18.02.1969
Neðri deild: 49. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (2672)

113. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í þessu frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins er lagt til, að gerðar verði 4 breyt. á lögunum.

1. breyt. er sú, að lán Húsnæðismálastofnunarinnar verði afborgunarlaus fyrstu 3 árin í stað eins árs, eins og nú er. Ég hygg, að það þurfi ekki að hafa mörg orð um þessa breyt., því að það liggur í augum uppi, hvað vakir fyrir flm. með henni. Þeir, sem ráðast í húsbyggingar, eiga að sjálfsögðu a. m. k. langoftast erfiðast með að standa undir greiðslum fyrstu árin, og þess vegna er gert ráð fyrir því í gildandi lögum, að lánin verði afborgunarlaus fyrsta árið. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að kjör manna almennt hafa versnað síðari árin, af ástæðum, sem ég ætla ekki að rekja hér, og er því eðlilegt, að lánin verði afborgunarlaus í lengri tíma en gert hefur verið ráð fyrir fram að þessu. Þetta er meginástæðan fyrir því, að lagt er til, að lánin verði framvegis afborgunarlaus í 3 ár í stað 1 árs, eins og nú er.

2. breyt., sem lagt er til að gerð verði á l., er sú, að lánstíminn verði lengdur úr 26 árum í 35 ár. Það má segja, að það séu að vissu leyti að mestu sömu rökin fyrir þessari tillögu og þeirri, sem ég nefndi áðan. Kjör manna hafa yfirleitt versnað að undanförnu, sérstaklega þeirra, sem standa í nýbyggingum, auk þess að byggingarkostnaður hefur hækkað verulega og mun enn hækka af völdum gengisfellingarinnar. Það meðal annars gerir það eðlilegt, að lánstíminn verði lengdur eins og hér segir. Þess má geta, nú víðast annars staðar er lánstíminn á slíkum lánum mun lengri en gert er ráð fyrir í þessu frv., hvað þá heldur eins og hann er nú ákveðinn í l. um Húsnæðismálastofnunina.

3. breyt., sem felst í þessu frv., er sú, að vísitölubinding lánanna verði afnumin. Þetta er mál, sem talsvert hefur borið á góma á undanförnum þingum, og vísa ég til þess, sem áður hefur verið um það sagt, en í stuttu máli má minna á það, að þetta eru eiginlega einu stofnlánin, sem eru vísitölubundin, og er óeðlilegt að vísitölubinda þessi lán frekar en önnur hliðstæð lán, sem eru t. d. veitt fyrirtækjum. Vísitölubindingin var upphaflega tekin upp að verulegu ráði í sambandi við júnísamkomulagið, sem var gert milli verkalýðsfélaganna, atvinnurekenda og ríkisstj. 1964, en eitt aðalatriði þess samkomulags var að taka upp lögbindingu á kaupgjaldsvísitölu á allar launagreiðslur. Á síðasta þingi voru þessi lög hins vegar afnumin. Það má segja, að með afnámi þeirra laga hafi verið kippt burt þeim grundvelli, sem var undir vísitölubindingu þessara lána á sínum tíma. Þess vegna er eðlilegt, að þessi vísitölubinding verði látin niður falla. Það liggur svo í augum uppi, að vegna gengisfellingarinnar og hækkana, sem leiðir af henni beint og óbeint, muni þessi lán stórhækka, ef vísitölubindingin helzt áfram, og gerir það enn nauðsynlegra, að þessi breyt., sem felst í frv. um afnám vísitölubindingarinnar, nái fram að ganga.

4. breyt., sem felst í þessu frv., er sú, að heimilt verði að veita lántakanda tímabundinn gjaldfrest, ef hlutaðeigandi hefur orðið fyrir fjárhagslegum áföllum vegna atvinnuleysis eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að tekjur manna hafa mjög rýrnað að undanförnu, ekki aðeins vegna þess, að dýrtíð hefur aukizt, heldur einnig vegna þess, að það hefur dregið úr atvinnu, auka- og eftirvinnu, sem menn studdust mjög við áður fyrr, og þess vegna er nú svo komið hjá fjöldamörgum, sem hafa ráðizt í það, oft á tíðum af litlum efnum, að eignast eigin íbúð á undanförnum árum, að þeir geta með engu móti risið undir þeim greiðslum, sem þeir hafa verið búnir að taka á sig og hafa verið miðaðar við það, að þær tekjur, sem þeir höfðu, mundu haldast og jafnvel aukast. Nú hefur þetta farið á annan veg, eins og ég hef lýst. Þess vegna er margt þessara manna í vandræðum, og yfir mörgum þeirra vofir það, að þeir verða að missa íbúðina, ef þeir fá ekki einhverja aðstoð til þess að rísa undir lánunum. Þess vegna er lagt til í þessu frv., að Húsnæðismálastofnuninni verði heimilað að veita gjaldfrest, þegar þannig er ástatt um gjaldendur.

Mér finnst rétt að minna á það í þessu sambandi, að þegar gengislækkunin var gerð á s. l. ári, var því heitið af ríkisstj., að gerðar yrðu ýmsar hliðarráðstafanir til þess að létta mönnum þær byrðar, sem af gengisfellingunni mundu hljótast. Það er víst, að einmitt þessi breyting, að leyfa húsnæðismálastjórn að veita gjaldfrest undir þeim kringumstæðum, sem ég áðan minntist á, er ein af þeim hliðarráðstöfunum, sem gæti komið mörgum að verulegum notum. Þess vegna vænti ég þess, að þetta mál fái góðar undirtektir hjá hæstv. ríkisstj. og hennar flokkum.

Að sjálfsögðu munu allar breyt., sem lagt er til samkv. þessu frv., að gerðar verði á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, hafa nokkurn útgjaldaauka í för með sér fyrir byggingarsjóð ríkisins, og er því lagt til í frv., að ríkisstj. hlutist til um það við Seðlabankann, að hann útvegi Húsnæðismálastofnuninni það lánsfé, sem byggingarsjóðurinn þarfnast til þess að rísa undir þeim auknu skuldbindingum, sem felast í frv. Ég ætla ekki að fara að rekja það nánar hér, en það er víst, að fyrirgreiðslan, sem Húsnæðismálastofnunin fær í dag hjá Seðlabankanum, er miklu minni en vera ætti, og ef vilji væri fyrir hendi hjá þeim, sem ráða Seðlabankanum, og ríkisstj., þá á honum að vera vel kleift að taka þá lánsútvegun á sig, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar að sinni, en leyfi mér að leggja til, að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til félmn.