25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

220. mál, leigunám fyrirtækja vegna verkbannsaðgerða

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Mig langar í upphafi máls míns til að lýsa yfir fögnuði mínum yfir því, að frv. það, sem hér er til umr., skuli hafa verið fram borið, og sömuleiðis mikilli ánægju yfir ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem hér talaði síðastur, því að engir þurfa nú að fara í grafgötur um það, hver séu sjónarmið kommúnista í atvinnumálum og hver sé afstaða þeirra til atvinnurekstrarins í landinu. Raunar ætti aldrei að þurfa að spyrja um þetta fremur en t. d. afstöðu kommúnista til frelsis og lýðræðis. En sannleikurinn er nú samt sá, að fólk er ótrúlega fljótt að gleyma, og á undanförnum árum hafa kommúnistar lagt á það kapp að ræða um atvinnumál rétt eins og þeir bæru hag íslenzkra atvinnuvega fyrir brjósti. Það var því orðið tímabært, að þeir minntu sjálfir á það, hvað fyrir þeim vekti og hver væri þeirra stefna í íslenzkum atvinnumálum. Ég mun víkja nokkru nánar að þessu síðar, en langar fyrst til þess að vekja á því athygli, að það er heldur óvanalegt, að kommúnistar krefjist víðtækra ríkisafskipta af samningamálum launþega og vinnuveitenda, þ. e. a. s. í frjálsum löndum. Í ríkjum þeim, sem þeir ráða, vilja þeir auðvitað fullkomið kúgunarvald ríkisins yfir verkalýð, eins og reynslan sannar.

Hv. 1. flm. þessa frv. hafði um það mörg orð, að hér í sölum Alþ. værum við einungis áhorfendur, eins og hann orðaði það að ég held orðrétt, hér ætti um þessi mál að fjalla, það væri ríkisvaldið, Alþ. og ríkisstj., sem ætti að fjalla um kjaramál launþega, en ekki samtök þeirra. Þetta er mjög einkennileg og nýstárleg kenning af hálfu þeirra, sem í einhverjum tengslum ern við verkalýð. En grundvallarreglur þær, sem hér á landi ríkja í samskiptum launþegasamtaka og vinnuveitenda, eru samningafrelsi og gagnkvæmur réttur þessara aðila til að beita verkföllum og verkbönnum til að herða á kröfum sínum og knýja fram samninga. Fram að þessu hefur verkalýðurinn talið þennan rétt hinn dýrmætasta, og jafnvel atvinnukommúnistar, sem sjaldnast leggja sig niður, við að kynnast sjónarmiðum verkalýðsins, eins og hv. 6. þm. Reykv., ættu að vita þetta. En flm. þessa frv. krefjast þess, að þessum grundvelli sé raskað og opinber afskipti af vinnudeilum aukin. Og það er sjálfsagt engin tilviljun, að þetta frv. skuli flutt af mönnum, sem einskis trúnaðar hafa notið né njóta í verkalýðs- eða launþegasamtökum. Grundvöllur lýðræðislegs stjórnskipulags er sá, að mismunandi hagsmunahópar og þjóðfélagsöfl séu frjáls að því að takast á og ríkisvald grípi þar ekki inn í nema úr hófi keyri og voði stafi af. Ef eitthvert afl í þjóðfélaginu verður svo sterkt, að það geti boðið öllum öðrum og samfélaginu sjálfu byrginn, þá hlýtur ríkisvald vissulega að gera viðeigandi ráðstafanir. Ef því væri svo háttað hér á landi, að vinnuveitendur hefðu öll ráð launþega í hendi sér, þá væri eðlilegt að endurskoða vinnulöggjöf með hliðsjón af því að skerða áhrifavald þeirra. Ég hygg hins vegar, að enginn maður, hvorki í launþegasamtökum né utan þeirra, haldi því fram í alvöru, að þannig sé þessu háttað hér á landi. Þvert á móti hafa vinnuveitendur verið of klofnir og máttvana til að fást við vanda, sem þeim er skylt að sinna í lýðræðisþjóðfélagi, þ. e. a. s. að tryggja, að ekki séu knúðar fram kauphækkanir, sem ekki eiga stoð í veruleikanum og kippa fótum undan heilbrigðum atvinnurekstri. Og þetta játa raunar flm. frv., þegar þeir segja glaðklakkalega í grg., að rekstur fyrirtækja sé háður stórfelldum lánveitingum og þan mundu flest verða gjaldþrota, ef að þeim yrði gengið. Um þetta hafði hv. flm. mörg orð og leyndi sér ekki ánægja hans yfir því, að íslenzkur atvinnurekstur skyldi ekki vera betur stæður fjárhagslega en raun ber vitni.

