þessi stefna leitt til aukinnar atvinnu hjá þegnum annarra þjóða, og það er ef til vill í augum einhverra virðingarverð viðleitni að örva atvinnu og framleiðslu meðal framandi þjóða. Hins vegar er ég ekki viss um, að sagan eigi eftir að meta slíka stjórnvizku hæstv. valdhafa eins og ætlazt mun til. Og er ekki sami keimur að þessu öllu?

Með gengisfellingunni í fyrra og aftur nú fáum við helmingi minni gjaldeyri fyrir það vinnuafl, sem er hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og hjá erlendum verktökum, sem eru á vegum þess og á vegum Sviss Alúminíumfélagsins í Straumsvík, miðað við óbreytt kaupgjald í landinu. Að þessum aðilum sýnist því vera sæmilega búið. Þeir þurfa sannarlega ekki að kvarta yfir viðreisnarstjórninni, enda skilst manni, að þeir meti þessa ríkisstj. að verðleikum og telji hana sína stjórn, eftir erlendum blaðafregnum að dæma.

En hafa þessar gengisfellingar verið eins hagstæðar fyrir íslenzka aðila? Hvað hefur reynslan kennt okkur í því efni?

Áhrif þessara gengisfellinga, sem reynsla er fengin af, eru þau, að mestöll framleiðsla í landinu var að stöðvast, atvinnuleysi skollið á um allt land og kominn kreppukyrkingur í allt þjóðfélagið. Þá greip hæstv. ríkisstj. til hinna sömu úrræða og áður, þó að full reynsla væri að flestra dómi komin af þessum gengisfellingum. Það kom til mín ungur jafnaðarmaður, sem sagði mér, að hann hefði að undanförnu hitt ýmsa vinnuhópa að máli til að heyra álit þeirra á þessari stjórnvizku hæstv. ríkisstj. Hann sagði, að menn væru á einu máli, að þessi gengisfelling og þær hliðarráðstafanir, sem enn hefðu séð dagsins ljós, væru þess eðlis, að þjóðin mundi fara enn lengra út í kviksyndið. „Ríkisstj. var alls staðar fordæmd,“ sagði hann, „og þá sérstaklega við.“ Þetta hafði þessi ungi jafnaðarmaður að segja mér, og þetta er sú saga, sem maður segir manni nú. Þó að erfitt sé ástandið í sjávarútvegi og iðnaði, þá er þeirra aðstaða að því leyti betri en landbúnaðar, að það er enn sem komið er ekki yfirlýst stefna ríkisstj. að þrengja stakk þeirra og draga úr framleiðslu þeirra eins og landbúnaðarins. Að vísu verða báðir þessir atvinnuvegir, sjávarútvegur og iðnaður, að láta sér það lynda, að fram yfir þá í einu og öllu séu teknir þeir erlendir aðilar, sem atvinnurekstur hafa hér, og þeir, sem sjá um varnir landsins, sem kallað er. Þeir eru í öndvegi. Þeir þurfa ekki að borga aðflutningsgjöld af þeim varningi, sem þeir flytja inn í landið. Þeir þurfa ekki að borga eins hátt orkuverð og íslenzkir aðilar. Og svo mætti lengi telja.

En það fer ekki milli mála nú um stefnu hæstv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum. Þau mál hafa verið mjög til umr. á liðnum árum, en þeir mest um þau talað, sem minnstan skilning hafa á þeim málum og ekki skilja gildi landbúnaðarins fyrir þjóðfélagið, hvorki frá menningarlegu né atvinnulegu sjónarmiði. Um það mætti nefna mörg dæmi, en ritstjóri Alþýðublaðsins, Kristján Bersi Ólafsson, ræddi enn á ný um þessi mál í leiðara í blaði sínu á fyrra þriðjudegi. Þar má minna á það, að hann kom fram í sjónvarpsþætti hér í haust, þættinum „Á öndverðum meiði“, til þess að ræða um stefnuna í landbúnaðarmálum og það við hæstv. landbrh. Þessi ritstjóri Alþýðublaðsins hóf mál sitt á því að lýsa því yfir, að hann hefði enga þekkingu á landbúnaðarmálum, og það er það, sem hlýtur að vekja athygli í þessu sambandi, að þrátt fyrir þessa yfirlýsingu taldi þessi ritstjóri sig fullfæran til að mæta sjálfum landbrh. hæstv. til að rökræða við hann um þessi mál í sjálfu sjónvarpinu. Og það þykir hæfa málefnalegum grundvelli Alþfl., að maður, sem sjálfur hefur lýst því yfir, að hann hafi enga þekkingu á málefnum landbúnaðarins, sé látinn ritstýra höfuðmálgagni flokksins í þessum málum, og verður að líta á skrif Alþýðublaðsins um þessi mál í því ljósi. Hins vegar eru þessi skrif blaðsins fyrst og fremst bergmál frá hinum nýja formanni flokksins, sem hefur hlotið mikla frægð fyrir víðsýni sína á þessu sviði, og þó að hann fari ekki með alveg réttar tölur um þessi mál, eins og frásögn Alþýðublaðsins ber með sér s. l. miðvikudag, þar sem segir frá ræðu, sem hæstv. ráðh. flutti á fundi í Hafnarfirði, þá eru víst fáir hissa á því. Á hinu hefðu menn verið meira hissa, miðað við fyrri reynslu, hefðu þessar tölur verið eitthvað nálægt því rétta.

