17.02.1969
Neðri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (2696)

132. mál, loðdýrarækt

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 10. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni, að flytja hér á þskj. 245 frv. til l. um breyt. á l. nr. 32 frá 8. marz 1951, um loðdýrarækt. Efni frv. er tvíþætt: Annars vegar, að leyft verði minkaeldi í Vestmannaeyjum, og hins vegar, að leyfður verði innflutningur tiltekins fjölda lifandi minka til stofnunar eins tilraunaminkabús þar.

Lög eru um innflutning búfjár, nr. 74 frá 1962, en samkvæmt þeim eru ýmsir aðilar, sem þar koma til með að þurfa að segja álit sitt um og veita samþykki sitt fyrir, ef innflutningur lifandi búfjár á að eiga sér stað. Flm. töldu eðlilegast, að ef hv. Alþ. samþ. á annað borð að leyfa minkaeldi í Vestmannaeyjum, þá yrði jafnhliða tryggt, að leyft yrði að flytja inn tiltekinn fjölda lifandi minka til stofnunar eins tilraunabús þar. Það er lagt til í 1. gr. frv., að þetta sé að sjálfsögðu háð umsögn yfirdýralæknis, og er þar gert ráð fyrir, að það ætti að vera nægileg trygging fyrir, að ekki yrðu flutt inn nema heilbrigð dýr, sem hann vildi mæla með innflutningi á.

Frv. til l. um loðdýrarækt og heimild til minkaeldis hafa áður nokkrum sinnum verið flutt hér á hv. Alþ. Þau hafa fengið misjafnar undirtektir. Um það hafa verið nokkuð skiptar skoðanir og allharðar deilur, og helztu rök, sem komið hafa fram gegn því, að minkaeldi yrði aftur komið hér á fót, er ótti við, að villiminka mundi verða vart í ríkara mæli en nú er, ef til kæmi, að lifandi dýr slyppu út úr minkabúum. Þeir, sem hafa flutt frv. um að leyfa minkaeldi aftur, hafa mjög á það bent, að ekki væri ástæða til að óttast svo mjög, að til þess þyrfti að koma, að minkur slyppi út úr búum. Á þessu sviði eins og öðrum hefur tækninni að sjálfsögðu fleygt fram og talið nokkuð tryggt og öruggt, að þannig sé hægt að ganga frá þessum dýrum í minkabúum, að ekki þurfi að koma til, að þau þurfi að sleppa út. Hins vegar getur að sjálfsögðu enginn um það fullyrt, og slys geta hent eða annað slíkt. En mjög hafa verið skiptar skoðanir um það, hvort ástæða væri til þess að óttast eins mikið og hjá sumum hv. þm. hefur komið fram, að villiminkur mundi aukast svo mjög frá því, sem nú er, ef minkaeldi yrði leyft, og hvort hann raunverulega geri eins mikið tjón og af mörgum hefur verið bent á og haldið fram.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, ætti ekki að þurfa að valda ágreiningi að þessu leyti, því að þetta er einangrað við einn stað, Vestmannaeyjar, og aðrir landsmenn þurfa sannarlega ekkert að óttast, að aukning á villimink yrði hér uppi á meginlandinu, þó að minkaeldi í tilraunaskyni yrði leyft þar úti í eyjum. Vestmanneyingar sjálfir hafa gert um það einróma samþykkt hjá bæjaryfirvöldum að óska þess, að hv. Alþingi leyfi, að slík tilraun verði gerð þar. Ég hygg, að það liggi nokkuð ljóst fyrir, að ef á annað borð minkaeldi er talið fjárhagslega arðvænlegt eða atvinnuvegur, sem eðlilegt væri að risi hér upp aftur, væri hann það ekki síður í Vestmannaeyjum en annars staðar. Þar er fyrir hendi, eins og vitað er, verulegur hluti þess fæðis, sem þessi dýr eru fóðruð á, þ. e. fiskúrgangur, og aðstæður að öðru leyti ekki verri en annars staðar, nema um það var deilt á sínum tíma, hvort loftslag þar væri eins heppilegt og annars staðar á landinu. Í því sambandi er rétt að benda á það, að síðan minkaeldi var þar haft um hönd fyrir 20–30 árum, hefur það skeð og liggur fyrir í skýrslum, að tíðarfar hefur nokkuð breytzt þar. Vestmannaeyjar voru á þeim tíma einn af þeim stöðum á landinu, þar sem einna mest rigndi. Það sýndu skýrslur Veðurstofunnar. En á þessu hefur orðið breyting síðan. Hvað því veldur, veit ég að sjálfsögðu ekki, en skýrslur sýna þetta, og almenningur veit, að nokkuð annað tíðarfar er þar nú en var fyrir 20–30 árum, þannig að minna er um rigningar, meira um vestlægar, norðvestlægar og norðlægar áttir heldur en áður var, þar sem austanátt, oftast nær með mikilli úrkomu, var þar langsamlega yfirgnæfandi veðurátt. Ég hygg því, að einnig þetta atriði þyrfti ekki að verða þess valdandi, að neitt verra væri að stunda minkarækt á þessum stað heldur en kannske annars staðar hér á Suðurlandi eða annars staðar á landinu.

