17.02.1969
Neðri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (2668)

110. mál, verslun með tilbúinn áburð

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Fyrri flm. þessa máls á nú ekki sæti á þingi, þegar frv. kemur til umr., en hann sat hér á þingi sem varaþm. fyrir hv. 4. landsk. þm., Jónas Árnason. Ég held, að löng framsaga fyrir þessu máli sé óþörf, en ég mun þó fylgja málinu úr hlaði með nokkrum orðum.

Frv. er um eitt efnisatriði, og efni þess er það, að lög nr. 51 frá 28. jan. 1935, um verzlun með tilbúinn áburð, verði felld úr gildi.

Skv. þessu er efni frv. það eitt, að einkasala með tilbúinn áburð verði lögð niður. Það er skoðun okkar flm., að ríkjandi verzlunarhættir með tilbúinn áburð hafi gefizt illa, og ég held, að það sé ekki ofsagt, að megn óánægja ríki almennt meðal bænda landsins með áburðarverzlunina. Það eitt er víst, að óánægjan hefur magnazt hin síðari ár, einkum síðan áburðareinkasalan var fengin Áburðarverksmiðjunni í hendur.

Af samanburðarrannsóknum, sem fram hafa farið á köfnunarefnismagni Kjarnaáburðar annars vegar og sama magni í kalísaltpétri hins vegar, virðist tvennt hafa komið í ljós:

1. Efnisinnihald uppskerunnar sé lakara, þegar Kjarninn er notaður.

2. Uppskera hefur farið hraðminnkandi, miðað við flatareiningu lands, og því lengur og meiri hefur skerðingin orðið sem Kjarni hefur lengur verið notaður.

Þetta virðast mér vera meginatriðin í niðurstöðum þeirra samanburðarrannsókna, sem farið hafa fram. Nú skal ég engan veginn fullyrða, að þessar niðurstöður hafi almennt gildi eða séu réttar, óyggjandi réttar. En miklar líkur benda þó í þá átt, að þessar niðurstöður fari ekki fjarri lagi. Ég segi því: séu þessar niðurstöður réttar, er vissulega hér um mjög alvarlegt mál að ræða, sem bakar bændastéttinni stórtjón á hverju einasta ári. Með þetta í huga er það auðskilið mál, að bændur óski og hljóti að óska meira frjálsræðis um kaup á tilbúnum áburði, svo að þeir eigi þess kost hverju sinni að kaupa þær áburðartegundir, sem þeir telja sig hafa þörf fyrir og þeir telja að henti því gróðurlendi, sem þeir hafa til ræktunar. En því er frv. borið fram um þetta réttindamál hér á hv. Alþ., að kröfum um þetta hefur verið synjað og yfirleitt heldur svarað með því að herða einkasölufjötrana á áburðinum.

Það er t. d. kunnugt, — ég hygg öllum alþm., bændum er það a. m. k. vel kunnugt, — að nú er bændum gert að skyldu að taka a. m. k. 70% af köfnunarefnisáburði þeim, sem þeir telja sig þurfa á næsta vori, í Kjarna. Það ætti ekki að þurfa neitt valdboð um þetta, ef bændum væri ljúft að taka Kjarnann í svona stórum stíl, og þá væri það auðvitað sjálfsagt. En þessum fjötrum eru bændur nú bundnir, þeim er skylt að taka 70% af köfnunarefnisáburðinum í formi Kjarnaáburðar. Um það er þeim ekkert undanfæri gefið. Og það er ekki ofsagt, þegar ég fullyrði, að þessu ófrelsi una bændur illa. Krafa þeirra er almennt meira verzlunarfrelsi á þessu sviði. Af bændastéttinni er áreiðanlega almennt tekið undir kröfu, sem fer í sömu átt og efni þessa frv., að einkasalan með tilbúinn áburð verði lögð niður. Þess vegna væntum við flm. þessa frv. þess, að hv. Alþ. rannsaki þetta mál ofan í kjölinn, svo sem kostur er á, og þá efum við ekki, ef svo verður gert, að hv. Alþ. muni fallast á efni þessa frv. og samþ. það.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. landbn.