Það er ekkert, sem bendir til þess, að gengisbreytingin verki þannig, að útflutningur á landbúnaðarvörum verði hagstæðari en áður, ef áhrif gengisfellingarinnar koma nú með fullum þunga á rekstrarvörur landbúnaðarins. Og nú er svo komið, að annar stjórnarfl. hefur blátt áfram sett það að skilyrði fyrir áframhaldandi setu í ríkisstj., að nú þegar verði breytt um stefnu í landbúnaðarmálum, gerðar verði ráðstafanir til að draga úr framleiðslunni, sem þeir kalla offramleiðslu, og breytt verði á þessu þingi lögum um framleiðsluráð o. fl. Og tilgangurinn leynir sér ekki. Að dómi þessara herra varð verðlagningin á s. l. hausti of hagstæð bændum, og fyrir það þarf að girða, að slíkt endurtaki sig. Og ekki er annað hægt að sjá en að Sjálfstfl. hafi gengið að þessum skilyrðum Alþfl. Staðreyndirnar tala þar sínu máli. Þetta skilyrði var sett fram af Alþfl. fyrir áframhaldandi setu í ríkisstj. Ríkisstj. situr enn sem fastast. Og hæstv. landbrh. er búinn að fara þess á leit við bændasamtökin, að þau tilnefni mann í n. til að endurskoða lög um framleiðsluráð o. fl. Og n. er þegar skipuð. Þarf fleiri vitna við?

Ég sagði það úr þessum ræðustól fyrir ári, að það væri ekki ljóst, hver réði stefnunni í landbúnaði, hæstv. menntmrh. eða hæstv. landbrh. Ég held, að enginn þurfi að fara í grafgötur um það nú, hver ræður meira í dag, en ég kem að því betur síðar. En til þess að átta sig betur á því, hvaða orsakir liggja til þess, að bændur eru komnir í þær þrengingar, sem raun ber vitni, verð ég að víkja að því með nokkrum orðum.

Þegar hæstv. landbrh. tók við því virðulega embætti, voru skráðir vextir af stofnlánum bænda helmingi lægri en nú, lánstíminn lengri og lánin hlutfallslega hærri. Þegar stofnlánaskatturinn var lögfestur, voru aðalrökin fyrir honum, að með því væri stefnt að því að hækka stofnlánin hlutfallslega til að fyrirbyggja, að bændastéttin safnaði lausaskuldum. Hvernig hefur það fyrirheit staðizt? Þegar stofnlánaskatturinn var lögfestur, voru föstu lánin um 60% af skuldum bænda. Um svipað leyti var lausaskuldunum breytt í föst lán. Í dag munu lausaskuldirnar vera komnar yfir 60% af skuldum bænda, enda farið lítið fyrir því loforði, að stofnlánin yrðu hlutfallslega hækkuð frá því, sem áður var, þrátt fyrir skattlagninguna, heldur hið gagnstæða.

