24.03.1969
Neðri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (2720)

190. mál, Norðvesturlandsvirkjun

Flm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Á þskj. 375 flyt ég ásamt hv. 5. þm. og hv. 4. þm. Norðurl. v. frv. til l. um Norðvesturlandsvirkjun. Eins og fram kemur í grg. þeirri, sem fylgir þessu frv., er það flutt samkv. beiðni eða áskorun frá raforkumálanefnd Norðvesturlands, en n. þessi var skipuð síðla á síðasta ári, og í henni eiga sæti fulltrúar frá Sauðárkrókskaupstað, Skagafjarðarsýslu og Húnavatnssýslum báðum, og eru þessir menn kjörnir í n. af bæjarstjórn Sauðárkróks og af sýslunefndunum. Verkefni þessarar n., sem í eiga sæti 10 menn, er að kanna, hvaða leiðir muni færar til þess að auka raforku á veitusvæðum Skagafjarðar og Húnaþings, og enn fremur að kanna möguleika á því, að héruðin sjálf taki dreifingu orkunnar í sínar hendur. N. þessi hefur þegar haldið með sér nokkra fundi, og á fundi n. á Blönduósi 2. marz s. l. lágu frumdrættir þessa frv, til athugunar og umr. hjá n., og varð það niðurstaða þessa fundar, að farið var á leit við okkur þm. kjördæmisins, að við flyttum þetta mál inn í Alþingi nú á þessu þingi, og þótti okkur ekki annað hlíta en að verða við þeirri beiðni.

Ég vil alveg sérstaklega benda hér á það, sem ég tel mjög mikilsvert atriði í þessu máli, en það er það, hversu mikil samstaða virðist hafa skapazt heima í héraði um þetta mál, og án þessarar samstöðu mundi ég ekki telja eðlilegt, að frv. sem þetta væri flutt hér á þingi, því að þess er ekki að dyljast, að frv. boðar verulega stefnubreytingu í raforkumálum í þessum landshluta og hefur í för með sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir viðkomandi bæjar- og sveitarfélög. Öll orkuvinnsla og orkudreifing á þessu svæði er nú rekin af ríkinu, að undanskilinni rafmagnsveitu Sauðárkrókskaupstaðar, sem rekin er af bænum, og er þar að finna eina frumkvæðið í raforkumálum heima fyrir. En með þessu frv., sem mjög er byggt á löggjöf um Landsvirkjun og Laxárvirkjun, er ráð fyrir gert, að ríkið annars vegar, en sveitarfélög Húnavatns- og Skagafjarðarsýslna ásamt Sauðárkrókskaupstað hins vegar setji á stofn sameignarfyrirtæki, sem taki við og annist raforkuvinnslu og raforkuflutning á Norðvesturlandi.

Til er ætlazt, eins og segir í 1. og 8. gr. frv., að stjórn þessa fyrirtækis verði skipuð 5 mönnum, sem heima eiga á svæðinu, og heimili þess og varnarþing verði á Sauðárkróki. Það er svo ráð fyrir gert, að hvor aðili um sig eigi helming fyrirtækisins og skuli það starfrækt sem sjálfstætt fyrirtæki með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald.

Í 2. gr. frv. er upp talið, hvert skuli vera hlutverk þessa fyrirtækis. Það er í fyrsta lagi að byggja og reka virki til framleiðslu og flutnings raforku til almenningsnota og iðnaðar, og í öðru lagi að selja í heildsölu raforku til héraðsrafmagnsveitna, í þriðja lagi að annast áætlanir og undirbúning nýrra virkja til vinnslu og flutnings raforku og í fjórða lagi að annast í umboði sveitarfélaga og ríkisins rekstur héraðsveitna samkv. samningi við viðkomandi eigendur.

Í sambandi við það ákvæði 2. gr., að fyrirtækið annist áætlanir og undirbúning nýrra virkja til vinnslu og flutnings raforku, er á það bent í grg., að fyrirtæki af þessari stærð geti trauðla haldið starfslið til þess að sinna slíkum undirbúningsstörfum að fullu. En það er talið mikilsvert atriði, að heima í héraði sé maður eða menn, sem hægt sé að fela stjórn á slíkum áætlunum og gerð mannvirkja, þó að þeir geti ekki unnið þær að öllu leyti sjálfir. Með því ætti að fást trygging fyrir því, að allur undirbúningur og gerð mannvirkja sé í nánu samræmi við þær aðstæður, sem fyrir eru, auk þess sem það ætti að stuðla að því, að allur undirbúningur verði hraðar unninn og dragist ekki úr hömlu, svo að skaði sé að.