En krafan um að þjóðnýta þau fyrirtæki, sem beita löghelguðum rétti sínum til verkbanns, jafngildir auðvitað afnámi þessa réttar. Miklu einfaldara hefði verið fyrir þessa flm. að flytja brtt. við lög um stéttarfélög og vinnudeilur, sem hnigu í þá átt að banna verkbönn. En þrátt fyrir allt gera þeir sér grein fyrir því, að bann við þessum rétti, bann við verkbönnum, hlyti að leiða til þess, að verkföll yrðu jafnframt bönnuð, því að ekkert raunverulegt samningsfrelsi gæti viðgengizt, þegar annar aðilinn hefði vopn til að knýja fram sjónarmið sín, en hinn gæti ekki varizt. Þess vegna er málið flutt í því formi, sem raun ber vitni. En ég legg áherzlu á það, að þótt málið sé flutt í þessu formi, þá jafngildir það kröfu um afnám samningsfrelsis milli launþega og vinnuveitenda og þá er ekki annað fyrir hendi við ákvörðun kjara en einhvers konar opinber íhlutun og fyrirmæli. Þetta er hin einfalda staðreynd málsins. Ég hygg raunar, að enginn maður, sem í einhverri snertingu væri við verkalýðinn, mundi flytja slíkt mál, heldur einungis eins og ég áðan sagði, stofukommúnistar og atvinnukommúnistar.

Það er mál út af fyrir sig, að 1. flm. þessa frv. skuli í grg. taka sér í munn orðið „siðferðilegur“, er hann ræðir um þjóðfélagsmálefni, maður, sem í áratugi hefur haft af því atvinnu að lofsyngja mesta kúgunarvald veraldarsögunnar og sótt hefur heim oddvita þess valds svo til hvar sem þá hefur verið að finna á jarðkringlunni til að njóta gistivináttu þeirra og andlegs samfélags. En látum það liggja á milli hluta.

Hitt er rétt að skoða, hvort það sé gerræði af hálfu vinnuveitenda að hagnýta sér hinn löghelgaða rétt til að beita verkbanni til styrktar félögum sínum, þegar að einstökum fyrirtækjum er ráðizt, eins og flm. halda fram. Þess er hér að gæta um verkbann iðnrekenda, þ. e. svar við óvenjulegum verkfallsboðunum hjá þrem iðnfyrirtækjum, að ég hygg, að í launþegafélagi mundi sú skoðun eiga fáa formælendur, að félaginu í heild bæri ekki að bregðast hart við, ef að einstökum félagsmönnum væri vegið í þeim tilgangi að knýja heildina til undanhalds. Ég held, að sá verkamaður sé vandfundinn, sem á þann hátt vildi tryggja eigin hagsmuni á kostnað félaga sinna. Og væri þá ekki eitthvað bogið við hugsunarhátt þeirra vinnuveitenda, sem horfðu á fyrirtæki félaga sinna blæða út, meðan þeir tryggðu eigin hagsmuni. Um þetta atriði málsins hygg ég, að ekki þurfi að hafa fleiri orð.

Í grg. með þessu frv. segir, með leyfi forseta: „Fyrirtæki þau, sem ætlunin er að stöðva, eru að verulegu leyti reist fyrir lánsfé úr sjóðum almennings og rekstur þeirra er háður stórfelldum lánveitingum úr sömu sjóðum. Eignarréttur þessara atvinnurekenda á þeim fyrirtækjum, sem þeir ætla að stöðva, er ákaflega hæpinn frá siðferðilegu sjónarmiði og stæðist sjaldnast löglega, ef skuldareigendur gengju að fyrirtækinu. Með verkbanninu eru atvinnurekendur þessir að taka sér þjóðfélagslegt vald, sem þeir hafa ekki í raun, og því er athöfn þessi langt fyrir utan þann vettvang, sem haslaður er frjálsum samningum atvinnurekenda og launamanna.“