Ég hef athugað lánveitingar á 12 ára tímabili úr stofnlánasjóðum Búnaðarbankans, árin 1955–1967. Ég hef umreiknað lán hvers árs yfir á byggingarvísitölu ársins 1955, þannig að sambærileg tala fáist. Síðan hef ég tekið meðaltal af árunum 1955–58 að báðum meðtöldum og hins vegar af árunum 1959–67, og kemur þá í ljós, að meðaltal lánsupphæða fyrra tímabilið reyndist vera 40768 kr., en hið síðara 36398 kr., eða 4370 kr. minna hvert lán að meðaltali eða framkvæmdarmáttur hvers láns lækkaður um rúml. 10%. Lántakendur voru 1077 fyrra tímabilið, en síðara 1211 á ári að meðaltali. Þannig voru þær efndir í reynd. Við þetta bætist svo það, að sé stofnlánaskattinum bætt við þær rentur, sem bændur þurfa nú að borga af stofnlánum, kemur í ljós, að hin raunverulegu kjör stofnlánadeildarinnar eru þau, að bændur verða að borga þar að meðaltali yfir 11% í vexti eða þrefalt meira en þegar Framsfl. hafði úrslitaáhrif á þessi mál. Sem sagt, lánakjör stofnlánadeildarinnar eru bændum óhagstæðari en nokkurn tíma víxillán. Það þarf enginn að halda, að þessi breyttu lánakjör eigi ekki stóran þátt í því, hvernig komið er fyrir bændastéttinni nú.

Hæstv. landbrh. getur því ekki stært sig af því, hvernig handleiðsla hans hefur tekizt að þessu leyti íslenzkum bændum til heilla og aukinnar hagsældar.

Þegar hæstv. landbrh. tók við stólnum, voru heldur engir veltu- eða söluskattar á landbúnaðarvöru, og fyrir þann tíma var það höfuðstefnan að halda niðri verði á rekstrarvörum landbúnaðarins, og þá var stuðlað að hagkvæmari rekstri með beinum framlögum. Þetta er einmitt sú stefna, sem nágrannaþjóðir okkar fylgja í landbúnaðarmálum, einnig hjá þeim þjóðum, sem jafnaðarmannaflokkar stjórna, því að landbúnaðarvörur eru mjög stór hluti af allri verzlun almennings og verð þeirra hefur því mikil áhrif á kaupkröfur í viðkomandi landi. Landbúnaður nágrannaþjóðanna hefur yfirleitt aðgang að nægu fjármagni til langs tíma með lágum vöxtum. Bændurnir þar þurfa ekki að byggja upp sína lánasjóði sjálfir með sérstökum skatti og háum vöxtum, eins og íslenzkir bændur eru látnir gera, og víða erlendis er verðlagi á rekstrarvörum haldið niðri með beinum niðurgreiðslum og landbúnaðurinn að ýmsu öðru leyti aðstoðaður, og þó að verð á framleiðsluvörum hans sé lágt, hafa bændur þess vegna víðast hvar sæmileg kjör miðað við aðrar stéttir.

Menn ættu að hafa þetta í huga, þegar þeir bera saman framleiðslukostnað hér og erlendis, og það má ekki falla úr minni, að það var núv. hæstv. ríkisstj., sem breytti algjörlega um stefnu í landbúnaðarmálum, þegar hún settist á valdastóla, og menn mega gjarnan vera þess minnugir nú, hvað hæstv. landbrh. sagði, þegar hann með þingfylgi stjórnarfl. var að móta þessa óheillastefnu, að þó að vextir hækkuðu og allar rekstrarvörur, þá gerði það ekkert til, bændur mundu fá allt aftur í hækkuðu verði afurðanna. Þetta var tónninn. Við framsóknarmenn vöruðum við þessari stefnubreytingu, fórum ekki dult með það, til hvers hún mundi leiða, og nú geta menn séð og ættu að skilja, hvor stefnan hefur reynzt bændum og þjóðinni allri hollari.

Hafa bændur fengið hina háu vexti og hinn hraðaukna rekstrarkostnað til baka í auknu afurðaverði? Hefur þessi stefna viðreisnarinnar leitt til aukinnar bjartsýni á landbúnaðinn og leitt til betri efnahags bændastéttarinnar en áður var? Benda hinar stórauknu skuldir bænda til þess? Framkvæmdir hafa verið með líkum hætti í landbúnaði og á árunum 1954–59. Ekki er það skýringin. Að vísu hefur tíðarfarið verið óhagstætt hin síðari ár, sérstaklega norðanlands og austan. En þar er ekki að finna nema lítinn hluta af skýringunni á því, hvað valdi þeim erfiðleikum, sem nú steðja að landbúnaði okkar. Og við komum aftur að því sama: Það er afleiðing stjórnarstefnunnar fyrst og fremst. Það er af óðaverðbólgu, sem aukið hefur rekstrarkostnaðinn svo, að bændurnir standa eftir tekjulitlir ár eftir ár. Þeir fengu aldrei háu vextina eða aukna rekstrarkostnaðinn aftur í hækkuðu verði afurðanna. Þar liggur hundurinn grafinn.

