25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (2767)

220. mál, leigunám fyrirtækja vegna verkbannsaðgerða

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Um þessar mundir eru mikil stéttaátök í þjóðfélaginu, margbreytilegri verkfallsaðgerðir en nokkru sinni fyrr og verkbönn í fyrsta skipti í sögu Íslendinga. Engum getur dulizt, að þessi stórfelldu átök eru í beinum tengslum við stefnu hæstv. ríkisstj., og það er alkunna, að unnið er að lausn deilunnar, m. a. með tilboðum um lagasetningu hér á hinu háa Alþ. Til að mynda heyrði ég um daginn í sjónvarpi framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands bjóða fram breytingar á lögum um almannatryggingar til þess að greiða fyrir lausn kjaradeilunnar, og þótti mér vægast sagt furðulegt, að fulltrúi atvinnurekendasambandsins skyldi telja það í sínum verkahring að ráðstafa fjármunum almannatrygginga. Einnig hefur fleiri löggjafaratriði borið á góma í viðræðunum. Um þessi mál er rætt á endalausum fundum deiluaðila og sáttanefndar. Um það er rætt manna á milli, hvar sem fólk hittist á förnum vegi. Um það er alls staðar rætt nema á Alþingi Íslendinga. Hér virðist hvíla á því bannhelgi að ræða um þau atriði, sem tvímælalaust munu hafa úrslitaáhrif á þróun efnahagsmála og landsmála um langt skeið.

Þegar við A1þb.-menn orðum þessi vandamál einstaka sinnum, eftir því sem þingsköp leyfa okkur, eru viðbrögðin dumb þögn af hálfu hæstv. ráðh. Verkefni okkar, hinna kjörnu fulltrúa þjóðarinnar, er að fjalla um minkaeldi, alkohólmagnið í bjór, ættfræði sem nýja grein lögvísinda og önnur viðfangsefni engu ómerkari. En við eigum aðeins að vera áhorfendur að því, þegar aðilar utan þings takast á um meginatriði efnahagsmála og taka m. a. ákvarðanir um mjög veigamikil löggjafaratriði. Þetta eru staðreyndir, sem mér finnst að ættu að vera ærið umhugsunarefni fyrir alla þá, sem einhvers meta þingræði á Íslandi og áhrifavald þessarar stofnunar meðal þjóðarinnar.

Í frv. því, sem hér er til umr., er vikið að einum þætti í stéttaátökunum miklu, verkbanni iðnrekenda og verkstæðiseigenda, sem hrakið hefur hátt á annað þúsund manns út af vinnustöðum sínum. Þessi verkbönn eru algert nýmæli í stéttaátökum á Íslandi, þótt þeim sé lýst yfir í samræmi við II. kafla í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938. Þau lög eru, eins og margt annað í löggjöf Íslendinga, sniðin eftir erlendum fyrirmyndum. Fyrirmyndin er sótt til þróaðra kapítalískra þjóðfélaga, þar sem nokkurt jafnvægi hefur tekizt milli eigenda fyrirtækja annars vegar og verkalýðssamtaka hins vegar og þar sem báðum aðilum er heimilað að beita því þjóðfélagslega valdi, sem þeir ráða fyrir, innan vissra takmarka.

Í þessum þjóðfélögum eru atvinnurekendur raunverulegir eigendur fyrirtækja sinna samkv. þeim reglum, sem þjóðfélögin hafa sett sér, og verkbann er kynning á því valdi. En á Íslandi hafa atvinnurekendur aldrei öðlazt þessa þjóðfélagsstöðu nema stutta stund í senn. Svo til öll fyrirtæki á Íslandi eru að meginhluta til stofnuð með beinni aðstoð opinberra aðila, aðallega fyrir almannafé, sparifé þjóðarinnar. Að stofnun þeirra hafa yfirleitt staðið Alþingi og ríkisstjórnir og oft með ríkisábyrgðum, sem ósjaldan hafa fallið á þjóðarheildina. Rekstur þessara fyrirtækja er á sama hátt háður látlausri fyrirgreiðslu stjórnarvalda, skipulagsbundnum lánveitingum og fjölþættri annarri aðstoð. Flestar stofnanir þjóðfélagsins taka þátt í þessari fyrirgreiðslu, þ. á m. verkalýðssamtökin sjálf. Síðast í janúar í vetur var gert formlegt samkomulag um stofnun á nýjum sjóði, sem ætlaður er til aðstoðar íslenzkum atvinnuvegum. Og undanfarnar vikur hafa fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar verið önnum kafnir við að úthluta fjármunum úr þessum sjóði ásamt atvinnurekendum og ráðh., á milli þess að sömu aðilar hafa verið að deila um kaup og kjör.

