13.05.1969
Neðri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (2817)

251. mál, Kvennaskólinn í Reykjavík

Fram. meiri hl. (Sigurvin Einarsson) :

Herra forseti. Þótt frv. þetta sé flutt af menntmn. þessarar hv. d. samkv. beiðni hæstv. ríkisstj., þótti n. þó rétt að athuga málið frekar en orðið var milli 1. og 2. umr. Þetta hefur n. gert, o.g kvaddi hún á sinn fund skólastjóra Kvennaskólans, Guðrúnu P. Helgadóttur, en hún lét n. í té mikilsverðar upplýsingar um hina væntanlegu stúdentadeild, um húsakost skólans með tilliti til þessarar breytingar á skólanum, um fjármál skólans o. fl.

Menntmn. hefur skilað nál. um frv. í tvennu lagi. Er nál. meiri hl. n. á þskj. 729. Við, sem skipum meiri hl. n., leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt. Minni hl. n. mun gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins og mun líka skila nál. á þskj. 730.

Skólastjóri Kvennaskólans gerði n. grein fyrir því, að fyrstu árin þyrfti ekki að stækka húsnæði skólans vegna stúdentadeildar, þótt stækkunar sé reyndar þörf, hvort sem þessi breyting yrði gerð á skólanum eða ekki. Skólastjórinn lagði einnig áherzlu á það, að til þess að nægjanlegur tími gæfist til þess að undirbúa stúdentadeild, svo að þar gæti hafizt kennsla haustið 1970, þyrfti að lögfesta þetta frv. á þessu þingi. Þá bar hina fjárhagslegu hlið þessa máls nokkuð á góma í n. Þar sem ekki mun koma til þess allra fyrstu árin, að stækka þurfi skólahúsið vegna stúdentadeildarinnar, getur kostnaður ríkissjóðs af þessari deild ekki orðið stórvægilegur. Hv. 7. þm. Reykv., Birgir Kjaran, sem styður frv. eins og við hinir, sem skipum meiri hl. n., tekur það sérstaklega fram, að því aðeins beri hæstv. ríkisstj. að notfæra sér þá heimild, sem er aðalefni þessa frv., að fé verði veitt til skólans á fjárl. Ég tel, að ekki þurfi að efast um það, að svo verði gert. Annars væri til lítils að óska eftir flutningi frv. og samþykkt þess, ef hæstv. ríkisstj. ætlaði sér ekki að sjá borgið hinni fjárhagslegu hlið málsins, enda engin ástæða til að óttast slíkt.

Hreyft hefur verið þeim andmælum gegn frv., að Kvennaskólinn sé eingöngu fyrir stúlkur, en eðlilegt sé, að piltar og stúlkur stundi nám í sama skóla hvar sem er. Já, víst er það eðlilegt, en það er heldur ekkert óeðlilegt, að til séu skólar í landinu, sem annars vegar eru fyrir stúlkur og hins vegar fyrir pilta. Þannig hefur það verið og er enn um marga skóla. Bændaskólarnir, Sjómannaskólinn, Vélstjóraskólinn og ýmsir fleiri eru t. d fyrir pilta. Húsmæðraskólar, kvennaskólar, Húsmæðrakennaraskólinn og fleiri eru fyrir stúlkur. Og ég vil nú spyrja, hvort það skorti nokkuð : menntagildi þessara skóla þrátt fyrir þetta.

Sú skoðun hefur einnig komið fram, að það sé ekki hlutverk kvennaskóla að útskrifa stúdenta, þar sem stúlkur jafnt og piltar eigi greiðan aðgang að menntaskólum. Nú er mönnum kunnugt um, að ákaflega mikill skortur er á menntaskólum í landinu, og mundi því stúdentadeild við Kvennaskólann verða til bóta hvað þetta snertir.

