18.02.1969
Neðri deild: 49. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (2690)

123. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hv. 9. landsk. þm. sagði í þessum ræðustól nú fyrir stundu, að bændurnir finni, að landbúnaðurinn er ekki lengur einn af aðalatvinnuvegum þjóðarinnar. Og hann gat um það eða það var ekki hægt að heyra annað í hans orðum en að það væri eini atvinnuvegur í þessu landi núna, sem byggi við öryggisleysi. Ég held nú, að þessi ríkisstj., sem hann styður svo dyggilega í gegnum þykkt og þunnt, sé búin að sanna þjóðinni, að það sé ekki hægt að framleiða neitt í þessu landi. Ég veit ekki, hvernig hægt er að gera það betur en hefur verið gert.

Það er ekkert sérstakt með landbúnaðinn, og ef eitthvert öryggisleysi er þar, er það vegna stefnu núv. ríkisstj., en ekki af öðru. Hann gat um það, að það mundi fást aðeins helmingur verðs fyrir útfluttar landbúnaðarvörur nú. Og hann mun hafa haft hér tölur, sem hann þóttist hafa eftir mér í gær um verð, sem við fengjum í Bretlandi, en hann fór skakkt með þessar tölur. Ég sagði, að það væru rúml. 54 kr. fyrir kg í Bretlandi, og það er lægsti markaðurinn. Ég sagði líka, en það hafði hann ekki eftir, að í Noregi gætum við fengið 80 kr., ef við kæmumst þar inn á þann markað, og það er búið að selja svolítið megn á því verði. Hann gat ekki um það. En þarna var ég með tvær tölur, sem eru hæsta og lægsta verðið. Það er mismunandi í hinum löndunum, en allt hærra en það, sem ég gat um áðan í Bretlandi.

Hann var að vitna í grein, sem kom í Morgunblaðinu um þessa hluti. Það stóð fleira í þessari grein. Það stóð þar enn fremur, að það fengist ekki nálægt því grundvallarverð fyrir ull og gærur á erlendum mörkuðum. Þetta er alrangt. Það fæst meira en grundvallarverð nú fyrir gærurnar, þó að ég taki þar ekki gengisbreytinguna, ekki þau áhrif. sem hún hefur þar á. Verðið í grundvellinum á gærunum er 33 kr., en það mun vera um 40 kr. eða tæpar 40 kr., sem fæst miðað við gamla gengið. Og það þýðir ekki fyrir þennan hv. þm. að líta aðeins á kjötið eitt. Það verður að taka auðvitað afurðirnar af sauðfénu allar og meðaltalstölur af því, hvað þetta gerir. Eins og nú horfir, er hægt að fá fyrir gærurnar, að mér er tjáð, fob.-verð um 80 kr. eða fast að því fyrir kg. Það er auðvitað fob.-verð, ekki það, sem bændurnir fá. Svipað er um ullina og með gærurnar. Það hefur komið fram nú að undanförnu, að það eru miklir möguleikar í að vinna úr þessum vörum hér og veita mörgum atvinnu við það, og það er ráðgert a. m. k. á tveimur stöðum í landinu að setja nú upp sútunarverksmiðju fyrir um það bil helminginn af þeirri framleiðslu landsmanna, sem nú er, og mér er tjáð, að það sé möguleiki til þess að fá verð fyrir allar okkar gærur og ull, ef verður hægt að ráðast í það, eins og nú standa málin. En það er kannske bara ráðið að skera sauðfé niður, eins og hv. þm. í raun og veru leggur til og annað ekki.

Það er alveg rétt, að ég sagði hér í ræðu minni í gær, að uppbæturnar væru ekki æskileg leið. En það verður eitthvað að koma þá í staðinn, og ég gat um það, hverjir það væru, sem bæru ábyrgð á þessari leið, sem farin var. Það eru stjórnarflokkarnir, sem fóru inn á þessa leið og breyttu þar alveg um stefnu. Það var önnur leið farin í þessum málum áður.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. var að tala um þetta verð, sem fengist, og hann vildi miða við það grundvallarverð, sem var ákveðið í haust. Það er náttúrlega alveg alrangur mælikvarði. Ef við ætlum að reikna eins og gengisbreytingin verkar nú á verðið, þá eigum við náttúrlega líka að reikna með þeim aukna kostnaði, sem við þessa framleiðslu verður vegna gengisfellingarinnar. Annars erum við með rangar tölur, og það náttúrlega þýðir ekkert fyrir okkur að vera að blekkja okkur með því. En það mun láta nærri, að það fáist um 70 eða 73% að meðaltali, eins og er miðað við það að taka, ef þessi hækkun kemur eins og hún átti að gera 1. janúar á útfluttar sauðfjárafurðir. Það er minna aftur á mjólkurvörurnar, það skal ég játa, en það er ekki langt frá helmingi af framleiðslukostnaðarverði. En við þurfum víst ekki að hafa áhyggjur af því á næstunni, eins og nú horfir, að þurfa að flytja út mjólkurafurðir.

Í gær sagði hv. 9. landsk. þm. í umr. í þessu máli, að bændur væru ráðvilltir, og manni gat, eins og ég sagði áðan, skilizt, að þetta frv. ætti að verka þannig, að þeir ættu að ná áttunum og hefðu rétt viðbrögð í þeim vandamálum, sem nú steðja að landbúnaðinum. En ég vil spyrja hv. þm. að því, hvort hann sé ekki farinn að átta sig á því, að það eru ekki bændur einir, sem eru ráðvilltir. Það er vegna stjórnleysis og úrræðaleysis hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, að menn eru í hópum að ráðgera nú t. d. að fara til útlanda og atvinnuleysið í landinu magnast dag hvern. Svo langt er gengið, að hv. þm. leggur til, að bændurnir einir verði að búa við allt annað en aðrir þegnar í þessu þjóðfélagi.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þessi mál hér miklu lengur, en það er annað mál, sem er á dagskránni og verður kannske tekið fyrir, og ég er víst á mælendaskrá þar, og mun ég ræða þar betur landbúnaðarmálin.