Þótt það sé skrýtið, er það samt tilfellið, að sannleiksneisti leynist í hluta þessarar mgr. og í máli flm. hér áðan. Það er rétt, að íslenzk fyrirtæki eru almennt rekin fyrir of mikið lánsfé, þau hafa almennt of lítið eigið fjármagn, eins og hv. síðasti ræðumaður vitnaði til minna orða um. Ég hef haldið því fram og geri enn. En sem betur fer er það þó ekki almennt svo sem flm. halda fram, að þau séu á barmi gjaldþrots eða jafnvel hafi yfir að ráða miklu meira lánsfé en svarar til eigna þeirra og eigi þess vegna raunverulega. minna en ekki neitt. En mig langar til þess að benda ritstjóra dagblaðs eins hér í borginni, sem Þjóðviljinn heitir, á það, ef hann kynni að heyra mál mitt, að það væri mjög fróðlegt fyrir hann að ganga á vit hv. 1. flm. þessa frv, sem mér sýnist að jafnframt muni vera höfundur hinnar tilvitnuðu greinargerðar, enda flutti hann sama mál hér áðan, þótt með nokkuð öðrum orðum væri. En þetta legg ég til vegna þess, að hinn fyrrnefndi, þ. e. a. s. ritstjórinn, hefur um langt skeið verið mjög ósammála hinum síðarnefnda og haldið því fram, að vondir og þreyttir ráðherrar hefðu fyrirskipað ógnarlegu bankavaldi að sverfa svo að atvinnufyrirtækjunum, að allt færi í sömu gröf, ríkisstj. og atvinnulífið. En aftur á móti hv. 1. flm. þessa frv. hefur haldið því fram, að svo hraustlega hafi verið ausið í atvinnureksturinn, að þar sé einungis um lánsfé úr bönkum og sjóðum að ræða, og orðrétt sagði hann hér áðan, að það væri um látlausa fyrirgreiðslu stjórnarvalda að ræða, og enn fremur, að það væri stöðugt verið að leggja atvinnurekstrinum til hina fjölbreytilegustu aðstoð. Ég get ekki staðizt þá freistingu að biðja þennan heiðursmann, sem hér talaði, að gera tilraun til þess að ná tali af ritstjóra Þjóðviljans, áður en hann kemur hér í pontuna næst, og gera þingheimi grein fyrir því skilmerkilega, hvor hafi á réttu að standa, flm. eða ritstjórinn. Ég skal gera spurninguna einfaldari, svo að flm. þurfi ekki að eyða að henni mörgum orðum. Hún getur t. d. verið þessi: Hefur fyrirtækjum á Íslandi verið lánað of mikið eða of lítið? Hafa þau fengið of mikla eða of litla fyrirgreiðslu? Eða hvor fer með rétt mál, flm. eða ritstjórinn? Báðir geta þeir ekki haft á réttu að standa. Það liggur í augum uppi.

En úr því að ég er að krefja alvöruþm. svara um fjárhag fyrirtækja, þá er kannske ekki úr vegi, að ég lýsi ofurlítið nánar mínum skoðunum, einkum þar sem til þeirra var hér vitnað áðan. Ég held sem sagt, að rekstrarform íslenzkra fyrirtækja almennt, einkum hinna stærri, sé meingallað. Ég held, að áhættufjármagn — eigið fjármagn — sé yfirleitt allt of lítið í íslenzkum atvinnufyrirtækjum og fer ég þá nær skoðun flm. en ritstjórans. Sannleikurinn er sá, að í marga áratugi hefur verið búið illa að íslenzkum atvinnuvegum. Hér á landi hefur ríkt allt of mikill sósíalismi í þessum efnum og sterk þjóðfélagsöfl hafa beinlínis barizt fyrir því að koma einkarekstri á kné. Má í því sambandi vitna til skattalaga eins og þau lengi voru hér, þegar nánast var ógerlegt að reka einkafyrirtæki.

Hv. 1. flm. þessa máls hélt því fram áðan, að allt of litlar áætlanir væru gerðar og gallinn væri sá, að það þyrfti miklu meiri áætlunarbúskap, en í öðru orðinu segir hann svo, að það sé látlaust verið að greiða fyrir fyrirtækjum, það séu látlaus opinber afskipti af fyrirtækjum í einu formi og öðru en hin opinberu afskipti séu bara svo óskynsamleg, þessi áætlunarbúskapur hans sem sé orðinn allt of mikill hér, — og ég viðurkenni að hér er að mörgu leyti allt of mikill sósíalismi, — hann sé óskynsamlegur, hann mundi verða miklu skynsamlegri, ef menn á borð við hann sjálfan sem mikla þekkingu þykjast hafa á atvinnulífi, fengju að ráða þessum áætlunarbúskap. En það er rétt að vegna hinna sósíalísku áhrifa, sem voru mikil hér og enn eru of mikil að mínum dómi í atvinnulífinu, hefur stórfé glatazt. Það verður aldrei mælt, hve mikið það er, en það er áreiðanlegt, að fyrirtækjunum hefði vegnað betur, ef opinber afskipti hefðu verið minni, sósíalisminn hefði minni áhrif haft í þessu þjóðfélagi en raun hefur borið vitni.

