18.12.1968
Neðri deild: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

90. mál, greiðslufrestur á skuldum bænda

Flm. (Stefán Valgeirsson) [frh.]:

Herra forseti. Þá mun ég fram halda ræðu minni, þar sem ég var stöðvaður í henni áðan. Það leynir sér ekki á öllu háttalagi Alþýðuflokksmanna, að þeir eru búnir að missa trú á því, að hægt sé að lifa í þessu landi án hjálpar erlendra auðfélaga, og til þess að opna landið sem mest fyrir erlendu fjármagni telja þessir herrar, að drepa þurfi niður allt framtak í landinu. Þetta er aðeins einn liður í þeirra viðleitni. Hitt þarf engan að undra, þótt þeir séu búnir að missa trúna á viðreisnarstefnuna og eigin hæfileika og getu til að stjórna landinu. Má segja, að það sé vonum seinna, því að öll þjóðin er búin að missa trú á hvoru tveggja fyrir löngu. Og ekki hef ég trú á því, að hv. 9. landsk. vaxi í augum sinna kjósenda við flutning þessa frv., eða hvernig mætti það vera? Og hæstv. menntmrh. er alltaf jafnhreinn og beinn. Þó að hann sé sá maðurinn, sem hefur fyrst og fremst barizt fyrir þessari nýju bændafækkunarstefnu, leggur hann ekki í eða brestur kjark til þess að flytja svona frv. beint í nafni flokksins, þó að allir viti, að málið er þannig vaxið í raun og veru.

Nei, það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um hina raunverulegu stjórnarstefnu í landbúnaðarmálum nú. Hér er hún komin skýrt og umbúðalaust fram, og hér sést svart á hvítu, hver það er, sem ræður ferðinni í þeim málum. Hæstv. landbrh. er búinn að undirstrika það með nefndarskipun til þess að gera breytingar á framleiðsluráðslögunum. En til hvers mun þessi stefna leiða, ef ríkisstj. endist líf og hefur til þess meiri hluta hér á hinu háa Alþ. að koma þessari stefnu fram? Það eru fleiri en bændur og fjölskyldur þeirra, sem hafa lífsafkomu sína af landbúnaði. Þorpin og kaupstaðirnir víðs vegar um land byggja atvinnu sína, ýmsir að nokkru leyti og aðrir að öllu leyti, á vinnslu, dreifingu eða á ýmsum þjónustustörfum fyrir landbúnaðarhéruð, sem liggja út frá hverjum stað. Hvernig færi t. d. með Selfoss, með Hellu, með Hvolsvöll, með Vík í Mýrdal, með Egilsstaði, með Blönduós eða Borgarnes? Og fleiri staði mætti nefna, sem eingöngu byggja afkomu sína á landbúnaðarframleiðslu með margbreytilegum hætti eða að hálfu leyti eða vel það, t. d. Akureyri, Húsavík, Sauðárkrókur, og þannig mætti lengi telja. Samdráttur í framleiðslu landbúnaðarvara mundi þýða samdrátt í atvinnu að sama skapi á öllum þessum stöðum. Er hæstv. viðskmrh. búinn að undirbyggja atvinnufyrirtæki á þessum stöðum með aðstoð vitringa sinna til að taka við þessu fólki, þegar framkvæmdin á samdrætti á framleiðslu landbúnaðarvara er farin að verka fyrir alvöru samkv. hinni nýju stefnu? Eða ætlar hæstv. ríkisstj. að efna loforð sitt við þjóðina um að byggja upp atvinnu í landinu með þeim hætti að kippa sem flestum stoðum undan atvinnulífinu í landinu, eins og hér er stefnt að og hefur verið gert í sambandi við iðnaðinn með hinum stjórnlausa innflutningi? Ef atvinna væri næg í landinu og vöntun á vinnuafli við arðvænlega útflutningsframleiðslu, þá væri annað mál að hugleiða það, hvort ekki væri hugsanlegt að færa til vinnuafl úr öðrum atvinnugreinum. En slík aðstaða er nú ekki fyrir hendi, heldur hið gagnstæða. Samdráttur í framleiðslu, hvar sem hún er, eykur atvinnuleysið.