Fjölmargir aðrir sjóðir eru, sem kunnugt er. starfræktir í þjóðfélaginu til þessara þarfa. Má t. d. minna á Atvinnuleysistryggingasjóð og Atvinnujöfnunarsjóð. Allan þingtímann er það eitt af helztu verkefnum okkar alþm. að leggja atvinnurekendum til hina fjölbreytilegustu aðstoð, og á sama hátt eru margir ráðh., ekki sízt hæstv. iðnmrh., einatt önnum kafnir við að aðstoða jafnvel einstök fyrirtæki.

Þessar staðreyndir um stöðu íslenzkra atvinnurekenda þekkja allir. Og þær eiga ekki að vera neitt ágreiningsefni, þótt menn kunni að vil,ja draga af þeim mismunandi ályktanir. Baráttumenn einkarekstrar viðurkenna einnig þessar staðreyndir til að mynda sá þm., sem mest hefur um þessi mál fjallað, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Hann hefur í langan tíma verið óþreytandi við að bera fram hinar fjölbreytilegustu till. um aðgerðir til þess að gera íslenzka atvinnurekendur að raunverulega sjálfstæðum aðilum í þjóðfélaginu.

Vilji menn á raunsæjan hátt fjalla um eignaraðild á hinum svokölluðu einkafyrirtækjum á Íslandi, verður ekki skotizt undan þeirri ályktun. að í rauninni sé um að ræða sameign hinna svokölluðu vinnuveitenda og þjóðarheildarinnar með beinni aðild Alþ. og ríkisstj. og raunar með aðild sjálfra verkalýðssamtakanna einnig. Þegar atvinnurekendur lýsa yfir verkbanni, eru þeir því að taka sér þjóðfélagslegt vald, sem þeir hafa ekki í raun. Þeir eru að misnota aðstöðu, sem þeim hefur verið veitt af þjóðarheildinni, bönkum hennar og sjóðum, Alþingi og verkalýðssamtökum. Slíku gerræði er ekki hægt að una, og því er lagt til í frv. okkar þremenninganna, að verkbannsfyrirtæki verði tekin leigunámi. Í því felst ekki ýkjamikil breyting í raun, eins og ég hef rakið, því að atvinnurekendurnir hafa aðeins verið einn aðili af mörgum. Í þessu sambandi vil ég leggja á það áherzlu, að frv. er aðeins ætlað að hnekkja þessari valdníðslu atvinnurekenda. Hins vegar felst ekki í því nein íhlutun í þá alvarlegu kjaradeilu, sem nú stendur yfir. Verkalýðsfélögin yrðu sjálf að tryggja rétt sinn í viðskiptum við leigunámsfyrirtæki eins og hver önnur.

Verkbann atvinnurekenda hefur raunar vakið hjá mér margs konar furðu. Ég hef oft í vetur heyrt leiðtoga Sjálfstfl. leggja áherzlu á það, að eina leið okkar út úr efnahagsvandræðunum væri að auka framleiðsluna, aldrei hefði verið fráleitara en nú að stöðva atvinnutækin. Þær kenningar hafa raunar verið í samræmi við yfirlýsingar Sjálfstfl. árum og áratugum saman. Hvers konar stöðvun á framleiðslu hefur verið talin tilræði við þjóðfélagið, og Morgunblaðið hefur löngum reiknað út af mikilli nákvæmni, hversu mikið tjón hefur hlotizt af hverri stöðvun um sig.

