25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (2772)

220. mál, leigunám fyrirtækja vegna verkbannsaðgerða

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. eða blanda mér í þá athyglisverðu deilu, sem hér hefur verið háð. En visst atriði í henni gefur mér tilefni til að segja nokkur orð. Áður vildi ég aðeins víkja að því frv., sem hér liggur fyrir. Ég reikna með, að það sé lagt fram í þeim tilgangi að reyna að greiða fyrir lausn þeirrar kaupdeilu, sem nú stendur yfir. Hins vegar held ég, að það hljóti flm. að vera ljóst sjálfum, að varla sé hægt að vænta þess, að þetta frv., þótt það yrði að lögum, yrði til þess að greiða fyrir lausn þessarar kaupdeilu, því að meðan við höfum þá stjórn, sem nú fer með völd, hygg ég, að hún mundi gera lítið að því að framkvæma það, sem í lögunum segir um leigunám atvinnufyrirtækja, sem hafa lýst yfir verkbanni, svo að ég held, að þess vegna mundi þetta frv., þótt að lögum yrði, ekki ná þeim tilgangi að greiða neitt úr þeirri deilu, sem nú stendur yfir.

Hins vegar getur það orðið tímabært, áður en langt um líður, að Alþingi hafi afskipti af þessu máli. Kaupsamningar eru nú búnir að standa yfir í meira en tvo mánuði, án þess að samkomulag hafi náðst, og þegar eru hafin mjög veruleg verkföll og þó líklegt, að enn þá stórfelldari verkföll verði fram undan eða hefjist innan lítils tíma, ef ekki tekst að koma á samkomulagi. Þegar svo er komið, að flestar atvinnugreinar landsins eru lamaðar vegna verkfalla eða verkbanna, þá er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt, að Alþingi athugi, hvort það geti ekki haft eitthvert frumkvæði að því að leysa þetta mál. Og ég hygg, að jákvæð afskipti Alþingis af þessu máli séu miklu auðveldari nú en þau hafa lengi verið undir slíkum kringumstæðum, því að í raun og veru þyrfti Alþ. ekki annað til þess að leysa þessa deilu heldur en að endurnýja þau lög, sem á sínum tíma voru samþ. hér á Alþingi í framhaldi af hinu mjög svo rómaða júnísamkomulagi 1964. Hæstv. núv. dómsmrh. og aðrir ráðh. hafa lýst því yfir, að það sé hið merkasta samkomulag, sem nokkru sinni hafi verið gert hér á landi milli ríkisstj., atvinnurekenda og verkalýðssléttanna. Þó að ég játi, að mér finnist þetta nokkuð sterkt að orði kveðið, þá tel ég, að þetta hafi verið merkilegt samkomulag að því leyti, að með því að lögbinda vísitölu á kaup var stigið stórt spor í þá átt að tryggja vinnufriðinn, eins og líka sýndi sig. Hann var öllu betri næstu árin á eftir heldur en var, a. m. k. á árunum áður, þegar vísitölugreiðslur voru bannaðar. Mér finnst sem sagt, að það hljóti að geta orðið tímabært, áður en langur tími líður, ef deilan leysist ekki og verkföllin halda áfram að aukast, að Alþ. taki til athugunar að skerast í leikinn með svipuðum hætti og gert var með lögum 1964, með því að lögbinda vísitölugreiðslur á kaupgjald. En það er alveg víst, að það mundi verða til þess að leysa þessar deilur og a. m. k. mundi ekki vera um nein verkföll af hálfu launastéttanna að ræða eftir það. Og ég hygg, að atvinnurekendur mundu einnig sætta sig við slíka löggjöf, ef hún væri sett.

Ég sé, að hv. 10. landsk. þm. er horfinn af fundi, en það var eitt atriði í ræðu hans, sem var þess sérstaklega valdandi, að ég kvaddi mér hér hljóðs. Hann kvartaði mjög undan því og alveg réttilega, að eigið fé atvinnufyrirtækja væri orðið allt of lítið, og það var einnig viðurkennt, að því er mér skildist, af hv. 6. þm. Reykv., svo að um það atriði voru þeir báðir sammála. Það, sem ég vildi í tilefni af þessu, var að vekja athygli hv. 10. landsk. á þeirri þróun, sem hefur orðið í þessum efnum undanfarin 10 ár eða á þeim tíma, sem hans flokkur hefur haft meiri áhrif á stjórnarfarið í landinu heldur en nokkru sinni fyrr eða síðar.

Hver hefur þróunin orðið á þessum tíma varðandi það, hvort eigið fé atvinnufyrirtækja hefur aukizt eða ekki? Ég held, að ef menn líta hlutlaust á þessi mál, sé niðurstaðan sú, að hlutur eigin fjár atvinnufyrirtækja í því fjármagni, sem þau hafa til umráða, hafi farið verulega minnkandi. Og það er fyrst og fremst vegna þess, hvernig á efnahagsmálunum hefur verið haldið af hálfu ríkisstj. og þá öðru fremur af hálfu Sjálfstfl., sem hefur haft mest áhrif á þessi mál, vegna þess að hann hefur t. d. átt fjmrh. úr sínum hópi. Það, sem hefur gerzt á þessum árum, er t. d. það, að skattar á atvinnufyrirtækjum hafa verið verulega hækkaðir, og þá á ég ekki aðeins við tekju- og eignarskatt, heldur fjölmarga aðra nýja skatta, sem hafa verið lagðir á atvinnufyrirtækin, launaskatt og alls konar skatta aðra. Með þessum hætti hafa möguleikar atvinnufyrirtækjanna verið rýrðir til þess að eignast eigið fé, sem þau gætu notað í reksturinn. Þá má minna á það, hvernig gengisfellingarnar hafa farið með atvinnufyrirtækin eða þá sjóði, sem þau hafa verið búin að koma sér upp. Gengisfellingar hafa stórrýrt verðmæti þessara sjóða, þannig að sjóður, sem við skulum segja var áður upp á 100 þús. kr., ef maður nefnir það sem dæmi, raunar jafngildir nú ekki nema 25 þús. eða jafnvel minna, þegar miðað er við raunverulegt verðgildi. Stjórnarstefnan hefur í stórum dráttum verið þannig, að hún hefur verið að rýra sjóði atvinnufyrirtækjanna og skerða möguleika þeirra til þess að safna nýju starfsfé. Þetta hefur orðið niðurstaðan af stjórn Sjálfstfl. á undanförnum 10 árum varðandi það að skapa atvinnufyrirtækjunum betri aðstöðu til þess að eignast meira eigið fé, sem þau gætu haft í rekstrinum.

Ég sé ekki fram á annað en það eigi að halda áfram nákvæmlega sömu stefnunni enn þá. Á þessu þingi er ekki gert ráð fyrir neinum tilslökunum gagnvart atvinnuvegunum í s,kattamálum. Þvert á móti sýnist mér, að í sumum tilfellum sé verið að auka álögurnar. Aðstaða þeirra er þrengd með stórfelldum lánsfjárhöftum af hálfu bankanna og þeim þannig sköpuð miklu verri rekstraraðstaða en ella. Það er alveg ljóst líka, að eins og nú horfir, ef ekki verður neitt breytt um stefnu, er þegar byrjað að safna í fimmtu gengisfellinguna. Geta allir gert sér ljóst, hver áhrif það hefur á möguleika atvinnufyrirtækjanna til að koma sér upp nauðsynlegum starfssjóðum.

Hv. 6. þm. Reykv. lét svo ummælt, að ríkisstj. eða ráðh. hefðu oft og tíðum verið á þönum til þess að koma fram ýmsum endurbótum fyrir atvinnuvegina. Ég er ekki þessu sammála, vegna þess að mér finnst það eitt af því, sem er áfellisvert við núv. ríkisstj., að hún hefur gert allt of lítið fyrir atvinnuvegina á mörgum sviðum. Í staðinn fyrir að gera nokkuð fyrir þá hefur hún hert að þeim. Þar verður þess vegna að breyta um stefnu. Og það, sem verður að koma eftir þá lausn, sem endanlega næst í þeirri kaupdeilu, sem nú stendur yfir, og vonandi verður þannig, að gengið verði mjög verulega og helzt til fulls til móts við launþega, er, að það verði hafizt handa um að bæta stórlega aðstöðu atvinnuveganna með stjórnarráðstöfunum frá því, sem nú er, bæði í skattamálum, lánsfjármálum og á ýmsum öðrum sviðum. Ég get tekið undir það með hv. 6. þm. Reykv., að slíkar aðgerðir koma að mjög takmörkuðum notum, nema jafnframt séu tekin upp miklu skipulegri vinnubrögð við uppbyggingu atvinnuveganna heldur en nú á sér stað. Ég óttast t. d., að það verði afleiðingin varðandi Atvinnubótasjóð, sem nú er búið að koma upp og ríkisstj. og stéttasamtökin standa að, að í staðinn fyrir að efla sterk fyrirtæki á vissum stöðum, þar sem slíkur rekstur hentar bezt, verði farið að koma upp smáfyrirtækjum hér og þar og sköpuð þannig ýmis innbyrðis samkeppni á milli þeirra, að ekkert af þessum fyrirtækjum geti borið sig. Ég tel, að það væri mjög óheppilega að farið, t. d. í sambandi við uppbyggingu landsbyggðarinnar, ef unnið væri að því að koma upp plastverksmiðju á hverjum stað, skipasmíðastöð á hverjum stað o. s. frv., með þeim afleiðingum, að eiginlega ekkert af þessum fyrirtækjum gæti borið sig, í staðinn fyrir, að það væri komið upp fáum traustum fyrirtækjum, sem hefðu möguleika til þess að inna þá starfrækslu vel af hendi, sem þeim er ætlað að fást við.

Það er hverju orði sannara, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að hér þurfum við að breyta um starfshætti. En því miður bólar ekki á miklum áhuga hjá núv. ríkisstj. og flokkum hennar í þeim efnum, því að í hvert skipti, sem á þetta er minnzt, eins og hefur verið gert af hálfu okkar framsóknarmanna æðioft að undanförnu, hefur alltaf bara verið hrópað, að þetta séu höft og höft, að þetta megi alls ekki gera. Meðan slíkt viðhorf er ríkjandi er það meira en satt, að það er ekki hægt að búast við miklum endurbótum og árangri á þessu sviði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, þar sem líka hv. 6. þm. Reykv. er vikinn af fundi, en til hans hafði ég fyrst og fremst ætlað að beina máli mínu.