En væri þá að öðru leyti einhver þjóðhagslegur ávinningur að því að sníða landbúnaðinum þann stakk, að framleiðsla hans væri eingöngu miðuð við innanlandsþarfir? Hæstv. viðskmrh., núv. form. Alþfl. og þá um leið væntanlega boðberi um sem jöfnust laun og aðra lífsaðstöðu þegnanna, lagði til í sinni frægu ræðu á aðalfundi Verzlunarráðsins, að fyrst og fremst væri þrengt að þeirri stétt, sem á undanförnum árum hefur haft lægst laun. Hans stjórnvizka kom fram í því, að hann lagði til, að atvinna í landinu væri örvuð með því að draga saman framleiðsluna í landbúnaði. Hann sagði, að ekki kæmi til mála að taka upp stjórn á innflutningi til að spara gjaldeyri og örva iðnaðarframleiðslu. Hans leið í innflutningsmálum er að hafa skortinn sem skömmtunarstjóra í stað skynseminnar. Og af þessari frægu ræðu mætti ætla, að þjóðin hefði nægan gjaldeyri. Það, sem hæstv. ráðh. lá mest á hjarta, var að boða ráðstafanir til þess að svipta þjóðina þeim gjaldeyri, sem komið hefur fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir, en í ár mun hann nema um 500 millj. kr. Mundi vænkast hagur Strympu, ef þessi gjaldeyrir yrði af þjóðinni tekinn?

Og þá er ég kominn að meginröksemd hæstv. viðskmrh. og Alþfl., að það fari svo mikið úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar í útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, að í þeim sé ekkert vit. Þessi hæstv. ráðh. talar aðeins um það, sem fer út úr ríkissjóðnum, en minnist aldrei á, að það komi neitt inn í hann aftur, þegar aðrar vörur eru fluttar inn fyrir þennan gjaldeyri. Eins og ég sagði áðan, þá ætti þessi gjaldeyrir, sem fyrir útfluttar landbúnaðarvörur fæst á þessu ári, ekki að vera undir 500 millj. kr., og við skulum miða við þá tölu. Eftir upplýsingum frá opinberum stöðum og frá þeim stöðum, sem ættu að vera ábyggilegastir, væri meðaltollur 35% á innfluttar vörur og meðalálagning 30–35% í heildsölu- og smásölustigum. Innflutt vara fyrir 100 kr. verður með innflutningsgjaldi og kostnaði 110 kr., þegar tollur er á hana reiknaður. Tollurinn verður því 38.50, eða varan 148.50 út úr tolli. Ef reiknað er með 32% álagningu í báðum sölustigum, þá verður álagningin á þessa vöru 47.52 kr. Er þá þessi vara komin upp í 196.02 kr. Þá er söluskatturinn af þessari vöru 14.70 kr., eða tollur og söluskattur 53.20 kr., og mundu þá koma í ríkissjóðinn í tekjur af þessum gjaldeyri 265 millj. kr.

Við skulum nú segja, að heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar verði 3 milljarðar í ár, og ættu þá bændur að fá 300 millj. kr. í útflutningsuppbætur. Það eru því 35 millj. kr., sem fara raunverulega úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar til að bæta þennan útflutning upp umfram þær tekjur, sem fást fyrir þennan gjaldeyri.

Þá má leiða hugann að fleira í þessu sambandi. Nú er mjólkurframleiðslan í landinu ekki meiri en það, að hún nægir til neyzlu hvern dag. Eins og útlitið er í dag, verða litlar birgðir af mjólkurafurðum til í landinu á næstu vordögum, og ef enn dregur úr mjólkurframleiðslunni samkv. þessari nýju stjórnarstefnu, þá er hætt við, að mjólkurverðinu verði ekki hægt að halda eins niðri og gert hefur verið á undanförnum árum. Yrði það hagkvæm þróun fyrir neytendurna? Hvað halda menn um það? Enn er það, að nú er mjög talað um iðnaðarframleiðslu í stórum stíl til útflutnings. Þegar slíkt ber á góma, kemur það sama upp í huga flestra, að helzt mundi vera fyrir okkur að framleiða iðnaðarvörur úr ull og gærum til sölu á erlendum mörkuðum. Er líklegt, að slíkar vonir muni rætast, ef hæstv. viðskmrh. á að halda áfram að marka stefnuna í landbúnaðarmálum þjóðarinnar eða hafa forustu á öðrum sviðum þjóðmála, miðað við kenningar hæstv. ráðh., sem ég hef rakið að nokkru hér að framan? Eða hvernig hljómar það í eyrum, að það eigi að auka útflutninginn með því að minnka framleiðsluna og það eigi að auka atvinnu með sömu ráðum? Það er að vonum, að maður spyrji mann: Hvers konar ríkisstj. er þetta? Er engin leið til þess að koma þessum mönnum frá?