Í þeim miklu átökum, sem nú standa yfir, hafa verkalýðssamtökin beitt valdi sínu af meiri hófsemi en nokkru sinni fyrr og lagt sénstaka áherzlu á að trufla útflutningsframleiðsluna sem minnst. Samt verða viðbrögð atvinnurekenda þau í fyrsta sinn í sögu landsmanna að grípa til verkbanna, sem virðast hafa þann tilgang að stuðla að allsherjarstöðvun sem fyrst.

Það er alkunna, að ýmsir helztu fulltrúar iðnrekenda eru í forustuliði Sjálfstfl. og sá flokkur getur haft úrslitaáhrif á ákvarðanir þessara atvinnurekenda. Því verður ekki komizt hjá þeirri ályktun, að Sjálfstfl. og sú ríkisstj., sem hann veitir forustu, beri fulla ábyrgð á verkbönnunum ásamt atvinnurekendunum. Á sama tíma og í orði er talað fagurlega um nauðsyn aukinnar framleiðslu, eru í verki gerðar ráðstafanir til þess að stöðva framleiðsluna. Sú staðreynd verður án efa geymd, en ekki gleymd.

Forusta iðnrekenda í þessum verkbönnum hefði raunar gefið tilefni til að fjalla ýtarlega um stöðu og vandamál íslenzks iðnaðar. Hvernig stendur á því, að íslenzkur iðnaður telur sig ekki geta greitt nema svo sem helming af því, sem greitt er í dönskum iðnfyrirtækjum, enda þótt þjóðartekjur á mann séu taldar svipaðar í löndunum báðum? Ekki er hægt að kenna síldinni um þá staðreynd, þótt nú sé mjög í tízku að gera hana ábyrga fyrir öllum vandamálum þjóðfélagsins. Ástæðan fyrir ófarnaði íslenzks iðnaðar er allt önnur. Það er skipulagsleysið og óstjórnin, sem hefur leitt til þess, að fjárfesting og vélakostur skila ekki þeim þjóðfélagslega arði, sem ástæða er til að krefjast.

Við höfum oft heyrt hæstv. iðnmrh. birta skýrslur hér á þingi um mikla fjárfestingu í iðnaði, og þær skýrslur eru í sjálfu sér alveg réttar. Þarna hefur verið afar mikil fjárfesting. En meinið er það, að fjárfestingin hefur ekki komið að þeim þjóðfélagslegu notum, sem til var ætlazt, vegna þess að hún hefur verið skipulagslaus og tækin hafa ekki verið hagnýtt á þann hátt, sem þarf að hagnýta þau fyrir fyrirtækin. Aðferðin í iðnaði á Íslandi hefur verið sú, að ef einhver iðnrekandi hefur hafið framleiðslu, sem reynzt hefur ábatasöm, þá hafa sprottið upp fjölmargir aðrir og tekið upp sams konar framleiðslu, þar til atvinnutækin voru orðin gersamlega ofviða hinum þrönga markaði á Íslandi. Og atvinnurekstur, sem upphaflega skilaði góðum arði, er orðinn að taprekstri. Þessi staðreynd blasir við á öllum sviðum íslenzks iðnaðar.

Ég held t. d., að um þessar mundir séu ein 17 plastfyrirtæki á Íslandi. Mér segja fróðir menn, að svo sem þrjú plastfyrirtæki mundu geta skilað góðum árangri. En með því að hafa þau 17 er enginn markaður fyrir þau og þau eru öll rambandi og verður að gera sérstakar ráðstafanir til að bjarga þeim. Þetta er aðalmeinsemdin í íslenzkum iðnaði og þetta er aðalástæðan fyrir því, að þessi iðnaður telur sig ekki geta greitt nema svo sem eins og helming af því kaupi, sem nú tíðkast í nágrannalöndum okkar. Ef hér á Íslandi væri raunverulega kapítalískt fyrirkomulag, eins og sumir menn virðast ætla, mundi verða leyst úr slíkum vandamálum með því, að öflugustu fyrirtækin gengju af hinum dauðum. En slíkt er aldrei látið gerast á Íslandi. Ef slík fyrirtæki komast í vanda, þá hleypur hæstv. ríkisstj. undir bagga og gerir efnahagsráðstafanir til að bjarga þeim, sem aumastir eru og lélegustum árangri skila. Af þessu er áratuga reynsla, og þetta hefur verið vinnuaðferð núv. ríkisstj. eins og fjölmargra annarra á undan. Þó að atvinnurekendur hafi rekstrarhald á fyrirtækjum sínum, er tapið af þeim þjóðnýtt með þessum hætti. Þjóðin verður að hlaupa undir bagga í hvert skipti sem þessi fyrirtæki stranda. Þannig er blandað saman á óhagkvæmasta hátt einkarekstri og félagsrekstri og teknir gallarnir úr báðum kerfunum. Ef iðnrekendur hefðu af raunsæi viljað hugleiða, hvernig á því stendur, að vandi þeirra er sá, sem hann er í dag, og þeir telja sig ekki geta staðið undir sómasamlegu kaupgjaldi, þá hefðu þeir átt að beina þeirri athugun inn á við, en ekki að verkafólki.