Og nú er ég kominn að kjarna málsins. Viðreisnarstefnan, sem hefur leitt af sér meiri óðaverðbólgu en áður eru dæmi um í þessu landi, hefur, eins og ég áður sagði, aukið rekstrarkostnaðinn það mikið, að enginn atvinnurekstur í landinu ber sig lengur, ekki einu sinni sjávarútvegurinn. Og þó fara þeir verst út úr því, sem framleiða fyrst og fremst fyrir innlendan markað. Þegar þessar staðreyndir blasa við, gerist það, að hæstv. viðskmrh. kveður sér hljóðs um íslenzkan landbúnað á aðalfundi Verzlunarráðsins, og af ummælum hans er fyrst og fremst þrennt athyglisvert: hvernig hann vilji útfæra jafnaðarstefnuna í landi okkar, en hann er nú orðinn formaður Alþfl., eins og kunnugt er, hvaða skilning hann hefur á gildi íslenzks landbúnaðar og hvaða skilning hann hefur á því atvinnuástandi, sem nú er í landinu. Eftirfarandi ummæli eru úr ræðu, sem hæstv. viðskmrh. flutti á aðalfundi Verzlunarráðs Íslands il. okt. s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Rekstur íslenzks landbúnaðar og stefna sú, sem í áratugi hefur verið fylgt í landbúnaðinum, er mjög með þeim hætti, að heildarstyrkur þjóðfélagsins til landbúnaðarins er langt úr hófi fram og honum beint þannig, að í því er bókstaflega ekkert vit lengur. Það er algerlega óþarfi af íslenzkum landbúnaði að framleiða landbúnaðarvörur til útflutnings, og það er beinlínis fráleitt, að grundvallarstefnan í íslenzkum landbúnaðarmálum skuli vera sú að stefna stöðugt að aukinni framleiðslu og það meiri framleiðsluaukningu en fólksfjölgun nemur, eftir að um greinilega offramleiðslu er orðið að ræða, miðað við þarfir innanlandsmarkaðarins. Það, sem hægt er að spara af þessum styrkjum til landbúnaðarins, eru útflutningsuppbæturnar og þeir beinu styrkir, sem hann fær úr ríkissjóði og beinlínis hvetja til síaukinnar landbúnaðarframleiðslu.“

Og enn segir ráðherrann:

„Mér er ljóst, að öfugstreymi í málefnum íslenzks landbúnaðar er orðið svo langvinnt og á sér svo djúpar rætur, að torvelt er að ráða þar bót á nema á löngum tíma. En einhvern tíma verður að byrja á endurbótunum. Í haust þarf án efa að gera ráðstafanir, sem verða launþegum ekki léttbærar. Ég tel óhugsandi, að þeir geti sætt sig við þær byrðar, sem óhjákvæmilegar munu reynast, nema jafnframt verði hafizt handa um skynsamlegri stefnu í landbúnaðarmálum en hér hefur verið fylgt. Þegar hliðsjón er höfð af þeirri þungu byrði, sem launþegar og skattgreiðendur hafa af ástandi landbúnaðarmálanna, verður það enn þungbærara fyrir þá að þola þá miklu hækkun á innlendum landbúnaðarvörum, sem gerðardómur um ákvörðun landbúnaðarverðs hefur nú nýlega ákveðið. Ég tel, að gerðardómur sá um verðlag landbúnaðarafurða, sem nýlega var kveðinn upp, taki af öll tvímæli um það, að gildandi löggjöf um þessi efni er óhæf og að henni verður að breyta á þessu Alþingi.“

Og í Alþýðublaðinu 23. okt. s. l. er birt stjórnmálaályktun flokksþings Alþfl. Þar gefur að líta m. a.: „7. Endurskoðun á lögum um ákvörðun verðlags á innlendum landbúnaðarafurðum. 8. Ákvörðun um að breyta stefnunni í landbúnaðarmálum smátt og smátt í það horf, að landbúnaðurinn framleiði fyrst og fremst fyrir innlendan markað, þannig að útflutningsuppbætur sparist og sömuleiðis þeir núverandi styrkir, sem einkum hvetja til offramleiðslu.“ Og síðan segir: „Ef tekið verður tillit til þessara meginsjónarmiða, telur flokksþingið, að Alþfl. eigi að standa að þeim ráðstöfunum á þessu hausti“ o. s. frv.