Þá er það heldur engin nýjung, að öðrum skólum en menntaskólum sé veitt heimild til að útskrifa stúdenta. Þessa heimild fékk Verzlunarskólinn fyrir um það bil aldarfjórðungi og Kennaraskólinn fyrir 6 árum og það alveg ágreiningslaust. Hafa þessir skólar minnkað í einhverju tilliti við þessa ráðstöfun? Nei, þvert á móti. Þeir hafa alveg tvímælalaust mjög vaxið, vaxið í áliti og tiltrú.

Ég sé, að hv. minni hl. n. rökstyður andmæli sín gegn þessu frv. ekki sízt með því, að meiri hl. þeirrar n., sem undirbjó menntaskólafrv., hafi mælt gegn því, að Kvennaskólinn fengi þessi réttindi. Ég veit nú ekki, hvort þeir eru algerlega óhlutdrægir, til þess að dæma um slíkt, skólastjórar menntaskóla, sem fyrir eru. Þeir höfðu þau ákvæði t. d. í 1. gr. menntaskólafrv. eða gengu þannig frá þeirri grein að nefna enga ákveðna menntaskóla í landinu. Alþ. er nú þegar búið að breyta þeirri grein. Því er ekkert merkilegt, þó að einhver skoðanamunur geti verið í þessum efnum. Auk þess ætla ég, að þegar sú n., sem undirbjó menntaskólafrv., lét þetta álit sitt í ljós, hafi hún miðað við það, að Kvennaskólinn félli undir menntaskólalöggjöfina, og vitnar meiri hl. þeirrar n. í það, að samkv. fræðslulögum og reglugerð menntaskólanna eigi þeir að vera samskólar. Nú hefur það aldrei komið til mála að gera Kvennaskólann að menntaskóla, heldur aðeins veita honum rétt til að útskrifa stúdenta, svo að ég veit ekki, hvert yrði álit þessara sömu manna, ef þeir ættu að dæma um þetta frv., sem er sjálfstætt og hefur það eitt inni að halda að heimila að veita Kvennaskólanum þessi réttindi. Kvennaskólinn í Reykjavík er sem kunnugt er nær því 100 ára gamall. Hann hefur notið mikils álits og vinsælda, enda hafa valizt þar til skólastjórnar hinar ágætustu konur allt frá upphafi. Forustukonur skólans hafa í 6 ár borið fram óskir sínar um stúdentadeild í skólanum, og þetta er meira en nógu langur biðtími að mínum dómi. Mér finnst því, að það ætti að vera ánægjuefni hv. alþm. að veita skólanum þessi réttindi, þau sömu réttindi og öðrum skólum hafa verið veitt fyrir löngu og án ágreinings. Mér finnst, að ef Kvennaskólanum er neitað um þessi réttindi nú, mæti hann minni sanngirni í þessum efnum af hálfu alþm. en hinir skólarnir, sem áður hafa fengið þessi réttindi og ég hef minnzt á.

Forustukonur Kvennaskólans leggja á það mikla áherzlu, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Mér er hins vegar ljóst, að það tekst ekki, þar sem aðeins munu vera þrír virkir dagar. til þingslita, nema valdamenn þinghaldsins geri sérstakar ráðstafanir til að hraða málinu. Ef svo reynist, sem ég vona, að þetta frv. verði samþ. nú við þessa 2. umr. og viðhorf hv. Ed. til frv. sé eitthvað á líkan hátt, þá finnst mér hart til þess að vita, að frv. stöðvist samt bara fyrir tímaskort, því að það er auðvelt að koma málinu fram ef nægilegur vilji er til þess, þó að skammt sé til þingslita.

Ég vil ekki tefja fyrir málinu með því að hafa þessi orð fleiri. En ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. forseta, hvort hann sjái sér ekki fært, ef frv. verður samþ. við þessa umr., að skjóta á öðrum fundi síðar í dag til þess að reyna að koma málinu til Ed. Ef þetta verður ekki gert, mun málið sennilega dragast til föstudags, þar sem helgur dagur er á fimmtudag, og þá tel ég alla von úti um það, að málið fái endanlega afgreiðslu á þessu þingi, og það harma ég. Fyrir hönd meiri hl. menntmn. legg ég til. að frv. verði samþ.