Á því er enginn vafi, að það væri hægt að láta íslenzkan iðnað skila margföldum þjóðhagslegum árangri með því að endurskipuleggja hann, með því að hagnýta til hlítar þá fjárfestingu, sem þar hefur verið byggð upp af skynsemi, en láta þá aðra eiga sig, sem óskynsamlegri hefur verið talin. Um íslenzkan iðnað þarf að gera fullgilda heildaráætlun. Aðeins á þann hátt getur þessi iðnaður skilað því kaupgjaldi, sem honum ber að skila, og aðeins á þann hátt getur hann tekið þátt í þeirri samkeppni utan Íslands, sem menn eru með draumóra um í sambandi við aðild að EFTA. En eins og íslenzkur iðnaður er á sig kominn nú, eru allar slíkar bollaleggingar auðsjáanlega gensamlega óraunhæfar.

Það er raunar mjög athyglisvert einkenni á íslenzkum atvinnurekendum, að þeir virðast eiga mjög erfitt með að hugsa rökrétt. Ég vík aftur að þessu furðulega fyrirbæri, að iðnrekendur skuli taka sér forustu í baráttu gegn þeirri kröfu láglaunafólks, að það fái að halda kaupmætti launa sinna. Íslenzkir iðnrekendur framleiða fyrst og fremst fyrir innanlandsmarkað. Framleiðsla þeirra er háð kaupgetu fólks á Íslandi. Ef þeir takmarka kaupgetuna, eru þeir um leið að takmarka afköst sín, takmarka afkomu fyrirtækja sinna. Í átökum um skiptingu þjóðartekna á Íslandi er iðnrekendum það tvímælalaust í hag, að afkoma launafólks, afkoma neytenda verði sem bezt. Og því er það alger firra, þegar þessir neyzluvöruiðnrekendur leyfa sér að taka sér forustu í baráttu gegn algerum lágmarkskröfum verkafólks.

En þannig er býsna margt hér á Íslandi. Mönnum er svo ósýnt um að átta sig á þeirri staðreynd, að við búum í þjóðfélagi, sem lýtur á margan hátt allt öðrum reglum en gilda í stærri þjóðfélögum. Þessa aðstöðu þurfa íslenzkir atvinnurekendur að hugleiða mjög gaumgæfilega, ef þeir ætla að halda hér velli og ef þeir ætla að tryggja áframhaldandi aðstöðu sína í þjóðfélaginu. Leiðin til þess að rétta hlut iðnfyrirtækja er ekki sú að reyna að halda áfram að ganga á laun verkafólksins, heldur að beina athyglinni inn á við og endurskipuleggja, eins og ég hef sagt áður. En fullkomið raunsæi á þessu sviði er hin mesta nauðsyn íslenzkra stjórnmála um þessar mundir.

