13.02.1969
Neðri deild: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

122. mál, hagtryggingarsjóður landbúnaðarins

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. Ég álít, að það sé virðingarvert, að þm. reyni að finna leiðir til þess að tryggja hag atvinnuveganna, og það getur auðvitað verið um ýmsar leiðir að velja til þess að koma slíku í kring. En einn höfuðgalli er á öllum sjóðamyndunum nú á þessum árum, og hann er sá, að allir sjóðir étast jafnharðan upp og verða að engu á þessum tíma, þar sem gengisfellingar eru á hverju ári, og þar. af leiðandi verða þeir skattar, sem innheimtir eru af atvinnuvegunum, að litlu gagni til þess að tryggja þeirra hag. Hér er lagður til verulegur skattur á bændur til þess að stofna svokallaðan hagtryggingarsjóð landbúnaðarins. Ég álít, að sú hugsun, sem á bak við þetta liggur, sé að því leyti rétt, að landbúnaðinn vanti slíkan hagtryggingarsjóð. En þó því aðeins kæmi hann að gagni, að gengi peninganna væri nokkuð tryggt. og öruggt.

Í fyrra minnir mig að það væri, sem tekinn var nokkur hluti af þeim skatti, sem bændur hafa borgað undanfarið til byggingar bændahallarinnar, og lagður til bjargráðasjóðs í því skyni að efla þann sjóð til þess að styrkja landbúnaðinn fyrir sérstökum áföllum. Það er því um umtalsverða upphæð að ræða, sem landbúnaðurinn leggur nú þegar fram sér til styrktar, þegar út af ber. Með þessu frv., sem hér er til umræðu, er gert ráð fyrir verulegum skatti, og að sumu leyti er erfitt að hugsa sér, hvernig hægt er að innheimta þetta fé, t. d. það, sem á að greiða af hverjum heyhesti, en það er verulegur hluti skattsins, sem mundi koma af hverjum heyhesti, það er gert ráð fyrir 3 kr. Nú er þannig háttað til, að bændur eru hættir að telja heyfeng sinn í heyhestum, eins og var. Nú miða forðagæzlumennirnir við rúmmálið í hlöðunum, rúmmál heysins, þegar þeir ákveða ásetning á haustin, en ekki við heyhest. Það mætti þess vegna vel hugsa sér, að þetta yrði eins innheimt af rúmmáli heyjanna. En þarna er um verulega mikinn skatt að ræða, sem ég hygg að mundi reynast nokkuð erfitt að innheimta.

Meðalbóndi í landinu er talinn hafa núna samkvæmt verðlagsgrundvellinum 10 kýr, 2 nautgripi aðra og 180 fjár. Mér sýnist fljótt á litið, að þetta bú mundi þurfa að afla 1000 hesta af heyi, miðað við gamla lagið að telja heyið í hestum, hestburðum. Þess vegna kæmi þarna 3000 kr. skattur á hvern bónda.

Það er gert ráð fyrir, að umboðsmenn ríkisvaldsins innheimti þetta gjald. En hver á að ákveða álagningargrundvöllinn, hver á að ákveða það? Ég vildi gera þá fsp. til flm., hver á að ákveða álagningargrundvöllinn, hver á að ákveða, hvað mikið er af heyi hjá hverjum bónda? Ég geri ráð fyrir, að það yrði erfitt að innheimta gjaldið.

Þá er það ákaflega mikill skattur líka að bæta við 200 kr. á hvert tonn af kjarnfóðri, sem bændur kaupa. Grundvallarbúið er talið þurfa 8.5 tonn af fóðurbæti. Þarna kemur 1700 kr. skattur á fóðurbæti meðalbúsins, og það, sem er eitt af því allra erfiðasta núna, er einmitt það, hvað fóðurbætir er dýr, og það verður aldrei komizt hjá því, að bændur noti verulegan fóðurbæti hér á landi. Við búum við þannig náttúrufarsskilyrði, að við verðum alltaf, ef við eigum að framleiða nægilega mikið af landbúnaðarafurðum fyrir þá neyzlu, sem þjóðin þarf, þá verðum við ævinlega að nota allmikið af þessari vöru, og þarna finnst mér, að bændum verði íþyngt verulega.

Þá kem ég að áburðinum. Samkvæmt verðlagsgrundvallarbúinu er gert ráð fyrir, að meðalbóndi þurfi 4.3 tonn af áburði, og nú hefur áburðarverð farið mjög hækkandi ár frá ári vegna gengisfellinganna, sem eru tíðar, og það er orðið eitt af því, sem bændur eiga verst með að eignast, það er áburðurinn. Í því er falin stórhætta fyrir landbúnaðinn. Ég er sannfærður um, að það þarf að nota miklu meiri áburð fyrir þennan heyfeng, sem gert er ráð fyrir að meðalbúið þurfi að hafa, heldur en þann áburð, sem gert er ráð fyrir í grundvellinum. Ég þekki það dálítið af eigin reynslu, ég er búinn að nota þennan áburð áratugum saman, og ég nota miklu meiri tilbúinn áburð en það bú, sem reiknað er með. Ég geri ráð fyrir, að ég hafi a. m. k. þrisvar sinnum grundvallarbú sjálfur, en ég notaði á s. l. ári á milli 30 og 40 tonn af áburði, en hér er reiknað með 4.3 tonnum á þetta meðalbú. Ég er viss um, að íslenzkur landbúnaður líður mikinn skaða við það, hvað lítill áburður er notaður, og það er fyrst og fremst vegna þess, að bændur hafa ekki bolmagn til þess að kaupa þennan áburð, svo dýr sem hann er. Og nú ætti að bætast þarna á talsverður skattur, að vísu ekki mikill, ég skal játa það, en það munar um allt, og mér finnst, að þessi álagningargrundvöllur, sem hv. flm. hefur fundið og byggir frv. sitt á, hann sé mjög varhugaverður frá mínu sjónarmiði.

Ég ætla nú ekki að tefja tímann og tala meira um þetta mál nú, það gefst kannske tími til þess síðar. En ég tel, að sú n., sem fær málið til meðferðar, þurfi mjög vel að athuga um álagningargrundvöllinn og hvort það þyki fært að stofna núna til slíkrar sjóðsstofnunar eins og hér er gert ráð fyrir, á þeim tímum einmitt, þegar bændur búa við mjög erfiða aðstöðu fjárhagslega og eiga þess vegna erfitt með að bæta á sig sköttum, og enn fremur þegar tillit er tekið til þess, að allir sjóðir, sem verið er að basla við að stofna á undanförnum árum, þeir hafa eyðzt upp í eldi óðaverðbólgu og dýrtíðar og gengisfellinga. — Ég ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni.