13.02.1969
Neðri deild: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (2679)

122. mál, hagtryggingarsjóður landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er eiginlega ekki nýtt mál hér á ferðinni, að ræða um það að semja löggjöf til þess að tryggja landbúnaðinn. Það var, held ég, 1963 eða 1964, sem kom hér fram á hv. Alþ. þáltill. um, að það skyldi kosin eða skipuð n. til þess að gera drög að frv. um búfjártryggingar. Þessi n. var skipuð, og í henni áttu sæti ýmsir af þeim mönnum, sem eru hjá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Þeir sömdu frv. að l., og það var tekið fyrir á búnaðarþingi, að mig minnir 1966, og það var samþ. á því búnaðarþingi með dálitlum breytingum. Þetta frv. var sent til allra hreppabúnaðarfélaga landsins til umsagnar. Og ég held, að ég megi segja það, að mikill meiri hluti hreppabúnaðarfélaganna treysti sér ekki til þess að mæla með samþykkt þess, vegna þess að þeim fannst þá vera nógu mikil gjöld lögð á landbúnaðinn, og eins og rekstraraðstaðan var þá, var ekki fært að bæta meiri gjöldum þar við.

Á s. l. þingi var lögum um bjargráðasjóð mikið breytt og raunar að allverulegu leyti var þeim breytt þannig, að þetta frv. út af fyrir sig hefur ekki mikla þýðingu þannig lagað. Það væri þá nær að hækka tekjur bjargráðasjóðs á einhvern hátt, því að í sjálfu sér nær það, eins og ég sagði áðan, yfir það að miklu leyti, sem þessi hagtryggingarsjóður ætlast til.

Það er alveg rétt, sem flm. sagði, að gjaldið miðað við grundvallarbúið mun verða eitthvað rúmar 5000 kr., en reynsla okkar bændanna er sú, að þetta mundi verða í reynd einhvers staðar í kringum 7000 kr. á meðalbúið eða jafnvel meira. Ég hef spurt um það ýmsa, bæði ráðunauta og aðra, hvað þeir telji, að mikill áburður sé notaður á búi af þessari stærð, sem nú er miðað við, þ. e. a. s. 400 ærgildi, og eftir því mundi það verða yfir 7000 kr., sem grundvallarbúið yrði að borga. Við sjáum, miðað við þá rekstraraðstöðu, sem landbúnaðurinn hefur nú við að glíma, hvort mundi vera fært að bæta því við á þessu ári. Hins vegar ætla ég alls ekki að gera lítið úr því, að það þarf einhvern veginn að tryggja betur landbúnaðinn en er og það þyrfti að finna bjargráðasjóði meiri tekjustofna en hann hefur nú á hverju ári.

Það hefur komið í ljós, að á árinu 1967 munu bændur hafa haft í meðaltekjur innan við 100 þús. kr. Það er samdóma álit Hagstofunnar og Búreikningaskrifstofu landbúnaðarins. Eftir gengisfellinguna síðustu hefur það ekki fengizt, að bændur fengju að hækka sínar afurðir að neinu leyti eins og var í fyrra, og það mundi nema um 6.4% á verðlagsgrundvelli, og í raun og veru er þarna verið að lækka um 13% vinnulið verðlagsgrundvallarins, ef þessi hækkun fæst ekki fram. Ef svo á að bæta þessu gjaldi ofan á þessa rekstraraðstöðu, þá veit ég ekki, hvar á að taka fjármuni til þess. Ég veit, að búnaðarþing fer að koma saman, og ég tel sjálfsagt, að sú n., sem fær þetta mál, vísi því þangað og leiti umsagnar þeirra, sem eiga að njóta tryggingarinnar og borga þessi iðgjöld: En ég vil endurtaka það, að eins og rekstraráðstaða landbúnaðarins er nú, tel ég þetta alls ekki réttan tíma til þess að bæta gjöldum á landbúnaðinn, og það verður að finna einhverjar aðrar leiðir til þess að tryggja hann fyrir áföllum heldur en þessa leið.