Í 4. lið þessarar gr. frv., 2. gr., er svo fyrirtækinu heimilað að annast í umboði sveitarfélaga og ríkisins rekstur héraðsveitna. Þetta fyrirkomulag á sér fordæmi og hefur þótt gefast vel. T. d. er það svo, að sveitarfélög hér á Suðvesturlandi hafa með sér samvinnu um rafveiturekstur, rafveitur Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Keflavíkur og Selfoss reka rafveitur fyrir sveitarfélög í nágrenni sínu. Á sama hátt er unnt að hugsa sér, að fyrirtæki tækju að sér rekstur veitna, sem eru í eigu ríkisins, ef það þætti hagkvæmt að hafa þann hátt á.

5. og 6. gr. frv. fjalla um orkuöflunina. Þar er engu slegið föstu um það, hvaða leið skuli fara í þeim efnum, heldur heimilað að velja þá lausn til orkuöflunar, sem forráðamenn Norðvesturlandsvirkjunar ásamt þeim aðilum, sem ákvörðun um þau mál taka af hálfu stjórnvalda, telja bezt henta. En í 6. gr. er gert ráð fyrir því, að Norðvesturlandsvirkjun verði heimilað að reisa allt að 6 mw. orkuver í Svartá í Skagafirði eða öðru fallvatni í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum.

Þess er ekki að dyljast, að áhugi okkar heimamanna beinist mjög að því, að Svartá í Tungusveit verði virkjuð, og sú áætlun um fjáröflun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er miðuð við Svartárvirkjun, að Svartá verði virkjuð við Reykjafoss. Allumfangsmiklar athuganir hafa verið gerðar á þessari virkjun, og benda þær athuganir til, að þar megi virkja með sæmilega hagkvæmum hætti.

Í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum eru nú tvær vatnsaflsvirkjanir. Það eru Gönguskarðsárvirkjun, sem framleiðir 1200 kw., og Laxárvatnsvirkjun, sem framleiðir 500 kw., virkjun vatnsafls á þessu svæði er samtals 1700 kw., eða 1.7 mw. Þetta hefur að sjálfsögðu reynzt allt of lítil orka fyrir svæðið, og hafa því verið settar upp dísilstöðvanna hjá rafmagnsveitum ríkisins sé nú eða 2.6 mw., og sjálfsagt þarf, ef ekkert er gert í því að reisa ný virki á þessu svæði, að auka dísilafl mjög bráðlega. Þetta er að mínu viti hreint neyðarúrræði. Mér hefur skilizt, að framleiðsla dísilstöðvanna hjá rafmagnsveitum ríkisins sé nú 4 sinnum dýrari en framleiðsla þeirra vatnsaflsstöðva, sem rafmagnsveiturnar hafa yfir að ráða. Á Norðvesturlandi mundi virkjun Svartár leysa að mestu af hólmi hinar óhagkvæmu dísilstöðvar. Hún mundi verða þáttur í því að spara dýrmætan gjaldeyri og fullnægja orkuþörf svæðisins um árabil og gefa einnig notendum kost á meiri notkun raforku en nú er.

Það mun hafa verið árið 1964 eða 1965, sem Knútur Otterstedt rafveitustjóri á Akureyri var fenginn til þess að gera kostnaðarsamanburð á mismunandi leiðum til orkuöflunar fyrir Norðvesturland. Leiðirnar voru þessar, sem um var að velja: það var aukning dísilvéla, tenging við Laxárvirkjun og virkjun Svartár við Reykjafoss. Þessi samanburður var miðaður við tímabilið 1968–1979. Niðurstöður þessara athugana voru þær, að virkjun Svartár væri hagstæðasta lausnin í orkuöflun fyrir Norðvesturland. Notkun dísilstöðva væri dýrari leið, og hún þykir áreiðanlega vera orðin nú enn þá dýrari leið, hún væri óheppileg vegna olíukaupanna og olíuflutningsins. Tenging við Laxá væri einnig dýrari leið en virkjun Svartár og öryggi notenda minna með línu yfir Öxnadalsheiði. Ég sá ekki ástæðu til þess að birta þessar athuganir Knúts Otterstedts né aðrar athuganir og áætlanir um Svartárvirkjun við Reykjafoss með þessu frv., en ég minni á það, að við þm. Norðurl. v. fluttum á þingunum 1963 og 1964 frv. til laga um virkjun Svartár og með þessum frv. voru birtar sem fskj. álitsgerðir og útreikningar sérfróðra manna um Svartárvirkjun. Vænti ég þess, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til athugunar, gefi sér tíma til þess að athuga þau gögn, sem þá voru birt í þingtíðindum.