Ég hef rökstutt það, að þjóðin megi sízt við því nú að draga úr framleiðslu landbúnaðarafurða, ekki sízt vegna þeirra erfiðleika, sem steðja nú að þjóðinni í atvinnulegu og viðskiptalegu tilliti. Það eru heil héruð, sem lítið eða ekkert hafa getað greitt af skuldum sínum eða vöxtum s. l. tvö ár. Þeir bændur, sem geta staðið í skilum, munu gera það, þótt þetta frv. verði að lögum. Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er aðeins sá að reyna að koma í veg fyrir, að gengið verði að þeim bændum og þeim vinnslustöðvum landbúnaðarins, sem eru nú í greiðsluerfiðleikum, og til þess er ætlazt, að þessi tímabundni greiðslufrestur verði vel notaður til þess að finna færar leiðir út úr erfiðleikunum, t. d. með því að breyta lausaskuldum í löng, föst lán með viðráðanlegum vöxtum. Við verðum að komast út úr kreppuástandinu. En það verður ekki gert með samdrætti, úrræðaleysi og stjórnleysi. Ef við tækjum okkur á og farið yrði að stjórna af skynsemi, framleiðslugeta atvinnuveganna nýttist til hins ýtrasta og um það séð, að hver vinnufús hönd hafi lífvænlegt starf að vinna, eins og hver þjóðfélagsþegn á heimtingu á, þá er ég þess fullviss, að ekki mundi líða langur tími þar til birta færi til og þessari helköldu viðreisnarþoku færi að létta af þjóðinni.

Í 4. gr. framleiðsluráðslaganna stendur: „Söluverð landbúnaðarvara á innlendum markaði skal miðast við það, að heildartekjur þeirra, sem landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta.“ Verðlagningin hefur aldrei verið framkvæmd þannig, að þessum ákvæðum hafi verið fullnægt, og hefur hin öra verðbólga fyrst og fremst valdið því. En þó hefur munurinn aldrei verið meiri en síðustu tvö árin. Með þetta í huga og þar sem ljóst er, að þótt t. d. allur gengishagnaðurinn, sem við vorum að ræða hér í gær, væri settur til þess að greiða í útflutningssjóðinn fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir, þá mundi hann ekki nægja til þess að tryggja bændum grundvallarverð að þessu sinni á afurðir sínar. Þess vegna tel ég, að það væri ekki verjandi að ráðstafa honum til annarra hluta, hvað nauðsynlegir sem þeir kunna að vera.

Eins og ég hef þegar bent á, er ástæðulaust fyrir bændur að vera klökkir við að ræða þessi mál af fullri einurð. Þeirra hlutur í þjóðarframleiðslunni er sízt minni en annarra stétta, þeirra framleiðsla er lífsnauðsyn fyrir þjóðfélagið, og eins og nú er háttað atvinnu- og viðskiptamálum þjóðarinnar, mundi allur samdráttur í landbúnaði hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Til að svara þessari baráttu Alþfl. fyrir fækkun bænda og fyrir því, að þeir verði látnir búa við langtum verri kjör en aðrar stéttir þjóðfélagsins hafa nú, og vegna þess undansláttar, sem hæstv. landbrh. hefur sýnt, t. d. með því að skipa nú n. til þess að endurskoða framleiðsluráðslögin, og fleira mætti nefna, þá ættu bændurnir að boða til almennra umræðufunda í öllum héruðum landsins og skora á hæstv. viðskmrh. og hæstv. landbrh. að mæta á þessum fundum og ræða þessi mál. Það er hinn rétti vettvangur til að ræða um, hvaða stefnu á að fylgja í landbúnaðarmálum, og a. m. k. réttari vettvangur en að ræða þau á aðalfundi Verzlunarráðsins eða í sjónvarpi, þegar þannig er valið, að öðrum megin við borðið eru menn, sem byrja á því að lýsa því yfir, að þeir hafi ekkert vit á því, sem þeir ætla að tala um. Út úr slíkum umr. fæst lítið.

Herra forseti. Ég hef nú lokið máli mínu að sinni. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.