15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2727)

197. mál, sauðfjárbaðanir

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Það er hérna lítið frv., sem ég flyt ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v., frv. til l. um breyt. á l. um sauðfjárbaðanir. Efni þess er ósköp einfalt. Það er aðeins að breyta þeim tímatakmörkum, sem sett eru í núgildandi lögum um það, hvenær baðanir skuli fara fram. En eins og nú er, er það á tímalbilinu frá 1. nóv. til 1. marz, en við leggjum til, að þessu verði breytt þannig, að í staðinn fyrir 1. marz komi 1. maí:

Rökin fyrir þessu eru nokkuð dregin fram hér í grg. Það kann að vera, að það hefði verið nægilegt að hafa þennan tíma um 15. apríl, og er e. t. v. eðlilegra. Það skiptir kannske ekki höfuðmáli. En ég vil aðeins vekja athygli á því, að þessi lög eru sett 1959, og ég hef verið að gera mér grein fyrir því í seinni tíð með þessi lög og mörg önnur, sem eru sett um það leyti eða fyrr, að þau bera nokkuð merki þess, að við höfum lifað sérstaklega góðviðristíma undanfarna áratugi, og það er enginn vafi á því, að veturnir á þessum síðasta áratug hafa verið yfirleitt miklu kaldari en gerðist á næstu 30–40 árum þar á undan, og það tímabil var búið að móta ákaflega mikið í raun og veru skoðanir manna um veðurfar hér á landi og margar ákvarðanir, sem taka varð og varð að draga ályktanir einmitt af veðurfari um. Þess vegna er það, eins og tekið er þarna fram, að yfirleitt er kaldasti tími ársins janúar og febrúar. Við það bætist, að í seinni tíð hafa fjárhús yfirleitt verið reist úr steini og mikið með einföldu járni, eru þau því mjög köld, og það getur því í mörgum tilfellum verið óframkvæmanlegt að koma við böðun fyrir 1. marz. Þess vegna held ég, að það sé skynsamlegt að samþykkja þetta frv. Það má kannske segja, að það væri ekki alvarlegt lagabrot, þó að það drægist fram yfir 1. marz hjá einhverjum, sem ekki treysti sér til að baða vegna þess, hversu kalt væri í húsum, en það er a. m. k. viðkunnanlegra, að það sé heimilt, og ég vil þess vegna eindregið mæla með því, að hv. Alþingi fallist á þessa breytingu, annaðhvort 1. maí eða a. m. k. 15. apríl.

Ég vil svo leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.