Og í framhaldi af þessu áhlaupi Alþfl. á landbúnaðinn, þar sem það virðist vera hans aðalstefnumál að þrengja hlut bændanna, án þess að hugleiða það eða taka tillit til, hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir atvinnulífið í landinu og á hag alls þjóðfélagsins, ef sú stefna hans næði fram að ganga, var í fyrradag lagt fram hér á hv. Alþ. frv., nokkurs konar bændafækkunarfrv. Þó að aðeins einn flm. sé skráður á þessu frv., má ætla, að það sé flutt í umboði Alþfl., enda er það í beinu framhaldi af því, sem að framan greinir. Vil ég því lesa þetta frv. upp hér og grg., því að það undirstrikar þessa nýju stefnu betur en flest annað, sem frá þessum herrum hefur komið, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. til l. um breyt. á l. nr. 101 1967, um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu landbúnaðarafurða o. fl.

Flm.: Bragi Sigurjónsson.

1. gr. 2. mgr. 12, gr. laganna orðist svo: Tryggja skal greiðslu á þeim halla, sem bændur kunna að verða fyrir af útflutningi landbúnaðarvara, en þó skal greiðslan vegna þessarar tryggingar ekki vera hærri en sem svarar 5% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar viðkomandi verðlagsár, miðað við það verð, sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar.

2. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1970.“ Og greinargerðin er svo hljóðandi:

„Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenzkir bændur framleiða til útflutnings verulegt magn landbúnaðarvara, sér og þjóðarheildinni til óhagræðis. Mun láta nærri samkvæmt núgildandi lögum, að ríkissjóður þurfi að greiða komandi ár um 300 millj. kr. til bænda með þessari útflutningsframleiðslu þeirra og þeir fái þó ekki framleiðslukostnaðinn greiddan að fullu. Sjá allir, að hér þarf að ráða bót á. Æskilegast hefði verið, að stéttarsamtök bænda hefðu hér haft forustu um úrræði, svo sem með skipulagðri stjórn á því, að eigi væri framleitt óhóflegt magn til útflutnings á landbúnaðarvörum, sem seldist langt undir kostnaðarverði. En á þessu bólar lítið, og segja má, að löggjafinn hafi fremur unnið gegn því en með, að hér væri vakað á verði, með því að verja jafnmiklu fé til útflutningsbóta og raun ber vitni. Af þessum sökum er hér lagt til, að hlutfallstala sú, sem útflutningsuppbætur landbúnaðarvara hafa verið miðaðar við undanfarin ár, verði lækkuð verulega, í trausti þess, að það leiddi til skynsamlegri hátta varðandi framleiðsluna, bændum og alþjóð til hagræðis. Að sjálfsögðu ber að stefna að því, að útflutningsbætur séu alls ekki greiddar með vöru, sem engan þjóðhagslegan vinning gefur að framleiða til útflutnings, en bæði er, að í þessu tilliti væri hér um of bráða aðgerð að ræða, ef tekið væri fyrir slíkt með öllu, og fyrir bændur stórleg tekjuskerðing, nema þeir fái nokkurn aðlögunartíma. Hér er því lögð til veruleg lækkun, en auk þess að stíga niður um þrep nokkur tími hafður til stefnu til að taka skrefið, eða ársfrestur.“

Hvað skyldu Norðlendingar segja um þetta frv., þegar þeir hafa brotið það til mergjar og þeim verður ljóst, hvað samþykkt þess mundi þýða, ekki einungis fyrir bændurna, heldur ekkert síður fyrir bæina og þorpin? Það þarf enginn að fara í grafgötur um það, að ef þetta frv. yrði samþ., mundi það þýða stórkostlega fækkun bænda, sérstaklega þeirra, sem búa fyrst og fremst með sauðfé. Það mundi þýða stóraukið atvinnuleysi í flestum þorpum og bæjum landsins. Það mundi þýða, að þjóðin mundi tapa þeim gjaldeyri að mestu, sem hún fær nú fyrir landbúnaðarafurðir. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. afsökunar, en ég hafði lofað hv. form. þingflokks Framsfl. að fresta fundi rétt fyrir hálffimm.) Ég verð ekki nema svona 10 mín. að ljúka. (Forseti: Treystir hv. ræðumaður sér til þess? Ég heyri, að hæstv. landbrh. kveður sér hljóðs, en það er áformað að fresta fundi.) Ég verð a. m. k. 10 mín. (Forseti: Þess er óskað, að hv. þm. geri hlé á ræðu sinni. En fundi verður fram haldið aftur kl. 6.) — [Frh.]