En sem betur fer gera menn sér stöðugt í ríkari mæli grein fyrir nauðsyn þess, að atvinnufyrirtækin séu öflug. Menn skilja, að auðlegð verður ekki sköpuð nema atvinnuvegirnir hafi traustan grundvöll. Og fleiri gera sér grein fyrir því, að t. d. starf framkvæmdastjóra á ekki að vera að hanga í biðherbergjum bankastjóra eða stjórnarfulltrúa, heldur að hafa nægilegt fé undir höndum til þess að geta einbeitt sér að bættum rekstri til þess að treysta hag fyrirtækisins, bæta afkomu starfsfólksins og auka auðlegð þjóðfélagsins. Fólkið um land allt, það er tekið til við að framkvæma þá stefnu, sem nefnd hefur verið auðstjórn almennings, þ. e. að byggja upp atvinnufyrirtæki með eigin fjármagni. Það sameinar kraftana við uppbyggingu almenningshlutafélaga. Og ríkisvaldinu ber að styðja og styrkja þessa stefnu af öllum mætti. Þótt flm. þessa frv. glotti, þegar þeir halda því fram, að íslenzkur atvinnurekstur sé gjaldþrota, þá veit almenningur, fólkið í landinu, að líf þess er undir því komið, að vonir þessara herra rætist ekki, og það sýnir það í verki, að það ætlar að byggja upp öflugt atvinnulíf um land allt. Og það mun dæma þá aðför, sem gerð er að atvinnufyrirtækjunum, að verðleikum. Það var þess vegna, sem ég fagnaði því, að þremenningarnir, sem að frv. þessu standa, koma til dyranna í þetta skipti eins og þeir eru klæddir. Við þá á íslenzk alþýða ekkert erindi.

En hvað svo sem hv. 1. flm. þessa máls vildi láta okkur halda um tilganginn með flutningi frv. í ræðu sinni áðan, þegar hann hélt því fram, að það væri ekki flutt til þess að hafa áhrif á gang vinnudeilnanna, þá er ég anzi hræddur um, að það sé a. m. k. öðrum þræði flutt til þess að reyna að spilla fyrir þeim samningatilraunum, sem nú standa yfir í mjög erfiðri og alvarlegri vinnudeilu. Það eru sem sagt til menn, sem telja, að tilgangurinn helgi meðalið, og tilgangur þessa manns er að grafa undan stoðum íslenzks lýðræðis og frelsis og gera land okkar kommúnískt, sósíalískt, eins og þeir orða það á fínu máli. Og meðalið er að kollvarpa atvinnurekstrinum og sverfa svo að verkalýð, að hann verði fúsari til fylgilags við þá, sem berjast gegn þeirri þjóðfélagsskipun, sem við búum við, lýðræðinu.

Mér er það fullljóst, að það er margt, sem miður fer hér á okkar landi og verr en skyldi. En flest er það að minni hyggju að kenna of miklum sósíalískum áhrifum á atvinnulífið, sem ótrúlega erfiðlega gengur að uppræta. Það er líka ljóst, að láglaunamenn hafa þörf fyrir bætt kjör. En þó er þörfin mest á því að búa þannig í haginn, að kjörin batni jafnt og þétt á næstu árum, en ekki verði kippt stoðum undan þeirri heilbrigðu þjóðfélagsþróun með óraunhæfum kauphækkunum. Ég var fyrir skömmu á ferð um auðugasta land veraldar og leitaðist við að kynna mér aðstæður þar eins vel og ég frekast gat. Og skoðun mín er sú, að þrátt fyrir þá miklu erfiðleika, sem við Íslendingar höfum átt við að stríða, séu kjör okkar almennt ekki miklu lakari en þar í landi og hafi líklega verið betri hér en þar almennt séð, þegar bezt gegndi. Upphæðirnar í krónum og dollurum segja mjög lítinn hluta sögunnar. Það, sem nú ríður á, er að tryggja öllum fulla atvinnu, að efla sem mest má verða íslenzkan atvinnurekstur, en ekki að vega að honum á þann hátt, sem hér hefur verið gerð tilraun til. Og þá mun auðlegð þessarar þjóðar, sem byggir bezta land veraldar, verða mikil, að því þó áskildu, að skoðanabræður flm. þessa frv. verði áhrifalausir.