Þau hjaðningavíg, sem einkenna þjóðfélag okkar ár eftir ár og oft á ári, eru tvímælalaust mesta vandamálið í íslenzkum stjórnmálum. Um það ættu menn að geta orðið sammála, hvernig svo sem þeir meta ástæðurnar fyrir þessum ófarnaði. En mikilvægasta verkefni íslenzkra stjórnmála er að finna leiðir til þess, að þessum hjaðningavígum linni sem mest. Til þess þurfa menn að taka upp á margan hátt önnur vinnubrögð en hingað til hafa tíðkazt, og ég hef raunar tekið eftir því að undanförnu, að hugleiðingar um þetta efni birtast á talsvert annan hátt en oft hefur verið. Ég hef séð samþykktir um þetta efni frá öðrum stjórnarflokknum, Alþfl., einkanlega frá æskulýðssamtökum þess flokks, og raunar hef ég séð slík atriði orðuð á skynsamlegan hátt í forustugreinum Alþýðublaðsins. Nú fyrir fáeinum dögum birti Alþýðublaðið t. d. forustugrein, sem nefndist „Erfið deila“. Það var 21. apríl s. l. Og þar er komizt svo að orði í niðurlagi forustugreinarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkalýðsfélögin hafa sýnt mikla ábyrgðartilfinningu í meðferð þessara mála undanfarnar vikur og ekki beitt ýmsum vopnum, sem oft hefur verið gripið til fyrr. Hver sem niðurstaðan verður hvað snertir kaup og kjör næstu mánuði hlýtur þessi deila að leiða til þess, að verkalýðsfélögin og verkalýðsflokkarnir taki upp nýja baráttu í sambandi við ýmsar þær aðstæður, sem ráða getu atvinnuveganna til að greiða viðunandi kaup. Verkalýðsflokkarnir hljóta að gera mun harðari kröfur en áður um hagræðingu og nútímarekstur á atvinnufyrirtækjum, svo að þau geti greitt hinu almenna verkafólki hærra kaup en hingað til. Verkalýðsflokkarnir hljóta að krefjast ráðstafana til þess að bæta og styrkja stjórn fyrirtækja hér á landi, en hún er sýnilega á mjög frumstæðu stigi. Þá verður hið opinbera, ekki sízt bankakerfið, að hafa meira eftirlit með uppbyggingu og fjárfestingu fyrirtækja og leitast við að sjá um, að hugsað sé fyrir nægu rekstrarfé, svo að laun verði greidd reglulega. Verkalýðsflokkarnir hljóta að krefjast þess, að hið umfangsmikla skólakerfi landsins, ekki sízt framhaldsskólarnir, komist í meira samband við atvinnuvegina og mennti fólk til að stýra þeim. Þarna skortir mjög á æskileg tengsl ekki sízt við Háskólann. Verkalýðsflokkarnir hljóta að vinna að traustari alhliða uppbyggingu atvinnuvega í stað þess ævintýralega happdrættis, sem markað hefur þessi mál hingað til. Skipuleg stjórn og skipuleg vinnubrögð verða að komast á til að auka öryggi vinnandi fólks á komandi árum.“

Þessi ummæli í Alþýðublaðinu þykja mér af mörgum ástæðum mjög athyglisverð. Þarna er lögð mjög þung áherzla á nauðsyn áætlunarbúskapar á Íslandi, á nauðsyn þess, að áætlunarbúskapur verði gerður að meginverkefni í pólitískri baráttu á næstunni. Og þarna talar málgagn Alþfl., sem er stjórnarflokkur, um verkalýðsflokkana sem hinn sameiginlega aðila, sem eigi að hrinda þessu máli fram. Og ég er algerlega sammála þessu sjónarmiði. Þetta er grundvallarstefna þessara flokka beggja, og ef þeir vilja halda tryggð við stefnu sína, ber þeim að vinna saman einmitt að þessu verkefni, vegna þess að þetta er úrslitaatriði um þróun íslenzkra efnahagsmála á næstunni. En þá verður Alþfl. einnig að vera reiðubúinn að draga rökréttari ályktanir af þessari stefnu sinni. Honum nægir ekki að birta forustugreinar af þessu tagi, en sitja síðan í ríkisstj., sem lætur viðgangast þann algerasta glundroða,sem verið hefur á þessu sviði í sögu landsins, herfilegri og fráleitari glundroða en nokkru sinni fyrr, glundroða, sem hefur breytt mestu velmegunarárum þjóðarinnar í algert öngþveiti. Ef Alþfl. er nokkur alvara með forustugrein eins og þessari og ef honum er nokkur alvara með að vitna til stefnuskrár sinnar, þá ber honum að gera áætlunarbúskap að hreinu grundvallarskilyrði fyrir áframhaldi stjórnarsamvinnu sinnar. Og raunar er þetta einnig mál, sem íslenzkir atvinnurekendur ættu að hugleiða sjálfir af fullu raunsæl. Þær kenningar, sem reynt hefur verið að halda að þeim um, að hægt væri að koma hér á klassísku kapítalísku þjóðfélagi, sem reynt var að gera með viðreisnarstefnunni, hafa reynzt algerlega gjaldþrota. Tilraunir stjórnarvalda til þess að láta lögmál frumskógarins gilda á Íslandi, hin kapítalísku lögmál frumskógarins, hafa leitt til þess, að erlendir aðilar hafa í sífellu grafið undan íslenzkum atvinnurekendum. Ef þau lögmál eiga að gilda, sjáum við fram á það, að okkar eigin atvinnuvegir hrynja, en erlendir aðilar taka við, að því leyti sem þeim þykir það arðbært að hafa atvinnurekstur á Íslandi.

