22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (2762)

217. mál, Sala jarðarinnar Ytra-Krossanes

Flm. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Frv. þetta til 1. um heimild til handa ríkinu að selja Akureyrarkaupstað jörðina Ytra-Krossanes er flutt að beiðni Akureyrarkaupstaðar. Síðan 1954 hefur þessi jörð verið í lögsagnarumdæmi Akureyrar og er nánar greint nyrzt á mörkum þess sjávarmegin, en að sunnan liggur hún að Syðra-Krossaneslandi, sem bærinn á, og þar er lóð Krossanesverksmiðju. Það hefur verið stefna bæjaryfirvalda Akureyrar um áratugaskeið, að kaupstaðurinn skyldi leitast við að eignast allt það land og þær jarðir, er hann tekur yfir, og er raunar svo komið nú með litlum undantekningum. Ein slík er jörðin Ytra-Krossanes, og hefur bærinn farið sér hægt varðandi hana hingað til sökum þess, að hún hefur verið í lífstíðarábúð, en jarðeignadeild ríkisins hefur hins vegar verið gert kunnugt um eignaráhuga kaupstaðarins. Nú hefur hvort tveggja gerzt, að innan skamms mun losna um ábúð jarðarinnar sökum aldurs búanda og nýtt skipulag af Akureyrarhöfn gerir ráð fyrir olíuhöfn bæjarins í Krossaneslandi. Þykir því bæjarstjórn Akureyrar nú rétt, að heimildar Alþ. verði leitað til handa ríkinu til að selja Akureyrarkaupstað nefnda jörð, og væntir þess, að ekki verði á því fyrirstaða. Rétt er að taka fram, að samband hefur verið haft við jarðeignadeild ríkisins um flutning þessa frv., hvort nokkur vandkvæði mundu á sölu jarðarinnar, ef heimild fengist, og voru svörin þau, að ekki mundi svo vera.

Ég leyfi mér svo, herra forseti að leggja til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn.