25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (2771)

220. mál, leigunám fyrirtækja vegna verkbannsaðgerða

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég gleymdi lítilli spurningu. Hún er ekki sérlega flókin. Hv. þ.m. spurði, hvort ég teldi frekar, að vantað hefði eðlilega fyrirgreiðslu banka við fyrirtæki, eins og oft væri haldið fram, eða hvort of miklu væri ausið í fyrirtækin. Þetta hefur hvort tveggja gerzt og þetta gerist hvort tveggja.

Þegar gagnrýnd er of lítil fyrirgreiðsla banka við fyrirtæki, þá er þar átt við tímabundna örðugleika, sem upp hafa komið. Það er oft nauðsynlegt að leggja fram fjármuni til fyrirtækja til þess að halda atvinnu gangandi, þó að skipulag sjálfrar atvinnugreinarinnar sé snarvitlaust.

Á því er ekki nokkur vafi, og það er viðurkennd staðreynd af hagfræðingum, einnig hagfræðingum hæstv. ríkisstj., að ein meginvillan í efnahagsstjórn á Íslandi að undanförnu hafi verið algerlega röng fjárfesting, þar hafi verið bundnar miklar upphæðir, hundruð millj., sem ekki skila þjóðhagslegum arði. Og fyrirtæki, sem ekki skila þjóðhagslegum arði, sem ekki eru rekin í samræmi við fjárfestinguna, verða baggi á þjóðfélaginu, en ekki lyftistöng, hversu góð sem þau fyrirtæki hafa verið í hugum þeirra manna, sem stofnuðu þau. Vélar, sem ekki eru notaðar nema að litlu leyti, fyrirtæki, sem skila ekki nema broti af afkastagetu sinni, slík fyrirtæki lyfta ekki efnahag þjóðarinnar. Einmitt þess vegna er það algerlega rétt, að það hefur verið varið allt of miklu fé í ýmis fyrirtæki, sem geta ekki skilað á móti þeim arði, sem þjóðfélagið á heimtingu á.

Þeir, sem skipta sér af stjórnmálum, verða oft að vera menn til að gera tvennt í senn, bæði að fjalla um tímabundin vandamál og eins að leggja á ráðin um skynsamlega efnahagslega þróun. Þessi atriði geta stundum verið næsta gagnstæð hvert öðru, en engu að siður verður að sinna þeim báðum í senn. Þarna er ekki um neina andstæðu að ræða, eins og hv. þm. hélt, og hann kom mér ekki í neinn vanda með því að spyrja þessarar spurningar. Ástæðan til þess, að ég vék ekki að henni fyrr í ræðu minni, var einvörðungu sú, að mér fannst hún svo hlægileg og ómerkileg, að ég taldi ekki ástæðu til þess að orða hana. En fyrst hv. þm. bað mig um að svara þessu sérstaklega, þá geri ég það fúslega.