Ef íslenzkir atvinnurekendur, þ. á m. iðnrekendur, hafa nokkurn raunverulegan hug á því að halda atvinnurekstri sínum áfram, að tryggja íslenzka atvinnuvegi, þá komast þeir ekki undan því að hagnýta nútímaaðferðir í áætlunarbúskap og stjórnun. Það er ekki til nein önnur leið til að reka atvinnuvegi á Íslandi. Glundroðakenningin er algerlega vonlaus. Hún leiðir til hreins ófarnaðar. Við verðum að muna eftir því, hvað við erum lítið samfélag, hvað markaður okkar er lítill og við getum ekki skipulagt atvinnuvegi okkar í sambandi við þetta litla þjóðfélag án þess að beita áætlunartækni. Slíkur áætlunarbúskapur þarf, eins og ég hef margsinnis tekið fram í ræðum hér á þingi, ekki að þýða neinn ríkisrekstur eða sósíalisma. Það er beitt áætlunarvinnubrögðum í mörgum auðvaldsríkjum og öll stærstu fyrirtæki heims hagnýta áætlunarvinnubrögð, þegar þau stjórna sínum eigin rekstri. Hér á Íslandi þarf að koma til skipuleg samvinna ríkisvalds, einkaatvinnurekenda og samvinnufélaga, og það þarf að gera um þetta efni fjölþættar áætlanir á öllum sviðum, í fiskiðnaði, í öðrum iðnaði og ég tek dæmin eitt af öðru. Þetta er eina leiðin, sem til er út úr ógöngunum. En til þess að farið verði inn á þessa leið þarf Alþfl., eins og ég sagði áðan, að fara að breyta í samræmi við almennar yfirlýsingar sínar í Alþýðublaðinu og atvinnurekendur Sjálfstfl. þurfa að gera sér grein fyrir því, að þær kenningar, sem að þeim hefur verið haldið að undanförnu, eru algerlega rangar, og þeir verða að fara að meta stöðu sína af fullu raunsæi. Og sérstaklega verða þeir að hætta því að misbeita fyrirtækjum sínum til stöðugra árása á lífskjör launafólks eins og gerzt hefur nú með hinu fráleita verkbanni.

Herra forseti. Þetta frv. kom hér til útbýtingar á mánudaginn var. Að efni til er það skylt ýmsum frv., sem hæstv. ríkisstj. flytur, þegar mikinn vanda ber að höndum. Þá er það siður hér á Alþ. að veita slíkum frv. forgangsafgreiðslu. Þau eru afgreidd á stuttum tíma með miklum fundahöldum og rekið á eftir, þannig að þau komast oft í gegnum þingið á 1–2 dögum. Ég vil minna á það, að Alþ. er engin afgreiðslustofnun fyrir hæstv. ríkisstj., heldur er Alþ. æðra ríkisstj. Því hef ég talið, að frv. eins og þetta ætti að afgreiða á hliðstæðan hátt, hvað svo sem mönnum finnst um efni þess, hvort sem menn eru á því að samþykkja það eða fella eða breyta því. Slík frv., sem bundin eru við tímabundið, alvarlegt ástand, eiga að njóta sömu meðferðar og ríkisstjórnarfrv. af hliðstæðu tagi. Og fram á þetta vil ég leyfa mér að fara, um leið og ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.