17.02.1969
Neðri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (2684)

123. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Landbúnaðarmál hafa allmikið verið til umr. undanfarið, og er þá mjög um það rætt, að landbúnaðinn þurfi að aðlaða breyttu þjóðlífi, bæði þeim, sem stunda hann, til betri lífskjara og allri þjóðinni til meira hagræðis. Láta mun nærri, að ríkið verji rúmum 500 millj. kr. til beinna framlaga til landbúnaðarins, eða miklum mun hærra framlagi en til nokkurrar annarrar atvinnugreinar okkar. Hér er það, sem ágreiningurinn rís. Sumir telja þessi framlög óeðlilega há, þar sem hér sé ekki lengur um neinn aðalatvinnuveg þjóðarinnar að ræða og veiti tiltölulega fámennum hluta hennar atvinnu. Aðrir telja framlög ríkisins of mjög skorin við nögl og bæta þurfi hag bænda, lægstlaunuðu stéttar landsins, með drjúgum hærri ríkisframlögum. Um hitt er ekki deilt, að við þurfum og eigum að halda þessum atvinnuvegi uppi og hafa sem bezt not af honum fyrir þjóðarheildina og veita þeim, er hana stunda, sem bezt kjör. Deilan stendur um það, hvernig að þessu skuli vinna og líka, hver hagur bænda er. Oft er því haldið á lofti, að bændur séu lægst launaða stétt landsins, og ugglaust er þetta tölulega rétt að meðaltali. En líklega hefur engin stétt eins misjafnar tekjur og bændur, allt frá því að hafa naumlega til hnífs og skeiðar og upp í ofsatekjur. Hér er líka um atvinnugrein að ræða, sem hagsýni og ráðdeild orka afar miklu um, hver útkoma árstekna verður. En sé haft í huga, hve margar afdala- og útnesjajarðir eru þó enn í byggð, hve mörg smábýli eru yrkt til tekjudrýginda með annarri vinnu og hve margt eldra fólk stundar þessa atvinnugrein, fólk, sem hvorki getur né vill stækka bú sín, en unir glatt við sitt, þótt smátt sé í augum áhorfenda, þá gefur auga leið, að meðaltekjum bænda verður seint náð upp úr lágu meðaltali og nánast vonlaust að freista þess. Til þess að búa meginþorra bænda, burðarásum stéttarinnar og búnaðarins, góð lífskjör, verður að ástunda samfærslu byggðar þeirra og stækkunar meðalbúa þeirra, en taka ekki inn í það dæmi afdalakot og smábýli hinna, sem vilja og þurfa að búa smátt. Jafnframt á að hætta að berja það inn í bændastéttina, að hér sé um svo vesælan atvinnuveg að ræða, að hann verði ekki stundaður nema með stórfelldri ríkisaðstoð. Sá hugsunarháttur drepur dug og metnað úr ungu fólki til að iðka landbúnað, en allir sjá, hvar lendir, ef sú stétt endurnýjast ekki með eðlilegum hætti.

Hér þarf að verða hugarfarsbreyting á. Í augum fjölmargra neytenda og bæjarbúa eru bændur sérréttinda- og yfirvöðslustétt, sem krefst meira af ríkinu en nokkur önnur stétt. Í mínum augum eru bændur fyrst og fremst ráðvillt stétt, sem finnst jörðin skríða undir fótum sér, finnur, en skilur ekki til fulls, að vegna stórfelldrar þjóðlífsbreytingar síðustu áratugi er staða landbúnaðarins í þjóðlífinu að gerbreytast. Sumir sjálfskipaðir forsjármenn þeirra grípa til rómantísks sveitalofs um ágæti atvinnunnar og hollustu hennar og menningarlegra áhrifa. En ekkert af þessu snertir innsta kjarna málsins, að gera landbúnaðinn arðvænlegan fyrir þá, sem stunda hann, og þjóðarheildinni hagfelldan. Þar tel ég skipta máli, að bændur verði ekki hvattir til offramleiðslu á þeim landbúnaðarvörum, sem síðan eru seldar úr landi langt undir kostnaðarverði. En þar virðist mér 10% viðmiðunin hafa haft óheppileg áhrif og komið í veg fyrir, að stéttin leitaði meiri fjölbreytni í framleiðslu, sér til betri tekna og ríkiskassanum til léttis.

Það er trú mín, að með stofnun hagtryggingarsjóðs landbúnaðarins, þar sem fjármunir eru dregnir saman til tryggingar og uppbyggingar, muni öryggiskennd bænda aukast, en með lækkun útflutningsuppbóta muni þeir gaumgæfa betur framleiðsluhætti sína, sér og þjóðarheildinni til hagræðis. Hvort tveggja tel ég tímabært og nauðsynlegt, og til að stuðla að slíku eru þau tvö frv., sem ég hef iagt hér fram á Alþ., flutt.

Ég legg svo til, að frv. þessu verði vísað til landbn. og 2. umr.