20.03.1969
Neðri deild: 67. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í C-deild Alþingistíðinda. (2717)

182. mál, æskulýðsmál

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 357, hefur verið hér á ferð tvisvar áður. og það er að ætt og uppruna stjórnarfrv. Hæstv. menntmrh. lagði það fram undir þinglok í hittiðfyrra, aðeins í kynningarskyni, að því er virðist, svona álíka og hann hefur nú lagt skömmu fyrir þingslit fram annað frv., menntaskólafrv., ekki eftir orðum hæstv. ráðh. 3 sjónvarpinu um daginn að dæma, að því er virðist, af því að hann hafi a. m. k. þá reiknað með því, að það næði fram að ganga á þessu þingi, heldur aðeins til þess að gefa þm. kost á því að kynna sér það gaumgæfilega og með nægilegum fyrirvara, til þess að þeir væru fyllilega undir það búnir að fjalla um það snemma á næsta þingi og tryggja framgang þess. Því miður verður þó ekki sagt, að þessi aðferð hafi gefið góða raun. Frv. það, sem hér er til umr., æskulýðsmálafrv., hlaut að vísu góðar viðtökur, þegar það var flutt hér aftur snemma á síðasta þingi, og ekki hvað sízt af hálfu okkar stjórnarandstæðinga. En þegar það var komið til menntmn., reyndust stjórnarsinnar í n. undir forustu flokksmanns hæstv. menntmrh. haldnir svo mikilli fjárhagslegri ábyrgðartilfinningu, að þeir treystu sér ekki til að mæla með samþykkt frv., þar eð það hefði í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, og þeir beittu meirihlutavaldi sínu til þess, að frv. var svæft í n. Minni hl., þ. e. a. s. fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n., mælti hins vegar með samþykkt frv.

Ég tel ekki ástæðu til að tefja störf fundarins með löngu máli um efni þessa frv, nú að þessu sinni. Með flutningi þess áður og ýtarlegri grg. og skilmerkilegum ræðum hæstv. menntmrh. til útskýringar einstökum ákvæðum þess ætti að vera sæmilega fyrir því séð, að hv. þm. hafi þegar móttekið nauðsynlegan fróðleik um það. En ég vil aðeins ítreka þá skoðun mína, sem ég lét í ljós í fyrra, þegar frv. var flutt þá, að ég tel, að ef þetta frv. næði fram að ganga, mundi þar með stigið stórt og merkilegt skref til lausnar þeim miklu vandamálum, sem við hefur verið að etja á undanförnum árum og áratugum vegna lélegs aðbúnaðar og ófullnægjandi þroskaskilyrða æskufólks hér í þessu þjóðfélagi okkar.

Það kann að hafa vakið nokkra undrun, að einn óbreyttur þm. úr stjórnarandstöðunni skuli hér hafa brugðið á það ráð að vekja upp stjórnarfrv., frv., sem stjórnin sjálf hefur áður látið svæfa. En það kemur fyrir stöku sinnum, að stjórnarfrv. eru hin ágætustu frv., og þá ekki hvað sízt þau frv., sem stjórnin reynist, þegar á hólminn kemur, ekki hrifnari af en svo, að hún hindrar framgang þeirra. Og slík frv. geta stjórnarandstæðingar að sjálfsögðu blygðunarlaust tekið upp og flutt og virðist raunar sjálfsagt, að þeir geri það, þegar stjórnin sjálf sýnir enga tilburði í þá áttina að halda í þessum málum lífinu, hvað þá meira.

Eitt slíkt frv. er það frv., sem hér liggur fyrir. Nú er að vísu langt liðið á þingtímann, svo að hæpið kann að virðast, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, jafnvel þó að stjórnin hefði tekið upp jákvæðara viðhorf til þess, hefði endurskoðað afstöðu sína til þess frá í fyrra, auk þess sem segja má kannske, að í menntmn. hafi áhugamenn um framgang góðra mála nú þegar ærið verkefni að vinna við að forða því, að annað ágætt frv., þ. e. a. s. menntaskólafrv., verði svæft, þó að ekki sé bætt á þá því verkefni að forða þessu frv. frá endurtekinni svæfingu.

En ég vil láta þess getið í þessu sambandi, að áður en ég ákvað að flytja þetta frv., hafði ég gengið úr skugga um það, að það lá tilbúið til prentunar án nokkurrar teljandi fyrirhafnar frá í fyrra. „Satsinn“ hafði verið geymdur, eins og sagt er á prentsmiðjumáli, þannig að ekki þurfti annað en renna frv. enn einu sinni gegnum pressuna, svo að hversu svo sem kann að fara um málið nú að þessu sinni, þá verð ég a. m. k. ekki sakaður um það að hafa stofnað til mikils og ótímabærs kostnaðar í þessu sambandi, þó að ég flytji frv. nú enn á ný. Ekki svo að skilja, að ég telji neina ástæðu til þess að biðja einn né neinn afsökunar í þessu sambandi og sízt af öllu hæstv. ríkisstj. eða þann ráðh., sem á allan heiðurinn af því, að þetta frv. varð til, þ. e. a. s. hæstv. menntmrh. Ég tel þvert á móti, að ég sé með þessu að minna á þá staðreynd, ég sé að ítreka þá staðreynd, að enda þótt úrbætur hæstv. menntmrh. gagnvart þeim vanda, sem að okkur steðjar á sviði æskulýðsmála, enda þótt þessar úrbætur hafi vegna afskipta vissra afla í ríkisstj. enn ekki náð lengra en það að komast á prent, þá gerir hann sér, hæstv. menntmrh., a. m. k. fyrir sitt leyti ljóst, hve mikill og alvarlegur þessi vandi er. Og heiður þeim, sem heiður ber.

Svo legg ég til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.