Á sínum tíma, þegar minkaeldi var í Vestmannaeyjum, voru þar, að mig minnir, a. m. k. þrjú bú. Eitt þeirra var langsamlega stærst, hafði norskan sérfræðing frá upphafi, og var talið, að rekstur þess hefði verið mjög eðlilegur, og menn héldu því fram, að þar hefði ekkert dýr sloppið út. Hjá hinum tveimur aðilunum var þetta ekki í eins föstu formi, og um það er ekkert hægt að fullyrða, en verður að reikna með, að dýr hafi kannske frekar sloppið þar út. En eitt er öruggt, að villiminkur hefur aldrei sézt í Eyjum, hvorki á meðan búin voru þarna né eftir að þau voru lögð niður. Hvað því veldur, skal ég ekki segja, hvort þannig hefur hitzt á, að ekkert hafi sloppið út af honum, vil ég ekkert fullyrða um. En þetta er staðreynd, að villiminkur hefur ekki sézt þar.

Menn greinir á um það, — það hefur komið hér fram við þær umr., sem verið hafa um frv. svipaðs efnis áður, — menn greinir nokkuð á um það, hvort þetta sé fjárhagslega arðvænlegur atvinnuvegur eða ekki eða hvort rétt sé, að Íslendingar leggi í fjárfestingu í sambandi við þennan atvinnuveg eða ekki. Ég hygg, að það sé nokkuð vont að fullyrða nokkuð fyrir fram um þetta. Hitt er staðreynd, sem verður ekki gengið fram hjá, að nágrannaþjóðir okkar, bæði Danir og Norðmenn, hafa þróað upp þennan atvinnuveg, þannig að hann er orðinn nokkur þáttur í þeirra atvinnulífi og hefur skilað þeim árlega verulegum gjaldeyristekjum. Þetta eru staðreyndir, sem liggja fyrir og ekki verður um deilt. Hvort okkur tækist hér á landi að gera þetta að þróuðum atvinnuvegi, sem ætti sér framtíð, verður reynslan að mínum dómi að skera úr um. Ég tel ekki, að það komi neitt þar til álita eða megi tefja neitt, þó að menn hafi á það bent, að minkaeldi hafi hér mistekizt áður. Það er svo með fjölda atvinnuvega, sem nú eru taldir eðlilegir og sjálfsagðir, að á þeim voru í fyrstu margir vankantar, og þó að þetta hafi komið fram hér við minkarækt í fyrstu tilraun, þá tel ég ekki, að það eigi neitt að hafa áhrif á, að þessi tilraun sé ekki gerð aftur.

Ég tel, að þetta mál liggi svo ljóst fyrir, að ég þurfi ekki að hafa um það mjög miklu lengri framsögu. Þetta er einangrað við einn stað, sem öruggt er, að öðrum landsmönnum á ekki að stafa nein hætta af, þó að minkaeldi yrði leyft þar, og á ég þar við Vestmannaeyjar, eins og fram kemur í frv., þannig að þau rök, sem að þessu leyti hafa áður komið fram gegn minkaeldi hér á landi, ættu ekki að vera fyrir hendi í sambandi við þetta frv.

Ég vil að lokum einmitt í því sambandi leyfa mér að benda á, að í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem dags. er 15. febr. 1966 og þessi stofnun gaf í sambandi við frv., sem þá lá hér fyrir Alþ., þar er lagt til, þó að það komi fram af umsögn þessarar stofnunar, að hún sé mótfallin því, að minkaeldi verði almennt leyft, — þar er lagt til eða sett fram sem varatill., að ef ekki verður hægt að sporna við því til fulls, að minkaeldi verði leyft hér á ný, vill stofnunin gera það að varatill. sinni, að það verði aðeins leyft í Vestmannaeyjum, svo framarlega sem Vestmanneyingar vilja fallast á að taka við minknum, eins og þessi hv. stofnun orðar það. Nú liggur það fyrir, að Vestmanneyingar eða forsvarsmenn þess byggðarlags hafa sjálfir óskað eftir að fá að gera tilraun með þetta, þannig að vel væri þess vegna hægt að verða við þeirri varatill., sem fram kemur í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem er, eins og ég sagði áður, frá árinu 1966 varðandi þetta mál, þegar það lá þá hér fyrir.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að hafa um þetta lengri framsögu, en vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.