Þessi frv. náðu illu heilli, vil ég segja, ekki fram að ganga. Þau voru, svo sem eðlilegt var, send til umsagnar raforkumálaskrifstofunnar. En af hvaða orsökum sem það var, bárust aldrei neinar umsagnir um málið frá raforkumálaskrifstofunni. Ég geri ráð fyrir því, að þetta frv. verði einnig sent til umsagnar réttum aðilum. En ég legg á það áherzlu, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar og athugunar, gangi eftir því, að umsagnir verði gefnar og þær sendar inn í þingið í tíma. Ég sé ekki nokkra ástæðu til að una því, að ríkisstofnanir, sem fá frv. héðan frá Alþingi til álits og umsagnar, hliðri sér hjá því að taka afstöðu til þeirra og gefa umsagnir, sem um er beðið.

Í 11., 12. og 13. gr. frv. eru ákvæði til fjáröflunar fyrir Norðvesturlandsvirkjun vegna þeirra verkefna, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er lagt til, að ríkisstj. heimilist að leggja fram úr ríkissjóði allt að 5 millj. kr. í höfuðstól fyrir fyrirtækið gegn jöfnu framlagi heiman að, eða frá sveitarfélögunum. Þá skal ríkisstj. einnig heimilt að ákveða að lána Norðvesturlandsvirkjun 15 millj. kr. með þeim kjörum, sem fjmrh. ákveður. Þá skal ríkisstj. einnig heimilað að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán, er Norðvesturlandsvirkjun tekur, allt að 55 millj. kr. eða jafnvirði þeirra í erlendri mynt. Ríkisstj. skal einnig heimilt að taka lán, er komi að hluta eða að öllu leyti í stað ábyrgðar, og endurlána Norðvesturlandsvirkjun með þeim kjörum og gegn þeim tryggingum, sem hún ákveður.

Þá er í frv. einnig ákvæði um, að fella skuli niður aðflutningsgjöld og söluskatt af efni og tækjum og vélum, öðrum en vinnuvélum, sem þurfa kann að kaupa vegna þessara framkvæmda, og mun þetta vera í samræmi við ákvæði, sem er að finna í lögum um Landsvirkjun og Laxárvirkjun.

Ég gat þess áðan, að með þessu frv. væri lagt til, að breytt verði um stefnu í raforkumálum Norðvesturlands. Vafalaust munu vera á því skiptar skoðanir, hvort hér er stefnt til réttrar áttar eða ekki. Það er hyggja mín, að með samþykkt þessa frv. verði hraðað lausn á raforkumálum þessa landshluta, og ég hygg, að okkur, sem í strjálbýlinu búum, sé hollt að hafa fleiri viðfangsefnum að sinna. Ég hygg, að það muni efla sjálfstæði okkar og sjálfstraust. Heimastjórn málefna og verkefna ætti að vera skyggnari á þarfir og möguleika, og þeir, sem bera fjárhagslega ábyrgð, falla síður í þá freistni að bera fram óraunhæfar kröfur, og eru þetta allt saman að minni hyggju mikilsverð atriði. Virkjun vatnsaflsins er verkefni, sem að þarf að vinna af fullri festu og framsýni. Vatnsorkuverin verða okkur dýrmæt eign, og það er eðlilegt sjónarmið, að héruðin sjálf vilji eiga a. m. k. hlut í þeim og njóta að sínum hluta þess arðs, sem þau gefa.

Ég hef ekki þessi orð fleiri, herra forseti, en legg til, að frv. verði vísað að umræðu þessari lokinni til 2. umr. og hv. fjhn.